Getraun, 3. vísbending

Bækurnar, sem persónan hefur komið fram í, heita Móri og Töfrafestin frá Senegal.

Getraun, 2. vísbending

Persónan kom fyrst fram í bók um þá félaga sem hefur ekki komið út á islensku. Titill hennar minnir á stríðsmynd frá 1970 um árásina á Pearl Harbour. Í rauninni kemur persónan einungis fram í tveimur bókum sem þýddar voru yfir á íslensku.

Þetta er afspyrnu nördaleg getraun,


Getraun. 1. vísbending.

Spurt er um persónu. Hún kemur fram í vinsælum bókaflokki um tvo félaga en þó ekki fyrr en nýr höfundur að bókaflokknum hafði tekið við í kringum 1970.

Spánverjar part 2

Frá því nóvember 2006 hafa Spánverjar spilað 19 landsleiki í herrafótbolta. Á þessu tímabili hafa þeir m.a. spilað við Frakkland, Þýskaland, England, Danmörk og Ítalíu. Niðurstaðan er sú að þeir hafa unnið alla nema tvo, sem enduðu með jafntefli. Þeir voru gegn Finnum í vináttuleik og Íslendingum í alvöruleik.

Með nokkurri kúnst má segja að við séum næstbestir.

 


Spánverjar

Síðustu misseri hafa verið Spánverjum mjög gjöful í íþróttum. Án þess að leggjast í mikla rannsóknarvinnu telst mér til að þeir hafi náð eftirfarandi árangri:

Núverandi heimsmeistarar í körfu og silfurhafar á Evrópumóti

Núverandi evrópumeistarar í blaki

Núverandi evrópumeistarar í fótbolta

Heimsmeistarar í handbolta 2005 og silfurhafar á Evrópumóti 2006

Fernando Alonso tvöfaldur heimsmeistari í F1 2005 og 2006

Heimsmeistarar í innanhúsfótbolta

Rafael Nadal er núverandi Wimbledon meistari og sigurvegari á Opna franska

Að auki eiga þeir golfara, reiðhjólamenn og  mótorhjólamenn í fremstu röð.  Veit ekkert um frjálsar.

Ég efast um að margar þjóðir geti státað af öðrum eins árangri.

 


Treyja vikunnar

IFK Göteborg ca. 1985:

gothenburg 1980s adidas front

IFK er sennilega fyrsta liðið sem ég hélt með, fjögurra ára í Gautaborg. Ég ætlaði að bæta þeim inn á nostalgíu listann í Svíþjóðar ferðinni og fara á leik og kaupa treyjuna. Það varð hins vegar ekkert af því. Þegar á reyndi nennti ég ekki að fara sérferð til Gautaborgar til að sjá leik við Trelleborg heldur skellti mér þess í stað til Lundar. Sé svo sem ekki eftir þvi enda tapaði IFK 0-2. Ekkert varð hins vegar af treyjukaupum þar sem verðmiðinn stóð í ca. 8500 kalli 30. júní sl. Fimmþúsund kall hefði sloppið en ég gat engan veginn réttlætt fyrir sjálfum mér að bæta 3500 kalli við fyrir liði úr Allsvenskan.

Þess í stað set ég inn rúmlega 20 ára gamla treyju. Lítið hefur breyst, liðið spilar enn í adidas, auglýsir enn ICA og eru ennþá með bláar og hvítar rendur en það ætti svo sem ekki að koma á óvart. Vek hins vegar sérstaka athygli á adidas merkjunum á kraganum.


Undarlegt

Mér varð hugsað til þess um daginn að ég sá góðan félaga minn einu sinni í jakkafötum með hettu. Ég ætlaði mér því að telja upp hluti sem ég hef séð en hefði viljað vera laus við að sjá. Sama hvað ég reyndi þá datt mér hins vegar ekkert annað í hug en jakkaföt með hettu.

Undarlega vond hugmynd.


Að utan

Það er dýrtíð Danmörku og Svíþjóð þessa dagana. Þetta eru svo sem ekki ný tíðindi og margir höfðu sagt mér frá því áður en ég fór út en samt kom það á óvart. Það er sennilega 30-40 % hækkun frá því fyrra á öllu vegna gengisfalls krónunnar. Það er bara helvíti mikið og hækkar sennilega heildarpakkann um 100.000 kall. Ég hefði gjarnan viljað nota þann kall í annað. Að öðru leyti er fríið búið að vera gott.

Hápunktar:

Astrid Lindgren garðurinn: Mæli með að allir foreldrar skelli sér með krakkana sína í þennan garð og taki krakkann í sjálfum sér með. Það er ekki leiðinlegt að koma loksins í Kirsuberjadal jafnvel þó þeir bræður virðist hafa verið dvergar miðað við stærð húsanna.

_MG_8962

Sænskur matur: Svíar verða seint sakaðir um að vera gourmet matgæðingar en fyrir 34 ára gamlan mann sem flutti frá Svíþjóð fyrir 30 árum er meiriháttar að smakka Blodpudding með lingonsultu. Ekki var síðra að smakka sænskar kókosbollur sem kallaðar eru Delikatessen. Í öðrum löndum er allt sem orðið delicatessen er notað yfir e-ð sem inniheldur guðdómlegt bragð, konfekt úr hágæða súkkulaði, ostar sem hafa verið meðhöndlaðir í fjölda ára, afburða rauðvín eða unaðslegar kæfur úr alls kyns innyflum fugla. Í Svíaríki er delikatessen hins vegar haframjöl, smjör, kakó og sykur hnoðað saman í litlar kúlur og rúllað upp úr kókosmjöli. Hreinn unaður.

Spánn: Áður en ég fór út gerði ég mér grein fyrir að talsverðar líkur voru á því að ég myndi horfa á Spánverja vinna Þýskaland í húsi fullu af Þjóðverjum og bandamönnum þeirra. Það er óhætt að segja að spennan hafi verið rafmögnuð þegar leið á leikinn en ég vil þakka öllum sem sýndu mér andlegan stuðning með SMS sendingum. Það er hins vegar ljóst að spænska liðið var best á mótinu þrátt fyrir lipra takta annarra liða og tilfinningin þegar Casillas lyfti bikarnum var ólýsanleg blanda af létti, gleði og spennufalli. Ég vil líka að það komi fram að ég studdi Aragones í þvi að skilja Raúl eftir en hafði samt ekki trú á honum sem þjálfara. Fannst fáranlegt að skilja Guti þar sem hann hefði sennilega komið að góðum notum í Ítalíuleiknum. En þetta fór allt vel og það verður spennandi að fylgjast með liðinu í framtíðinni. Þeir geta náð öðrum titli en það verður erfitt.

Svo er brúðkaup á laugardaginn og eftir það liggur leiðin smátt og smátt heim.

 


Endursýning

Ég vildi bara benda þeim á, sem misstu af leiknum í gær, að hann verður endursýndur á sunnudaginn kl. 18:45. Eina breytingin verður sú að Þjóðverjar munu breytast í Ítali og Portúgalir í Spánverja.

Ef e-r hefur áhuga á að kveljast með mér, eða einfaldlega sjá mig kveljast, er sá hinn sami velkominn á Hjarðarhagann.


Tímamót

E-ð segir mér að ef leikurinn í kvöld fer í vítaspyrnukeppni vinni Portúgalir. Vissulega galin hugmynd en þeir eru með góðar skyttur og frambærilegan markvörð.

Gallinn við kenninguna er sá að hún byggir á frammistöðu þeirra gegn Englendingum í vítaspyrnum. E-r myndi segja að hún væri því í raun byggð á sandi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband