Afmæli

IMG_8495Ofurkrúttið Sigrún Emilía Eiríksdóttir er 2 ára í dag.

Til hamingju með daginn, Mía mín!


Hver er maðurinn?

staffan_gotestam120Þetta er nokkuð erfið spurning en þeir sem hafa áhuga á myndum sem gerðar eru eftir sögum norrænna barnabókahöfunda ættu að eiga möguleika.

Þar sem ólíklegt er að svarið spurningunni komi þá skal það upplýst hér að maðurinn á myndinni lék Jónatan Ljónshjarta í frægri mynd frá 1977 sem m.a. var sýnd í Háskólabíói og svo síðar sem mini sería í sjónvarpinu.

Maðurinn sem heitir Staffan Gotestam var 25 ára þegar hann lék hinn 13 ára gamla Jónatan. Í sögunni er hann eftirlýstur af mönnum Þengils og lýst sérstaklega sem "óvenjufríðum unglingi". Er manni óhætt að fullyrða að enginn sannur harðstjóri, hvoki Saddam né Adolf, hefði staðið sig að því að lýsa óvini sínum sem "óvenjufríðum, með elegant göngulag og augu sem blika eins og allar stjörnur alheimsins."

Ég er hins vegar hræddur um að hefði Jónatan loks skriðið úr fylgsni sínu þrjátíu árum síðar svona útlítandi hefðu fáir tengt útlit hans við umrædda lýsingu. 

Svona litu bræðurnir hins vegar út í myndinni en sá sem lék Snúð starfar nú á pósthúsi í Malmö.

filmlejon

 


Myndbandaleiga kvikmyndahúsanna

private_lessonsFyrir a.m.k. 20-25 árum var myndbandaleiga kvikmyndahúsanna flottasta leigan í bænum. Á venjulegum sjoppuleigum fékkst bara Lets get laid með Robin Askwith og Private lessons með Silviu  Kristel úr Emanuelle, en um leið og maður gekk inn í kvikmyndahúsaleiguna fann maður klassíkina liggja í loftinu. Raging Bull, Guðfaðirinn og Lawrence of Arabia voru sennilega allar þarna ásamt öðrum meistarastykkjum kvikmyndasögunnar, pakkaðar inn í hulstur sem voru skreytt með filmulengju. Það fór ekki á milli mála að þetta var ekki hver önnur pulsuleiga.

Þetta hvarflaði að mér eftir að ég fór í Bónusvideó vestur í bæ í kvöld. Ég hef alltaf verið á þeirri skoðun að í gamla Vesturbænum byggju mestu menningarvitar þjóðarinnar. Fólk með einstakan smekk á ljoðum, heimsbókmenntum, rauðvíni og myndlist. Og ekki síst kvikmyndum. Þessi skoðun mín fær hins vegar ekki staðist lengur miðað við þær drasl leigur sem ráða ríkjum á þessum slóðum. Skýringin gæti reyndar verið sú að menningarelítan leigi einfaldlega ekki vídeó heldur sitji með rauðvínsglas í Le Corbusier stólnum sínum og fletti Ulysses eftir James Joyce en gjói ekki augunum að sjónvarpinu nema sýnd sé Tarkovsky mynd á sunnudagskvöldi.

Þetta er hins vegar mjög ósennilegt því það fara allir út á leigu e-n tímann nema kannski Sigurður A. Magnússon og Gunnar Dal. Það er alltaf e-r sem missti af nýjustu Almodóvar myndinni í bíó, hefur heyrt vel af Little Miss Sunshine látið eða bara til að leigja aðra seríu af Friends. 

Og þá væri gott að vera með góða leigu í nágrenninu. En því miður er það svo að á öllu svæðinu frá Klapparstíg og alla leið vestur að Gróttuvita er ekki að finna eina einustu þokkalega leigu. Snælandsvídeó við Ægisíðu er vondur samtíningur úr spilakassasal, kjörbúð, pulsusölu og neðanjarðarklósettinu í Bankastræti 0 með enn verra myndaúrvali, leigan við Dunhaga er að ég held dauð og grafin, Gerpla við Hofsvallagötu er eins og e-r hafi ákveðið að opna leigu í neðanjarðarklósettinu í Bankastræti 0 og svo er það Bónusvídeó við Ánanaust. Það var í rauninni eina leigan sem hægt var að skipta við áður fyrr, þ.e.a.s. allt þar til í kvöld. Ástæðan fyrir því er einföld því áður takmarkað úrval hefur að því er virðist verið skorið enn meira niður og staðnum breytt í e-s konar sjálfsafgreiðslustöð fyrir myndbandaleigjendur.

Og úrvalið? Til að taka stutt dæmi þá smellti ég á flokkinn Klassík á tölvuskjánum og þá komu upp fjórar myndir. Guðfaðirinn, 2001, Casablanca og Rocky spyrja sig eflaust margir?! Nei ekki alveg en nærri  lagi þó. Myndirnar sem spekúlantar Bónusvídeó hafa valið sem þær klassískustu í safni sínu eru (hér vil ég að þú lesandi góður ímyndir þér svona spennutrommuslátt):

Charlie and the Chocolate Factory með Johnny Depp

Pirates of the Caribean með Johnny Depp

Jerry McGuire með Tom Cruise

og síðast en ekki síst...

Arthur með Dudley Moore!!! 

Hvað getur verið klassískara í kvikmyndasögunni en lítill kall með asnalegt hár, flissandi blindfullur í baði.

Ég hef bara einu við þetta að bæta: Lengi lifi Laugarásvideó við Dalbraut. 

arthur

 


Treyja vikunnar

Sporting Gijon 1981:

sporting gijon 1982 adidas worn front Sporting Gijon er eitt allra spænskasta lið Spánar að mínu viti. Félagið kemur að sjálfsögðu frá hafnarborginni Gijon og það fyrsta sem minnir mann kröftulega á Spán er framburðurinn. Þetta er ekki Gísjon, Gíjón eða Gídjonn heldur er nafnið borið fram Gíhghhon, með svona soghljóði sem minnir á munnvatnssuguna hjá tannlækninum. Maður sér stuðningsmennina fyrir sér á hráum bar með stálbarborði, teygandi cider í langri bunu úr belgjum og öskrandi soghljóð að leik sem er í gangi í gömlu sjónvarpstæki sem hengt hefur verið upp í einu horninu. Á hvítmáluðum veggjum barsins hanga myndir af gullaldarliðinu frá því um 1980 þegar liðið komst tvisvar í úrslit bikarkeppninnar og varð einu sinni í öðru sæti deildarinnar. 

Árið 1998 féll liðið hins vegar úr 1. deildinni með eftirminnilegum hætti, vann einungis tvo leiki og fékk 13 stig. Markatalan 31-80. Síðan hafa þeir svamlað í annarri deild en eygja þó möguleika að spila meðal þeirra bestu á næsta ári. 

Skýringuna á góðu gengi liðsins á áðurnefndu tímabili kringum 1980 er án efa að finna í kraganum á adidas treyjunni sem hér er til umfjöllunar. Annars staðar í Evrópu voru treyjurnar með hefðbundnum kraga, en á Spáni spiluðu "machos", sannir karlmenn með með kraga út að handarkrika og svo vel flegnu v-hálsmáli að gullkeðjan fór ekki á milli mála. Tony Montana og John Travolta hefðu steinlegið í byrjunaliðinu í Gíjon enda hefði treyjan án efa svínvirkað undir jakkafötum með kragann út fyrir. 

Það gat enginn verið viss um hvort leikmennirnir voru á leið í leik eða á diskótek. Slíkur er máttur treyjunnar.


Minning um Clarke

Þó ég sé mikill 2001 maður, er Furður veraldar engu að síður það fyrsta sem mér dettur í hug þegar ég heyri nafn Arthur C. Clarke.

Ég dró meira að segja félaga mína í Lárusi Rist á Mannfræðisafnið í London haustið 1996 til að líta kristalhauskúpuna augum.

Það er því engin ástæða til annars en að rifja upp Jetann ógurlega:

http://uk.youtube.com/watch?v=TrF6vBXQJJc


Rúni Júl

Mér finnst Rúnar Júlíusson mjög viðkunnalegur náungi. Mér finnst Hljómar eiga mörg frábær lög og sömuleiðis Trúbrot. Sem fæst orð um Ðe lónlí blú bojs bera hins vegar minnsta ábyrgð.

Ég get ekki annað en dáðst að því að hann hafi verið landsliðsmaður í fótbolta og deitað ungfrú Ísland.

Samt er það svo að ég get ómögulega fallist á að Rúni Júl sé mesti töffari landsins. Töffari er e-r sem segir alltaf e-ð svalt hver sem staðan er, ber sig eins og ísbrjótur í Smugunni og minnir meira á Samuel Jackson en Ömmu önd.

Ég skil reynar sjaldnast það sem Rúnar segir en verð jafnframt að viðurkenna að keflvíska var ekki mitt sterkasta fag í skóla. Hann minnir mig líka stundum á gamla frænku á ættarmóti sem er búinn að fá sér nokkur sérrýglös og er staðin upp til að syngja og klappa, en það reynist erfitt því hún er hokin og taktlaus.

Þá finnst mér ekkert töff við eyrnalokk en veit ekki hvort hann er verri þegar maður tvítugur eða sextugur. Eyrnalokkar eru reyndar furðulegt fyrirbæri því það virðast bara vera tvær manngerðir sem ganga með svoleiðis, annars vegar harðir naglar á sjónum eða á Kárahnjúkum, sem ryðja út úr sér rasista og hommabröndurum, og svo hins vegar hommar. Þó þessar tvær manngerðir virðist oft vera sitthvorum megin á skalanum bendir lokkurinn þó jafnan til þess að milli þeirra sé aðeins næfurþunn lína.

Rúnar er hins vegar mitt á milli, one of a kind.


Minning um mann

Hann er horfinn til Suður Ameríku en það er rétt að rifja snilli þessa leikmanns upp öðru hvoru.

Ég bið menn og konur að taka sérstaklega eftir skotinu þegar ca. 2:11 eru liðnar af myndbandinu. já þetta er skot en ekki sending. Hann var bara óheppinn að Toldo átti öðru hvoru stórleiki.

http://uk.youtube.com/watch?v=rMM2kDuKjmY 


Sálin 20 ára

Stefán Hilmarsson situr við borð á Gauknum ásamt vini sínum. Þeir félagarnir hafa ákveðið að fá sér nátthúfu meðal almúgans. Að borðinu kemur skjögrandi ungur maður, nokkuð við skál en þó fullur auðmýktar og lotningar. Hann ávarpar Stefán og réttir fram höndina:

"Sæll Stefán, ég vildi bara þakka þér fyrir framlag þitt til íslenskrar tónlistar"

"Þakka þér fyrir það"

"Ég sé að Hans Jensson er með þér"

"Reyndar ekki því hann átti ekki heimangengt. En sonur hans Jens Hansson er hins vegar hérna"

"Já auðvitað. Uuhh ég vildi bara þakka þér aftur fyrir þitt framlag. Blessaður"

"Blessaður".

Pure class. 

 

Til hamingju með afmælið, Silkeborgs finest!! 


Undirvagnsþvottur

Þvo gamlir menn sér öðruvísi en þeir sem yngri eru?

Í hvert skipti sem ég lendi með eldri borgara í sturtuklefanum í sundi stillir sá gamli sér upp við sápuboxið, leggur aðra höndina á vegginn, hallar sér fram og byrjar að róta með hinni hendinni á svæði sem virðist vera handan pungsrótar, þó ég geti ekki og vilji ekki staðsetja það nánar. Þessu fylgir oftast þungur andardráttur sem bendir til að um talsvert erfiði sé að ræða. Þetta á sérstaklega við um gamla ístrubelgi með tattú en takmarkast engan veginn við þá.

Er þetta framtíð ungra manna?


Cage

Real Madrid datt út úr Meistaradeildinni í vikunni. Ég hef svo em ekki mörg orð um það að segja, Roma er með gott lið og mínir menn átt einfaldlega ekki skilið að fá meira úr leiknum. Þeir voru bitlausir þegar á reyndi og ég pirra mig enn á því að Riquelme var ekki keyptur í sumar. Liðið treystir hvort eð er bara á örfáa einstaklinga og þá væri ágætt að einn þeirra væri miðjumaður á heimsmælikvarða. Þó að ljóst sé að ekki sé með neinu móti hægt að tala um að Real sé eitt af bestu liðum Evrópu þá er varla um krísu að ræða heldur. Liðið er enn með þokkalega forystu á Spáni en verður augljóslega að halda vel á spilunum til að halda þeirri henni.  Missi þeir af titlinum fara málin hins vegar að vandast. Maður spyr sig samt hvort sé betra að eiga möguleika á þremur titlum eða mjög góðan möguleika á einum.

Það er hins vegar alltaf e-ð dásamlega vandræðalegt í kringum liðið. Þar ráða jafnan ríkjum heimskir menn sem taka oftar en ekki heimskulegar ákvarðanir. Það nýjasta gerðist einmitt síðasta miðvikudag þegar Real datt út. Fax hafði borist á skrifstofur félagsins þar sem boðuð var koma Nicolas Cage. Allt ætlaði um koll að keyra, dregin var fram treyja með nafni Cage á, honum var boðið að sitja í heiðursstúkunni með forseta félagsins og eftir leikinn var farið með leikarann niður í búningsklefana þar sem hann hitti leikmennina. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndi virðist Ramon Calderon vera í skýjunum yfir að hitta stórleikarann og varla að sjá félagið hans væri í vandræðum í Meistaradeildinni. Hann hreinlega ljómar af hamingju. Gallinn er bara sá, eins og glöggir og óglöggir lesendur geta séð, að þetta var alls ekki Nicolas Cage heldur e-r eftirherma frá Ítalíu. Maður getur rétt ímyndað sér svipinn á leikmönnunum þegar þeir voru nýdottnir úr Meistaradeildinni. Eflaust hafa e-r setið grenjandi og öskrandi þegar inn til þeirra er leiddur maður sem er kynntur sem Nicolas Cage en gæti allt eins verið bróðirinn í Everybody loves Raymond eða e-r melludólgur frá Napólí. Þó að þetta hefði verið Cage þá er því vandsvarað hvaða erindi hann átti niður í klefa.

Ég hef bara eitt að segja við þessa vitleysinga fyrir sunnan: Hættið að svala heimskulegri hégómagirnd sem er að gera Real Madrid að athlægi um heim allan.  Di Stefano, Puskas, Gento, Juanito, Camacho, Butrageno, Hierro, Zidane og co. eiga betra skilið.

cage_calderon080308_ES


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband