18.4.2006 | 23:07
Vond úrslit
Spænskir fjölmiðlar vildu meina að leikurinn við Barca væri prófraun fyrir Ancelotti. Ekki vegna þess að hann þyrfti að koma Milan til Paris heldur eru þeir á því að sigur benti til að hann væri fær að stjórna Real Madrid. Mér sýnist allt benda til þess að hann hafi fallið á prófinu en Milan spilaði ágætlega að mestu en enn einu sinni eru það snillingarnir sem gera út um svona leik og því miður var það ekki Schevchenko í þetta sinn.
Reyndar er ég ekki hrifinn af þeirri hugmynd að fá Ancelotti til Real. Það er e-ð hallærislegt að raða upp 7 frægustu þjálfurum heimi og þykjast ætla að taka einn þeirra. Ég held að það sé kominn tími til að taka frumlegar og skynsamlegar ákvarðanir en ekki vera að leita sífellt að e-u nafni. Persónulega vil ég fá Bernd Schuster eða Marco Van Basten. Rijkaard var áhætta hjá Barca og hann var mjög tæpur á timabili en hvar er hann núna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2006 | 17:28
Á skjánum
Ég er með evrópskar stöðvar á breiðbandinu og flakka reglulega á milli. Þetta er nú fyrst og fremst vegna áhuga á Spáni og spænsku en það fylgir heill pakki með alls staðar að frá Evrópu. Það reyndar merkilegt miðað við að alltaf er talið að gamla Evrópa sé menningarleg hvað mikið af sjónvarpsefninu er drasl. Vondir glimmerskemmtiþættir sem taka allt kvöldið eru alls ráðandi á Spáni og Ítalíu, fullir af hálfberum stelpum og e-m sjúskuðustu kellingum sem maður hefur séð. Þetta á þó einkum við um Ítalíu, þar virðist ekki einu sinni vera hægt að gera íþróttaþátt án þess að hafa eina ofurmálaða, sílíkonsprengda ljósku sem komin hefur ekkert til málanna að leggja annað en það að brosa framan í myndavélina meðan sköllóttir karlar með týpugleraugu blaðra um mikilvægi catenaccio.
Norrænu stöðvarnar eru skárri fyrir utan skelfilega hallærislega jukebox dagskrá á kvöldin. Það sem helst hefur vakið athygli mína er að reglulega sýna þessar stöðvar gamlar bíómyndir sem gaman er að sjá eða rifja upp. Um daginn var Hope and Glory sem er mynd sem á einmitt að sýna í svona miðli. Vel gerð feelgood mynd sem gleymist ef hún er ekki rifjuð upp öðru hvoru. Svona á RÚV líka að vinna að mínu mati, sýna góðar bíómyndir frá öllum tímabilum í staðinn fyrir að vera endalaust að endursýna Lost og Desperate Housewifes. Ég er ekki að setja út á þessa þætti en ríkið á ekki að vera eyða fjármunum í þetta heldur láta einkastöðvunum það eftir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2006 | 14:07
Fótboltatreyjur
Ef þú hefur ekki áhuga á fótboltatreyjum er þessi færssla ekki fyrir þig.
Fótboltapeysur eru furðulegt fyrirbæri. Sama hvað maður verður gamall þá er maður alltaf til í að bæta í safnið. Liðið sem maður styður kemur með nýja peysu á hverju ári og það eina sem heldur aftur af manni er Visa reikningurinn og heimilisbókhaldið. Svo lætur maður eftir sér að kaupa eina og eina og þær lenda flestar inn í skáp og eru bara dregnar fram í vikulegum innanhúsbolta. Og þar eru flestir í sínum treyjum, menn af öllum stærðum og gerðum. Eflaust finnst mörgum þetta barnalegt en fyrir mér er þetta órjúfanleg tenging við strákinn í sálinni. Maður er nú einu sinni búinn að vera með þessu dellu frá sex eða sjö ára aldri og man svo sannarlega eftir Henson eftirlíkingunum af Man Utd treyjum og Stuttgart og öllum þessum liðum. Svo fór maður að fara oftar til útlanda og gat keypt sér ekta treyjur sem því miður passa ekki alveg í dag.
Nokkrar treyjur standa samt upp úr m.a. vegna nostalgíu og stíls. T.d. Liverpool peysan að neðan. Þegar ég var smár var Liverpool með lang besta liðið og ég hélt með Man Utd. sem stóð þeim nokkuð langt að baki. Ég hataði þetta Liverpool lið en þegar litið er tilbaka hríslast um mann Shoot og Match nostalgían þegar maður sér þessa peysu. Hins vegar hef ég aldrei átt svona treyju en tælenskar eftirlíkingar fást á ebay fyrir þá sem vilja.
Ég hélt með Man Utd á þessum tíma eins og margir aðrir og Bryan Robson var í miklu uppáhaldi. á þessum tíma spiluðu þeir í Adidas búningum með Sharp auglýsingu og ég átti svona peysu frá Henson en aldrei neina Adidas ef ég man rétt. En það er mikil Shoot nostalgía í þessari peysu. Svona peysur kosta reyndar "an arm and a leg" þegar þær bjóðast á ebay. Hins vegar stendur eiginlega upp úr í minningunni þegar við vinirnir vorum að þykjast vera Robson, Stapleton eða Mike Duxbury. Þá var það grátbroslegt þegar Sævar vinur minn fékk Liverpool treyju og tösku í jólagjöf þrátt fyrir að vera United maður.
Platini var næstur á eftir Robson og ég átti tvær franskar landliðspeysur sem ég keypti í London 1986. Þessi er frá EM 1984 og var fyrirmyndin að HM 1998 peysunni. Mér finnst reyndar þessi flottari enda held ég ekki lengur með Frökkum, en einum vini mínum finnst nýrri peysan örugglega betri enda var hún límd við hann í nokkur ár. Ég á reyndar enn svona peysu en því miður gerði ég aulalega tilraun til þess fyrir mörgum árum að breytta henni í stutterma.
Eins og fleiri hélt ég með Stuttgart þegar Ásgeir Sigurvinsson var þar. Þessi treyja er síðan 1984 þegar þeir urðu meistarar. Af því tilefni splæsti Henson sjálfur í eftirlíkingu af treyjunni og ég fékk þannig í jóla-eða afmælisgjöf. Hann tímdi reyndar ekki að hafa skyrtukraga á henni og það voru engar rendur á ermunum en mér líkaði þessi treyja engu að síður vel. Ég er jafnvel að hugsa um að bragða á Dinkel Acker öli þegar ég fer á HM í Stuttgart í sumar.
Að neðan er einn vinsælasti Real spilari allra tíma, Juanito, sem var e-s konar Roy Keane þeirra Madridinga. Treyjan sem hann er í frá 1984 og vel þröng yfir kassann. Ég fékk eftirlíkingu af svona treyju fyrir nokkru enda er þetta klassísk eighties adidas treyja með Zanussi sem eru heimilistæki af bestu gerð.
Árið 1986 hætti Real að spila í Adidas og við tók Hummel sem entist í heil 9 ár. Treyjan á myndinni er í sérstöku uppáhaldi því karl faðir minn kom með svona peysu frá London 1987. Sigurganga liðsins fyrstu fimm árin í Hummel var mögnuð og ég tengi þetta alltaf við Butrageno, Michel, Sanchez, Gallego, Gordillo og co. Ég verð samt að viðurkenna að mér fannst alltaf dálítið skrýtið að Real væri að spila í búningum frá Hummel en málið var að fyrrverandi leikmaður þeirra að nafni Jansen vann fyrir Hummel og náði þessum samningi.
Talandi um Hummel þá hefur danska dýnamítið alltaf verið í Hummel þangað til þeir skiptu yfir í Adidas fyrir stuttu. Ákveðin skandall en kannski var þetta orðið aðeins of ódyrt þegar HK er komið í Hummel. Búningurinn að neðan er eins og margir muna frá 1986 en ég átti svona treyju en veit því miður ekkert hvar hún er. Grunar þó að hún hafi lent í e-i söfnun. Það er e-r norrænn Polarn og Pyret fílingur í þessari, mjóar rendur og hlýir litir.
Eins og áður sagði var Platini í uppáhaldi og juve líka þar til ég sá ljósið 1987. Þetta er hins vegar klassísk treyja, mjög gamaldags Kappa treyja með Ariston auglýsingu. Á þessum tíma voru stuttbuxur yfirleitt mjög þröngar en ekki á Ítalíu. Þar voru frekar síðar stuttbuxur og aðskornar treyjur. Ég á enn svona treyju sem ég fékk 1987 en það er ekki nóg með að treyjan sé orðin of lítil heldur er sniðið þannig að það þyrfti að klippa hana utan af mér ef mér tækist að troða mér í hana.
Að neðan er alger klassík, Adidas Milan treyja með Mediolanum auglýsingu. Bullandi nostalgía! Einn sem ég þekki úr Kópavogi og lagadeildinni fékk víst svona treyju gefins sem Costacurta hafði spilað í þegar hann var skiptinemi á Ítalíu. Ég var að íhuga að kaupa hana af honum á 15.000 í den en úr þvi varð þó aldrei. Hins vegar keypti ég adidas eftirlíkingu í Spörtu um svipað en því miður gleymdist hún í búningsklefa e-s staðar að ég held. Því miður.
Þegar ég gifti mig 2004 fékk ég svona Spánar 1982 treyju frá eiginkonu minni. Þetta er klassíkt adidas snið og ég geri ekki ráð fyrir öðru en að ég klæðist henni þegar ég sé Spánverjanna á HM í sumar. Vonandi lendi ég ekki í trylltum Úkraínu lýð fyrir vikið.
Fyrst ég er kominn til Spánar 82 verður þessi að fylgja með þó ekki sé nema fyrir nostalgíuna. Ég hef aldrei haldið með Englandi en þessi treyja er svo dásamlega hallærisleg að maður getur ekki annað en hrifist með. Þessi flotaforingja stemmning á herðunum og svo er treyjan framleidd af Admiral til að toppa það. Þegar þeir duttu út sagði Ray Wilkins að það væri svartur dagur fyrir knattspyrnuna að England og Brasilía hafi dottið út. Þetta segir allt sem segja þarf um ofmat Englendinga á sjálfum sér sem virðist aldrei ætla að enda.
Þegar ég var að taka til hjá mér um daginn fann ég hina rómuðu á ævisögu Glenn Hoddle, Leiðin á toppinn. Ég kíkti í hana og mundi þá eftir þessum klassíska Tottenham búningi. Þetta var á því undarlega tímabili þegar Tottenham og Aston Villa voru í fremstu röð og ég held að það sé hægt að fá svipaða treyju hjá Jóa Útherja. Aston Villa spilaði hins vegar nokkrum árum seinna í Henson búningum þannig að íslenska útrásin hófst með stórkostlegu framtaki Halldórs Einarssonar.
Boltapeysuumfjöllun verður aldrei neitt án Ajax. Það er e-ð öðruvísi og flottara við Ajax búningana en flesta aðra. Þessi er frá Basten tímabilinu, Kappa með TDK auglýsingu. Ég hef hins vegar aldrei átt almennilega Ajax treyju enda hafa tilfinningar mínar til liðsins verið blendnar síðan þeir sungu "Milan? Who the fuck is Milan?" eftir úrslitaleikinn 1995.
Ég hef aldrei haldið með barcelona en þessi treyja er alger klassík og ég væri örugglega búinn að kaupa hana á 100 pund á ebay ef ég væri barca maður. Þeir spiluðu í svona treyju nær óbreyttri í 10 ár og þess vegna er þetta einfaldlega Barcelona eins og maður þekkir það. Það er auðvitað engin auglýsing en framleiðandinn var Meyba sem fáir þekkja.
Ég hef heldur aldrei verið Bayern maður en þetta er líka klassík. Það er alltaf gaman þegar auglýsingarnar eru orðnar úreltar, Commodore var auðvitað kóngurinn í leikjatölvum ca. 1987 en ég hef ekki hugmynd um stöðu þess í dag. Hræddur um að e-r myndi hlægja ef maður segðist hafa keypt sér Commodore fartölvu. Þessi treyja minnir líka á baráttu Real við Bayern og svo fá Bæjarar plús í kladdann fyrir að hafa spilað í Meistaradeildinni 2001 í svipuðum treyjum.
Tvær frá Buenos Aires. River Plate og Boca Jrs. Erkifjendur. River treyjan er frá 1986 sem er klassík á þeim bæ þegar þeir urðu heimsmeistarar. Það er e-ð mjög flott við þessa skárönd því þetta er Suður-Ameríku-legt og tengir mann við herforingja eða e-ð álika. Boca treyjan er frá 1981 þegar Maradona spilaði með þeim í fyrra skiptið. Menn hljóta að muna eftir samantektinni með honum sem Bjarni Fel sýndi í gamla daga og argentíski þulurinn gólaði "golgolgolgolgolgolgolgolgolgolgolgoooooooooldemaradona" yfir.
Þetta er snilldartreyja. Flamengo frá Brasílíu sem sjálfur Zico spilaði með. Treyjan er flott og svo fíla ég hvað Adidas merkið er klunnalegt og í raun Flamengo merkið líka. Mér skilst að þetta sé vinsæalasta liðið í Brasilíu og þeir fá mitt atkvæði fyrir þessa treyju þó ég hafi reyndar aldrei séð þá spila. Væri reyndar til í að sjá leikinn frá 1981 þegar þeir rúlluðu Liverpool upp í Tókýó.
Ég verð líka að setja eina úr frönski deildinni. Þetta er St. Etienne treyja ca. 1981 og ég held að Jón Agnar félagi minn hafi verið svo heppinn að næla sér í svona treyju þegar hann bjó í Frakklandi. Þetta er klassískt franskt, stór og klunnaleg auglýsing og að sjálfsögðu frá Le coq sportiv og kallinn hefur örugglega verið í Patrick takkaskóm. Liðinu hefur reyndar gengið upp og ofan síðustu ár en ég held að ég fari rétt með að hljomsveitin hafi verið nefnd eftir þessu liði.
Þessar treyjur eru nær allar frá níunda áratugnum enda er ég persónulega á því að það sé besti tíminn. Allt fram á miðjan áttunda áratuginn var nær eingöngu um að ræða venjulegar bómullarpeysur án auglýsinga og upp á síðkastið eru eiginlega allir í eins peysum eftir því hver er framleiðandi. ÞAð vantar að gefa hverju liði karakter. Ég var t.d. að skoða HM treyjurnar og ég get ekki annað séð en að firmakeppnis fyrirkomulagið sé allsráðandi. Allar Puma treyjurnar eru t.d. eins og það sama má segja um Nike. Jói útherji hefði alveg eins getað reddað Prostar peysum á línuna. Það er smá munur á milli Adidas treyjanna en í grunninn eru þær eins, sami kragi og eins snið. Kannski fær maður sér Riquelme treyju.
Eina treyjan sem mér finnst flott er nýja Holland peysan frá Nike, einföld og dálítið gamaldags.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.4.2006 | 12:27
Söngkeppnir
Á föstudaginn lauk Idolinu og á laugardaginn var söngkeppni framhaldsskólanna. Annað er nokkuð gott sjónvarpsefni, hitt ekki. Fór bara að spá í hvernig þeimm uppí á RÚV dettur í hug að taka laugardagskvöld undir þetta. Fyrr um daginn var undankeppni og svo komust 12 keppendur og satt best að segja var hver öðrum leiðinlegri. Þetta var eins og léleg hæfileikakeppni, sem hægt er að sýna upptöku frá á sunnudagseftirmiðdegi. Mér alveg sama þó e-r frægir hafi "stigið sínu fyrstu skref þarna". Þeir voru eflaust leiðinlegir í den og eru það margir enn. En toppurinn var auðvitað þegar hinn stórskemmtilegi Óli Palli tilkynnti sigurvegarann fyrir hálftómu húsi.
Þegar ég var í menntaskóla hafði ég gaman af þessu og tók meira að segja keppnina 1991 upp og horfði á. En hún var ekki í beinni heldur fóru þeir sem höfðu gaman af þessu á keppnina og gátu svo séð brot úr henni seinna. En að taka heilt laugardagskvöld undir þessi leiðindi er ljótur leikur.
Idolið var aðeins meira spennandi en þegar búið var að tilkynna úrlitin fór ég að velta fyrir mér til hvers þetta er. Er Snorri e-ð betur settur en Ína? Mun þetta tryggja honum betri plötusölu? Verður hann vinsælli Norðausturkjördæmi? Það hefur sýnt sig að það virðist ekki skipta máli hvort þú lendir í 1., 2. eða 3. sæti því ef maður fer að syngja leiðinleg cover lög sem fást miklu betri annars staðar þá er Kalli Bjarni handa við hornið. Og hver vill það?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2006 | 12:13
A Clockwork Orange
Ég var að horfa á Villarreal Inter um daginn og það var vélinni beint upp í stúku þar sem bullurnar sem fylgja Inter voru staðsettar. Þarna var ein þéttvaxinn bulla, krúnurökuð og með allsérstakt tattú á hendinni. Ég sá ekki betur en að þetta hafi verið fræg mynd úr Clockwork Orange þar sem klíkan stendur í e-m undirgöngum og býr sig undir að lúskra á róna. Þessi mynd var einu sinni í miklu uppáhaldi hjá mér og ég man enn þegar hún var hvergi til á vídeóleigum því flestar myndir voru frá Bretlandi þar sem hún var bönnuð. Hins vegar fann ég hana á Aðalvídeóleigunni þar sem þeir lumuðu á kóperingu. Ég held að þetta hafi verið 1989 og ég var sveittur í lófunum þegar ég sótti eintakið niður á Klappastíg. Ég keypti hana um daginn á DVD og hún eldist mjög vel en hins vegar á ég erfitt með að segja að þetta sé besta mynd sem ég hef séð enda eru margar aðrar sem koma til greina.
Hins vegar er ég hræddur um að Stanley Kubrick hafi ekki ætlað sér að gera Alex og félaga að fyrirmyndum fyrir fauta hér og þar um heiminn. En kannski túlkar Interbullan boðskapinn bara sér í hag.
En hvaðan kemur orðið bulla?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.4.2006 | 11:53
Barn í vændum
Ég fór í mæðraskoðun með Sillu áðan. Allt í einu varð það mjög raunverulegt að það er að bætast við nýr einstaklingur á heimilinu. Það er svo gott sem allt tilbúið fyrir komuna en engu að síður hefur þetta verið frekar óraunverulegt, í bumbunni er e-r vera sem við þekkjum ekki neitt og vitum ekki hvernig lítur út. Núna er staðan hins vegar sú að það gæti verið að þetta gerist fyrir páska og það er ekki langt í þá.
Ég er eiginlega farinn að hlakka mikið til.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.4.2006 | 16:09
Björn Bjarnason
Ég kíki stundum inn á heimasíðuna hans Björns, veit ekki af hverju því ég er nær alltaf ósammála honum. Kannski geri ég þetta vegna þess að með því að lesa færslurnar hans kemst maður inn hugarheim innstu klíku sjallana. Þetta segir hann m.a. í nýrri færslu um breytingu á formi RÚV.
"Menn þurfa að vera mjög sérstaklega hugmyndafræðilega innréttaðir nú á dögum til að komast í uppnám vegna slíkrar breytingar - sérstaklega þegar markmið hennar er að styrkja stöðu viðkomandi ríkisfyrirtækis í samkeppni við einokun einkaaðila á almennum fjölmiðlavettvangi."
Er þetta í samræmi við hægristefnu Sigurðar Kára og co. Er hugmyndin að styrkja ríkisfyrirtæki í samkeppni við einkafyrirtæki? Ég lít fram hjá orðinu einokun enda eru stofnanir í þjóðfélaginu sem eiga að passa upp á slíkt. En Björn virðist ekki treysta Símanum, Skjá einum, Mogganum og fleirum til að takast á við samkeppnina. Þvílíkur hægrimaður!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2006 | 20:54
Liga de campeones
Ég var líklega að horfa á eina verstu frammistöðu liðs í langan tíma í kvöld. Get ekki annað en spurt, hvernig stendur á því að juve er að sigra Serie A annað árið í röð. Eru brögð í tafli? Þetta er í annað sinn á tveimur árum sem juve dettur út á skammarlegan hátt fyrir ensku liði. Þeir urðu að vinna en fá varla færi. Ibrahimovic ömurlegur og hver er gamli kallinn á miðjunni sem mun leiða jogo bonito á HM. Ég efast um að mórallinn sé góður og þeir taka væntanlega við ítalska titlinum með beiskt bragð í munninum. En Arsenal eru vel að þessu komnir, hafa verið sannfærandi gegn tveimur stórveldum og hafa sögulegt tækifæri til að komast í úrslit. En það getur verið erfitt að eiga við Villarreal. Allt í einu er Arsenal komið í Golíat hlutverkið sem þeir hafa verið fegnir að vera lausir við. Og ef Riquelme verður í stuði gæti enn þá sögulegri viðburður átt sér stað. Og það má ekki gleyma að þeir eru Bretabanar.
Margir eiga eftir að líta á hinn undanúrslitaleikinn sem hinn sanna úrslitaleik. Barca fóru nokkuð örugglega áfram en það vantaði samt glansinn sem verið hefur. Voru meira að segja nokkuð heppnir að ekki var jafnað. Ég held enn í Milan sigur og mótmæli öllum sem telja þá leiðinlega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2006 | 17:19
Boltamýtur
Í boltaheiminum hefur Barcelona sérstakan sess. Liðið spilar glæsilegan fótbolta í takt við fegurð borgarinnar, það gefur sig út fyrir að vera her Katalóníu og hefur aldrei spilað með auglýsingu á sínum búningum. Þessi ímynd er mjög sterk og margir trúa því að FC Barcelona sé yfir aðra klúbba hafið. Hins vegar hefur Real Madrid orðið e-s konar birtingarmynd alls þess slæma í boltanum. Lið sem kaupir og kaupir en nær engum árangri nema með hjálp stjórnvalda. Þetta má rekja aftur til sjötta áratugarins og jafnvel lengra en hefur einkum tengst Franco og valdatíma hans.
Staðreyndir málsins hafa hins vegar ekki alltaf verið á hreinu. Sem dæmi um þessar ásakanir má nefna fræga sögu um Di Stefano og hvernig hann kom til Real Madrid. Bæði Real og Barca höfðu fylgst með honum en annað liðið samdi við hann en hitt liðið við félagið sem hann spilaði með og hét Millionaros. Þegar þetta kom í ljós var úrskurðað svo að Real skyldi fá hann í eitt ár en Barcelona í eitt ár. Daginn fyrir fyrsta leik Di Stefano með Real gegn Barca ákváðu þeir síðarnefndu að falla frá því að fá hann til sín. Gott ef það var ekki m.a. vegna þess að þeir fengu Ungverjann Kubala til sín sem ekki þótti síðri en sjálfur Puskas. Real vann leikinn með fimm mörkum og DiStefano skoraði 4. Þannig hóst ævintýraleg sigurganga Real sem lagði grunninn að veldi félagsins. Það var hins vegar ekki Franco sem átti heiðurinn af þessu enda hafði hann lítinn áhuga á fótbolta þó að því verði ekki neitað að forseti félagsins á þeim tíma, Santiago Bernabeu, var í góðum tengslum við fasista og sjálfur falangisti. En fimm evróputitlar í röð komu ekki vegna þess að skrækur hershöfðingi á Spáni hafði svo mikil áhrif. Þetta kemur m.a. fram í bók eftir hinn snjalla Phil Ball sem m.a. skrifar á Soccernet.
Þá sýnir það sig að eftir dauða Franco hefur Real unnið mun fleiri titla en Barca. 14 spánartitlar og 3 evróputitlar gegn 9 spánartitlum og 1 evróputitli. Flesta titlana vann Real með kjarna af uppöldum leikmönnum og alls engum súperstjörnum en Barcelona hafa í gegnum tíðina verið duglegir að versla stór nöfn eins og Cruyff og Maradona sem skiluðu þeim hins vegar litlu. Þá hafa Katalóníumenn ekki verið hátt skrifaðir, einn og einn notaður til að halda í ímyndina en ekki mikið meira. 1998-1999 voru þeir meira að segja kalaðir túlípanarnir vegna allra Hollendingana. Hafi menn áhuga á liði sem heldur í ræturnar og spilar ekki með auglýsingu þá er nær að leita til Bilbao sem er einungis skipað Böskum.
Barcelona er stór klúbbur með glæsta sögu en þeir eru sama peningamaskínan og aðrir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2006 | 13:23
Íslenskar bíómyndir
Þær eru alltaf umdeildar. Sumir vilja ekki sjá þetta en aðrir líta á það sem e-n viðburð í hvert skipti sem íslensk mynd kemur í bíó. Klæða sig upp eins og í leikhúsferð, borga 1600 kall í bíó og fá ekki einu sinni lazyboy. Í mínum huga er þetta ekki lengur neinn viðburður, ef myndin er spennandi þá fer ég annars ekki. Hins vegar á ég mér uppáhalds myndir en ekki í neinni röð:
1. Punktur punktur komma strik: Þessi er frábær, tónlistin hans Valgeirs er unaðsleg, kvikmyndatakan fyrsta flokks og svo eru frábærar setningar eins og " Sá sem kann landafræði ferðast ókeypis" og "Hvað verður nú um Jaqueline og börnin".
2. Óðal feðranna: Hrafn er ekki beint í uppáhaldi en þessi er alltaf góð. Það er líka e-r sérstakur ca. 1980 sveitafílingur sem minnir mann á sveittar útileguferðir á malarvegi. Svo er Sönn ást eftir Magnús Eiríksson alger perla.
3. Með allt á hreinu: Frekar mikil klisja en algerlega ómissandi.
4. Börn náttúrunnar: Fór einn á þessa í Stjörnubíó sáluga og aðrir í salnum voru flestir komnir yfir sjötugt. Það fór kliður um salinn þegar starfsstúlka á Hrafnistu í myndinni spurði hvort það mætti bjóða "mjólk og sykur". Skildi reyndar ekki hvað var að þessu orðalagi en þetta var greinilega e-r sammanleg reynsla annarra bíógesta af kerfinu. En myndin er mjög góð og atriðin á Vestfjörðum hverju öðru betra.
5. Sódóma Reykjavík: Sá þessa aftur um daginn og húmorinn í henni eldist mjög vel.
6. Nýtt líf: Hvað, hafiði aldrei séð verbúð? Besta lífsmyndin.
7. Englar alheimsins: Friðrik Þór hefur verið mistækur en þessi er mjög góð. Ingvar frábær en stemmningin næst e-n veginn alveg sérstaklega í lokin þegar hann er kominn í öryrkjablokkina.
Ég er alveg örugglega að gleyma e-m.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)