17.6.2008 | 01:24
EM so far
Sviss: Svisslendingar voru einstaklega óheppnir og áttu sennilega að fá amk fjórum stigum meira en þeir uppskáru. Þjálfari þeirra Kobi Kuhn hefði hins vegar steinlegið í hlutverki Jack Lemmon í svissneski endurgerð af hinni leiðinlegu mynd Dad, sem myndi þá væntanlega heita Vater.
Tékkland: Tékkar mættu með þokkalegt lið á EM en það er aðeins farið að slá í gömlu kempurnar og nýju mennirnir virðast ekki vera í sama klassa. Verð að vera sammála þeim að sem vorkenna Cech örlítið fyrir mistökin. Hann er í ömurlegu liði á Engladi en það er e-ð álkulegt og saklaust við hann. Ekki bætir höfuðfatið úr skák sem minnir á fuglinn í teiknimyndinni The Rescuers.
Tyrkland: Það heldur enginn með Tyrkjum nema þeir sem fylgjast bara með HM og halda að það sé sniðugt að halda með exótískri Evrópuþjóð. Og að sjálfsögðu þeir sem eru enn að hlægja inni í sér þegar þeir heyra Halim heim brandarann. Ekki bætir hinn tyrkneski Gaui Þórðar neinu við aðdáun á þessu liði en ég verð að viðukenna að ég hef lengi verið veikur fyrir Nihat. Frammistaða hans gegn Tékkum staðfesti þetta.
Portúgal: Það er ekki hægt að dæma Portúgalina enn þá. Tveir sigrar á tiltölulega slöppum liðum segir ekkert um þá. Þeir virðast reyndar vera með eitt af fáum miðvarðarpörum í keppninni sem virka sannfærandi og miðjan er að mestu í lagi og svo er Ronaldo að sjálfsögðu skæður. Þeir spila hins vegar bara með einn framherja, sem má muna sinn fífil fegurri en það er e-ð sem segir mér að það verði klókindi þjálfarans þeirra frekar en knattspyrnuleg geta liðsins sem ræður öllu með framhaldið. Það verður e-r óþverri.
Austurríki: Komust skammlaust frá mótinu og náðu þriðja sætinu í sínum riðli. Áttu sennilega, eins og Svisslendingar, að ná amk þremur stigum í viðbót en líklega vantaði e-ð upp á knattspyrnulega getu til að klára leikina frekar en að óheppni hafi verið að spila rullu. Eini maðurinn sem má skammast sín er Toni Polster sem lagði til að hafin yrði undirskriftasöfnun þar sem skorað yrði á liðið að draga sig úr keppni.
Pólland: Gamli Real þjálfarinn Leo Beenhakker reið ekki feitum hesti frá mótinu og var í raun heppinn að ná í stig. Það er e-ð sorglega leiðinlegt við Pólverja á stórmótum og þetta var engin undantekning. Maður verður að vera helviti fullur til að elska Pólland.
Króatía: Hæp mótsins hingað til. Voru heppnir að vinna Austurríki í fyrsta leik, tóku andlausa Þjóðverja í öðrum leik og svo slappt pólskt lið í lokin. Samt eru margir sem halda ekki vatni yfir þeim. Það má vel vera að þeir sýni e-ð í framhaldinu en ég held að krafturinn í Tyrkjunum gæti gert þeim erfitt fyrir.
Þýskaland: Ég skildi það ekki fyrir mót og skil það ekki enn af hverju margir eru vissir um að Þjóðverjar vinni mótið. Aðalmarkaskorarinn komst ekki í liðið hjá Bayern, framherjarnir hafa engan veginn náð sér á strik og vörnin er ekki sú traustasta. En þeir eru óútreiknanlegir.
Frakkland: Ég þykist viss um að Spánverjarnir voni að Frakkar komist ekki áfram á morgun. Ef svo verður mun leikurinn frá HM 2006 endurtaka sig og Spánverjar verða á leið heim í fyrsta útslætti. Þetta er hins vegar ekki öflugt lið en þeir eru þó skárri en markatalan í Hollands leiknum segir til um.
Ítalía: Annað lið sem enginn vill fá í útslætti. Ítalir byrja alltaf illa í stórmótum en taka svo Billy Ocean þegar harðnar á dalnum. Þeir eru samt greinilega með slakari vörn en nokkru sinni fyrr og Buffon verður að vera með hanskana vel útspýtta ef ekki á illa að fara.
Rúmenía: Það bókar enginn sigur gegn Rúmenum en þetta er ekki beinlínis heillandi lið. Samanburður við 1994 liðið er ekki hagstæður að mínu mati en þeir þekkja Hollendinga vel og hafa tak á þeim. Ég vil samt fá þá í átta liða frekar en Ítalíu eða Frakkland.
Holland: Án efa lið keppninar hingað til. Það er snilld að sjá hvað Basten tekur virkan þátt í leiknum og það er rétt sem sagt hefur verið að hann hafi breyst úr hrokafullum leikmanni í heillandi þjálfara. Tek þó fram að ég er mikil Basten maður og tel hann sennilega einn af tíu bestum leikmönnum allra tíma. Þá er ekki síður ánægjulegt að sjá Real mennina blómstra. Hins vegar hafa fá lið farið í gegnum alla leikina með látum en það verður e-ð mikið að gerast ef þeir fara ekki amk í undanúrslit.
Spánn: Mínir menn hafa ekki verið sannfærandi en fyrsti leikurinn gegn Rússum var nokkuð góður og á köflum var Svía leikurinn allt í lagi. Það má hins vegar ekki gleymast að Svíar eru með hörkulið sem erfitt er að brjóta á bak aftur. Mestar áhyggjur hef ég af Ramos sem hefur verið í miklu uppáhaldi á þessum bæ en hann hefur verið áttavilltur og sennilega einn slappasti varnarmaður mótsins hingað til. Hef samt trú á það lagist. Þeir þurfa þó að bæta leik sinn töluvert ef ekki á illa að fara. Ef Aragones nær að berja í þá krafti eiga þeir möguleika en sennilega á hann nóg með að ná á klósettið.
Svíþjóð: Svíarnir eru með gott skipulag og góða sóknarmenn. Það verður hins vegar spennandi að sjá hvað þeir gera gegn Rússum. Það verður háspenna/lífshætta á Álfhólsvegi 79c þegar þeir mæta sonum Raspútins.
Rússland: Þetta er fínt lið sem ég ætla að spá áfram. Ashavin kemur inn og töfrar fram stoðsendingu sem sendir Svíana heim.
Grikkland: Yfirlýstir stuðningsmenn Grikkja eru tveir þéttvaxnir, krullhærðir besserwisserar. Það segir eiginlega allt um þetta leiðinlega lið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.6.2008 | 13:29
Á rauðu ljósi
Lenti við hliðina á sendibíl á ljósum í morgun. Þegar ég leit inn í bílinn sá ég ekki betur en að við stýrið sæti hinn goðsagnarkenndi handboltaorki og lávarður línunnar, Birgir Sig. Eins og oft vill verða þegar maður sér svona frægt fólk þá trúir maður vart sínum eigin augun og verður að nudda þau svo maður geti verið viss um að ekki sé um ofsjónir að ræða.
En Birgir áttar sig á þessu og svíkur ekki sína dyggu aðdáendur. Þess vegna hefur hann látið tattóvera á hurðina: Birgir Sig.
Hann mætti jafnvel bæta um betur og merkja bílhurðina með setningunni: Já þetta er ég Birgir Sig og ég er að reykja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.5.2008 | 22:59
Íslensk knattspyrna
Ég er oft spurður að því hvort ég sé ekki Bliki. Sennilega er ástæðan sú að ég kem úr Kópavogi eins og Leoncie og minni, þekking eða hugmyndaflug flestra nær ekki lengra en svo að halda að Breiðablik sé eina félagið í næst stærsta bæ landsins. Ég svara því alltaf að ég sé fyrst og fremst ÍK ingur en þar á eftir sé HK ingur í botnbaráttunni og KR ingur á toppnum. E-ð misskildu KR ingar þessi ummæli mín í fyrra og virðast ætla að misskilja þau aftur í ár.
En Bliki er ég ekki og verð aldrei. Eftir áralanga baráttu í yngri flokkunum þar sem við ÍK ingar vorum alltaf eins og ljótu stelpurnar í háskólamyndunum sem komast ekki í klappstýruhópinn, var ég búinn að taka Breiðablik í sátt. Það breyttist hins vegar á einu kvöldi í fyrra þegar HK og Breiðablik mættust á Kópavogsvelli. Þegar Blikarnir skoruðu þriðja markið án þess að HK hefði náð að svara var mér litið upp í stúku þar sem stuðningsmenn Breiðabliks fögnuðu markinu af yfirlæti og hroka í garð HK inga. Á þessari stundu rifjaðist upp fyrir mér sú tilfinning hversu óþolandi var að vera í litla liðinu í Kópavogi í gamla daga og það fáránlega forskot sem Breiðablik hafði á ÍK þegar kom að stuðningi frá bænum. Þessi pirringstilfinning breytir því hins vegar ekki að margir jafnaldrar mínir í Breiðablik eru miklir öðlingar og lítið við þá að sakast. Þeir voru bara einfaldlega betri en við í fótbolta og þurftu því sannarlega ekki forgjöf frá bænum.
Það hlakkaði því í mér þegar Blikarnir voru komnir 1-5 undir í gær. Ef HK gengur illa er ágætt að Blikarnir rifni ekki úr monti. Ég vil samt óska Adda Grétars og Árna bakverði góðs gengis. Ég þekki þá bara af góðu en um aðra leikmenn er mér alveg sama, nema ef vera skyldi yngri sonur Hafliða Þórssonar. Ég hefði ekki viljað sjá hann fá á sig sex mörk í gær.
Það má hins vegar hrósa Blikum fyrir stuðningsmannasíðuna blikar.is. Á henni eru myndir úr sögu UBK allt aftur til sjötta áratugarins. Þar er m.a. að finna þessa liðsmynd. Þegar ég sá myndina var ég löðrungaður af nostalgíu eins og svo oft áður. Hún var nefnilega ein af opnumyndunum í Vikunni af liðum í fyrstu deild sumarið 1981 og ég man óljóst eftir því að hafa beðið spenntur eftir að mamma keypti Vikuna í e-m sjoppum úti á landi svo ég gæti skoðað hvaða lið væri á opnumyndinni, sem var eiginlega plakkat. Stundum voru reyndar myndir af Human League og öðrum vinsælum hljómsveitum en mig minnir að mér hafi meira að segja fundist það flott. En bestur var Willy Breinholst.
Þetta minnir á að það mætti e-r sniðugur fara í það að setja upp knattspyrnusafn á Íslandi. Það eru tónlistasöfn í Keflavík og Bíldudal og því væri tilvalið að sett yrði upp knattspyrnusafn á Akranesi með ljósmyndum, vídeóum, leikskrám, bikurum, treyjum, fánum og alls kyns drasli. Öðru hverju væru tímabundnar sýningar eins og atvinnumenn í Þýskalandi eða Belgíu eða sérstök sýning um Hemma Gunn, Albert Guðmundsson eða Tryggva Guðmundsson.
Það er reyndar vísir að svona safni í Litlu kaffistofunni. Ég mæli kannski ekki með roastbeef brauðinu hjá þeim en sýningin Stiklur úr íslenskri knattspyrnusögu er vel þess virði að kíkja á. Þó ekki væri nema til að sjá alvöru vegasjoppu en ekki þennan viðbjóð sem boðið er upp á við hverja bensinstöð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.5.2008 | 21:59
Plötur lífs míns: The Kick inside
Ég man eins og það hafi gerst í gær þegar ég stóð fyrir utan Hljóðfærahúsið í september 1978 og starði á nýpressað umslag plötunnar The Kick inside með Kate Bush. Nokkrum andatökum síðar var ég kominn upp í strætó á Hlemmi og leiðin lá upp í Kópavog. Þegar ég kom heim, setti ég plötuna varlega á fóninn og lagðist upp í sófa. Strax á fyrsta lagi fann ég hvernig kvenlegar kenndir vöknuðu innra með mér og mögnuðust eftir því sem lögunum fjölgaði. Eftir síðasta lagið lá ég hágrátandi og vissi hvernig tilfinning er þegar líf kviknar inni í manni.
Þetta er auðvitað algert kjaftæði því haustið 1978 var ég tæplega fimm ára, hafði áhuga á Star Wars og bjó sennilega enn í Hafnarfirði.
Það breytir þvi hins vegar ekki að tíu árum síðar kviknaði áhugi minn á Kate Bush. Það má að mestu rekja til þess að Kristín systir átti safnplötuna The Whole Story sem er snilldargóð. Á þessum árum var ég alltaf að leita að meistarastykkjum tónlistarmanna og þá dugðu safnplötur ekki. Ég ákvað því að kaupa The Kick inside og síðan hef ég ekki hætt að hlusta. Það hafa komið kaflar þar sem ég hef einfaldlega gleymt að henda þessu meistarastykki á fóninn en þegar það gerist verð ég alltaf jafn hissa að tæplega tvítug stelpa gæti komið með svona heilsteypta snilldarskífu.
Ég set þrjú lög í spilarann til hliðar. Það segir kannski margt um gæði plötunnar að Wuthering Heights er sennilega eitt af síðri lögunum. Þetta ætti þó ekki að koma á óvart því það var enginn annar en David Gilmore úr Pink Floyd sem tók Bush undir sinn verndarvæng og leiddi hana í gegnum þessa frumraun.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.5.2008 | 16:58
Treyja vikunnar
Treyja vikunnar er nýja Marseilles varapeysan fyrir næsta tímabil. Veit ekki hvort þetta sé mislukkuð tilraun til að blanda saman tísku og fótbolta eða hvort um hreina snilld sé að ræða. Það er ekki laust við að maður fái á tilfinninguna að peysan sé úr lopa eða ull og maður muni ósjálfrátt finna til með aumingja mönnunum, hlaupandi á eftir boltanum í grenjandi rigningu. Það er hins vegar enn forvitnilegra að vita hvort sokkarnir verði í stíl. Það þótti nefnilega aldrei smart að spila í tíglasokkum í gamla daga.
Tíglamynstrið hefur þó aður verið notað hjá adidas með góðum árangri því Belgar voru í svokölluðum Ivan Lendl treyjum á tímabilinu frá 1984-1986 að mig minnir. Ég er ekki frá því að sú treyja sé betur heppnuð en nýja Marseilles treyjan.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.5.2008 | 00:03
Auglýsingabrella
Tvær auglýsingar sem ég skil ekki.
Annars vegar Toronto auglýsingin frá Flugleiðum. "Totonto er stórborg. Pakkaðu því eins og þú sért að fara til New York". Svakalega sniðugur texti sem þolir samt varla nánari skoðun. Pakkar maður e-ð öðruvísi ef maður fer til New York heldur en Osló eða Kaupmannahafnar? Verður maður kannski að vera við öllu búinn í New York? Teinótt jakkaföt, tvílitir keiluskór og hattur ef maður lendir í djassklúbbi í Harlem; tóbaksklútur, derhúfa og hlýrabolur ef maður villist inn í Bronx; Boss jakkaföt og Armani bindi ef maður fer óvart úr lestinni á Wall Street eða semi snjóþvegnar gallabuxur, hvítur bolur og köflótt bómullarskyrta ef maður á erindi til New Jersey eða Long Island þ.e. ef allir þar líta út eins og Raymond Barone.
Væri ekki eðlilegra að taka þetta veðurfarslega? "Toronto er á 44° norður. Pakkaðu því niður eins og þú sért að fara til Búkarest".
Hins vegar er það hinn magnaða auglýsing "Vatn er gott fyrir tennurnar. Drekktu vatn, Drekktu Egils Kristal." Ég hef lítinn áhuga á næringarfræði og vildi helst að allur matur væri fljótandi í e-efnum og sykri þannig að vísindamenn geti fundið mig ósnortinn eftir 5000 ár. Hins vegar heyrði ég e-n tímann að meginástæða þess að gos væri óhollt fyrir tennurnar væri hin guðdómlega kolsýra sem gerir venjulegt vatn að kolsýrðu vatni.
Ég býðst hér með til að taka að mér mál allra þeirra tannbrenndu einstaklinga sem eftir svona 10 ár vakna, líkt og reykingamenn, upp við þann vonda draum að auglýsingar segja ekki alltaf satt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.5.2008 | 22:40
Tónlistarlegt sjálfsmorð
Það eru til frábær lög og það eru til ömurlega leiðinleg lög. Og svo allt þar á milli. Að lokum eru til lög sem eru frábær en listamanninum eða hljómsveitinni tekst e-n veginn að klúðra laginu svo illa að maður fær óbragð í munninn og pirring í kjálkana við hverja hlustun. Ég ætla ekki að setja upp endanlegan lista yfir þessi lög en gef þess í stað dæmi og vil gjarnan að lesendur bæti öðrum við.
Í fyrsta lagi er það Rapture með Blondie. Blondie var að sjálfsögðu frábær sveit á sínum tíma og eftir hana liggja mörg klassísk lög. Ég man þegar ég heyrði Rapture fyrst hugsaði ég með mér hvaða glæsilega gotneska nýbylgjudiskó þetta væri eiginlega, með dómsdagsbjöllum, túmat og sinnepi. Frábær laglína og hæfilegur drungi framan af eða allt þar til ungfrú Debbie Harry fer að rappa!!! Þetta skelfilega ættarmótsrapp rústar gjörsamlega laginu og minni geðheilsu í leiðinni.
http://www.youtube.com/watch?v=xHPikUPlRD8
Í öðru lagi er það alþekkt dæmi sem flestir íslenskir tónlistaráhugamenn kannast við. Ég er að sjálfsögðu að tala um óþolandi innkomu Einars Arnar Benediktssonar í Planet með Sykurmolunum. Þetta er án efa besta lagið þeirra ásamt Walkabout, með magnaðri gítarlínu. Maður er næstum kominn í draumatrans þegar Einar leggur munninn upp að eyranum á manni og æpir: EVERY MAN, EVERY WOMAN!! Og maður hrekkur upp í svitakófi og reynir að átta sig á hvað breytti draumnum í martröð. Og fattar að lokum að það var Einar sykurmoli enn eina ferðina að láta ljós sitt skína. Lagið er komið í spilarann til hliðar.
Í þriðja lagi er það With a little help from my friends með Bítlunum. Flott lag af frábærri plötu en hvers vegna í ósköpunum var Ringo fenginn til að syngja. Hann sleppur kannski í Yellow Submarine en þessi nefmælta, laglitla trommuvera átti að öðru leyti lítið erindi að hljóðnemanum. Kannski er best að snúa þessu við og segja: Hvað ef Ringo hefði fengið að syngja Strawberry Fields, Penny Lane eða I am the Walrus? Eða Eleanor Rigby?
Í fjórða lagi er lag sem alltaf er verið að spila á Rás 2 og heitir No festa eða e-ð svipað með Super mambo djambo held ég. Þetta er að sjálfsögðu engin tímalaus snilld, bara létt Afríku mambósalsa flutt af fólki sem kann að flytja og dilla sér við svona tónlist. Kemur þá ekki Egill Ólafsson fram með e-a óþolandi leiðinlega predikun um hreina og beina hugsun. Maður sér hann fyrir sér sveittann og graðann upp í sviði í strápilsi og fráhnepptri skyrtu, með þennan dæmigerða einbeitta Egils svip. Landkönnuðir koma víða við og Egill er þar engin undantekning.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.4.2008 | 23:06
Skatan
Ég minntist á það fyrir um ári síðan að við Silla hefðum séð stóla sem eru kallaðir Skatan á íslenskri hönnunarsýningu í Þjóðminjasafninu fyrir um tveimur árum.
Stólarnir vildu ekki hverfa úr hausnum á mér og að lokum fór svo að ég var kominn í samband við son hönnuðarins Halldórs Hjálmarssonar. Hann var að hefja framleiðslu á þessari ódauðlegu hönnun föður síns og ég pantaði hjá honum fjögur fyrstu stykkin.
Það var svo í síðustu viku sem ég fékk stólana í hendur og við hjónin erum nú stoltir eigendur af þessari alíslensku útgáfu af stólum Arne Jakobsen og ekki nóg með það heldur eru þetta fyrstu eintökin sem framleidd eru af stólnum síðan 1973. Nokkuð viðeigandi en það var ekki fyrr en ég var búinn að sækja stólana að ég heyrði að þeir hefðu verið sérstaklega vinsælir á heimilum framsóknarmanna á sjötta og sjöunda áratugnum. Upprisa framsóknar er hafin og áður en við vitum verða allir komnir í köflótta "tweed" jakka með rússskinnskraga. Minnir mig á jólin 1989.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.4.2008 | 22:52
Ég lifi
Ég man eftir bók sem var til heima þegar ég var lítill. Hún hét Ég lifi á íslensku ef ég man rétt og fjallaði um gyðinginn Martin Gray sem lifði af veruna í útrýmingarbúðum nasista. Þetta var ein af þeim bókum sem allir voru að lesa á þeim tíma ásamt Hlauptu drengur hlauptu, Krossinn og hnífsblaðið og síðast en ekki síst Og þá fór ég að skjóta. Ekki má þó gleyma dramatísku meistarastykkjunum Sjáðu sæta naflann minn og Dýragarðsbörnin.
Mér datt Ég lifi í hug þegar ég sá Avram Grant fagna sigri í kvöld. Tilgerðarlegri fagnaðarlæti hef ég ekki séð á mínum langa knattspyrnuáhorfsferli. Ef tilgangur Grant var að skapa gæsahúðarstemmningu fyrir sjónvarpsáhorfendur og vallargesti þá tókst það en þó einungis á þann hátt að um bullandi bjánahroll var að ræða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.4.2008 | 22:33
Nöldurhornið
Er fullkomlega eðlilegt að starfsmaður, og að mér skilst tónlistarstjóri, Rásar 2 sé að gefa út geisladisk með lögum sem spiluð eru alla jafna á Rás 2 hvort eð er. Í staðinn fyrir að kynna einfaldlega lagið Freight Train með Lay Low, Ólöfu Arnalds og Pétri Ben er kynnt lagið Freight Train með Lay Low, Ólöfu Arnalds og Pétri Ben af plötunni Rokkland 2007, sem er að sjálfsögðu plata vikunnar á Rás 2.
Ég vona sannarlega að allur ágóði af sölu plötunnar renni til fórnarlamba Death tískunnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)