Spurning dagsins

Spurt er um lið að gefnu tilefni:

1. Umrætt lið hefur unnið Evrópukeppni meistaraliða jafnoft og Nottingham Forest.

2. Umrætt lið vann ekki einn einasta titil á sex ára tímabili sem lauk fyrir skömmu.

3. Forráðamenn félagsins gáfu öllum stuðningsmönnum sínum minnisleysispillu enda virðist enginn muna eftir þessu tímabili.

4. Liðinu tókst að tapa úrslitaleik Evrópukeppni meistaraliða gegn liði frá Austur Evrópu þrátt fyrir að leikurinn færi fram í heimalandi umrædds félags.

5. Félagið telur sig vera stærsta og besta félag í heimi þrátt fyrir að það sé ekki stutt neinum rökum.

 


Like father like daughter

c_documents_and_settings_eirikur_my_documents_my_pictures_2007_01_10_img_6115_110771.jpg
Síðdegis tilkynnti fimm ára dóttir okkar hjóna að nú væri hún tilbúin að horfa á leikritið sem er á myndinni inni í eldhúsi. Þegar betur var að gáð kom í ljós að umrædd mynd er af Star Wars köllum sem raðað hefur verið í kringum afmælisköku í tilefni af eins árs afmæli myndarinnar. Hjartað í mér tók kipp og ég ákvað að leyfa henni að byrja á fyrstu myndinni eftir kvöldmat. Af gömlum vana kláruðum við að horfa á myndina enda finnst mér þetta ekki ólíkt því þegar pabbi sagði við mig í gamla daga að maður slökkti ekki á sjónvarpinu meðan þjóðsöngurinn var leikinn eftir síðasta dagskrárlið á sunnudagskvöldum. Skemmst er frá því að segja að þeirri stuttu fannst myndin skemmtilegri en Sitji guðs englar í leikhúsi, skemmtilegri en nýja jólamyndin með Mikka og skemmtilegri en að þrífa með mömmu!! Þá fóru reyndar að renna á mig tvær grímur en nokkrum stundum síðar fékk ég aðdáunina staðfesta. Þegar hún var komin upp í rúm tók hún sig nefnilega til og teiknaði myndina á hulstrinu og skrifaði Star Wars við. Myndin fylgir með en eina sem Silla gat sagt var:Hún er alveg eins og þú, algjör dellukelling. Eins og sjá má á myndinni er Lilja prinsessa í uppáhaldi en hún skilur ekki alveg af hverju prinsinn sem leysir hana úr álögum er bróðir hennar. Fljótlega munum við taka númer tvö en mér heyrist hún reyndar vera spenntari fyrir þriðju myndinni. Út af böngsunum.

Lögfræðikjaftæði

Ég stóð í málflutningi í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag sem endaði reyndar með sátt. Eftirá stóð ég á spjalli um atriði málsins við innganginn að Héraðsdómi þegar e-r rónakelling með sjóræningjaklút, sem hafði setið á tröppunum, stóð upp og hvæsti á okkur "Ég nenni ekki að hlusta á svona lögfræðikjaftæði" og strunsaði fyrir hornið. Nú skal tekið fram að kona þessi var aldrei inni í samræðunum enda hafði ég varla tekið eftir henni. En þetta kennir manni eitt, maður á ekki að bjóða rónum bæjarins upp á neitt kjaftæði . Allavega ekki lögfræðikjaftæði.

Markaðsvæðing

c_documents_and_settings_eirikur_fulltingi_my_documents_my_pictures_224083600_b54ea4d6d0_108957.jpg
Ég fann þessa mynd um daginn á netinu. Sá sem tók hana er mikill Liverpool maður sem var á vellinum þegar þeir unnu Milan í Istanbul 2005. Sá leikur fer reyndar í sögubækurnar ásamt sigri Uruguay á Brasilíu 1950, Grikkja á Portúgölum 2004 og Steua Búkarest á Barcelona 1986 sem ein óvæntustu og fáránlegustu úrslit allra tíma. Það sem mér finnst fyndnast við þessa mynd kemur úrslitunum reyndar ekkert við heldur finnst mér hún sýna hvað fótboltinn gengur mikið út á útlit og hvað kemur vel út í sjónvarpi. Takið eftir gæjanum með þennan risavaxna, confettifyllta hárblásara fyrir aftan pallinn. Þetta lítur vel út í sjónvarpi en frá þessu sjónarhorni er þetta í besta falli bjánalegt. Að auki sér ekki nema hluti vallargesta bikarinn fara á loft meðan hinir reyna að rýna i gegnum confetti skýið. Ég legg til að tekinn verði aftur upp sá siður hjá UEFA að notast verði við borð úr næsta grunnskóla sem bikarnum er stillt á og Lennart Johanson rétti sigurvegaranum hann svo við látlausa athöfn. Hitt er eins og dósahlátur. En hverjar eru eftirminnilegustu bikarafhendingar allra tíma. Það er erfitt val því margt kemur til greina. Þegar Bryan Robson tók á móti FA bikarnum 1982, Tassotti tók við bikarnum fyrir Milan í Aþenu 1994 eða flugeldasýningin og ljósashowið sem ég var viðstaddur, þegar Madrid tók við spænska titlinum á heitu sumarkvöldi 2003. Allt var þetta flott en það sem stendur upp úr hlýtur að vera þegar Eggert Magnússon kom færandi hendi í þyrlu með bikarinn til Víkinga eftir sigur þeirra á Víði í Garði 1991. Ég er langt frá því að vera Víkingur en e-ð segir mér að Gulli Helga hafi verið lamaður af gæsahúð þennan eftirmiðdag í Garðinum.

Nokkur atriði

Hereford: Fór með nokkrum félögum úr Lárusi Rist til að snæða steik. Þokkalegur staður, steikin ekki mikið meira en sæmileg og þjónustan frekar viðvaningsleg. Ég held að flestir geti verið sammála um að þegar fyrstu viðbrögð þjóns er eitt stórt spurningarmerki þegar hann er spurður um T-bone, þá er menn ekki fullnuma í steikarfræðum. En félagsskapurinn er alltaf góður en hversu lengi verða 10-15 ára gamlar hálfvitasögur fyndnar? Mjög lengi ef miðað er við hláturískrið í manni þegar British museum bar á góma.

Hreindýr: Rétt eldað er þetta líklega besta kjöt sem fáanlegt er. Hreindýrapeysur eru líka kúl.

Skaupið: Mjög gott í ár, mér tókst í það minnsta að hlægja upphátt á nokkrum stöðum. Spurning hvort Ólívur Ragnar Grímsson nái sama cult status og Þú ert (d)rekinn.

Svefnprógram: Eftir saurlifnað síðustu vikna er sú yngri komin í stíft prógram. Það tekur reyndar verulega á mann að vakna á 10-15 mínútna fresti við gólin úr barnarúminu en vonandi fer að komast regla á kvikyndið.

Saddam: Aftaka Saddam Husseins sýndi glögglega hvað dauðarefsingar eru ömurlegt fyrirbæri. Ég efast ekki um að maðurinn var fúlmenni en það breytir því ekki að það hefur engum verið veittur réttur til að drepa aðra manneskju. Þar að auki var þetta algert anticlimax þegar "helsti ógnvaldur heimsins" er tekinn af lífi í e-m kjallara sem virðist vera rétt tilbúinn undir tréverk og böðlarnir eru allir með Nokia myndasíma á lofti. Gripinn eins og rotta og drepinn eins og rotta, var væntanlega markmiðið. 

Hafnabolti: Af hverju veit maður hverjir Babe Ruth, Ty Cobb, Joe DiMaggio og Mickey Mantle voru en á í erfiðleikum með að nefna nokkurn fótboltamann frá fyrri hluta 20. aldar. Svarið er einfalt, það er búið að troða gerviminningum í hausinn á manni í fjölda ára með amerísku skemmtiefni. Þar af leiðandi fyllist maður e-m söknuði og notalegheitum þegar Simon og Garfunkel syngja "Where have you gone Joe DiMaggio, a nation turns it´s lonely eyes to you wuhuhu". Samt veit ég lítið um þennan mann enda hef ég einfaldlega aldrei séð hafnaboltaleik í fullri lengd og finnst lítið til þeirrar íþróttar koma. Ég fór meira að segja einu sinni á mynd um Ty Cobb. Ekki hefur nokkrum manni hugkvæmst að gera mynd um Giuseppe Meazza eða Dixie Dean.


Nostalgía nr. 8. Vatnaskógur

Í byrjun myndarinnar um Jón Odd og Jón Bjarna eru nokkur myndbrot úr daglegu lífi drengja í Vatnaskógi. Ég var að horfa á þetta um daginn og allt í einu greip mig svakaleg nostalgía. Ég fór í fyrsta skipti í Vatnaskóg sumarið 1981 og lét ekki staðar numið fyrr en eftir fimm skipti sumarið 1985. Þetta var og væntanlega er alveg einstakur staður þó ég hafi ekki tekið þátt í starfi KFUM þar fyrir utan. Minningarnar tengjast oftar en ekki lykt eins og oft vill vera og þá sérstaklega sveittri og blautri björgunarvestalyktinni í bátaskýlinu, notalegri fúkkalyktinni í kapellunni, lyktarblöndunni af matarílátum og eldamennski í matsalnum og lykt af tannkremi við stálvaskana í Laufskálanum, sem reyndar leit út eins og vinnubraggi. Önnur atriði sem ég man vel eftir eru sjoppuferðir í kjallara Gamla skála einu sinni í viku til að ná í Pepsi í gleri með lakkrísröri og Nóakropp, brauð með rifsberjahlaupi í kaffitímanum, fyrrverandi trommuleikari Trabant vinna öll frjálsíþróttamót í Adidas galla með bandi undir iljunum og glæstum sigrum á knattspyrnuvellinum með Bjarka Pétursson fremstan í flokki. Ég man meira að segja fatanúmerið mitt, 1262, enda var auðvelt að muna það vegna Gamla sáttmála. Dálítið nördalegt en það hefur nú aldrei talist töff að sitja með fullum sal af strákum í litlum sal og syngja Áfram kristmenn krossmenn á fullum styrk. Eða hvað?

haus5


Að stanna

Ég sá loksins þetta umtalaða myndbrot úr Kompáss þættinum um Byrgið. Hef svo sem ekki áhuga að setja fram merkilegar skoðanir um greiðslur fjölmiðla til viðmælenda eða hvort kynlífshegðun Guðmundar sé óeðlileg eða jafnvel ólögleg. Hins vegar náði maðurinn nýjum hæðum í hallæri með þessum skilaboðum. Sumir myndu jafnvel segja að þarna sé hugtakið að vera hallærislegur komið fram í sinni tærustu og jafnvel fegurstu mynd. Fyrst er að nefna að sá gjörningur að mynda sinn getnaðarlim er stórundarlegur í sjálfu sér og batnar ekki við það að senda myndina úr símanum. Þegar ofan á það bætist að tala um liminn í þriðju persónu sem litla vin og bæta um betur og sletta því svo yfir á dönsku myndu margir meina að nýjum hæðum hafi verið náð. Nei nei þá gengur Guðmundur skrefinu lengra og byrjar að segja "ikke stanna nu" með e-i undarlegri blöndu af reiði, norsku og kokhljóðum. Þarna nær hann þessari fullkomnun í hallærisheitum, sem áður var nefnt, enda hef ég ekki hugmynd um hvað er að stanna. Til hamingju Guðmundur þú ert án efa hallærislegasti maður Íslands. Nái Arnar Gauti og hallæriseftirlitið e-n tímann í skottið á þér, bið ég bara Guð að hjálpa þér.

 


Grófir drættir

Ég var staddur í Leifsstöð í byrjun október sl. þegar Örn Úlfar Sævarsson, forleggjari bókarinnar Maður ársins 2006 í grófum dráttum, hringdi í mig til að leita smá aðstoðar við stofnun einkahlutafélags. Ég varð auðvitað forvitinn og fékk að vita að til stæði að gefa út bók með myndum Halldórs Baldurssonar. Ég vissi að myndirnar hans höfðu birst í Blaðinu en ólíkt flestum öðrum, að því er virðist, hefur aldrei verið neitt vandamál að fá Blaðið. Vandamálið hefur því kannski verið að fá alltaf Blaðið en nenna aldrei að lesa það. Ég veitti því myndum Halldórs litla athygli en man þó eftir einni mynd sem var snilldarlega teiknuð og full af hrollköldum húmor. Björn Ingi stendur í dómarabúningi í boxhring milli Dags B.E. og Gamla góða Villa og segir e-ð á þessa leið: Lumbrið á hvorum öðrum og sá sem vinnur má velja mig sem borgarstjóra. Eftir þetta fór ég að fylgjast betur með þessum teikningum en þar sem Blaðið endaði yfirleitt beint í tunnunni með Rúmfatalagers- og Hagkaupstíðindum, varði lítið úr því. Það var því kærkomið þegar forleggjarinn sjálfur afhenti mér áritað eintak í vikunni. Ég var ekki lengi að spæna mig í gegnum bókina meðan yngri dóttir mín var að sofna og ég get með góðri samvisku sagt að ég var ekki svikinn. Teikningarnar eru mjög góðar og hann nær flestum andlitum mjög vel en það eru ekki síður hugmyndirnar sem slá í gegn og notkun á dýrum, sem minnir mann á það besta frá Gary Larsson. Brandarnir eru reyndar misgóðir en það hlýtur að teljast ótrúlegt hvað Halldóri hefur samt tekist að skila góðum myndum daglega inn í Blaðið. Ég hlakka til sjá meira.


Retró

Fékk góða kveðju frá manni í Gestabókinni sem gladdist yfir því að það væru til fleiri hálfvitar en hann sem hafa áhuga á gömlum fótboltatreyjum. Þakka hlý orð í minn garð en öllum áhugamönnum um gamlar treyjur er ávallt velkomið að hafa samband. Ég hef reyndar selt nokkrar treyjur á ebay undanfarið og hæstbjóðendur hafa verið frá Mexíkó, Hong Kong, Bandaríkjunum og Þýskalandi. Hálfvitarnir leynast víða. Ef e-r vill koma gamalli treyju í verð þá má hinn sami endilega vera í sambandi.

Hef um fátt annað að rita en ef fólki fannst Björn Ingi standa sig vel í Kastljósinu gegn Degi í gær þá eru stjórnmál og umræða um þau á villigötum. Þvílík kúadella sem vall upp úr honum en hann má eiga það hann kemur vel fyrir, talar skýrt og sannfærandi og nær að halda andlitinu. Svellkaldur en svakalega sleazy. Synd að það sé ekkert vit í því sem hann segir eða þeim skoðunum sem hann stendur fyrir. Svona alla jafna.

Talandi um frammara í tvöfaldri merkingu. Steingrímur Ólafsson heldur úti ótrúlega vinsælli bloggsíðu eins og allir vita. Þar kemur hann fram sem mjög skarpur fjölmiðlamaður sem enginn er óhultur fyrir. Gallinn er bara sá að hann er svo litaður af grænni slikju að á honum er lítið mark takandi. En maður tékkar stundum á honum.

Að lokum vil ég minnast á Pinochet, besta vin M. Thatcher. Það er merkilegt hvernig menn skipast í hópa eftir stjórnmálaskoðunum þegar rætt er um einræðisherra. Sjöllum finnst Castro og co. viðbjóðslegir morðingjar en Allaböllum finnst Pinochet djöfull í mannsmynd. Það er í þessum anda sem e-r sniilingurinn á Vefþjóðviljanum skrifar um Pinochet. Hann vill meina að þingið í Chile hafi óskað aðstoðar hersins við að koma kommúinstanum Allende frá völdum þar sem hann hafi sýnt einræðistilburði. Í kjölfarið "tók hann kommúnista engum vettlingatökum" játar höfundur reyndar. Engum vettlingatökum!!! Hurfu ekki þúsundir manns í stjórnartíð hans? Ætli mönnum finnist þetta ekki í lagi vegna þess að við getum ekki skilið hvernig tíðarandinn var í kalda stríðinu, svona löngu seinna.

Það er ekki öll vitleysan eins.

 


Nokkrir punktar

Ég nenni lítið að skrifa á þessa síðu þessa dagana. Vonandi dettur manni e-ð sniðugt í hug á næstunni en þangað til eru nokkur atriði sem ég verð að minnast á, hvert úr sinni áttinni.

Í fyrsta lagi vil ég minnast á Eið Smára sem er að gera góða hluti hjá Barca. Hins vegar er ég ekki sáttur við að hann sé titlaður besti leikmaður í sögu íslenskrar knattspyrnu eins og það sé algerlega óumdeilt. Þegar Ásgeir Sigurvinsson var á hápunkti síns ferils var hann valinn besti leikmaður þýsku deildarinnar af leikmönnum, var í 13. sæti í vali á knattspyrnumanni ársins hjá World Soccer, spilaði í úrslitaleik UEFA keppninnar gegn Maradona og félögum, var í hópi Bayern Munchen í úrslitum Evrópukeppni meistaraliða 1982 og varð þýskur meistari með Stuttgart. Á þessum árum var þýska deildin mjög sterk, Hamburger SV var Evrópumeistari og Þjóðverjar sjálfir fóru tvisvar í úrslit HM. Þá var haft eftir Klinsmann í World Soccer að Ásgeir væri besti leikmaður sem hann hefði spilað með og Beckenbauer vildi meina að þýska landsliðið hefði getað orðið heimsmeistari ef Ásgeir hefði verið þýskur. Sennilega deila því Eiður og Ásgeir efsta sætinu ásamt mögulega Berta Gúmm. Um hann veit ég hins vegar minna.

Í öðru lagi er ég ekki alveg kaupa Reyni Traustason. Það er ágætt hjá honum að ganga með hatt og láta hákarlatönn hanga úr keðju um hálsinn. Dálitið svona harðjaxl með harðlífi sem lifir á landsins gæðum í harðbýlu landi. Hinn vestfirski Lukku Láki. Ég skil hins vegar ekki af hverju hann er notaður sem andlit Ísafoldar og því síður af hverju honum var klesst á forsíðu Skuggabarna. Ég get ekki ímyndað mér að hann muni selja fleiri blöð fyrir það eitt að standa einn með andlitið í snjóstorminn og þylja upp efni blaðsins. Þeir hafa kannski ekki efni á því að ráð sér almennilega rödd. En hvaðan er það kredit komið sem hann telur sig hafa hjá þjóðinni. Lifir hann enn þá Litla landssímamanninum eða hélt hann að útvarpsþátturinn með honum og Eiríki Jónssyni sem sýndur var á NFS hafi gert hann að stjörnu. Kannski er hann snillingur en hann felur það þá vel, amk. fyrir mér.

Í þriðja lagi hata ég fréttir af alvarlegum umferðarslysum, sérstaklega þegar rekja má þau til gáleysislegrar framúrkeyrslu. Þegar ég keyri tvöfalda kaflann á Reykjanesbrautinni finn ég til öryggis sem er vandfundið annars staðar utan höfuðborgarsvæðisins. Úti á landi er ég alltaf með hugann við hvort næsti ökumaður sem ég mæti sé tifandi tímasprengja. Slíkir ökumenn gera hins vegar sjaldnast boð á undan sér.

Í fjórða lagi tókst mér loksins að kíkja á Pönk og diskó sýninguna í Árbæjarsafni. Mjög skemmtileg sýning og mér tókst meira að segja að taka nokkur dansspor í Hollywood. Fyrir þessu stendur góður Lalli grunar mig.

Í fimmta lagi eru  að koma jól og ég hlakka til að eyða fyrstu jólunum heima hjá mér með kellunum mínum þremur. Kalkúnn a la Eiríkur á borðum, byggður á ævafornri uppskrift Gunnsteins Gunnarssonar, læknis og róttæklings. Á óskalistanum er þetta:

http://www.subsidesports.com/uk/store/product_details.jsp?pid=72057594037945121&cid=503&brc=&red=product_list.jsp?id=503,

http://www.shopadidas.com/product/index.jsp?productId=2434971&shopGroup=R&cp=2039765.2019613.2180735&parentPage=family&colorId=

http://edda.is/net/products.aspx?pid=1806&l_cid=115&l_pubid=-1&l_y=2006&sw=&l_t=6

http://www.jpv.is/index.php?post=1657&page=10

http://halldor2006.blog.is/blog/2006igrofumdrattum/

http://shop.starwars.com/catalog/product.xml?product_id=405389

http://www.sim.is/Index/Islenska/Frettir/Nanar/newsid-614

Þessi síðasta er meira hugsuð ef Roman Abramovich vill gefa mér e-ð.

Mér mun hins vegar nægja kerti og spil eða góð peysa úr Dressmann.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband