7.1.2008 | 23:43
Bann
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2008 | 12:41
Af drengjum
Ég vil taka fram að ég styð Dag heilshugar í embætti borgarstjóra og hef mikla trú á honum. Hins vegar er meðfylgjandi mynd með eindæmum illa útfærð. Það fyrsta sem manni dettur í hug er klassískt minni úr skíða-, skóla- og íþróttaferðalögum síðustu aldar. Nokkrir krakkar stilla sér upp í óspilltri hamingju þess að vera frjáls með vinum sínum, án afskipta foreldra. Augnablikið er ómetanlegt þannig að maður verður að grípa utan um næsta mann og sýna honum, og öllum þeim sem skoða munu myndina, að manni þyki vænt um hann og ekki síður vænt um staðinn og stundina.
Nema að Dagur er í jakkafötum sem lyftast aðeins upp þegar hann grípur um axlir hryllingsmyndamannsins. Sem breytir stöðunni aðeins og fer kannski að minna meira á fermingardreng sem hefur fengið vini sína í veisluna. Nema þeir eru ekki spariklæddir, eins og oft vill vera með 14 ára stráka, heldur angandi af hormónum og hvolpaviti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.12.2007 | 23:04
Treyja vikunnar 12
Paris St. Germain 1981:
Til heiðurs París set ég þessa treyju inn. Myndin segir meira en mörg orð og því er ekki ástæða til að hafa þetta mikið lengra. Snilld!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.12.2007 | 23:01
París
Lost in translation er frábær mynd. E-r gagnrýnandinn hakkaði hana samt í sig því hún átti að lýsa svo miklum fordómum gagnvart Japönum. Ég er engan veginn sammála þessari fullyrðingu því í mínum huga er það besti hluti myndarinnar hvað allt er framandi fyrir aðalpersónunni. Hann er þreyttur og illa sofinn þegar hann kemur til Tokyo og þarf smá tíma til að ná áttum. Að lokum er hann hins vegar orðinn hluti af þessari risastóru heild og vill sennilega hvergi annars staðar vera en aðstæður eru bara bundnar við ákveðinn stað og stund.
Ég sá Paris je t´aime í gær og fór að hugsa um þetta sama. Myndin samanstendur af 18 stuttmyndum sem hver á að túlka eitt hverfi. Það segir sig sjálft að 18 stuttmyndir hljóta að vera misgóðar en nokkrar standa upp úr. Sú besta kemur í lokin og er gerð af gaurnum sem gerði Election, About Schmidt og Sideways. Póstburðarkona frá Denver lýsir reynslu sinni af Parísarferð í frönskutíma og áhorfandinn fylgist með. E-m gagnrýnendum finnst myndin klisjukennd og niðrandi í garð Kana. Ég er algerlega á öndverðri skoðun. Það er afrek að koma jafn góðri mynd frá sér á 6 mínútum og leikkonan á stórleik á þessum stutta tíma. Hugmyndin er frábær og klaufalegur framburðurinn, sem ég meira að segja átta mig á að ekki upp á marga fiska, verður að kreminu á kökunni.
Ef þú nennir ekki út á leigu er atriðið hér:
http://uk.youtube.com/watch?v=xqstlUU_kD0
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.12.2007 | 23:46
Fögnuður
Þegar tilkynnt var að Alþjóða kjarnorkumálastofnunin fengi Friðarverðlaun Nóbels kom kostulegt viðtal við íslenskan starfsmann stofnunarinnar á mbl. Hann sagði mikinn fögnuð ríkja, haldnir væru símafundir og hann vissi bara ekki hvað.
Mér datt þetta í hug þegar ég rakst á myndband á youtube eftir sigur Liverpool í FA bikarnum 1989. Gríðaleg fagnaðarlæti, opnaðar kókdósir og ég bara veit ekki hvað.
http://uk.youtube.com/watch?v=wjMlspGTfZc
Bloggar | Breytt 13.12.2007 kl. 09:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.12.2007 | 23:40
Brasilía 1950
Það má segja að HM 1950 sé fyrsta nútíma heimsmeistaramótið. Báðum heimsstyrjöldunum var lokið og svo er það einu sinni þannig að fótbolti fyrir 1940 og jafnvel 1950 er hálfgert fornaldarspark í sögulegu samhengi. Eflaust afburðagóður bolti en þegar minningar og frásagnir byggja frekar á munnmælum en myndbrotum verður tengingin við Gunnar á Hlíðarenda sterkari en við Steven Gerrard. Reyndar eru til ágætar myndir frá mótunum 1930-1938 en það breytir því ekki að seinni heimsstyrjöldin markar ákveðin kaflaskipti á 20. öldinni.
Hins vegar er það þannig að mótið í Brasilíu er sveipað ákveðinni dulúð. Niðurstaða mótsins var svo kyngimögnuð að Brasilíumenn hafa ekki enn jafnað sig. Það þekkja flestir fótboltaáhugamenn þessa sögu þegar Uruguay menn mættu Brasilíumönnum á troðfullum Maracana vellinum í Ríó. Talið er að um 210.000 manns hafi verið á vellinum og Brassarnir voru svo sigurvissir að borgarstjóri Ríó hafði opinberlega fagnað sigrinum fyrirfram. Sem var kannski engin furða því þeim nægði jafntefli í síðasta leik riðilsins, en útsláttarfyrirkomulagi hafði ekki verið komið á.
Þetta byrjaði allt vel fyrir heimamenn því þeir komust yfir og allt ætlaði um koll að keyra. En Uruguay menn jöfnuðu og komust svo yfir með marki Ghiggia seint í leiknum. Upptökur af því marki hafa svipuð áhrif í Brasílíu og fræg upptaka Zapruders af morðinu á JF Kennedy þann 22. nóvember 1963. Þegar flautað var til leiksloka var dauðaþögn á vellinum og skipuleggjendur voru í svo miklu losti að það gleymdist að afhenda fyrirliða Uruguay bikarinn við hátíðlega athöfn. Þess í stað ráfaði forseti FIFA, Jules Rimet, einn um grasið og þurfti að kalla á fyrirliðann til sín svo hann gæti veitt verðlaunum viðtöku. Að svo búnu héldu sigurvegararnir til klefa þar sem þeir biðu í nokkrar klukkustundir þar til þeir töldu sér óhætt að keyra á hótelið. Eftir þetta hefur leikurinn almennt gengið undir nafninu Maracanazo.
Allt frá því að flautað var til leiksloka hefur mannorð brasilísku leikmannanna verið útatað blettum. Barbosa, markvörður liðsins, sem sakaður var um annað mark Uruguay var staddur í búð nokkru síðar þegar kona með lítið barn benti því á Barbosa og sagði "Sjáðu þennan mann, hann fékk alla Brasilíu til að gráta". Löngu síðar var haft eftir sama manni að hámarksrefsing í Brasilíu væri þrjátíu ára fangelsi en hann hefði fengið 50 ára dóm. Leikmenn einsog Zizinho og Ademir sem voru yfiirburðamenn á sínum tíma fengu vart tækifæri aftur með landsliðinu. Til að fullkomna niðurlægingu liðsins var hvíti búningurinn sem liðið notaði í keppninni tekinn úr umferð og skipt yfir í gulu treyjurnar og bláu buxurnar, eins og við þekkjum í dag. Eftr tillögu frá Uruguaymanni.
Fimmtíu árum síðar ferðaðist umræddur Ghiggia til Brasilíu. þá á áttræðisaldri. Ung kona tók á móti honum við vegabréfaeftirlit og þegar hún leit á hann spurði hún: "Ert þú ekki Ghiggia sem skoraði sigurmark Uruguay á HM 1950?" Kallinn leit furðu lostinn á hana og svaraði: "Jú en það eru fimmtíu ár síðan! Þú varst ekki einu sinni fædd!!" Hún horfði þá á hann og sagði: "Þetta mark mun aldrei gleymast í Brasilíu."
Maracanazo hefur frá þessum tíma verið notað yfir þá leiki þegar gestgjafi fer í úrslit og tapar. Þó enginn eftirfarandi leikja nái þeim upprunalega í dramatík vil ég nefna nokkra leiki sem hægt er að setja undir sama hatt. Ef e-r man eftir öðrum má sá sami endilega kommenta:
1. Portúgal-Grikkland 2004: Ég veit ekki til þess að Portúgalir hafi farið í úrslit á stórmóti áður en það var söguleg stund þegar þeir mættu Grikkjum á Ljósavellinum í Lissabon. Reyndar höfðu þeir tapað fyrir Grikkjum í riðlakeppninni en áttu að sjálfsögðu að sigra enda óhugsandi að tapa fyrir Sókrates, Plató og félögum í tvígang. Eins og allir vita varð raunin önnur.
2. Real Madrid-Deportivo La Coruna: Þann 6. mars 2002 varð Real Madrid 100 ára. Forráðamenn félagsins höfðu fengið þvi framgengt að úrslitaleikur Konungsbikarins yrði leikinn þann dag á Bernabeu vellinum og hið ótrúlega tókst, Real komst í úrslit. Spánarkonungur sat í stúkunni þegar leikurinn hófst og í raun var það aðeins formsatriði fyrir Real að klára leikinn og taka við bikarnum. Því miður gleymdist að segja leikmönnum Deportivo frá því og þeir náðu tveggja marka forystu sem Real náði bara niður í eitt mark. Þegar Deportivo menn tóku við bikarnum sungu stuðningsmenn þeirra hástöfum Hann á afmæli í dag eða Cumpleanos feliz. Ekki mín besta stund.
3. Liverpool-Arsenal 1989: Deildarleikur sem varð hreinn úrslitaleikur og er ágætlega lýst í Fever Pitch. Einn allra frægasti og eftirminnilegast leikur í enska boltanum. Ef ég man rétt þá var þetta þannig að Liverpool mátti ekki tapa með tveimur eða fleiri mörkum og Michael Thomas skoraði á síðustu mínútunni og tryggði Arsenal sigur í deildinni.
4. Roma-Liverpool 1984: Púlarar hafa ekki alltaf verið þolendur i þessari stöðu. Vorið 1984 var úrslitaleikurinn í Evrópukeppni meistaraliða haldinn á Ólympíuleikvanginum í Róm sem var bara fínt fyrir utan þá staðreynd að völlurinn var og er heimavöllur Roma. Rómverjar voru því kannski skiljanlega borubrattir en það var furðu seigt í Liverpool liðinu á þessum árum. Margir muna sennilega eftir myndum af Grobbelarþykjast vera að kikna í hnjánum í vítaspyrnukeppninni, þar sem enskir kláruðu dæmið að lokum.
Bloggar | Breytt 13.12.2007 kl. 10:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.12.2007 | 23:25
Fréttastjórn
Ég horfi aldrei á fréttir Stöðvar tvö og því síður Ísland í dag. Þetta er ekki meðvituð ákvörðun en ég er smátt og smátt að gera mér grein fyrir því að undirmeðvitundin er að standa sig ágætlega. Ég á henni mikið að þakka því þessi ómeðvitaða undirmeðvitundarákvörðun hefur forðað mér að mestu frá því að þurfa að horfa á Steingrím Ólafsson, Ingu Lind Karlsdóttur og Svanhildi Hólm rembast við að líta út eins og grísk goð og gyðjur á skjánum en hafa ekkert gáfulegt að segja. Ætlar e-r að segja mér að þetta tríó sé A-lið íslenskrar fréttamennsku, það vanti bara Mr. T og þá sé komið A+?
Staða Steingríms er reyndar stórfurðuleg og verðugt verkefni fyrir fjölmiðlafræðinga. Hvernig getur maður sem hefur það markmið í lífinu að aldrei megi falla skuggi á Framsóknarflokkinn, Fram og Liverpool verið fréttastjóri? Og hvað er málið með helvítis Fram bollann? Var hugmyndin að skapa afspyrnu heimilislegt andrúmsloft í myndveri þar sem fréttamenn geta sötrað kaffið sitt úr uppáhaldsbollanum sínum. Hverjum er ekki sama hversu kósý er hjá Steingrími Ólafssyni og hvað hann er rosalega mikill stuðningsmaður Fram.
Annars veit ég ekki hvað segja skal um fjölmiðlamenn almennt. Án þess að alhæfa of mikið held ég að fáar stéttir taki sig jafnalvarlega og fréttamenn og fjölmiðlamenn. Það var t.d. alveg kostuleg umræða fyrir nokkru þegar ritstjóri e-s fríblaðs fór yfir á annað fríblað og tók son sinn með. Sonurinn var víst e-r færasti umbrotsmaður landsins og það var talsvert fjallað um það í fjölmiðlum. Gallinn var bara sá að hinn almenni borgari hefur ekki hugmynd um hvað umbrotsmaður gerir og var þar að auki skítsama.
Og hvað var hann að spá þessi gæi sem sagði upp um daginn vegna þess að hann var plataður til að taka viðtal við vitlausan mann en ekki hinn "flippaða" Vifil? Ég held að hann ætti frekar að segja upp núna fyrir að vera svona húmorslaus og asnalegur. Taka svo Steingrím með eftir að hann hótaði 16 ára dreng að það yrðu eftirmálar af því að hafa platað fréttamann frá Stöð tvö. Ég segi eins og bróðir flipparans: Hvað ætla þeir að gera, taka af honum áskriftina að Sýn.
Eitt af því sem mætti hins vegar breytast hjá RÚV er sá sem les fréttirnar. Ég held að hann sé útvarpsstjóri. Hvernig fyndist fólki ef Jón Ásgeir væri alltaf á kassanum í Bónus? Myndi maður ekki segja við hann "Heyrðu, hefur þú ekki e-ð betra að gera?"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.12.2007 | 22:54
Sjálfstætt fólk
Ég gerði þrjár tilraunir til að lesa Sjálfstætt fólk. Mér þótti hún torlesin og leiðinleg í tvö fyrstu skiptin og hafði litla eirð í mér að klára hana. Í þriðja skiptið datt ég inn í hana og í janúar 2000 las ég síðustu setningarnar í bókinni, uppi í rúmi á Eggertsgötu 32, meðan tárin láku niður kinnarnar. Enginn bók hefur haft svona áhrif á mig, nema kannski Bróðir minn ljónshjarta á sinum tíma. Það var hins vegar e-ð við orðin, söguna og samband aðalpersónanna eftir allt sem þær hafa gengið í gegnum, sem hafði þessi áhrif en samt er engan veginn um að ræða hefðbundið fimmvasaklúta tilfinningaklám. Húmorinn er hins vegar aldrei langt undan þrátt fyrir hörmungar einyrkjans.
Ég held að meðmæli geti ekki verið betri með bók. Það hefði verið auðvelt að segjast hafa lesið Sjálfstætt fólk og fundist hún rosa góð, listaverk á íslensku eða prentaður demantur. Þannig væri lítið mál að afskrifa mann sem enn einn Laxness snobbarann. Bók sem fær mann hins vegar til að grenja og viðurkenna það þar að auki, hlýtur að vera ekta. Það er e-ð meira en ódýrt snobb.
Ég veit reyndar að ég er ekki sá eini sem hefur klárað Sjálfstætt fólk með vota hvarma. Einn í þeim hópi er bandaríski gagnrýnandinn Brad Leithauser sem er mikill aðdáandi bókarinnar. Hann lýsir því mjög skemmtilega þegar hann lauk henni á kaffihúsi í Róm. Síðustu setningarnar grúfði hann sig ofan í bókina, bæði vegna þess að tekið var að rökkva en kannski ekki síður vegna þess að hann vildi ekki að aðrir gestir sæju að hann væri að gráta. Slíkur er máttur bókarinnar þegar vel tekst til.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.12.2007 | 00:29
Plötur lífs míns nr. 1: Diamond Dogs (1974)
Ég hef tekið nokkrar dellur í gegnum tíðina. Fyrir mörgum árum síðan tók ég David Bowie tímabil sem ennþá lifir þokkalegu lífi.
Ég hafði auðvitað vitað lengi af kauða, Ása systir átti e-r plötur og svo voru Starman og fleiri lög, vinsæl singalong í menntaskólapartýjum. Það var því bara tímaspursmál hvenær maður færi að sökkva sér í plöturnar hans og ég var kominn á bólakaf fyrir 10-15 árum. Það var sannarlega vel þess virði því margar plötur kappans eru einfaldlega frábærar. Sennilega standa þó upp úr Ziggy Stardust and the spiders from Mars, Hunky Dory, Aladdin Sane, Low og svo umrædd Diamond Dogs. Sú síðastanefnda er þó sjaldnast á toppnum þegar Bowie plötur eru settar niður á lista og var víst flengd illilega af gagnrýnendum þegar hún kom út.
Samt er það svo að ef ég gríp disk þegar ég er að fara í lengri bilferðir einn, þá verður þessi jafnan fyrir valinu. Platan er víst tekin upp á miklu hass og dóp tímabili í lífi Bowie og það má vel heyra á plötunni. Stundum koma fyrir þung stef sem jaðra við að vera fölsk en í næsta kafla er skipt í snarheitum yfir í léttleika, Svona gengur platan fram og tilbaka og dettur meira að segja inn í hryllingsdiskó í 1984. Það er þó rétt að taka fram að ég fíla ekki alla plötuna því titillagið og Rebel rebel gera lítið fyrir mig. Restin er bara svo mikil snilld á e-n hátt, sem ég á erfitt með að útskýra, að þessi plata hefur um nokkuð langt skeið verið í uppáhaldi. Ég set þrjú lög inn í spilarann sem koma eiginlega fyrir sem eitt á plötunni. Þarna nær meistarinn hæstu hæðum og heldur mér föngnum á ferð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.12.2007 | 14:19
Úfff!!
Djöfull er ég lélegur bloggari. Enda les þetta enginn og sjálfur Korntopp, sem margir kannast við sem fylgst hafa með ÍR í gegnum tíðina, er með miklu fleiri bloggvini og heimsóknir en ég. Mínir bloggvinir telja hins vegar dauða bókaútgáfu (reyndar vona ég að fréttir af andláti hennar séu ótímabærar) og hund. Ég mun hins vegar setja afspyrnunördalegt efni áfram inn á síðuna öðru hverju og jafnvel í stórum gusum þegar þannig liggur á. Þeir sem leita eftir gáfulegum athugasemdum um menn og málefni verða því miður að leita annað (bendi á Stefán Fr. Stefánsson sem er örugglega ekki í vinnu en ef hann er í vinnu krefst hún væntanlega lítilla afkasta).
Annars var ég að velta fyrir mér áðan hvernig er með muninn á Góðan dag og Gott kvöld á íslensku, sérstaklega í skammdeginu. Maður kemur með nokkrar vörur á kassann í 10/11 um sexleytið og afgreiðslustúlkan segir "Góðan dag" og maður lítur á hana stríðnislega og segir mjög skýrt "GÓÐA KVÖLDIÐ!" og glottir sposkur á svip. Stelpugreyið verður dálítið vandræðaleg og segir "Já sorrý Góða kvöldið".
Hvar liggja mörkin? Er maður með Góða kvöldið trompið á hendi kl. fimm síðdegis! Hefur aldrei verið til siðs að segja Góða síðdegið, Góðan eftirmiðdag eða Sælan seinnipart á tungu víkinganna? Englendingar segja Good afternoon og Spánverjar segja Buenos tardes. Það ætti að forða manni frá vandræðum sem geta átt sér stað í búð um fimmleytið ef maður segir sposkur "Gott Kvöld" og krakkinn á kassanum svarar á móti "Skv. minni skilgreiningu er ekki komið kvöld kl. fimm" og það kemur vandræðalegt hik á mann, öll sniðug svör sitja föst í hausnum og þegar maður lítur eftir hjálp í röðinni, mæta manni glottsvipir sem segja"Gott á þig, helvítis besserwisserinn þinn". Að lokum hrökklast maður út með skottið á milli lappanna, bara vegna þess að Íslendingar þekkja varla mun á nóttu og degi.
Ég verð reyndar að minnast á strákinn sem hringdi í Hvíta húsið. Ekki vegna þess að mér finnist þetta svona sniðugt eða svona asnalegt því mér er alveg sama. Það besta var hins vegar þegar hann kom fram í sjónvarpinu og var spurður hvers vegna hann hefði gert þetta, sagði hann "Bara að flippa" og gerði luftgæsalappir. Luftgæsalappir eru sennilega vanmetnasta tjáningarform íslenskunnar og ef þið sjáið e-n nota þær er enginn vafi á að viðkomandi er afburða sniðugur og skemmtilegur einstaklingur, sérstaklega ef þær eru gerðar í "takt" við "orðið". En oft getur maður sagt sér fyrirfram hverjir gera luftgæsalappir. Þeir hafa alveg einstaka áru.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)