Liga de campeones

Frábær úrslit í kvöld. Spáin mín um að Milan vinni keppnina er enn í gildi þrátt fyrir basl. Lyon er með frábært lið en heppnin er ekki alltaf með þeim. Maður getur heillast af þeim en svo man maður að Sylvian Wiltord er með og þá fer sjarminn af þessu. Hauslausi kjúklingurinn skoraði reyndar tvö en sigurinn er sætur. 

Í hinum leiknum bar Riquelme af, þessi gaur er þvílíkur snilli, svona hálfgerður Platini, hægur og latur í vörninni, en með frábæra tækni og leikskilning. Svo eru skotin og sendingarnar fyrsta flokks. Veron kemst ekki með tærnar þar sem hann hefur hælana og virðast hafa gleymt öllum gömlu töktunum. Það verður gaman að fylgjast með Riquelme á HM enda er hann í uppáhaldi þessa stundina. Vildi gjarnan að Real færi að spá alvarlega í hann.

Annar sem er hins vegar ekki í uppáhaldi heitir Matterazi. Hvaða fífl er þetta? Grófast drullusokkur í boltanum í dag og er búinn að vera það all lengi.


B&J

Ef ég hefði fæðst í USA hefði þurft nokkra sjúkraflutningamenn og pallbíl til að koma mér á milli húsa. Ástæðan er einföld. Ég elska amerískan mat og þá sérstaklega allt sem sætt er. Þetta er kannski ekki mjög menningarlegt og ber ekki vott um háþróaðan smekk en svona er það bara. Það sem gerir þetta undarlegra er að ég þoli ekki Bandaríkin og það sem þau standa fyrir að mestu leyti. Ég held t.d. alltaf með öllum öðrum þegar þeir eru að keppa í íþróttum og svo er þessi hræsni og yfirgangur í utanríkisstefnunni óþolandi. En það er frábært í New York og M&M klikkar aldrei. Og það sem ég er háður núna er hnetusmjörsnammi og Ben & Jerry´s ís. Mæli með Chubby hubby og Chocolate Chip Cookie Dough. Loksins er það staðfest sem maður vissi í æsku að besti hluti baksturs er deigið. En sem betur fer kostar þessi ís meðallaun verkamanna við Kárahnjúka þannig að þetta er bara spari.

Draumalandið

Var að klára að lesa þessa bók og mæli með henni. Alls kyns hugtök og staðreyndir settar fram á mjög aðgengilegan og skemmtilegan hátt og það er viss Michael Moore stíll á þessu. Er samt ekki frá því að Andri sé öllu klárari en Moore. Málflutningurinn er auðvitað nokkuð einhliða en fær þeim mun meira vægi eftir að maður heyrir t.d. bullið í Ingva Hrafni á Hrafnaþingi. Það var kominn tími til svara bullinu í stjórnamálamönnum og setja heildarmyndina i samhengi. Því miður verða lesendur bókarinnar þó aðallega þeir sem voru á sömu skoðun fyrir.

barca-Real

1-1. Casillas bjargaði að vanda og liðið þokkalegt en barca átti auðvitað að klára þetta. Nú er kominn tími til að Carlos fari að snúa sér að öðrum verkefnum. 33 ára gamall leikmaður á ekki að láta dæma á sig svona heimskulegt víti (sem spænskir miðlar telja að hafi ekki verið víti) og láta svo reka sig út af.

Fyrsta bloggfærsla

barca-Real í kvöld. Þetta verður bölvað basl fyrir mína menn en e-a hluta vegna heldur maður alltaf í vonina. barca er hins vegar í sérflokki á Spáni og er augljóslega með betri liðum í Evrópu.

En hver eru bestu lið sem komið hafa fram í Evrópu. Þetta er minn listi:

Real Madrid 1955-1960. 5 evróputitlar í röð, Di Stefano, Puskas og co. Oft talið besta félagslið allra tíma. Galacticos þessa tíma gátu spilað saman. Leeds byrjaði að spila í hvítu vegna þeirra.

Benfica 1961-1962. Með Eusebio og tvo evróputitla

Man. Utd. 1967-1969(?). B. Charlton og Best.

Ajax 1971-1973. Cruyff og co. Total futbol í hnotskurn.

Bayern Munchen 1974-1976. Beckenbauer, Muller og allir hinir grislingarnir.

 Liverpool 1977-1985. Óþolandi en frábærir á þessum tíma.Keegan, Daglish, Rush og Souness.

Juventus 1980-1987. Frábært lið og svo fengu þeir Platini. Urðu reyndar bara einu sinni evrópumeistarar og það á Heysel

Real Madrid 1985-1990. Þetta lið kom mér á Real Madrid bragðið. Ekkert galacticos, mest uppaldir leikmenn. Butrageno, Michel, Camacho, H. Sanchez og co. Tókst ekki að verða evrópumeistarar á óskiljanlegan hátt 1988 en 5 spánartitlar og 2 uefa titlar koma þeim svo sannarlega á kortið.

Milan 1987-1994. Frægasta Milan liðið og skiljanlega. Basten, Rijkaard,Gullir, Baresi, Acelotti, Maldini og co. Svo komu Desailly, Savisevic og fleiri. 4 ítalíutitlar og 3 evróputitlar og Basten í fantaformið í hvert skipti sem hann var ekki á sjúkraskrá. Það eru fáir sem geta neitað því að þetta er eitt besta félagslið allra tíma.

Barcelona 1991-1994. Draumaliðið var óþolandi en þeir unnu á Spáni 4 ár í röð og sinn eina evrópumeistaratitil til þessa. Þrír af spánarsigrunum voru reyndarí síðust umferð þar sem andstæðingarnir klúðruðu hlutunum en engu að síður sögulegt lið með Koeman, Laudrup og Stoichkov fremsta. Hrundi sælla minninga í Aþenu 1994.

Ajax 1994-1996. Virkilega gott lið sem braust fram á sjónarsviðið og hirti evróputitilinn af Milan og fór í úrslit árið eftir. Davids, Seedorf, Litmanen, Kluivert, Overmars og co. voru allir keyptir og þá var gamanið búið.

Juventus 1995-1998. Hörkulið sem vann reglulega á Ítalíu og varð evrópumeistari 1996. Tókst samt að tapa tveimur úrslitaleikjum í kjölfarið.

Man. Utd. 1996-1999. Þrennan og allt það. Verða víst að vera með.

Real Madrid 1998-2003. Tveir Spánartitlar og þrír evróputitlar. Þetta var frábært en mistækt lið. Rússibanareið en þegar þeir voru upp á sitt besta stóðst þeim enginn snúning. Sumarið 2003 var Del Bosque látinn fara og skömmu seinna misstu þeir Makelele. Það er vendipunkturinn í hrapi liðsins því þá var ljóst hver forgangsatriðin voru. Ekki fleiri markaðsfræðinga í boltann takk!!

 Núverandi sterk lið fara ekki inn á listann því sagan á eftir að dæma þau.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband