HM, B-riðill

Þessi riðill verður seint kallaður dauðariðill og því verður væntanlega lítið um óvænt úrslit.

England: Englendingar eru sigurvissir í ár og halda virkilega að þeir séu næst líklegastir til að vinna keppnina á eftir Brössum. Ég hef aldrei skilið þetta ofmat þeirra á sjálfum sér sem virðist vera margfaldað hér á landi. Ef Gísli Marteinn fer að mæta í útsendingar og tala um að Englendingar séu bestir og skemmtilegastir mun ég gera e-ð slæmt og lýsa yfir ósakhæfi vegna stundarbrjálæðis. Allt í lagi, þetta er fínt lið á enskan mælikvarða en vörnin verður líklega ekki jafn öflug og 2002, Owen er tæpur, þeir eru ekki með tæklara á heimsmælikvarða inni á miðjunni, Gerrard hefur ekki átt sínar bestu stundir í enska búningnum, Lampard stendur þeim bestu nokkuð langt að baki og Beckham er aðallega góður kantmaður en ekki mikið meira en það. Þetta veltur því mikið á Rooney en ég held að það sé óskhyggja að hann verði e-r Maradona á mótinu. Mesta lagi undanúrslit og komist þeir þangað verður það grískþýsku aðferðinni að þakka, spila þétta vörn og koma hratt upp. Svo má reyndar ekki gleyma því að þeir gefast aldrei upp. En þeir mættu láta af því að mæta með miklum lúðrablæstri á öll stórmót.

Trindad og Tobago: Þó þeir hafi unnið Ísland 2-0 hef ég ekki mikla trú á þessu liði. Dwight York er kominn vel á fertugsaldurinn og verður liðinu góður leiðtogi en ég held að það verði erfitt fyrir þá vinna öguð lið eins og Svía, Englendinga og Paraquay. Neðsta sætið en eiga eftir að gleðja e-a því þeir eru svo jákvæðir og krúttlegir.

Svíþjóð: Þarna ólst ég upp en mér er samt ekki vel við góðan árangur Svía. Það er e-ð leiðinlegt við þá en þeir eru með hörkulið sem gæti farið langt. Hinn óþolandi Ibrahimovic spilar jafnan best í gula búningnum og Larsson hefur verið að gera fína hluti á Spáni en þó fáar stórstjörnur séu í liðinu eru þeir mjög agaðir og geta spilað stórskemmtilega. Spái því að þeir fari áfram og taki jafnvel fyrsta sætið í riðlinum en þeir fara ekki lengra en í átta liða úrslitin.

Paraquay: Þessir hafa verið með á þremur síðustu HM og stóðu t.d. lengi í Frökkum 1998. Þeir spila hins vegar engan sambabolta, eru harðir í horn að taka og fá á sig fá mörk. Chilavert er reyndar hættur en það er víst annar góður komin í markið og svo er Roque Santa Cruz góður frammi. Þetta lið á ekki eftir að heilla marga en þeir ættu að ná 3. sætinu en ég er of bjartsýnn ef ég spái þeim lengra. Takist það hins vegar fara þeira varla lengra en í 16 liða.

Svíar og Englendingar upp úr þessum riðli.


HM, A-riðill

Nú er sólin farin að hækka verulega á lofti, úrslit ráðin í flestum deildum (nema vonandi á Ítalíu), einn súr úrslitaleikur eftir í Meistaradeildinni og því er full ástæða að fara að snúa sér að HM í sumar. Það er auðvitað von á veislu og ég er svo heppinn að vera á leið til Þýskalands að sjá 2 leiki með Spánverjum. Ég ætla aðeins að fara yfir liðin og möguleika þeirra eins og það horfir við mér. Það er best að taka þetta eftir riðlum en ég ætla ekki að gerast svo djarfur að spá fyrir um einstaka leiki heldur almennt hvernig ég tel að liðunum eigi eftir að vegna.

Fyrst er að fara yfir A riðilinn sem gæti verið sá lélegasti í keppninni:

Þýskaland: Þetta lið er algerlega óskrifað blað, þetta lítur ekki vel út en maður veit svo sem alveg að þeir gætu farið alla leið.Klinsmann á samt erfitt verkefni fyrir höndum, hann hefur verið mikið gagnrýndur heima fyrir og býr í Kaliforníu eins og fífl. Hann er reyndar ekki þessi dæmigerði agaði Þjóðverji, átti t.d. gamla VW Bjöllu og hefur að ég held aldrei verið með yfirvaraskegg, en sem leikmaður var hann á fullu allan tímann og verður að smita því til sinna manna. Hann er reyndar búinn að taka þá mjög svo mikilvægu ákvörðun að hafa Lehmann í markinu og það gæti verið sterkur leikur. Lehmann er einfaldlega í miklu betra formi en Kahn en þeir eiga að hins vegar sameiginlegt að vera hrikalega leiðinlegir. Þá bíður Ballack mikil ábyrgð að reyna að koma ungu leikmönnunum í gang en miðað við frammistöðuna á HM 2002, þar sem hann kom þeim í úrslitin en missti af þeim leik vegna banns, er hann fær um að standa undir þessu. Hvað hefði gerst ef hann hefði verið með veit enginn. Nái Podolski og Klose að skora e-ð og verði Ballack í stuði hallast ég að því að þeir fari í undanúrslit.

Costa Rica: Árið 1990 mætti Costa Rica með lið á HM sem var skipað áhugamönnum en komst samt upp úr sínum riðli meðan Svíar og Skota sátu eftir með sárt ennið. Duttu svo út fyrir hinum fagra Tomas Skuravy og félögum í Tékkóslóvakíu í 16 liða úrslitum. Ég man að það þótti voða fyndið að markvörðurinn eða e-r annar var hárgreiðslumaður. Þeir komust aftur á HM 2002 og voru í riðli með Brössum og Tyrkjum en féllu út á markamun. Veit samt ósköp lítið um að þetta lið, Wanchope er en aðalmaðurinn og þrátt fyrir að vera alger flækjufótur er hann til alls líklegur. Ég er samt ekki mjög bjartsýnn fyrir þeirra hönd en það er örlítill séns að þeira fari áfram en ekki lengra en í 16 liða.

Pólland: Síðan hætt var að sýna þýska boltann á RÚV veit maður ekkert um þessar austantjaldsþjóðir. Ég man að minnta kosti ekki eftir mörgum Pólverjum á Spáni, Englandi og Ítalíu. Pólverjar hafa hins vegar góða reynslu af því að spila í Þýskalandi á stórmóti og verða að teljast líklegir að komast áfram en annars sé ég þá ekki fara mikið lengra en það. Satt að segja þá er þetta eitt af þeim liðum sem mér gæti ekki verið meira sama um nema þeir spili við Englendinga þá vona ég að þeir vinni.

Ecuador: Voru með á síðasta HM og eru komnir aftur. Ástæðuna má rekja til þess að þeir spila heimaleikina í höfuðborginni Quito sem liggur mjög hátt yfir sjávarmáli og taka flest stigin þar eins og Bólivía er fræg fyrir. Þetta leiddi til þess að þeir voru í 3. sæti í Suður Ameríku sem er frábær árangur en þeir munu væntanlega berjast aftur um 3. sætið í sumar við Costa Rica sem fleytir þeim ekki langt.

Það verða því Þjóðverjar og Pólverjar sem fara upp úr þessum riðli.


Stones eða Bítlarnir

Það varð e-r vakning í þjóðfélaginu um daginn þegar yngri kynslóðin taldi á sér brotið þegar spurt var í svona Hin hliðin dálkum hvort viðkomandi væri Rolling Stones eða Bítla. Vildu margir meina að þetta sýndi tangarhald 68 kynslóðarinnar á þjóðfélaginu en ég held að það sé bull. Þetta er frekar svona rúgbrauð eða franskbrauð spurning um hvernig karakter maður er, harður eða mjúkur. Ég er tvímælalaust bítla maður þó ég geti alveg sætt mig við mörg af lögum Stones. Ég safnaði Bítlaplötum í den og á meðal annars allar á vínyl. Hins vegar hef ég áttað mig á með tíð og tíma að lög sem ég hélt að ég fílaði og vildi fíla voru aldrei í uppáhaldi þegar á reyndi. Dæmi um þetta er Lucy in the sky with Diamonds. Þetta lag er á Sgt. Peppers sem almennt er talin best eða var það. Mig langaði virkilega að finnast þetta best lagið því takturinn er þungur og lagið frægt sem e-s konar sýrutripp. Ég held að ég hafi hins vegar aldrei fílað það alveg enda er viðlagið frekar slappt singalong. Það er kannski þannig með önnur lög líka með öðrum hljómsveitum. Annað hvort var maður ungur og vitlaus eða maður hefur þroskast en það er reyndar ólíklegt.

Í seinni tíð hafa Rubber Soul, Revolver og Hvíta albúmið komist á toppinn og bestu lögin að mínu mati eru Sexy Sadie, Julia, In my life, Blackbird og fleiri í þeim dúr enda voru Bítlarnir þar á heimavelli. Yesterday, Yellow Submarine, Let it be og fleiri lummur læt ég öðrum eftir.


Ekki gott

Milan úr leik og það er súrt. Þeir voru reyndar ekki að gera brilliant hluti en  Shevchenko skoraði að því er virtist fullkomlega löglegt mark en þýski tannlæknirinn var ekki alveg með á nótunum. Líklega er þetta í fyrsta skipti sem ég mun halda með ensku liði í úrslitum Meistaradeildarinnar. Er samt ekki viss því það væri svolítið fyndið ef Tottenham kæmist áfram á kostnað Arsenal. Ég þoli ekki Barcelona en verð að viðurkenna að snilli Ronaldinho gleður augað annað slagið. Samt var e-ð ferlega hallærislegt þegar hann leit uppí stúku eftir að hann gaf stungusendingu. Það hefur ekkert gildi að horfa í aðra átt eftir að boltinn er farinn og hvað þá uppí stúku. Svo fer þessi markvörður þeirra skelfilega mikið í taugarnar á mér, svona vel girtur gæslustjóri sem er alltaf að skutla sér með tilþrifum án nokkurs tilgangs. Og pústar á eftir.

Eigum við ekki að segja að Arsenal vinni 2-1.


Landkönnuðir

Ingólfur Arnarson, Leifur Eiríksson, Kólumbus, Magellan, Marco Polo, Rasmussen og co. Allt eru þetta menn sem koma upp í hugann þegar orðið landkönnuður ber á góma. Menn sem fóru af stað á vit ævintýra í óvissu í von um að nema ný lönd og óþekkta staði. Nú hefur heimurinn verið kortlagður nokkuð vel og maður þarf ekki nema að fletta landi upp á netinu til að fá allar upplýsingar. Þrátt fyrir það eru enn þann dag í dag að bætast við mikilmenni í þennan hóp og nú síðast er það enginn annar en Egill Ólafsson stuðmaður sem fengið hefur titilinn landkönnuður í auglýsingum frá Ferðaskrifstofunni Emblu. Hnyttinn hann Egill, lífskúnstner og landkönnuður. Þeir mega reyndar eiga það hjá Emblu að þeir hafa gert spennandi ferðir og áfangastaði að martröð með því að gera landslið leiðinlegra Íslendinga að farastjórum. Hver fer í ferð sem til Kína sem stjórnað er af Þórhildi Þorleifsdóttur og Arnari Jónssyni? Arnar er kannski í lagi en Þórhildur?? Ég hvet sem flesta að sitja frekar heima.

Liga de campeones

Heimir, Guðni og Hemmi voru sammála um að Arsenal verðskuldaði að fara í úrslitin. Hefðu þeir sagt það sama ef ítalskt eða þýskt lið hefði spilað upp á 0-0 og aðeins náð 2 skotum á markið, líklega bæði undir lokin? Það efast ég um enda er þessi aðdáun á enska boltanum komin langt út fyrir öll velsæmismörk. Staðreyndin er sú að Arsenal liðið var lélegt og leiðinlegt í kvöld og á ekki skilið að fara áfram frekar en Villarreal. Hins vegar geta Villarreal sjálfum sér um kennt, Riquelme sýndi aldrei sitt rétta andlit og það hlýtur að vera áhyggjuefni hvað honum gengur illa á móti Gilberto. Vítið var hins vegar vafasamt en það þarf enginn að segja mér að Arsenal hafi aldrei fengi neitt dæmt sér í vil undir vafasömum kringumstæðum. Það getur hins vegar allt gerst í París og ég veit af nokkrum Tottenham mönnum sem munu naga neglurnar niður í kviku þann 17. maí.


Allenalli

Þegar ég sat með nýbakaða dóttur mína fyrir framan tækið í gærkvöldi áttaði ég mig á að sunnudagskvöld eru Woody Allen kvöld á Skjá 1. Nú er ljóst að mannkynið skiptist í tvo hópa vegna Woody Allen, þá sem finnst hann fyndinn og þá sem þola hann ekki. Ég fell hiklaust í fyrri hópinn enda finnst flestar myndirnar hans frá 1970 til 1990 frábærar og gömlu myndirnar sem maður sá fyrir mörgum árum á RÚV eldast miklu betri en Carry on myndirnar sem voru sýndar um svipað leyti. Man reyndar að mér fannst vera e-ð óskilgreint samband milli Woody Allen og Dave Allen en ég  hef samt engan áhuga á að sjá gamla þætti með Dave því ég efast um að þessar kaþólikkabrandarar séu góðir í dag og vil því halda þeim fyndnum í minningunni. En blessuð sé minning hans.

Þar sem ég tel góðan lista segja meira en mörg orð um smekk ætla ég að setja fram uppáhalds Woody Allen myndirnar mínar:

1. Hannah and her sister: Þessi komst frekar nýlega á toppinn en ég hef lært að meta hana meira og meira í gegnum tíðina. Michael Caine er frábær og Diane Wiest, Mia Farrow og co. eru öll mjög góð. Þó að húmorinn sé góður er þetta ekki hreinræktuð gamanmynd. Tónlistin er líka frábær.

2. Manhattan: Þessi hefur lengi verið á toppnum en er kannski ekki alveg eins góð og Hannah and her... Þessi er reyndar miklu flottari og kynningaratriðið í byrjun er eitt það besta sem ég hef séð. New York hefur aldrei verið flottari.

3. Bananas: Þetta er bara einfaldlega frábær gamanmynd. Atriðið í neðanjarðarlestinni þegar hann Sylvester Stallone birtist er snilld. Svo er tónlistin frábær, "Quero la noche" og fleiri eftir Marvin Hamlisch.

4. Annie Hall: Maður getur ekki annað en sett þessa á listann. Hún er mitt á milli grínmyndanna í byrjun og alvarlegri mynda sem komu seinna. Svipurinn á Allen þegar Christopher Walken er að skutla honum er klassískur.

5. Radio Days: Þessi er ekki oft ofarlega á lista yfir Woody Allen myndir en hún er alltaf í uppáhaldi hjá mér. Æskuminningar eru rifjaðar upp með lögum frá fimmta áratugnum og sum þeirra eru mjög góð. Það er e-r virklega góður fílingur í þessari og ég get mælt með henni við hvern sem er.

Ef að menn hafa ekki gaman af ofangreindum myndum hafa þeir ekki gaman af Woody Allen og þá nær það ekki lengra. Ég verð hins vegar að lokum að minnast á stórleik Gene Wilder í hlutverki Dr. Doug Ross í Everything you always wanted...... Þessi leikari er frábær og ég verð eiginlega að tékka á fleiri myndum með honum. Man reyndar eftir Stir Crazy með honum og Richard Pryor sem ég sá fyrir mörgum  árum og var fyndnasta mynd sé ég hafði séð þá. Líst samt ekki á að sjá hana aftur.


Lítill demantur

Það er kominn lítill demantur á heimilið. Stúlka sem fæddist þann 22. apríl og er yndisleg í alla staði. Það er því mikill sælutími hjá stelpupabbanum núna.

Annars gekk þetta allt mjög vel og það er mikill synd að það eigi að leggja niður MFS prógrammið. Við vorum í Hreiðrinu uppi á Landspítala og aðstaðan þar er til fyrirmyndar. Deildin var full en manni leið engu að síður eins og maður væri einn í heiminum. Hins vegar hef ég tekið eftir einu þegar ég hef komið upp á Lansa og það er að starfsfólkið eyðir drjúgum tíma fyrir framan sjónvarpið í setustofunni.Það var reyndar ágætt á laugardaginn þegar miðaldra kona frá líklega Filipseyjum var búin að stilla á Liverpool- Chelsea. Mér gafst því færi á að horfa á seinni hluta leiksins meðan ég japlaði á hakkabollum og dáðist að þeirri nýfæddu. Það var hins vegar ekki bara óþol mitt gagnvart jose mourinho sem leiddi til þess að ég vildi alls ekki að Chelsea jafnaði heldur var ég einnig hræddur um að sú filipeyska myndi ganga af göflunum og vekja barnið tækist þeim að jafna, slík var spennan og stunurnar í hvert skipti sem e-ð gerðist á vallarhelmingi Liverpool.

Þetta minnti mig á þegar pabbi var uppi á spítala fyrir ári síðan. Í hvert skipti sem hann ætlaði að kíkja á fréttirnar var einhver Öskubuska að glápa á Bold and the beautiful eða e-r aðrar sápur og láta sig dreyma um betri tíð í faðmi olíukóngs frá Texas. Auðvitað kunni góðmennið hann faðir ekki við að reka hana út eða skipta um stöð. Í staðinn ráfaði hann ganginn fram og aftur og maður getur rétt ímyndað sér hvað það er skemmtilegt.

 


Sepp Blatter

Þessi gæi er dæmigerður fyrir þá vitleysinga sem stjórna miklu í boltanum í dag. Núna hefur hann lýst því yfir að verði stuðningsmenn liðs uppvísir af kynþáttafordómum á leikjum á HM í sumar, þá verði þrjú stig dregin af liðinu. Nú er ég ekki að tala máli rasista enda varla til hallærislegra fyrirbæri en hvernig á þetta að virka? Það er engin smáræðis refsing að missa svona mörg stig í þremur leikjum og það er líka mjög erfitt, ef ekki ómögulegt, að framkvæma þetta. Svo er spurningin hvað verður gert ef e-r er með fordóma gagnvart sænska liðinu eða mun þetta bara snúa að svörtum leikmönnum? Þessi hugmynd er allavega arfavitlaus því framkvæmdin skemmir keppnina miklu meira en einn og einn hálfviti uppi í stúku.

Bush

Rosalega er það notaleg tilhugsun að forseti USA útiloki ekki notkun kjarnavopna. En hver er ástæðan fyrir því að aðeins 36 % bandaríkjamanna eru ánægðir með störf hans? Er það vegna þess að hann er ekki að ráðast inn í annað ríki núna eða vegna þess að fleiri og fleiri er að átta sig á því að hann er fífl?

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband