Katrína

c_documents_and_settings_eirikur_my_documents_my_pictures_2006_10_15_img_5031.jpg
Fellibylurinn Katrína fór um Hjarðarhaga 56 síðastliðinn sunnudag, 15. október. Um er að ræða tríó skipað tveimur bræðrum og frænda þeirra. Ganga þeir undir nöfnunum Jölli Kóla, Emil strákskratti og Sölli sóðableyja. Þrátt fyrir sakleysilegt yfirbragð geta þeir breytt einni afmælisveislu í vígvöll á svipstundu. Þegar verstu hviðurnar gengu yfir leituðu gestir afmælisins skjóls í nærliggjandi íþróttahúsi en húsbóndinn á heimilinu leitaði allra ráða til að takmarka tjónið. Tókst það með mikilli baráttu en ekki mátti miklu muna. En þeir mega eiga það að manni þykir vænt um þá, sérstaklega hvern í sínu lagi.

Nostalgía nr. 3. MAD

Frá 1986 til ca. 1996 var ég með MAD dellu. Upphafið mátti rekja til þess að ég villtist inn í bókabúð sem var við hliðina á Stellu í Bankastrætinu. Þar voru seld gömul MAD blöð og það var e-ð  við forsíðurnar sem heillaði mig. Líklega var það kvikmyndatengingin sem var tíður gestur í formi Alfred E. Neuman. Ég reyndi svo eftir fremsta megni að verða mér úti um gömul MAD blöð og þar var þáttur Gunnar nokkurs á Álfhólsvegi ómetanlegur. Reyndar held ég að best sé að hafa sem fæst orð um samskipti okkar en mig langar að segja eitt: Gunni, ef þú ert að lesa þetta þá biðst ég afsökunar og mun skila þér þeim blöðum sem tilheyra þér. Annars liggur þetta áfram niðri í geymslu.

mad159idmad228idmad236id


Leiðtogafundurinn

Ég var pínulítið svekktur þegar leiðtogafundinum í Höfða lauk fyrir tuttugu árum. Í fyrsta lagi var engin niðurstaða, sem var ekki gott fyrir stríðshræddan ungling, sem heyrt hafði vondar sögur af myndinni The Day after. Í öðru lagi fannst mér alltaf leiðinlegt hvað fundurinn leit illa út í sjónvarpi. Veðrið var hryssingslegt haustveður og ekki bætti úr skák að reglulega beindust myndavélarnar að húsinu sem Heimilistæki eru í. Maður var vanur að sjá stórmenni hittast í höllum erlendis en nú þurfti heimurinn að sjá ljótasta arkitektúr í heimi, sem virtist hafa ákveðið að funda líka í Reykjavík. Og allt í roki og rigningu.

Núna keppast menn hins vegar við að koma fram og lýsa því yfir hvað fundurinn hafði mikla þýðingu. Er þetta ekki bara bull í fámennum hópi stjórnmála- og sagnfræðinga sem þykjast geta lesið úr minnisblöðum háleitar hugmyndir um frið á jörðu. Það nennir enginn að semja í svona leiðinlega veðri, menn verða að vera í góðu skapi í sól og hita til að verða e-ð ágengt. Reagan og Gorbatsjoff voru þar engar undantekningar. Líklega er þetta cult hjá þessum fræðimannahópi, svona Plan 9 from outer space leiðtogafundanna. Fundur sem var svo lélegur að hann nálgast það að verða góður.


Nostalgía nr. 2. Breik

Stundum horfi ég á þáttinn So you think you can dance. Þar er alltaf e-r sem breikar og ég verð að viðurkenna að ég kann að meta gott breik. Ég verð jafnframt að viðurkenna að ég hugsa oft þegar ég sé þessa snillinga: Þetta gæti verið ég. Ástæðan er einföld, þegar ég var ca. 11 ára 1984, fór nær allur tími manns í að æfa breikspor, snúa sér á bakinu og sveifla sér fram og aftur eins og ormur. Menn nenntu ekki einu sinni í fótbolta í frímínútum og þeir bestu (aka Hlífar) gátu næstum því tekið vindmylluna. Það var hins vegar ekki tekið út með sældinni fyrir foreldra að eiga breikdellubörn. Maður varð að komast á námskeið með ofurbreikurum sem voru fluttir inn frá New York og oftar en ekki lögðu Siggi breik og Stefán Baxter þessum mönnum lið. Ekki var síðri baggi fyrir foreldra að kaupa breik dressið á börnin. Adidas glansgalla og Adidas Top ten breikskó. Nú eru krakkar aftur komnir í svona glansgalla og sennilega eru e-r að breika.

Breiktímabilið stóð þó ekki lengi og fljótlega voru við komnir í fótbolta og nýjar dellur tóku við. Breikið er reyndar alltaf rifjað upp öðru hverju en ég held satt best að segja að Guð hafi ekki skapað breikið fyrir lögmenn á fertugsaldri. A.m.k. ekki aukakílóin.

adidas2adi-top1011h_


Nostalgía nr. 1. Star Wars

Þegar ég var 5 ára var ég neyddur í bíó með pabba mínum og systrum þar sem mamma var í próflestri. Ég reyndi að malda í móinn og sagðist einfaldlega ekki vera í stuði en allt kom fyrir ekki, ég var dreginn á Star Wars. Eftir myndina var ekki aftur snúið. Ég eignaðist Star Wars kalla og alls kyns dót eins Fálkann og X-vængjuna. Ekki var heldur verra í þá daga að með morgunkorninu fylgdu Star Wars myndir. Upp úr 1984 fór áhuginn hins vegar að dvína og dótið endaði niðri í geymslu. Það var svo ekki fyrr en ég var kominn í menntaskóla að haldin var sýning á myndunum þremur. Við það tækifæri ákvað ég að lána dótið til að stilla því upp og auglýsa þannig  sögulegan viðburð. Ég sá dótið aldrei eftir það og fæ enn vont bragð í munninn yfir því miskunnarleysi sem fólst í því að láta bernskuna þurrkast út á einu bretti. Ég fæ hins vegar enn gæsahúð þegar stafirnir birtast á skjánum og flaugin í kjölfarið.

George Lucas fær reyndar mínusstig fyrir að ljúga því að upprunalegu útgáfurnar af gömlu myndunum kæmu aldrei aftur út. Þær eru til sölu á Starwars.com en maður er e-ð tregur til að láta hafa sig að fífli þó það verði eflaust lendingin. Helv... peningaplokk!!!

card-us-stormtrooper31lukebespinp-esb-45-stormtrooper-bfalcon-esb1

 

 


Af athafnamönnum

c_documents_and_settings_eirikur_my_documents_my_pictures_2006_910_oktober_2006_2006_10_06_img_4903.jpg

Vorum að koma frá Köben. Fátt sem kom á óvart þar en ferðin var að öllu leyti vel heppnuð. Einn af hápunktunum var hins vegar að sjá útrás lítilla þýsk íslenskra athafnamanna sem virðast vera komnir í arðbæran rekstur við Kongens Nytorv. Allt fréttir maður síðast.

Annars breyttist álit mitt á Kaupmannahöfn til batnaðar í þessari ferð. Meginástæðan er líklega sú að hótelið sem við vorum á núna er mjög vel staðsett, milli Nýhafnar og Amelíuborgar, og herbergið var með þetta líka fína útsýni yfir Nýja Óperuhúsið. En borgin hefur sína kosti og galla.

Kostir:

Kastrup

Strikið

Eyrarsundsbrúin

Antíkbúðir við Bredgade

Hummel treyjan frá HM 1986

Nýja óperuhúsið

Kongens Nytorv

Latínuhverfið

Gallar:

Reykingar á hverju einasta kaffihúsi

Strikið

Friðrik Weisshappel

Fullir eða kaupóðir Íslendingar (Ef maður vill hitta þetta fólk getur maður alveg eins farið í Kringluna eða á Kaffi Reykjavík)

Slappt, ónothæft en flott metró

Ekkert Tívolí í október

Annars skora ég á athafnamenn Íslands að opna H&M verslun á Íslandi með sama vöruúrval og verð og í nágrannalöndunum. Ef það er hægt að hafa sama matarverð hér og á Norðurlöndum með því að lækka skatt um sjö prósent þá er þetta nú lítið mál. Reyndar er það athugunarefni fyrir hagfræðinga hvernig 7 % lækkun á skatti getur útrýmt 50-100% verðmun. Koma svo, þetta mun spara þúsundum íslenskra karlmanna fýluköst og pirring í utanlandsferðum.

Að lokum vil ég mæla með ferð yfir sundið til Svíþjóðar, sérstaklega til Lundar. Reyndar erum við einstaklega heppin því okkar biðu höfðinglegar móttökur hjá Rabba og Ragnheiði. Lundur er mjög notalegur bær sem minnir á Cambridge mínus Harry Potter stemmningin.

 


Viðburðarríkir dagar

Það hefur margt gerst undanfarna daga. Í fyrsta lagi var byrjað að fylla þetta blessaða Hálslón sem æ fleiri eru að uppgvötva að er hin versta hugmynd. Þegar ég mætti til vinnu á fimmtudagsmorgun voru margir komnir saman fyrir framan einn skjá til að fylgjast með þessum hryllingi. Tek það fram að nokkrir í hópnum eru utan af landi. Það er hins vegar merkilegt að enn er fólksfækkun á Austurlandi en svo er líka talað um að fasteignaverð sé enn lágt. Er það ekki bara í góðu lagi? Ef maður vill endilega búa á e-m stað er þá ekki bara í fínu lagi að draumahúsið kosti lítið? Ég held að málið sé að fólk fyrir austan vill mikinn uppgang þannig að allt hækki í verði og þá loksins sé hægt að fá skikkanlegt verð fyrir húsið sitt. Þá er hægt að láta drauminn rætast og flytja á mölina.

Í öðru kvaddi herinn endanlega í gær eins og sést á þessari frétt Herinn er farinn. Ekki get ég nú sagt að ég gráti þennan blessaða her enda er mér lítt um heri gefið. Ég man hins vegar þegar maður þurfti að fara í gegnum sérstakt vegabréfaeftirlit til að komast í gömlu flugstöðina. Hvernig var það ef maður gleymdi passanum heima en var bara að sækja e-n. Þurfti maður þá að láta útbúa sérstakt bráðarbirgðavegabréf í Keflavík fyrir 10.000 kall? Eitthvað fíflalegt að þurfa að sýna vegabréf á leið sinni um okkar litla land. Annað sem mér leiðist við heri eru kveðjur að hermannasið, bera hendina upp að enni, alvarlegur á svip. Þess vegna finnst mér sérstaklega skemmtilegt að sjá sýslumanninn í Keflavík reyna að brjóta þessa tilgerð upp með því að taka utan um flotaforingjann eins og sést á RÚV fréttinni. Þrátt fyrir góðan tilgang er ljóst að sýsla tókst ekki ætlunarverk sitt þ.e. að ná virkilega góðu faðmlagi og jafnvel smelli á kinnina. Þetta sést best á því að þegar faðmlaginu lýkur verða báðir, einkum þó sýsli, óðamála í kveðjunni og ögn vandræðilegir á svipinn.

Reyndar er þetta staða sem flestar karlmenn þekkja, hvenær viðkomandi er tilbúinn að taka við faðmlagi og hvenær ekki. Ef maður þekkir e-n mjög vel er í lagi að taka allan pakkann þ.e. þétt faðmlag og smell, ef maður þekkir e-n aðeins minna má reyna en maður verður að vera tilbúinn að sætta sig við vandræðalegt klapp á bakið. Svo eru það þeir sem maður þekkir þokkalega en veit ekki hvernig taka faðmlagstilraun. Þar reynir maður ekki einu sinni, því ósköpin geta endað áður en þau byrjuðu með því að látbragðið segir nei og sambandið verður aldrei samt eftir það. Best væri að fólk sem maður býður í mat segi t.d áður en sest er að borðum: "Við viljum bara láta ykkur vita að við erum tilbúin í að faðma ykkur þegar við förum heim" eða "Vinsamlegast ekki reyna að faðma okkur á eftir, allavega ekki hann Gulla." Þá gæti maður sagt að það hefði ekki einu sinni hvarflað að manni. Þannig væri vandamálið leyst en þetta virðist hins vegar ekki vera karlmönnum mjög eðlilegt yfir höfuð.

 

 


Samningatækni

Geir Haarde kynnti niðurstöður varnarviðræðna við Bandaríkjamenn í dag. Ég held að við getum hrósað happi og ef maður væri dónalegur væri við hæfi að nota orðalagið að við séum að taka USA í r.......ð!! Þeir þurfa að hafa herstyrk sinn hreyfanlegan (!!) ef öryggi okkar er ógnað en svo kemur rúsínan í pylsuendanum. Við fáum að hreinsa allt draslið upp eftir þá!!

Þvílík niðurstaða fyrir íslenska, sjálfstæða þjóð. Það væri kjörið að grafa pókersvipinn á Valgerði og Geir, sem færðu okkur þennan happafeng, í vax og skella þeim á Madame Tussaud safnið í London. Þannig gætu þjóðarleiðtogar hvaðanæva úr heiminum dáðst að samningatækni okkar bestu manna.

Það verður gaman í framhaldinu að heyra þá gagnrýni sem bandaríska sendinefndin mun fá eftir að hafa spilað rassinn svo eftirminnilega úr buxunum.

En hvað verður nú um NATO? Skiptir það okkur nokkru máli hvort við erum þar eður ei. Eða hefðum við kannski fengið hreyfanlega herinn þrátt fyrir allt?


Mæli með

1. Sufjan Stevens: Ekki oft sem menn standa undir hæpi en þessi er ferlega góður og platan Illinoise er skyldueign. Sé ekki eftir að hafa álpast til að kaupa miða á tónleikana í nóvember.

2. Rescue me: Besti þátturinn í sjónvarpinu í dag. Denis Leary er frábær harðhaus en það besta er að það er ekkert verið að fela hvað hann og félagar hans eru miklir aular.

3. Austurlandahraðlestinni: Gamli matseðillinn á Austur Indíafjelaginu í álbakka. Taka með  eða setjast niður á staðnum og fletta í blöðum með Pepsi í gleri.

4. Þriðja manninum á RÚV í gær. Þetta er það sem Efstaleitismenn eiga að gera, sýna gamla klassík vikulega eða oftar.

5. Að menn hætti að halda að með því að búa til slagorð og óraunhæf markmið breytist e-ð. Þó "STOPP fjórtánda september" hafi góðan tilgang þá breytir það engu eitt og sér. Ísland er amk hvorki reyklaust né vímulaust. Það þarf að taka á ökuníðingum með öðrum hætti.

6. Ómari Ragnarssyni: Þó menn keppist nú við að fylgja Ómari þá er allt í lagi að bæta sér í hópinn. En því miður mun það ekki breyta neinu úr þessu, sérstaklega þar sem ég kemst ekki í gönguna á morgun. Ástæðan? Ég er að fara að spila fótbolta með náfrænda Ómars í Lindaskóla.

7. Meðalfellsvatni: Það beygja fáir inn Hvalfjörðinn í dag og enn færri frá Hvalfirði inn að Meðalfellsvatni. Þetta er hins vegar fyrirtaks sunnudagsbíltúr sem gott er að færa á enn hærra plan með því að keyra upp Kjósina að Þingvallaafleggjaranum.

8. Borgum: Ég elska íslenska náttúru en erlendis vil ég helst vera í borgum. Eftir að hafa gluggað í The Cities Book eru Tokyo, Damaskus, Sidney, Kaíró og Sjanghæ efstar á óskalista. Ein merkileg staðreynd: í Óperuhúsinu í Sidney eru 2500 sýningar árlega!!

9. Að HK taki einn leik næsta sumar í ÍK búningunum. Menn mega aldrei gleyma uppruna sínum.

10. Suðusúkkulaði: Yfirburðaafurð frá Nóa, sérstaklega í gömlu Konsúm pakkningunum.


Diez

c_documents_and_settings_eirikur_fulltingi_my_documents_my_pictures_200px-skyline_from_jardins.jpg

Við Silla eigum 10 ára samveruafmæli í dag. Það er reyndar spurning hvort það er í dag eða gær því við fundum hvort annað eftir miðnætti á annarri hæðinni á 22. Á þessum tíma hefur okkur tekist að búa erlendis, séð framandi staði í fjórum heimsálfum, keyrt Kjöl, Sprengisand og Hringinn, búið á Stúdentagörðum, útskrifast úr HÍ, eignast íbúð og framsóknarjeppa, skoða Vestfirði, Landmannalaugar, Kárahnjúka og Þórsmörk, gift okkur í sveitinni og síðast en ekki síst eignast tvær stelpuskottur sem eiga hug okkar allann. Við ætlum að halda upp á þetta allt í dag með því að skella okkur í bíó og fá okkur svo e-ð að borða, líklega indverskt. Allt frekar rólegt enda nennir sú yngri ekki að sofa annars staðar en heima hjá sér. Hún á líka afmæli í dag og fagnar heilum fimm mánuðum. Myndir munu birtast á hinni síðunni okkar fljótlega. Sú eldri er hins vegar í lúxusgistingu hjá móðurömmu sinni.

Ég fékk mjög góðar gjafir frá Sillu af þessu tilefni þegar ég kíkti við heima í hádeginu. Mjög flottan nostalgíubol og Lonely Planet bók um bestu borgir í heimi. Mjög flottar myndir og skemmtileg umfjöllun um hverja borg og Reykjavík er að sjálfsögðu með. Það vakti reyndar athygli mína að skv. efnisyfirliti kemst Sao Paulo ekki á blað þó finna megi 200 borgir í henni. Nú er þetta líklega fjórða stærsta borg í heimi og miðstöð viðskipta í Brasilíu. Hvernig stendur á því að það virðist ekki vera neinn túrismi þar sem heitið getur a.m.k. ekki að mati Lonely Planet. Sautján milljóna manna borg hlýtur að hafa upp á e-ð að bjóða. Ég hef séð fjöldann af myndum þaðan og oft minna byggingaþyrpingarnar á Hattífattana úr Múmínbókunum. En það er ljóst að umhverfið minnir ekkert á sykurtoppana í Ríó.

Það er e-ð dularfullt við þennan stað sem einu sinni var kallaður "Blade Runner in the Jungle".


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband