Flottasta fótboltaljósmynd allra tíma

Ég sá fimm ára gamalt fótboltablað hjá vinnufélaga um daginn þar sem þessi mynd var valin besta ljósmynd í sögu fótboltans. Minnir að henni hafi verið lýst þannig að Maradona sé eins og ljón sem er að fara að ráðast á gaselluhjörð.

Geta menn ekki verið sammála þessu vali?

belgio_82


Nostalgía nr. 5. Tölvur

Eins og ég spáði 1985 þá voru tölvur bara bóla sem myndi springa á endanum. Þetta var á þeim tíma þegar allir vinir mínir höfðu verið óðir í Sinclair Spectrum og síðar Commodore. Aftur á móti hafði ég aldrei áhuga á tölvum eða tölvuleikjum og hef ekki enn. Vanþekking mín gekk það langt 1993 að ég keypti svo gamalt módel af Macintosh tölvu að þessir sömu vinir migu næstum á sig af hlátri þegar þeir sáu gripinn. Þessi gígantíski áhugi allra sem mér næst stóðu í vinahópnum leiddi til þess að ég gat engan veginn leitt þetta hjá mér. Það eina sem jaðraði við tölvuáhuga var þátturinn um Whiz kids, sem margir muna eflaust eftir. Nokkrir ofurklárir krakkar settu saman ofurtölvu úr bútum héðan og þaðan og náðu að leysa mál sem oftar en ekki vörðuðu þjóðaröryggi Bandaríkjanna. Ég missti ekki af þætti.

sinclaircommodore150


Óskastundin

Þegar ég startaði bílnum í morgun voru fréttir. Að þeim loknum kom í ljós að ég var að hlusta á Rás 1 og Gerður G. Bjarklind var að fara af stað með þátt sinn Óskastundina. Þessi þáttur er nokkurs konar Síðasti móhíkaninn í íslensku útvarpsumhverfi. Eldra fólk hringir inn og sendir kveðju til vina og vandamanna sem eru annað hvort á hjúkrunarheimili eða eiga stórafmæli. Ég náði einni góðri kveðju frá manni sem sendi konu á Heilsuhælinu í Hveragerði lagið Smalastúlkan. Texti lagsins var auðvitað á þá leið að unga stúlkan væri björt yfirlitum í fjallasal. Ég fór að spá í hvernig þetta verður þegar maður verður sjálfur kominn inn á stofnun. Krakkarnir sem hafa umsjón með Útvarpi Samfés stjórna óskalagakveðjuþættinum Perlum, komin með jólakveðjurödd í samræmi við áratugastarf á Gufunni. "Sigurlaug Stefánsdóttir sendir eiginmanni sínum Eiríki Gunnsteinssyni, Hjúkrunarheimilinu Grund, bestu kveðjur með laginu I want you með Mugison". Síðan endar kveðjan á orðunum: "Og mundu, Eiríkur minn, að nú fer hver að verða síðastur að vera hip og kúl."


Af sýslumönnum

Nú hef ég mikinn á áhuga á sýslumannsembættum. Starfaði hjá embættinu hér í Reykjavík fyrir nokkrum árum og er í miklum samskiptum við þá daglega vegna vinnu. Þess vegna finnst mér merkilegt að frá 1. október átti að vera búið að skipa nýjan sýslumann í Keflavík. Jón Eysteinsson er að hætta og tólf aðilar sóttu um að taka við af honum. Meðal lögmanna fóru af stað umræður hver tæki við, enda þekkir maður til þorra umbjóðenda. En nú virðist allt stopp og hefur verið í nokkrar vikur. Ástæðan er sögð sú að á lokaspretti í skipuninni vöknuðu framsóknarmenn upp við vondan draum því enginn umsækjenda er framsóknarmaður sem er verra því þeir telja sig eiga þetta embætti. Ég skil reyndar afstöðu framaranna vel, það hlýtur að skipta sköpum fyrir framtíð flokksins hver er sýslumaður í Keflavík, sérstaklega þegar lögreglustjórnin er á leiðinni upp á Keflavíkurflugvöll.

Besserwisser

Við hjónakornin gerðum okkur glaðan dag um helgina og leigðum Da Vinci Code. Ég var ekki það spenntur fyrir myndinni að það tæki því að eyða dýrmætri pössun og bíóferð í hana en leiga á disknum var kjörin. Í stuttu máli sagt er þessi mynd allt í lagi en einna merkilegast fannst mér hvað útlitið var líkt því sem ég hafði ímyndað mér við lestur bókarinnar. Þegar ég horfði á myndina rifjaðist upp fyrir mér að Egill Helgason gaf í skyn þegar bókin var sem vinsælust að þetta væri e.tv. lélegasta bók í heimi. Hvernig fær maðurinn það út? Liggur að sama skapi í augum uppi að Titanic sé lélegasta mynd allra tíma? Tapar bók, sem nýtur mikilla vinsælda, gæðum sínum, hvort sem þau voru mikil eða lítil? Þetta minnir mig á þegar ég var í menntaskóla og allt vinsælt var drasl. Líklega felst í þessu e-r ótti við að maður sé með svipaðan smekk og sauðsvartur almúginn.  Það er að sjálfsögðu dauðasynd ef maður vill vera intellektúal. Ætti Egill ekki að vera vaxinn upp úr þessu?

Reyndar er fleira við Egil Helgason sem fara í taugarnar á mér. Einu sinni fannst mér hann sniðugur penni en í seinni tíð virðast hlutirnir bara vera svona eða hinsegin, svart eða hvítt, rúgbrauð eða fransbrauð. Gott dæmi er þegar hann hélt því fram að vitlausasta hugmynd í heimi væri þegar slökkt var á götuljósunum í Reykjavík. Ekki vegna þess að það þyrfti jafnframt að slökkva fleiri ljós. Nei, Egill sagði nokkrum dögum seinna að þetta hefði verið svo vitlaust því líkurnar á skýjuðu veðri voru yfirgnæfandi og menn gætu alveg farið uppí sveit til að horfa á stjörnurnar. Ég held að það átti sig allir á því að stjörnurnar sjást betur í sveit og varðandi skýin þá er það nú einu sinni þannig á haustin að það koma alltaf reglulega heiðskírir dagar og stjörnubjartar nætur. Í þessu fólst hugmyndin, að borgarbúar gætu séð stjörnurnar frá sínu heimili en þyrftu ekki að fara út í sveit. Mér leið hins vegar eins og ég væri í falinni myndavél þegar ég var búinn að slökkva allt inni og fór út á svalir án þess að sjá eina stjörnu. Á vinstri hönd stóðu hins vegar Háskólabíó og Hótel Saga eins og geimskip úr Nánum kynnum af þriðju gráðu. En maður getur rétt ímyndað sér hvað þetta gæti verið flott eins og veðrið var í síðustu viku.

Önnur bjánleg fullyrðing hjá Agli var e-ð á þessa leið:

"Aðalatriðið er þó að kommúnistar trúðu á vopnaða byltingu, þeir voru partur af alheimshreyfinu sem boðaði byltingu, hugmyndin var - allt í lagi, við förum eftir lýðræðislegum leikreglum þegar okkur hentar, en við aðrar aðstæður notum við vopn og tökum völdin. Áttu menn ekki að trúa kommúnistum, og kannski hugsa sem svo - þeir meina ekkert með þessu greyin?

Ef slíkur stjórnmálaflokkur væri starfandi núna, segjum til dæmis hreyfing herskárra íslamista, þá væri varla furða þótt menn væru tortryggnir."

Þetta er innlegg Egils í umræðu um hleranir. Ég spyr hvaða kommúnistar voru líklegir til að standa fyrir blóðugri byltingu? Var það Einar Olgeirsson eða var það kannski Gunnar M. Magnús, afi minn, sem alltaf var allmikið til vinstri? E.t.v. var það Ragnar Arnalds, sem menn áttuðu sig ekki hvort væri holdgervingur Mið amerískra byltingarhugmynda eða úlfur í sauðagæru. Allir sem séð hafa Ragnar hljóta að sjá að þar fer maður sem enginn getur treyst.

Hefði að sama skapi verið rétt að hlera síma íslenskra hægrimanna sem litu upp til M. Tatcher vegna þess að hún leit á Pinochet sem vin sinn og fagnaði árangri hans í lýðræðisátt í Chile? Var mikil hætta á að hægrimenn á Íslandi rændu völdum með fulltingi bandaríska hersins líkt og skoðanabræður þeirra í S-Ameríku?

Ég held að Egill hafi fantagott minni en ályktunarhæfni hans og skortur á common sense benda til þess að hann sé ekki jafn klár og hann þykist vera. Viðhorf hans til manna og málefna eru oftar en ekki sett fram í barnalegum einfaldleika og skortir dýpt sem stjórnmálaskýrandi verður að hafa.


2-0

Góður móralskur sigur og liðið vonandi á réttri leið. Fannst reyndar erfitt að horfa á mína menn liggja aftarlega og beita skyndisóknum en það eru úrslitin sem máli skipta. Þeir hefðu reyndar getað bætt við í seinni hálfleik en 2-0 er ásættanlegt.

Í spænskum blöðum er talað um fjarveru Etoo og sérstaklega að Eiður Smári hafi ekki sama markanef og hann. Einna lengst er gengið í AS þar sem Eiður fær þann vafasama heiður að fá einkunnina Vaya día eða Hvílíkur hörmungardagur.

¡Vaya día!

Gudjohnsen
Falló un gol claro después de una gran jugada de Messi y demostró que está a años luz de Etoo.

Í stuttu máli þýðir þetta: Klúðraði dauðafæri eftir glæsilegan undirbúning Messi og sýndi og sannaði að hann er ljósárum á eftir Etoo.

Í El Mundo fær hann einkunina 1 af 10 mögulegum. Þarf ekki að fjölyrða um að það er lægsta einkunin úr leiknum.

Fullharkalegt en svona er spænska pressan.


Minning um mót

Á fallegum en köldum haustdögum er gott að hlýja sér við minningar frá Þýskalandi í sumar.


Hvalveiðar

Ég hef ekkert á móti hvalveiðum sem slíkum. Átta mig satt að segja ekki af hverju það má ekki veiða eina tegund dýra eða fiska frekar en aðrar nema e-r hætta steðji að viðkomandi tegund. Hins vegar finnst mér algerlega í hött að verið sé að fórna meiri hagsmunum fyrir minni með þessum aðgerðum. Ef e-ð sannleikskorn er í því að hvalveiðar geti skaðað ferðamannaiðnaðinn þá á bara að láta þetta vera. Goðsögnin um að hvalir borði frá okkur fiskinn var í það minnsta hrakinn af e-m sérfræðingi frá Hafró á Rás 2 í dag. Hann sagði að hrefna borðaði þorsk en aðrar hvalategundir nærist nær eingöngu á svifdýrum. Auðlind er ekki auðlind bara vegna þess að hægt er að nýta hana, nýtingin verður að skila e-u af viti.

Það er ekki á hverjum degi sem Magnús Skarphéðinsson kemur út eins og yfirvegaður og skynsamur maður en það tókst honum í Kastljósi í kvöld meðan Kristján Loftsson sat skrækur og stamandi á móti honum.  


Nostalgía nr. 4. Bíó í Kópavogi

Fyrir mörgum árum síðan var starfrækt kvikmyndahús í Kópavogi. Ég held reyndar að það hafi verið eitt í Hamraborg en það sem ég er að tala um var í iðnaðarhúsnæði við Skemmuveg. Á þessum tíma voru flest kvikmyndahús í miðbænum en þó var búið að setja á laggirnar Bíóhöllina í Mjódd. Það sem gerði þó bíóið við Skemmuveginn frábrugðið flestum öðrum var sú staðreynd að yfirleitt var frítt inn en einnig var myndaúrvalið allsérstakt. Flestir á mínu reki sem bjuggu í Hjalla-og Hólmahverfi ættu að muna eftir Undrahundinum og Starcrash en einnig voru þeir með fullorðinsmyndir (gott ef það var ekki bara Debbie does Dallas). Það var ekki óalgengt að sami maðurinn hefði séð Undrahundinn og Starcrash svo tugum skipti en það versta var að eigendurnir græddu ekkert á sælgætissölunni því flestir mættu með popp og gos að heiman. Þannig lauk því þessu bíóævintýri. Ég væri alveg til í að geta rölt inn í þennan sal og séð byrjunina á Starcrash en salurinn var því miður eyðilagður fyrir löngu. Ég held að það sé verkstæði eða skoðunarstöð þarna í dag.

Crash24


Real-barca

Næstu helgi verður stórleikur á Spáni þegar Real Madrid tekur á móti barca. Ég er ekki beinlínis uber bjartsýnn en tap barselónumanna í kvöld og sigur Real í gær gefa þó ákveðnar vonir um skemmtilegan leik. Reyndar las ég áhugavert viðtal við Bernd Schuster þar sem hann lýsir því hvað það skipti miklu máli fyrir barca að vinna Real Madrid meðan þeir síðarnefndu voru búnir að átta sig á því að meistaratitillinn ynnist á fleiri vígstöðvum. Þessi ummæli eru merkileg fyrir þær sakir að Schuster lék bæði með barca og Real á seinni helmingi 9. áratugarins. Glöggir lesendur muna eflaust að á þeim tíma vann Real fimm meistaratitla í röð.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband