2.3.2008 | 23:31
Treyja vikunnar
Nú eru liðnir meira en tveir mánuðir síðan treyja vikunnar leit dagsins ljós. Treyja vikunnar má því etv kalla rangnefni en ég fer varla að breyta því úr þessu.
Í þetta sinn er komið að ÍK sem ég hef minnst á áður og mun kannski minnast á aftur. Það hefur lengi verið á teikniborðinu að láta sauma ÍK treyju á lítinn hóp gamalla ÍK inga enda eru gömlu treyjurnar illfáanlegar og þeir sem luma á þeim eru flestir löngu komnir í annan þyngdarflokk en þegar þeir voru á hlaupum um grænar grundir.
Það var svo í lok síðasta árs að ég ákvað að gera alvöru úr þessu og hafði samband við Henson sem tók vel í hugmyndina. Reyndar var ég með mun metnaðarfyllri hugmyndir um að Henson setti í framleiðslu retró treyjur fyrir öll liðin í úrvalsdeildinni og jafnvel nokkur til. Helst frá áttunda og níunda áratugnum, Fram með Goða auglýsingunni, Valur með SS, ÍA með Arnarflug eða Marabou, KR með Coke eða Grohe, ÍBV með Lee Cooper, KA með Duffys og UBK með Byko. Jafnvel bæta við retró útgáfum af landsliðspeysum og treyjum erlendra liða sem Íslendingar gerðu garðinn frægann með. Ekki útilokað að nokkrar með reimuðum kraga hefðu fylgt með.
Hugmyndin er kominn frá Toffs og öðrum erlendum fyrirtækjum sem hafa gert það gott í að framleiða þessar nostalgíuvekjandi vörur.
Henson leist vel á hugmyndina en var hræddur við að framkvæma hana. Það væri allt of mikil óvissa en að auki þyrfti samþykki liðanna og alls kyns vesen.
Ég ákvað því bara að gleyma þessu og einbeitti mér að ÍK. Við töluðum um 15 þannig treyjur en ég ákvað að fá eina til að byrja með og kanna lauslega hversu margir hefðu áhuga.
Ég var að senda Henson pöntun áðan fyrir 95 peysum. Það þykir mér allgott fyrir félag sem lagðist á hliðina fyrir 16 árum.
Maður spyr sig hversu margir myndu kaupa velheppnaða, retró KR treyju eða e-ð annað lið? Kannski heldur maður hugmyndinni opinni.
Ég er hins vegar hrikalega sáttur við ÍK peysuna með gamla Henson bikarnum. Vona að hinir 90 verði jafn sáttir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
29.2.2008 | 11:11
Góður félagsskapur
Gaman að segja frá því að ég hitti tvo Pólverja í Leifsstöð sem voru á leið til Lodz með millilendingu í Frankfurt. Með okkur tókust góð kynni og ákváðu þeir félagar að eyða nokkrum dögum með okkur í Frankfurt þar sem skálað var í bjór. kóki og rauðvíni. Ekki var síðra að rekast á gamlan félaga og heimsspeking frá Syldavíu á Frankfurtarflugvelli. Sannarlega góður félagsskapur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.2.2008 | 22:34
Staðreyndir lífsins
1. James Belushi er lélegasti og leiðinlegasti leikari sem sögur fara af. According to Jim ætti ekki að vera sýnt á öðru stöðum á jarðarkringlunni en í Kansas og Oklahoma.
2. Kók er best í 33 cl áldós. Goðsögnin um að kók sé best í litlu gleri er byggð á fallegri hönnun og nostalgíu en ekki bragði.
3. P. Coelho er ofmetinn rithöfundur, H. Murakami er það ekki.
4. Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, er sennilega síðasti maður á jörðu sem ég færi með á tónleika erlendis. Og þá meina ég bókstaflega síðasti maðurinn og tel alla aðra jarðarbúa með, m.a. George W. Bush, Vladimir Pútín og James Belushi.
5. Að spila síðustu umferðina í enska boltanum erlendis er næst versta hugmynd sögunnar. Versta hugmynd sögunnar er þegar maður í Skipholti fékk Steingrím Njálsson til að rífa af sér punginn með berum höndum.
6. No country for old men er fáránlega góð mynd. Blautur draumur Blood Simple aðdáandans hefur ræst.
7. Boo Berry bragðast eins og möndlugrauturinn hennar mömmu, Count Chocula er eins og Coco Puffs með sykurpúðum og Frankenberry er bragðlítið en lítur út eins og bleikur, geislavirkur úrgangur. Aukaverkanir eru grunsamlegar og vart hægt að upplýsa þær opinberlega.
8. Stuðningsmenn Roma eru frægir fyrir hnífstunguárásir. Þetta er hins vegar ekki eins alvarlegt og það hljómar því þeir stinga nær undantekningalaust í rassvöðva, sem dregur úr líkum á alvarlegum áverkum og þ.a.l. þungum dómi. En það er þó varla þægilegt.
9. Eina War of the Worlds útgáfan sem er ógnvekjandi eru myndirnar úr gamla plötuumslaginu. War of the Worlds útgáfan sem Tom Cruise leikur í og Steven Spielberg leikstýrir er hlægilegt drasl.
10. Össur Skarphéðinsson er einn allra leiðinlegasti og lélegasti stjórnmálamaður Íslands. Ofmetinn, en þó fyrst og fremst af sjálfum sér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.2.2008 | 22:22
Frankfurt
Þá er ég búinn að sjá leik í þýsku Bundesligunni. Fyrir valinu varð Eintracht Frankfurt-Werder Bremen. Uppselt og leikvangurinn stútfullur af 51.500 áhorfendum, sem voru staðráðnir í að gera brasilíska ungstirninu Diego lífið leitt, sem tókst því hann lét skapið hlaupa með sig í gönur í fyrri hálfleik og kjölfarið náði slakt Frankfurtar liðið að kría fram sigur. Leikurinn var því ekki mikið meira en þokkalegur en stemmningin var mjög góð og með því betra sem ég hef séð á leik.
Til að heiðra hetjur þýska boltans létum við félagarnir okkur vaxa gott yfirvaraskegg, svokallaðan lostakúst. Hann hékk á mér fram á síðasta sunnudag, gestum og gangandi til yndisauka. Eftir að skeggið hafði skolast niður í vaskinn fann ég til mikillar saknaðartilfinningar og fannst ég varla heill né hálfur maður. Nú gefst ekki lengur tækifæri til að hlaða fingurinn með kossi fyrir framan spegillinn og skjóta honum á þessa fögru spegilmynd. Það er e-ð sem segir mér að tækifærið muni þó gefast síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.2.2008 | 21:35
Fló á skinni
Það er sífellt verið að spila lag með Sprengjuhöllinni i útvarpinu sem heitir víst Fló á skinni. Alls ekki slæmt lag en það truflar mig hrikalega mikið að lagið virðist vera samsuða úr Itchycoo Park með Small Faces og Sandkastalar með Töturum.
Er ljótt að segja að lagið sé stolið? Eða er það bara rangt?
Best að lesendur dæmi.
http://www.myspace.com/sprengjuhollin
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.1.2008 | 23:30
Kolaportið
Það er ánægjulegt að starfsemi Kolaportsins í Tollhúsinu hafi verið tryggð. Það er auðvitað nauðsynlegt hverri borg að eiga þokkalegan útimarkað þó vissulega sé ómögulegt að hafa hann úti í Reykjavík.
Það skemmtilegasta við þessa mynd er að á henni birtast tveir fyrrverandi skólafélagar. Annars vegar Dagur B. Eggertsson, verðandi fyrrverandi borgarstjóri, sem var einu ári á undan mér í menntaskóla. Hins vegar Gunnar Hákonarson, framkvæmdastjóri Kolaportsins, sem var með mér í bekk í Digranesskóla um nokkurra ára skeið.
Gunnar var slórari af guðs náð. Hann var einn af þessum krökkum, sem verða að skoða hvert einasta glerbrot, hvern einasta stein og hvert einasta Prins Póló bréf á leiðinni heim, meðan skólataskan sígur niður eftir bakinu þar til hún hangir í olnbogabótunum. Buxnaskálmarnar að hálfu ofan í vaðstígvélunum og úlpan komin af öxlunum. Heimferðin tekur að jafnaði tvo og hálfan tíma.
Mér er enn minnisstætt þegar kennarinn gerði töskukönnun hjá Gunnari þegar við vorum ca. 10 ára og dró upp hverja teiknimyndasöguna af fætur annarri m.a. Viggó viðutan, Sval og Val, Lukku Láka og Tinna. Gunnari var sennilega alveg sama enda var hann óvitlaus og grunaði ef til vill hvaða starfi hann myndi gegna 25 árum síðar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.1.2008 | 15:19
Kakómalt
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.1.2008 | 11:45
Everybody hurts
Ég valdi Everybody hurts í vali á besta lagi 1992 hjá Jóni Agnari félaga mínum. Fínt lag en hefur þó öðlast þann vafasama heiður að mér dettur alltaf í hug dramatískar lokamínútur í sjónvarpsþáttum þegar ég heyri það. Hefði getað verið notað í Boston Public á eftirfarandi hátt:
Michael Stipe hefur angurværan söng sinn með orðunum "When the day is long... " Feiti svarti skólastjórinn situr áhyggjufullur við skrifborðið á ljótu skrifstofunni sinni. Stendur upp og röltir að glugganum. Meðan hann horfir á börnin leika sér kemur litli vangefni aðstoðaskólastjórinn, sem lék í Silence of the lambs, og leggur höndina á öxl feita mannsins. Skipt yfir á ungu kennslukonuna sem situr í sófanum heima hjá sér og sötrar te við kertaljós. Til hennar kemur annar kennari við skólann, sem hún elskar en þau geta ekki átt í ástasambandi því tilfinningar vegna skólastelpunnar sem á krakkmömmuna, eru of miklar. Hann leggur teppi yfir axlir hennar og hún lítur upp eins og lítill særður íkorni en reynir að kreista fram bros. Skipt yfir á nokkra kennara, sem hittast á bar. Þeir eru allir einhleypir en glaðir að vera ekki einir. Allir hlægja en það er tregi í svipnum. Augun ljúga aldrei. Skálað í slómó. Að lokum er skipt yfir á skólastelpuna, hágrátandi í örmum ömmu sinnar. Sprautur liggja um allt í íbúðinni og í horninu eru hvítar útlínur mannslíkama. Skjárinn verður svartur með hvítum stöfum. Everybody hurts fjarar út og Boston Public lagið tekur við.
Atriðið og lagið er hægt að setja inn í nokkurn veginn hvern einasta 45 mínútna þátt frá Bandaríkjunum. Jafnvel Gilmore Girls.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.1.2008 | 22:03
Plötur lífs míns nr. 2: Loveless
Upp úr 1990 var ég á kafi í nýbylgjusulli og gítarsargi. Maður reyndi að hanga í íslenskri nýbylgju og hlusta á Risaeðluna, SH Draum, Sykurmolana, Þeysara og annað gamalt efni frá Rokk í Reykjavík. Af erlendu efni stóðu Fall og Sonic Youth einna fremst en enginn skyldi vanmeta framlag Zvukimu í þessum bransa.
Ég get ekki neitað því að af allri þessari nýbylgju endar fátt á fóninum í dag. Efnið er reyndar misgott, sumt skelfilega leiðinlegt en annað sambland af bullandi nostalgíu og frábærri tónlist. Sá diskur sem stendur hins vegar upp úr og fyllir mig reglulega löngun til að rifja upp er Loveless með My Bloody Valentine. Þetta er kannski ekki þekktasta hljómsveitin frá þessum tíma en þó velþekkt og platan er án efa ein sú þekktasta og best metna í nýbylgjugeiranum.
Það má segja að tónlistin sé óskilgreint afkvæmi Sonic Youth, Stone Roses og B52´s þegar létt stef hrista aðeins upp í drunganum. Sýnishorn í spilaranum til hliðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.1.2008 | 21:27
Hvort var það?
Ónákvæmni íslenskra fjölmiðla getur gert mann gráhærðan. Í dag las ég í einu blaði að Beyonce Knowles hefði drukkið Sprite á Paddys í Keflavík en svo var ég að fletta öðru blaði og þar stendur svart á hvítu að hún hafi drukkið 7up.
Það væri gott að fá þetta staðfest áður en ég fer út í búð næst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)