25.8.2006 | 12:22
Sögufölsun
Ronaldinho sagði í viðtali í gær að hann hefði fulla trú á að barca vinni Meistaradeildina aftur í vor og verði þar með fyrsta liðið í sögu keppninnar til að vinna tvö ár í röð . Þetta eru merkileg ummæli. Hvað með Real Madrid 56-60, Benfica 61-62, Inter 64-65, Ajax 71-73, Bayern 74-76, Liverpool 77-78, Nottingham Forest 79-80 og Milan 89-90? Þar er ekki nóg að breyta fyrirkomulagi og nafni keppni til að fyrri afrek verði þurrkuð út. Það er jafnframt mjög undarlegt að viðurkenna ekki að lið hafi unnið tvö ár í röð en nota samt eldri titla þegar talin eru upp sigursælustu liðin. Með sömu aðferð væri hægt að komast að þeirri niðurstöðu að Liverpool hefði aldrei orðið enskur meistari vegna þess að nafni deildarinnar var breytt í Premier League. Það hafa þeir vissulega orðið þó síðasti titill sé eldri en elstu menn muna.
En kannski er Ronaldinho bara svona lélegur í sagnfræði. Það sem skiptir þó mestu máli er að hvor aðferðin sem notuð er þá hefur Real Madrid oftast orðið evrópumeistari, þrisvar sinnum eftir breytingu og níu sinnum alls. Nú er næsta verkefni að fylla tuginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.8.2006 | 10:34
Gáttaður
Á forsíðu Fréttablaðsins er sagt frá Hlyni Sigurðssyni, 23 ára Íslendingi, sem er í fangelsi í Brasilíu vegna smygls. Hann segist ekki geta sofið vegna ótta um líf sitt og deilir 10 fm klefa með 10 lúsugum og skítugum föngum. Ég verð að viðurkenna að ég er alveg gáttaður á þessum fréttum því ég hef e-a hluta vegna alltaf haldið að aðbúnaður fanga í Brasilíu væri til fyrirmyndar. Rúmgóðir klefar, mannbætandi tómstundastarf, möguleiki að nýta kosningaréttinn og síðast en ekki síst tækifæri til að taka Stúdentinn í fjölbrautaskólum á Sao Paolo, Rio de Janeiro og Porto Alegre svæðunum. Ég get ekki ímyndað mér annað en að þessir ólánsömu Íslendingar hafi staðið í sömu trú, annars hefðu þeir varla reynt þetta. Ég sendi þeim baráttukveðjur til Brazil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.8.2006 | 13:02
Stríð
Fyrir nokkrum vikum kom Galliani, varaforseti Milan, fram í fjölmiðlum og sagði Real Madrid stríð á hendur vegna tilrauna til að lokka Kaka til félagsins. Þá sagði ég að þetta væri stormur í vatnsglasi. Í kvöld mun Galliano sitja við hlið Calderon, forseta Real, í heiðursstúkunni á Bernabeu vellinum meðan Real Madrid og Anderlecht etja kappi í árlegum Trofeo Santiago Bernabeu leik. Ástæða þess er sú að Milan vill fá Ronaldo til sín. Calderon hefur hins vegar lýst yfir óánægju vegna þess að Milan hafi verið í beinu sambandi við Ronaldo. Stormur í vatnglasi var því ekki fjarri lagi.
Þetta gerist á hverjum degi á félagsskiptatímabilinu. Wenger kvartar undan því að Real sé að rugla í Diarra (sem er kominn til Real, húrra!!) og Reyes en er sjálfur með augastað á Gallas sem er að gera allt vitlaust hjá Chelsea. Hargreaves vill fara til United en Bæjarar segja "haltu kjafti og vertu sætur" og hóta að kæra United. Svona gerast kaupin á eyrinni og þeir sem telja sig yfir þetta hafnir eru óþolandi nöldurseggir.
Reyndar er tilvalið að rifja upp að fyrir átta árum sátum við Silla á Bernabeu og sáum Real spila við Penarol frá Uruguay um áðurnefndan Trofeo Santiago Bernabeu. Þá var slegið met, aldrei höfðu færri mætt á þennan fræga völl eða um 5000 manns. Stemmningin var því ekki gríðarleg og eins og sjá má er þetta ekki fallegasti bikarinn í bókinni.
Að lokum: Vonandi er barcelona að toppa á vitlausum tíma. Segi ekki meir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.8.2006 | 12:07
Strætó
Þegar strætókerfinu var breytt heyrðust óánægjuraddir, aðallega frá ellilífeyrisþegum, öryrkjum, börnum og námsmönnum. Líklega 100 % þeirra sem taka strætó. Ég sá hins vegar ekki ástæðu til annars en að fagna enda var útbúin ný leið nr. 15 sem stoppar við húsið mitt, við vinnuna mína og vinnuna hennar Sillu. Nokkra daga í mánuði líður mér því eins og ég búi í stórborg í Evrópu, ég rölti út á stoppistöð með tölvuna á öxlinni, nesti í poka og Fréttablaðið undir hendinni. Enginn bíll, enginn stæðaleit, ekkert vesen.
En nú hefur komið á daginn að þetta er bölvað vesen. Vagninn sem á að koma kortér í níu hefur ekki séð ástæðu til að koma fyrr en rúmlega níu og ekki fyrr en kortér yfir níu í morgun!! Ég gat samt tekið gleði mína á ný þegar ég sá að traustasti bílstjóri landsins, sjálfur söngfuglinn og hjartaknúsarinn André Bachmann var við stýrið. Það runnu hins vegar á mig tvær grímur þegar það rann upp fyrir mér André lagði sig allan fram við að reyna að vinna þessa hálftíma seinkun upp. Hann keyrði því þetta gula ferlíki sem er á stærð við meðalblokk í Grafarvogi á 120 km hraða alla leiðina og reyndi meira að segja að skáskjóta sér á Snorrabraut. Aldrei aftur Hiroshima, aldrei aftur André Bachmann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.8.2006 | 13:03
Geysislaug
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.8.2006 | 16:15
Broadway
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.8.2006 | 14:19
Kuml
Skemmtilegar fréttir frá Hringsdal við Arnarfjörð þar sem fundist hefur kuml frá 10. öld. Hringsdalur er á e-u fallegasta svæði landsins og þar vorum við fjölskyldan í frábæru brúðkaupi hjá Rabba og Ragnheiði fyrir tveimur árum. Ég vona svo sannarlega að bróðir Hilmars Einarssonar bónda (?), sem gekk fram á beinin, sé Árni frændi. Það er auðvelt að ímynda sér kallinn röltandi með vökul augu um Hringsdal, ekki ósvipaður og Hemúllinn í sínum könnunarferðum um Múmíndal.
Það mætti segja mér að e-r í Lundi þrái að komast heim í heiðar(hrings)dalinn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.8.2006 | 23:24
Sundlaugarverðir
Ég lenti í sundlaugarverði í dag. Þessir verðir lauganna eru undarlegir menn, svona týpur sem komust ekki í Lögregluskólann og reyna að fá útrás fyrir valdníðslu í sturtunni eða á bakkanum. Hver kannast ekki við fasismann sem felst í að sprauta köldu vatni í sturtuklefanum eða litla kallinn í Vesturbæjarlauginni sem krafðist þess að maður skrúbbaði rassinn betur.
Uppákoman í dag átti sér hins vegar stað á bakkanum. Silla og stelpurnar voru í sundi sem þýðir að sú yngri svaf í vagninum við laugina. Ég mætti á staðinn til að sækja hana og fékk leyfi til þess að rölta út að bakkanum hjá konu í afgreiðslunni. Til að komast þangað þurfti ég að klofa yfir keðju sem strengd hafði verið milli nokkurra staura við útganginn, til að afmarka útisvæði með stólum. Þegar ég er kominn yfir keðjuna og er að rölta í átt að vagninum heyri ég óp í fjarska. Ég lít við og sé þybbinn sundlaugarvörð koma askvaðandi, æpandi e-ð um skóhlífar og höft. Ég stoppa og segi honum að ég sé að sækja barnavagn og hafi fengið til þess leyfi í afgreiðslunni. En laganna vörður hélt nú ekki og sagði í sífellu: "Höft eru höft". Þar sem ljóst var að maðurinn ætlaði ekki að gefa tommu eftir rauk ég aftur inn í afgreiðsluna og spurði hvaða vitleysa væri í gangi. Enn einu sinni endurtók maðurinn "höft eru höft" en konan þar virtist skammast sín örlítið fyrir þessa óvæntu samviskusemi. Ég ákvað að spyrja hana hvert ég ætti eiginlega að fara og ekki stóð á svarinu: "Þú ræður". Ég endaði því með því að rjúfa höftin og sótti vagninn.
Það eru svona litlir hversdagssigrar sem gefa lífinu gildi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.8.2006 | 12:43
Sama gamla sagan
Í Mogganum er verið að tala um að Spánverjarnir hafi verið pirraðir, látið sig detta og ekki nennt að taka þátt í leiknum. Hermann Hreiðarsson tekur undir þetta og talar um að það sé auðvelt að pirra þá aðeins og hneykslast á því að þeim hafi fundist leiðinlegt að spila leikinn. Það er kannski rétt að benda á að eini íslenski leikmaðurinn sem spilar á Spáni hafði það mikinn áhuga á leiknum að hann nennti ekki einu sinni að fljúga til Íslands. Er furða að spænsku leikmennirnir hafi átt að erfitt með að ná upp stemmningu, margir búnir að sitja tugi klukkustunda í flugvélum til og frá og innan USA og víðar. Þar af níu tímar á tveimur sólarhringum til og frá Íslandi. Á miðju undirbúningstímabili! Ég held að menn ættu bara að gefa þeim kredit fyrir að mæta með svo gott sem sitt sterkasta lið til þess eins að gera Eggert Magnússyni greiða, þó lítið hafi farið fyrir góðum tilþrifum.
Hins vegar er ég hræddur um að úrslitin séu einfaldlega slæm fyrir Ísland. Ætla menn virkilega enn einu sinni að fara meta styrkleika liðsins vegna hagstæðra úrslita við stórþjóð í vináttuleik? Fyrir tveimur árum hlógum við að Ítölum eftir 2-0 sigur á Laugardalsvelli. Núna eru þeir heimsmeistarar en við erum í 107. sæti á heimslistanum. Ef liðið ætlar að ná árangri verðum það að vinna eða standa í minni spámönnum, ekki segja endalaust "ég er ekkert lélegri en þessi þó hann sé með 100 sinnum hærri laun", "við getum strítt öllum þessum stórþjóðum þegar við leikum svona" eða "munurinn á okkur og þeim er í raun fáránlega lítill þó maður hafi oft séð þá í sjónvarpinu". Gott og vel, flott að setja markið hátt en markmiðið hlýtur samt að vera að sýna að maður sé betri en sá sem er með svipuð laun og þá er hitt bara bónus. Ekki gera jafntefli við Þjóðverja en tapa svo báðum leikjunum á móti slökum Skotum. Þá hefði verið betra að tapa tvisvar á móti Þjóðverjum og vinna Skota. Þrjú stig gegn einu og jafnvel fjögur ef við gætum hangið á jafntefli við lið eins og Skota á útivelli. Þá loksins getum við horft tilbaka á jafntefli eða sigur á stórþjóð með bros á vör. Sjáum hvað setur í Belfast, þá sjáum við hvað býr í liðinu. Og svo bara Áfram Ísland er það ekki.
Að lokum við ég fræða áhugasama að Ringo Starr hélt með Arsenal, Paul McCartney með Everton en George og John höfðu ekki áhuga á fótbolta. Sonur George mun þó vera mikill púlari en ég sel það ekki dýrara....
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.8.2006 | 23:51
Slappt
Leikurinn í kvöld var slappur, Spánverjarnir þreytulegir og hugmyndasnauðir og Íslendingar sjálfum sér líkir, baráttuglaðir og harðir í horn að taka. Verð reyndar að viðurkenna að ég þekkti alla í spænska liðinu en var ekki viss um hverjir einn eða tveir voru í íslenska liðinu fyrr en e-r í stúkunni kallaði nöfnin.
Annars er stemmningin á Laugardalsvelli rannsóknarefni. Hvers vegna heyrist bara í áhorfendum þegar leikmenn taka "Óla Þórðar" á þetta og tækla e-a út í Laugardalslaug? Þá taka menn loksins við sér sem og þegar Íslendingum finnst andstæðingurinn hafa rangt við, þá byrjar allir að púa eins og þeir eigi lífið að leysa. Þessa á milli má heyra saumnál detta fyrir utan stöku "Ísland dúdúdú Ísland dúdúdú".
En Spánverjarnir voru ekki góðir og ég er hræddur um að Aragones verði að fara nota kantana meira í staðinn fyrir að vera að rúlla boltanum á miðjunni án þess að ógna. Ég ætla að senda þeim gamla sms á eftir með réttu byrjunaliði: Casillas, Ramos, Puyol. Pablo, Lopez, Joaquin, Alonso, Xavi, Reyes, Raúl og Torres.
Ég er reyndar ekki mikill aðdáandi Torres og það má kippa Raúl út fyrir varnarsinnaðan miðjumann og setja Reyes fyrir aftan Torres en liðið á að vera svona í grundvallaratriðum. Svo verður að vera góður varamaður fyrir hvern og einn á bekknum.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)