14.8.2006 | 21:50
Túban
Youtube er snilld. Það er hægt að skoða alls kyns efni, sjónvarpsþætti, flott mörk og eftirminnileg atvik og síðast en ekki síst myndbönd frá liðinni tíð. Hér eru nokkur dæmi:
Fyrsta myndbandið er með goðsagnarkenndri sveit sem ég hélt mikið upp á um ca. 9 ára aldur. Um svipað leyti kom platan með þessu lagi út og gott ef ég fékk hana ekki í jólagjöf. Því miður á ég hana ekki lengur enda seldi ég forstjóra Sterling allar plöturnar með sveitinni fyrir mörgum árum. En mér fannst myndbandið frábært en hefur það staðist tímans tönn? Tja.
http://www.youtube.com/watch?v=vCFyWe9ubC0
Annað myndbandið er með yndislega hallærilegu diskóbandi. Söngvarinn er vægast sagt skelfilega perralegur en þeir áttu annað lag sem ég fíla enn þann dag í dag. Hvaða lag er það?
http://www.youtube.com/watch?v=UsAFckHS5SY
Þriðja myndbandið er alger rífandi nostalgía. Áðurnefndur forstjóri Sterling hélt því fram að upphafsorð lagsins væru "Sun around" og átti víst að þýða sólarhringur.
http://www.youtube.com/watch?v=UhFCsNf9D4E
Síðasta myndbandið er tileinkað Ásu systur. Þetta lag er mjög gott eighties popp enda er svona Breakfast Club St. Elmos Fire stemmning í því. Ekki heldur svo ólíkt More than this með Roxy Music.
http://www.youtube.com/watch?v=vn6-_3oLeqQ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.8.2006 | 10:46
Ísland-Spánn
Á miða á þennan leik á morgun og sem betur fer í nýju stúkunni. Þakið á gömlu stúkunni er nefnilega eins og net og það er ekki útilokað að það muni rigna þrátt fyrir einmuna veðurblíðu sumar. Það er verið að rifja upp fyrri viðureignir þessara þjóða á Marca og sagt sérstaklega frá síðasta leik sem Ísland vann 2-0 með mörkum frá Eyjólfi Sverrissyni og Dorvavur Orgylsson. Dorvavur var alltaf skeinuhættur.
Fór reyndar á annan viðburð um helgina. Morrinn stóð sig með prýði þó ég verði að viðurkenna að ég hefði viljað fá fleiri Smiths lög. Hefði líka verið gaman að sjá þessa goðsögn spila fyrir fullri höll. Kannski er mörgum sama hvort hann söng í Smiths eða Spandau Ballet. En hápunkturinn var Kristin Young sem heillaði salinn með silkimjúkum flutningi sínum. Var reyndar ekki alslæm og tvö lögin voru með Kate Bush áhrifum. Gæti verið verra.
Sá hins vegar ekki Sigurrós nema í sjónvarpi um daginn. Nú hef ég engan áhuga á að drulla yfir þá, sumt er gott og annað síðra. Lag eftir þá var t.d. notað með góðum árangri í Life Aquatic of Steve Zissou. Hins vegar er það þessi tilgerð sem grípur stóran hluta fólks sem sér þá á tónleikum. Það virðist ekki vera nóg að segja "mér fannst þeir bara mjög góðir" eða "fantagott gigg" heldur kemur alltaf e-ð svona "mér fannst hjartað í mér hreyfast í takt við skýin" eða "meira að segja lifrin í mér táraðist".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.8.2006 | 17:17
Sundlaugakrítík
Mér tókst að prófa fjórar laugar á ferðalagi fjölskyldunnar og sá eina sem virtist mjög girnileg.
Hraunborgir: Nokkuð góð laug með tveimur pottum, vaðlaug og lítilli sundlaug. Róleg stemmning og gufubaðslykt í búningsklefunum. Allt mjög snyrtilegt en vantar smá útsýni. 3,5 af 5.
Reykholt: Þessi var á Topp 10 lista hjá mér og getur alveg hangið þar inni aðeins lengur. Fínir búningsklefar þar sem ég fékk sér klefa, góðir pottar og frumstæð en góð rennibraut. Steggjunarminningar setja þessa í fjórar stjörnur.
Selfoss: Ein besta laug landsins, tveir djúpir og góðir pottar með nuddtækjum a la Kópavogslaug, rennibraut í osti og önnur stór. Krakkalaug góð og svo er nokkuð hlý innilaug enda er þetta Sundhöll!! Fjórar stjörnur enda getur maður ekki verið frægur fyrir að gefa sundlaug á Selfossi meira en væri hún annars staðar...? Hver veit.
Sólheimar í Grímsnesi: Fór ekki í þessa laug enda er hún einungis fyrir íbúana en það var freistandi að stökkkva út í. Gömul laug í vel grónu rjóðri með potti. Þegar ég var að gægjast í gegnum girðinguna sá ég mann ganga tautandi inn um hliðið, einn með sjálfum sér í kyrrðinni. Þegar ég gáði betur sá ég að þetta var Sólheimagoðsögnin sjálf, Reynir Pétur. Þetta var eins og að koma til New York og sjá Woody Allen á gangi. Ég mæli með heimsókn til Sólheima en hef því miður ekki forsendur til að gefa lauginni stjörnur.
Höfn: Við vorum með fjölskyldunni hennar Sillu á Höfn og í nágrenni um Verslunarmannahelgina. Skelltum okkur tvisvar í laugina sem er allmikið komin til ára sinna. Í seinna skiptið var skelfileg táfýla í anddyrinu en laugin sjálf var laus við fnykinn. Þrír góðir pottar, ein vaðlaug sem var eins og sandpappír og laugin sjálf lítil en nokkuð góð. 3 af 5.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.8.2006 | 23:11
Three amigos
Forystumenn "Nýja" Real Madrid hafa hafið sitt kjörtímabil með því að versla þrjá leikmenn sem eru saman með meðalaldur yfir þrítugt. Ekki mjög ferskt en ég er bjartsýnn á gott gengi RVN og Cannavaro en læt mér nægja að vona það besta með Emerson. Nú er verið að spá í Reyes, Diarra og e-a fleiri en ég spyr, einu sinni sem oftar, af hverju er ekkert lið að spá í þennan snilling?
http://www.youtube.com/watch?v=FUJhkEot23U
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2006 | 22:51
The Black Dahlia
Ég las þessa bók þegar ég bjó í Madrid og var svakalega hrifinn. Las nokkrar bækur eftir James Ellroy í kjölfarið en þær náðu ekki sömu stemmningunni. Nú hefur gamli meistarinn Brian De Palma gert mynd eftir bókinni. Það verður spennandi að sjá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2006 | 22:27
Jón Sigurðsson
Parenthood er ein af þessum myndum sem maður hefur gaman af þegar maður á orðið börn og hefur verið maríneraður í sykursætri amerískri væmni svo árum skiptir. Þetta er reyndar hin skemmtilegasta mynd og eitt atriði í uppáhaldi. Steve Martin á krakka sem eru ekki alveg eins fullkomnir og hann vildi. Eitt kvöldið er allt á suðupunkti og hann á að fara að skutla ömmu gömlu heim. Hún kemur til hans, gömul og krumpuð með stórt gyðinganef og Silhouette gleraugu, og byrjar að segja honum sögu af því þegar hún hafi verið lítil hafi sumir kunnað að meta hringekjuna í rólegheitum en hún hafi alltaf viljað vera í rússíbananum. Þegar hún hefur lokið sér af lítur hann á hana forviða og segir kaldhæðnislega, án þess að hafa nokkra hugmynd um samlíkinguna: "En æðisleg saga!! " og kerlingin röltir út í bíl. Í sömu andrá kemur konan hans til hans og segir honum að hann sé alger asni því henni finnist amman vera mjög klár kona. Hún rýkur svo burt en hann stendur eftir með pirringslegan undrunarsvip. Hann lítur svo út um gluggann og þá kemur þessa gullna setning:"Yeah if she's so brilliant why is she sitting in our NEIGHBOR'S CAR?"
Það sama datt mér í hug þegar nýi iðnaðar-og viðskiptaráðherrann var að útskýra hvers vegna vextir væru svona háir samanborið við nágrannalöndin. Ef Jón Sigurðsson er svona klár af hverju er hann þá í Framsóknarflokknum?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.7.2006 | 00:58
Róhan og Mordor
Kom heim áðan eftir stutt ferðalag um Suðurland og hálendið norðan Mýrdalsjökuls. Tókst reyndar að næla mér í flensu fyrstu nóttina og keyrði því hálf tuskulegur inn í Landmannalaugar á þriðjudeginum í frekar slæmu skyggni. Sé hins vegar ekki eftir einni mínútu af þessu ferðalagi enda hefur það verið draumur lengi að komast þangað. Í dag datt mér hins vegar ekkert betra í hug en að skella mér í sund á Hellu og er því kominn heim degi fyrr með beinverki og hita. Laugin verður hins vegar ekki dæmd á sanngjarnan hátt í ljósi aðstæðna en pottarnir eru góðir og sundlaugin þokkaleg. Vantar samt ákveðinn sveitasjarma.
Á ferðalaginu varð mér hins vegar, eins og oft áður, hugsað til þess hvað Ísland er kjörið sögusvið fyrir Hringadróttinssögu. Í Holta-og Landssveit þar sem við gistum eru hundruð hesta hlaupandi um tún og holt svo langt sem augað eygir. Þar í nágrenninu ræður ríkjum höfðingi sem er ekki síður merkilegur en Þjóðann, konungur Róhan. Sjálfur sundkennarinn Ísólfur Gylfi Pálmason. Sum bæjarnöfnin hafa líka framandi heiti eins og Lunansholt, Dufþakseitthvað og síðast en ekki síst Litli Klofi og Pula. Þegar komið er nokkuð norður fyrir Galtalækjarskóg beygir maður til vesturs og keyrir Landmannaleið að Landmannalaugum. Á þessum slóðum líður manni eins og í Mordor þar sem Hekla grúfir yfir manni eins og Dómsdyngja og auðnin er svört og skuggaleg á köflum. Leiðin liggur m.a. um Dómadal, sem gæti auðveldlega hafa verið á korti Tolkiens en þegar komið er inn í Landmannalaugar líður manni eins og Mordor hafi tekist að sveipa sig öllum mögulegum og ómögulegum litum við fall Saurons. Við Silla stefnum líka að því að ganga Laugaveginn næsta sumar. Hann liggur m.a. um Emstrur sem hlýtur að vera eitt Hringadróttinslegasta örnefni landsins ásamt Ljósufjöllum á Snæfellsnesi og Trostansfirði fyrir vestan.
En hvað er Hringadróttinslegasta heiti Íslands? Það hlýtur að vera Hérað enda kæmi mér ekki á óvart ef það er Hobbiti á kassanum í Kaupfélagi Héraðsbúa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.7.2006 | 23:11
Lucas Rossi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.7.2006 | 22:01
Af Bundesligunni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.7.2006 | 20:16
Minning um mann
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)