21.9.2006 | 16:38
Mín skoðun
Heyrði í Valtý og Bödda í gær. Kom reyndar inn í miðja einræðu litla mannsins um hvað enska deildin væri mikið betri en aðrar og tók sérstaklega þá spænsku fyrir. Fullyrti að á Spáni væru kannski 3-4 góð lið en restin væri í fluguvigt. Á Englandi væru hins vegar engir auðveldir leikir. Ég ákvað að gerast mjög plebbalegur og senda þættinum bréf vegna þessa. Úr varð hálfgerð ritgerð á þessa leið:
"Sælir
Ég get ekki á mér setið að senda ykkur nokkuð margar línur vegna óvenju "ítarlegrar" greiningar á spænska boltanum í þættinum í gær. Þar kom þessi gamla tugga um að Real Madrid og Barcelona væru stórir klúbbar, kannski Valencia og Sevilla líka en restin slöpp lið. Standardinn væri því allt annar en á Englandi þar sem heimsókn til Wigan væri meira að segja erfið. Ég vil aðeins mótmæla þessu með því að greina öll liðin í spænsku deildinni stuttlega:
Real Madrid: Þurfum ekki að ræða þetta
Barcelona: Sama hér.
Valencia: Tvisvar í úrslitum MD (2000 og 2001), spænskir meistarar 2002 og 2004. Mikil saga.
Sevilla: UEFA meistarar, Supercup meistarar, frábært lið í dag.
Real Betis: Voru í Meistaradeildinni á síðasta tímabili, ollu vonbrigðum en unnu Chelsea heima.
Deportivo: Spænskir meistarar 2000, gerðu fína hluti í Meistaradeildinni, unnu m.a. Man utd. á Old Trafford og fóru í undanúrslit 2004
Celta Vigo: Þetta lið sló Aston Villa og Liverpool út úr UEFA keppninni fyrir ca. 7 árum. Styrkleikinn á Spáni er slíkur að þegar hallaði undan fæti féllu þeir strax en komu upp fyrir rúmu ári. Hörkulið.
Zaragoza: Unnu Arsenal í úrslitum Cup winners Cup 1995, yfirleitt með sterkt lið og góðan heimavöll. Mjög vel mannaðir í ár. Aimar, D´Alessandro, Milito bræður og fleiri.
Villarreal: Undanúrslit í MD í fyrra og UEFA fyrir þremur árum. Hörkulið með fullt af mjög góðum leikmönnum.
Atletico Madrid: Stórlið á evrópskan mælikvarða. Valda alltaf vonbrigðum og hafa meira að segja fallið en eru með mjög góða leikmenn. Hafa tak á Barca. Unnu tvöfalt 1996.
Ath. Bilbao: Með mikla sögu og frábæran heimavöll. Vilja bara baskneska leikmenn og hafa því ekki náð mjög góðum árangri en það bókar enginn sigur á San Mamés.
Real Sociedad: Voru í Meistaradeildinni fyrir nokkrum árum, hörkulið frá Baskalandi sem enginn bókar sigur gegn heldur. Töpuðu titlinum á síðustu metrunum 2003.
Espanyol: Hafa skiljanlega staðið í skugganum af Barca en hafa lengi hangið í deildinni. Lélegur heimavöllur en margir góðir spænskir og Suður Amerískir leikmenn. Núverandi spænskir bikarmeistarar.
Racing Santander: Jó jó lið sem þvælist upp og niður. Viðurkenni að þessir eru ekki mjög góðir en hafa strítt td Real Madrid öðru hvoru.
Recreativo Huelva: Elsta liðið á Spáni, féllu fyrir tveimur árum og komu aftur upp fyrir þetta tímabil.
Nástic: Nýkomnir upp og þurfa að sanna sig eins og gengur og gerist.
Osasuna: Fjórða sætið í fyrra en misstu af MD sæti eftir tvö jafntefli við HSV. Mjög öflugur heimavöllur.
Levante: Nýkomnir upp en voru í deildinni fyrir tveimur árum með Bernd Schuster við stýrið.
Getafe: B. Schuster þjálfar þessa og hefur náð fínum árangri. Milli stanganna stendur landsliðsmarkvörður Argentínu. Fáir sem valta yfir þá enda eru þeir oft í efri hluta.
Mallorca: Fór í úrslit í Cup winners cup fyrir nokkrum árum þar sem þeir töpuu fyrir Lazio. Hafa hangið í deildinni og sýnt ákveðinn stöðugleika. Unnu Real Madrid 1-5 í Madrid 2003 rétt áður en Madrid tryggði sér spænska titilinn.
Þá vil ég minna á að lið Alavés sem hefur verið að hoppa milli deilda á síðustu árum spilaði úrslitaleik við Liverpool í UEFA keppninni fyrir 5 árum og tapaði í framlengingu. Þá hafa Real Betis, Sevilla og Atletico Madrid fallið á síðustu árum.
Ég get engan veginn séð að þetta séu svona slök lið. Ef e-ð er þá eru liðin á Spáni sterkari en á Englandi sem m.a. sýnir sig á því að fleiri lið hafa náð langt í Evrópukeppnum. Ég held að skoðun ykkar byggi á því að þið þekkið þessi lið einfaldlega ekki nógu vel eða alls ekki neitt. Watford og Sunderland verða ekki stórlið þó Bjarni Fel. hafi þulið upp nöfnin í 40 ár. Þetta eru einfaldlega lið sem munu sjaldnast veita stóru liðunum á Englandi keppni. Enda sýnir það sig að síðan 1995 hafa þrjú lið orðið meistarar á Englandi en fimm á Spáni. Hvoru megin er einokunin meiri og breiddin minni? Þá er ekki hægt að gleyma því að það er t.d. mikið Real Madrid hatur í Baskalandi, Katalóníu og jafnvel Galisíu þaðan sem Deportivo og Celta koma. Það eru því ekki margir auðveldir leikir fyrir þá.
Þið hafið auðvitað rétt á því að segja ykkar skoðun enda er því lofað í heiti þáttarins. En órökstuddir hleypidómar eiga ekkert erindi í þessa frekar en aðra umræðu. Ég set ekki út á það að ykkur finnist enski boltinn skemmtilegri, það er hugægt mat. En að hún sé sterkari eða betri en aðrar deildir? Það má reyna að nálgast niðurstöðuna með því að kanna gengi liða í Evrópu en jafnframt ljóst að slíkur samanburður er erfiður. Við hljótum þó að vera sammála um að framsetningin í þættinum í dag var ekki af því tagi að hún geti ákvarðað að enska deildin sé sterkasta deild í heimi. Flest rök hníga að því að hún sé það ekki, en líklega er óumdeilt að hún sé ein af þremur til fjórum bestu.
Með kveðju
Eiríkur Gunnsteinsson"
Hef ekki fengið nein viðbrögð enda er þessum tveimur snillingum væntanlega alveg sama. En stundum verður maður að svara gjamminu í þeim sem telja sig vera sjálfskipaða íþróttasérfræðinga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.9.2006 | 14:28
Páfi
Flottur kallinn sem varð páfi í fyrra. Sérstaklega er ég hrifinn af því að opna umræðu um trúmál með gagnkvæmri virðingu og vitna svo í mörg hundruð ára gamlan texta um að Múhameð hafi verið morðingi. En þó þessi tiltekni kaþólikki lifi í fílabeinsturni (sem vill svo skemmtilega til að hefur verið settur á þak Benz bifreiðar) þá eru múslimarnir ekki skárri. Talsmaður þeirra á Íslandi kemur alltaf annað slagið í sjónvarpið og reynir að sannfæra fólk um að vanþekking á Íslam leiði til fordóma. Felst vanþekkingin í því að heyra sögur af feðrum sem drepa dætur sínar fyrir að vilja sænga hjá ljóshærðum mönnum, mönnum sem drepa nunnur fyrir orð páfa og tilbiðja Allah meðan þeir sarga höfuðið af vestrænum gíslum? Ég hef oft heyrt að Kóraninn sé mikið kærleiksrit en meðan grimmdarverk eru unnin í nafni hans er ég hræddur um að ekki sé bara hægt að skella skuldinni á misskilning og vanþekkingu. Það sama er hægt að segja um Biblíuna og kristna trú. Ég hef hins vegar sjaldan eða aldrei heyrt um öfgasinnaða búddatrúarmenn.
Vanþekking múslima á kaþólskri trú er hins vegar mikil eins og sést á þessari mynd sem birtist í Fréttablaðinu í morgun. Takið eftir hvernig eftirlíkingin af páfanum er. Ég held að ég hafi bara aldrei séð páfa í svona buxum. En burtséð frá því þá er dálítið undarlegt að sjá hvað karlpeningurinn í Miðausturlöndum hefur alltaf mikinn tíma aflögu til að mótmæla.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2006 | 22:42
Oscar Pistorius
Það var frétt á RÚV á föstudaginn þar sem fjallað var um nítján ára gamlan strák frá Suður Afríku sem heitir Oscar Pistorius. Hann hefur gert samning við Össur hf. um að hanna fyrir sig gervifætur þannig að hann nái ólympíulágmarki í 400 metra hlaupi sem hann er aðeins 1,5 sekúndum frá. Það sem er merkilegt við þann árangur er að fætur Oscars ná aðeins niður að hnjám en samt getur hann hlaupið hraðar en flestir jafnaldrar hans.
Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem ég heyri um Oscar því mjög góðir vinir okkar Sillu hafa hann að einstakri fyrirmynd fyrir son sinn sem haldinn er sambærilegri fötlun. Ég veit að afrek Oscars munu verða þeim litla gutta mikil hvatning í framtíðinni og efast ekki um að fyrr en varir muni hann hlaupa pabba sinn uppi. Þá má ekki gleyma þætti Össurar hf., fyrirtækis sem Íslendingar mega vera stoltir af enda leiðandi í heiminum á stórmerkilegu sviði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2006 | 16:37
Rokkað í réttunum
Það er deginum ljósara að það styttist í kosningar. Ómissandi fylgifiskur þess er þegar verðandi frambjóðendur sýna sig og sjá aðra. Því miður fyrir nokkra þeirra þá hafa kjördæmin stækkað og frambjóðendur, sem áður gátu komist upp með að ræða bara um það sem var hitamál í þeirra kjördæmi, verða nú að geta sett sig í aðstæður sem eru þeim framandi. Gott dæmi er þessa litla frétt frá Reykjaréttum á Skeiðum. Takið eftir því hvað Guðni Ágústsson er heimavanur en Kristján "Ravanelli" Pálsson virðist hins vegar vera úti að aka þegar kemur að kyrja sveitasöngva. Honum er reyndar vorkunn því í Njarðvík eru víst enn skiptar skoðanir á því hvernig rolla lítur út.
http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4284320/12
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.9.2006 | 13:27
Keyrðu mig heim, ég er fullur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.9.2006 | 20:11
Aaarrrrgggghhhhh!!!!
Það er óþolandi þessa dagana að styðja Real Madrid. Á þessari stundu er hálfleikur í leik liðsins gegn Lyon og þeir eru 2-0 undir en verða engu að síður að teljast heppnir. Meira segja Cannavaro verður lélegur þegar hann spilar vörn með Real. Nú er einnig kominn tími til að viðurkenna það augljósa. Raúl hefur ekkert að bjóða þessu liði og hefur ekki gert í þrjú ár. Ég hef því miður lifað í þeirri blekkingu að gamli góði Raúl kæmi tilbaka. Það hefur ekki gerst og ég er hræddur um að það sama gildi um spænska landsliðið. Ég vil bara taka utan um hann, þakka fyrir gömlu góðu stundirnar og að svo búnu skilja leiðir. Og hvað er Cassano að gera í byrjunarliðinu meðan bæði Robinho og Reyes á bekknum?
Það var mun ljúfara að vera Real maður í Hjörring sumarið 1987 eins og sjá má á myndinni. Sérstaklega ef maður átti apaskinnsgalla frá Adidas og félaga eins og Bigga rauða sem nú stýrir Samson. Biggi, you´ve come a long way!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.9.2006 | 12:39
Natascha Kampusch
Fyrir nokkrum vikum kom lítil frétt frá Austurríki. Stúlka sem rænt hafði verið fyrir átta árum slapp loks frá manninum sem hafði rænt henni og notað sem þræl á heimili sínu allan tímann. Fyrstu dagana breyttist þessa litla frétt í mjög stóra frétt enda hafa flestir áhuga á því að vita hvernig slík lífsreynsla mótar einstaklinginn. Sérstaklega átakanlegt var að lesa að hún vildi ekki hitta foreldra sína en einnig vakti athygli að hún hágrét þegar hún frétti af dauða kvalara síns.
Núna virðist Hollywood hins vegar ætla að takast að breyta þessari sorgarsögu í skrípaleik. Líklegt þykir að Scarlett Johansson muni hreppa hlutverk Natöschu. Hún er meira að segja komin með umboðsmann þó ég hafi ekki heyrt um fund hennar með foreldrum sínum. Af hverju toppa menn ekki bjánalætin og fá Demi Moore til að leika Natöschu og Tom Cruise í hlutverk mannræningjans. Christopher Walken og Michelle Pfeiffer sem foreldrarnir. Ég mun gefa henni fullt hús.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.9.2006 | 12:22
Ofmetnir leikmenn
Steven Gerrard: Stebbi Geit er ekki slakur leikmaður og meira að segja mjög góður góður á köflum. Þær stundir eru yfirleitt gegn miðlungsliðum í enska boltanum þar sem hann á sviðið. Hann kemst hins vegar inn á þennan lista vegna þess að ég orðinn þreyttur á tali um að hann sé besti leikmaður í heimi. Hann er það ekki. Punktur.
Fernando Torres: Búinn að vera mikið hype á Spáni í langan tíma og kom þokkalega frá HM í sumar. Þarf hins vegar tíu dauðafæri til að skora eitt mark meðan topparnir þurfa tvö.
Emerson: Fyrrum fyrirliði Brassa og fyrsti maður í byrjunarliðið hjá Real. Ég hef aldrei fílað hann en verð að sjálfsögðu að vona það besta.
Wayne Rooney: Shrek er mikið efni og í raun orðinn mjög öflugur, en hann er ekki bestur í heimi frekar en Stebbi. Minnir meira á Gazza en Maradona en verður væntanlega betri en breska byttan. Hype konungur enska landsliðsins fyrir HM.
Totti: Þokkalegasti playmaker en það hefði væntanlega ekki breytt neinu þó hann væri ekki í ítalska liðinu í sumar.
Ibrahimovich: Þessi Svíaskratti er alveg glataður. Er reyndar með afburðatækni fyrir svo stóran mann en það virðist ekki nýtast honum til að skora eða gera neitt annað nema kannski í tvær vikur á ári.
Ashley Cole: Ofmetnasti bakvörður allra tíma. Hefur oftar enn einu sinni verið orðaður við Real en ég get með góðri samvisku sagt að ég græt hann ekki. Alls ekki slakur leikmaður en að mönnum detti í hug að hann sé e-s konar unofficial besti vinstri bakvörður í heimi er hlægilegt.
Rommedahl: Hleypur eins og Legolas en hefur fátt annað. Skandall að hann skyldi klára okkur á miðvikudaginn. Ekki furða að hann sé varamaður í Charlton.
Arjen Robben: Þykkvabæjarálfurinn er snar og snöggur. En það kemur oftar en ekki lítið út úr þessu hjá honum því hann er svo lengi að gefa boltann.
Juan Pablo Sorin: Hlýtur að vera svona góður fyrir móralinn því hann er hvorki fugl né fiskur í vörn eða sókn. Hálf hissa á að hann væri í argentíska liðinu í sumar og hvað þá að hann væri fyrirliði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.9.2006 | 12:46
ÍK
Í gær mistókst HK að tryggja sér sæti í efstu deild. Félagið á þó enn góða möguleika á því að klára dæmið í síðustu umferðinni og ég vona svo sannarlega að það takist. Af þessu tilefni er rétt að rifja upp að knattspyrnusaga HK hófst ekki fyrr en 1992 en byggir hins vegar á eldri grunni. Frá árinu 1976 til ársins 1991 var starfrækt í Kópavogi félag sem er sveipað dulúð. Það hét ÍK og spilaði í Celtic búningum. Í lok árs 1991 varð félagið gjaldþrota og HK yfirtók knattspyrnudeildina.
Mér hlotnaðist sá heiður að spila með ÍK í líklega tíu ár, alveg frá 6. flokki upp í 2. flokk. Í minningunni var þetta frábær tími en þó skiptust á skin og skúrir. Einkum var erfitt sumarið á yngra ári í 4. flokki þegar frábær 1971 árgangurinn skildi okkur eftir í A-riðli. 21-0 tap gegn Blikum er eftirminnilegt sem og 19-0 tap gegn Fylki og 15-1 tap gegn KR. Ekki beint uppörvandi en maður nennti endalaust að halda þessu áfram.
Skemmtilegu stundirnar voru hins vegar fleiri. Á myndinni má sjá lið sem teflt var fram á UMSK móti fyrir ca. 25 árum. Þarna má sjá undirritaðan, Sólmund athafnamann í Buenos Aires, Sigga Ármann tónlistarmann sem hitað hefur upp fyrir Sigurrós, Alla G. lækni í Lundi, Kjartan Pál, Pál Beck handboltahetju og Tomma. Goðsögnin Þórir Bergsson þjálfaði liðið en til hliðar má sjá Gunnleif Gunnleifsson núverandi markmann og fyrirliða HK.
Rétt er að vekja athygli á auglýsingunni á búningunum. Það voru ekki beinlínis stærstu félögin í Kauphöllinni sem lögðu félaginu lið. Af öðrum stuðningsaðilum má nefna Reykofninn og Sapur teppahreinsi. Það er kannski ekki skrýtið að félagið yrði gjaldþrota.
Af öðrum góðum stundum má nefna Akureyrarferð ca. 1985 í Með allt á hreinu rútu þar sem einum úr liðinu tókst að æla yfir bílstjórann við komuna til Akureyrar. Mikið grín var gert að undirrituðum í þeirri verð fyrir að hringja heim til að afla leyfis fyrir kaupum á Duran Duran bol í Kaupangri.
Þá voru farnar tvær góðar ferðir til Danmerkur og Skotlands. Í seinni ferðinni spiluðum við gegn unglingaliði Celtic og unnum 3-2. Hápunkturinn á ferlinum var samt sennilega þegar við lögðum ÍA á Kópavogsvelli í 5. flokki. Leikurinn endaði 2-1 með mörkum frá Sigurbirni Narfasyni en í ÍA liðinu voru tvíbbarnir Arnar og Bjarki, Þórður Guðjónsson og fleiri hetjur sem áttu eftir að gera garðinn frægan hér heima og erlendis.
Blessuð sé minning ÍK.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.9.2006 | 09:30
Danagrýla
Ég gerði þau hroðalegu mistök í gær að fara bjartsýnn á völlinn. Tók vel undir þegar þjóðsöngurinn var leikinn (reyndar yfirgnæfði hinn hógværi Jóhann Friðgeir mig) og veifaði íslenska fánanum í e-u gæshúðarlosti. Það voru hins vegar ekki nema þrjár mínútur liðnar þegar ég fékk hraustlegt spark í punginn og framan af fyrri hálfleik reyndi ég að jafna mig. En þá kom annað spark og ég sat hreyfingarlaus í sætinu það sem eftir lifði leiks.
Til að bæta gráu ofan á svart lentum við feðgar fyrir framan martröð fótboltaáhugamannsins. Feðgar ásamt afabarni, þeir tveir eldri, kall á sjötugsaldri og sonur um fertugt voru sláandi líkir tunglinu í Alla Nalla. Kæmi mér ekki á óvart að þeir væru saman með pípulagnafyrirtækið Lagnir feðgar eða e-ð álíka. Nær allan leikinn sátu þeir og æptu skelfilega ófyndnar athugasemdir. Hápunktarnir voru eflaust: "Er þetta FC Nörd??", "Hlauptu hlunkur" um Eið Smára, "Er þetta kvennabolti?" og "Það mætti halda að þetta væri 3. flokkur kvenna hjá FH á móti Barcelona!!". Svo sátu þeir sjálfumglaðir og sá yngsti, ca. átta ára, hermdi eftir öllu og var byrjaður að blóta og öskra inn á líka. En það besta var að þegar leikurinn var búinn stóðu þeir upp og klöppuðu fyrir liðinu eftir allar svívirðingarnar. Ef íslenska liðið á svona vini þá þarf það ekki óvini.
Ég fór að velta einu fyrir mér meðan á leiknum stóð. Hvers vegna verða Íslendingar alltaf að segja þegar þeir sjá Dani að þeir séu svo "ligeglad"? Er Anders Fogh Rasmussen "ligeglad"?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)