30.11.2006 | 23:43
Nostalgía nr. 7. Chopper
Ég flutti í Kópavoginn 5 ára gamall en á þeim tíma var ég að byrja að læra að hjóla. Ef ég man rétt fékk ég svokallað Fálkahjól, sem var blátt með svörtum hnakki og boginni, stöng skömmu síðar. Ég var himinlifandi en horfði samt á stóru strákanna hjóla niður Efstahjallann á "Kopper" með aðdáunarglampa í augum. Þetta voru ekkert venjuleg hjól, menn hölluðu sér makindalega aftur og teygðu sig í hátt stýrið þannig að úr varð e-s konar átta ára útgáfa af Easy Rider.
Örfáum árum seinna leið þó tími þessara hjóla undir lok og við tóku hrútastýri og BMX. Ég átti reyndar frábært BMX hjól af Everton gerð sem var stolið fyrir utan Efstahjalla 19 einn fagran sumardag. Með grátstafina í kverkunum fór ég með pabba til lögreglunnar en þar var fátt um svör. Þó kom fram ein tillaga að lausn sem verður að teljast mjög undarleg þegar maður lítur tilbaka. "Prófið að leita í Írabakka" sagði starfsmaður lögreglunnar og við keyrðum þangað. Eftir talsvert rölt var hins vegar ljóst að leitin myndi ekki bera árangur. Þess í stað reyndi ég að selja DV niðri í bæ fyrir nýju hjóli og gekk þokkalega. Það kom því að lokum með smá hjálp frá heimilistryggingunni. En Írabakki var stimplaður fyrir lífstíð, með aðstoð lögreglunnar í Kópavogi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.11.2006 | 10:36
Gullhnötturinn
Fabio Cannavaro hefur verið valinn knattspyrnumaður ársins í Evrópu af tímaritinu France Football. Var meðfylgjandi mynd tekin af honum við það tækifæri. En er ekki e-ð skrýtið þegar teinóttu jakkafötin eru frá Nike. Er Armani kalt úti? Verslar maður jólafötin í Útilíf?
Maður spyr sig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.11.2006 | 13:26
Peter Sellers
Við Peter Sellers ólumst upp saman, hann í sjónvarpinu en ég fyrir framan það. Sérstaklega um helgar þegar Ríkissjónvarpið réð eitt ríkjum, var fátt meira spennandi en þegar mynd með Peter Sellers var á dagskrá. Um mig fer e-r notaleg tilfinning þegar ég hugsa til þess þegar laugardagur rann upp, rúllað var út í sjoppuna í Vörðufelli og aftur tilbaka með kók í gleri og hraun. Stundum lakkrísrör til að dýfa oní flöskuna. Þegar heim var komið var MASH fyrst á dagskrá og svo mynd kvöldsins, Bleiki pardusinn snýr aftur. Og það sem maður gat hlegið að þessu franska fífli. Mig minnir líka að snilldarmyndin Being there hafi verð fyrsta myndin sem sýnd var í Bíóhöllinni. Reyndar er e-ð undarlegt við það að hið actionóða bíóhúsakyn frá Keflavík skyldi hefja ferilinn í Reykjavík með slíkri gæðamynd. En það er önnur saga.
Það var ekki fyrr en seinna sem maður heyrði sögur af því að Sellers hafi verið snarbrenglaður kararkter, vondur við menn og málleysingja, einkum konur og börn sín. Það var erfitt að kyngja slíkum sögum sem virtust ekki vera í neinu samhengi við svona viðurstyggilega fyndinn og skemmtilegan mann. Ég kafaði þó aldrei djúpt ofan í þessar sögusagnir enda var mér nokkurn veginn sama um Peter Sellers á þeim tíma.
Það var hins vegar kærkomið hjá RÚV um helgina að sýna mynd um ævi Sellers. Myndin er bara nokkuð góð, haldið uppi af Geoffrey Rush sem sýnir ansi góða takta sem Sellers og talsvert betri en ég átti von á, því hlutverkið er enginn hægðarleikur. Í fyrsta lagi var Sellers afburðaleikari sem gat brugðið sér í allra kvikinda líki og í öðru lagi er hann með svo sterka ímynd í huga fólks. En þetta gekk ágætlega upp þó myndin vaði fullmikið úr einu í annað enda er reynt að gera ferlinum, sem var mjög viðburðarríkur, skil á tveimur tímum. En það sem kannski er merkilegast við myndina er að í henni fær maður staðfest þvílíkt ómenni kallinn var, sérstaklega gagnvart börnum sínum og eiginkonum, þó samskipti við aðra hafi ekki verið upp á marga fiska. Þegar hann lést rann megnið af eigum hans til þáverandi eiginkonu en sama dag stóð til að þurrka hana úr erfðaskránni. Til barna hans runnu 2000 dollarar.
Þetta breytir þó ekki þeirri staðreynd að Peter Sellers er án efa einn besti gamanleikari sem fram hefur komið. Ef ekki sá besti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.11.2006 | 23:55
Á heilanum
Þetta lag hefur tekið sér bólfestu í hausnum á mér. Líklega hefur það gerst síðastliðið laugardagskvöld.
http://www.youtube.com/watch?v=sJGrBtzk1rU
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.11.2006 | 10:27
Afmæli
Ég á afmæli í dag og fagna því 33 árum í þessu lífi. Samt finnst mér svo stutt síðan ég leit heiminn augum í fyrsta sinn, geispaði og fékk mér blund.
Í morgun var ég vakin af kellunum mínum þremur með köku og góðum gjöfum. Sú yngsta hafði reyndar gert sitt besta til að halda mér vakandi alla nóttina. Beitti hún m.a. til þess ævafornri kínverskri pyntingaraðferð sem felst í því að koma litlum þvölum fæti fyrir á skinninu og draga hann svo niður þannig að teygist vel á húðinni og líkamshár sem fyrir verða eru við það að rifna af.
Skelli inn nýlegri mynd af afmælisbarninu í tilefni dagsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
21.11.2006 | 16:40
Löglegt en siðlaust
Ef dætur mínar spyrja mig einn góðan veðurdag í nánustu framtíð hvað það þýði að e-ð sé löglegt en siðlaust mun svar mitt verða á þessa leið: Það er þegar maður dúkkar upp í prófkjöri hjá stjórnmálaflokki og segist vera alþingismaður þó enginn kannist við hann nema innstu koppar í búri. Fær svo þvílíkan rassskell að hann fer í fýlu og segir skilið við flokkinn sem hann þó settist á þing fyrir sem varamaður, vegna þess að hann vill vinna að sínum málum á þingi. Og jafnvel fyrir annan flokk!!
Og það versta er að fyrrverandi samherjum hans er alveg sama því þeim finnst hann eiga rétt og skyldu til þess að fylgja sinni sannfæringu.
Ef ég kýs Samfylkinguna í kosningum þá vil ég að það fólk sem sest inn á Alþingi af listanum sé áfram í flokknum. Hvað þá varaþingmenn sem enginn er í raun að kjósa. En að sjálfsögðu eiga menn að fylgja sannfæringu sinni enda vona ég að menn geti það þó þeir séu í flokki. Á því virðast þó hafa verið allmargar undantekningar.
Hvað ætli repúblikanar hefðu sagt ef G. Ford, sem var varaforseti Nixon, hefði ákveðið að skipta yfir í Demókrataflokkinn eftir að hann tók við forsetaembætti?
Reyndar fannst mér útkoman í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík dapurleg. Ef það er rétt að Össur sé enn sár eftir tapið í formannsslagnum og vinni gegn ISG þá er ég hræddur um að þau ættu bæði að snúa sér að e-u öðru. ISG vegna þess að hún hefur augljóslega ekki það traust sem hún verður að hafa og Össur því hann er of tapsár til að standa í þessu. Listinn er heldur ekki sigurstranglegur, sömu gömlu andlitin sem fáir hafa trú á (að undanskildum Helga Hjörvar) og eini nýliðinn er versti kandídatinn frá R listanum. Verst fannst mér þó að hlutur Kristrúnar Heimisdóttur var frekar rýr. Ég er hræddur um að mitt atkvæði renni annað í vor. Nema ég verði fluttur í Kragann en á því eru víst litlar líkur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.11.2006 | 14:51
Af tónleikum
Við Silla skelltum okkur í Fríkirkjuna í gær til að sjá Sufjan Stevens. Það er óþarfi að hafa mörg orð um það að mér fannst þessir tónleikar frábærir. Hápunkturinn var sennilega í lokin þegar hann tók Casimir Pulaski day á óðfinnanlegan hátt. Í heildina var lagavalið gott, sum lögin hafði ég reyndar ekki heyrt en mér leiddist aldrei. Af þessum lögum var ég hrifnastur af Majesty Snowbird sem var fyrsta lagið sem hann tók. Reyndar runnu á mig tvær grímur þegar hljómsveitin mætti í salinn með grímur og vængi. Aðeins of mikið "heyriði krakkar eigum við að vera ferlega flippuð og spila með vængi og grímur". En þegar tónlistin byrjaði að óma gleymdist þetta og Stevens átti salinn.
Annars er merkilegt rannsóknarefni fyrir mannfræðinga að kanna samsetningu á íslenskum tónleikagestum. Það mæta til að mynda alltaf þrjár tegundir af karlmönnum á alla tónleika sem maður sér.
Í fyrsta lagi er það fátæki bókmenntafræðineminn sem getur ekki fyrir sitt litla líf viðurkennt fyrir nokkrum manni á Sirkus að hann hafi ekki séð hina og þessa tónleika. Þess í stað þvælist hann á milli tónleikastaða eins og útspítt hundskinn, blankur, þunnur og illa lyktandi. Hárið er alltaf þakið ca. vikugömlu lýsi, klæðnaðurinn rónalegur en samt töff og síðast en ekki síst er annar handleggurinn þakinn Roskilde armböndum, sem menn taka e-a hluta ekki af sér fyrr en eftir læknisráð og lögræðissviptingu, þó hátíðin sé löngu búin.
Í öðru lagi er það thirtysomething gæinn sem er kominn með fjölskyldu og virðulegt starf hjá e-m banka eða ráðuneyti. Til að sýna umheiminum að hann sé ekki alveg búinn að missa kúlið mætir hann í snjáðum gallabuxum, bol sem stendur á Pogues are better than sex og flauelsjakka eða úlpu með loðkraga. Þeir hörðurstu draga svo fram klúta frá háskólaárunum og ef maður er sérstaklega róttækur vefur maður Palestínuklút um hálsinn. Sem reyndar staðfestir að maður ber ekkert skynbragð á kúlið. Þessi gæi situr svo og ruggar höfðinu fram og tilbaka, milli þess sem hann lítur einbeittur í kringum sig og hugsar: "Ég er pottþétt með besta tónlistasmekkinn hérna inni, þessir krakkar voru enn með bleyju þegar ég var hlusta á Violent Femmes og The Fall".
Í þriðja lagi er það gaurinn sem er í Tónlistarskólanum og veit mikið um tónfræði og fylgist vel með. Getur hins vegar ekki undir neinum kringumstæðum talist hip, töff eða kúl því hann gæti verið einn af aðalleikurunum í Revenge of the Nerds. Hann er hins vegar alltaf snyrtilegur, vel girtur en yfirleitt annað hvort burstklipptur eða með þrifalegt sítt að aftan hár. Tónlistargáfu hans eru hins vegar engin takmörk sett og þegar flytjandinn byrjar lag sem fáir átta sig á í fyrstu hvað er, er hann fljótur til og svipurinn, sem er sambland af ánægju, undrun og aðdáun, segir: "Ég trúi því ekki að hann ætli að taka þetta í c-moll!!!"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.11.2006 | 13:54
Puskas
Látinn er Ferenc Puskas, 79 ára að aldri. Eins og margir vita var hann aðalmaðurinn í hinu goðsaganarkennda liði Ungverja sem varð ólympíumeistari í Helsinki og tapaði fyrir Þjóðverjum í úrslitaleik HM 1954. Puskas kom til Real Madrid árið 1957 eftir að Sovétmenn réðust inn í Ungverjaland. Þegar hann mætti var hann 18 kílóum of þungur og fáir spáðu honum mikilli velgengni. Honum tókst hins vegar að þagga niður allar efasemdarraddir og vann deildina sex sinnum og evrópubikarinn þrisvar á níu árum. Hans helstu einkenni voru frábær vinstrifótur og tilhneiging til að láta sé vaxa bumbu. Eins og vill verða með vinstrifótarmenn var sá hægri aðallega notaður til að halda jafnvægi. Enda sagði hann eitt sinn að þeir sem spörkuðu með báðum dyttu bara á rassinn. E-ð segir mér að hann hefði verið í uppáhaldi hjá mér ef hann hefði verið spilandi eftir að ég fór að fylgjast með fótbolta. Veit samt ekki af hverju.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.11.2006 | 23:18
Rafa no me jodas
Rafa Guerrero heitir umdeildasti línuvörður Spánverja. Sumir myndu segja hataðasti en rekja má óvinsældir hans rétt rúm 10 ár aftur í tímann þegar hann stóð á línunni í leik Zaragoza og Barcelona. Í miðjum leik kom boltinn inn í teig Zaragoza manna en endaði í höndum markmannsins sem ætlaði að fara að undirbúa útspark þegar dómarinn tók eftir að fyrrnefndur Rafa var byrjaður að veifa eins og skáti á sumardeginum fyrsta. Dómarinn brokkaði til hans fullur efasemda enda hafði hann ekki orðið var við neitt óeðlilegt. Það merkilegasta var sú staðreynd að starfsmenn Canal + voru að prófa hljóðnema á hliðalínunni í fyrsta sinn og náðu því kostulegum samskiptum þeirra tveggja á band. Rafa byrjaði á því að segja "Penalti y expulsion" og dómarinn svaraði "Vaya joder Rafa, me cago en mi madre" sem þýðir lauslega "Fokkaðu þér Rafa, ég kúka á mömmu mína" eins eðlilegt og það er. Dómarinn spurði svo hvern ætti að reka út af og okkar maður segir "nr. 6. Xavi Aguado" fyrir brot á Fernando Couto, sem margir muna eftir úr portúgalska landsliðinu. Gallinn var bara sá að Aguado greyið var hvergi nærri Couto og ekkert benti til að um víti væri að. Dómarinn vildi hins vegar vera alveg viss hvað Rafa væri að gera og þráspurði hann hvort hann væri viss. Þegar Rafa gaf sig ekki sagði dómarinn einbeittur og vantrúaður en líka mjög pirraður á þessu veseni: Rafa no me jodas!! sem útleggst á góðri íslensku: Vertu ekki að grilla í mér eða Ekki láta mig fá það ósmurt. Málinu lauk hins vegar þannig að rangur maður var sendur út af, Barcelona fékk ósanngjarna vítaspyrnu og Rafa varð óvinsælasti maður Spánar.
Næstu misseri á eftir reyndi hann að bæta orðsporið með því að ættleiða börn, styðja góð málefni, vingast við Aguado og síðast en ekki síst lék hann aðalhlutverkið í Renault sendibílsauglýsingu þar sem keyrt er með hann á afvikinn stað og hann skilinn eftir meðan þulurinn segir að Renault hjálpi til við að losa mann við það sem geti eyðilagt bestu stundirnar í boltanum. Launin fyrir auglýsinguna lét Rafa renna til góðgerðarmála. En allt kom fyrir ekki. Það var því magnþrungin stund fyrir Rafa þegar hann mætti á línuna á Nou Camp á sunnudaginn í leik Barcelona og Zaragoza. Þetta var í fyrsta skipti í 10 ár sem hann kom við sögu í leik þessara liða og helmingur Spánverja fylgdist í ofvæni með. Og hann klikkaði ekki heldur byrjaði að flagga eins og fasisti á afmælisdegi Franco þegar Diego Milito féll með tilþrifum eftir baráttu við Motta. Motta fékk reisupassann og Rijkaard og co. trylltust. Axarskaftið hafði hins vegar engin áhrif á leik Barcelona sem tvíefldist og fór með sigur af hólmi. En á Spáni trúðu menn ekki sínum eigin augum. Rafa no me jodas!!
Ég læt fylgja með nokkur atriði með Rafa. Maðurinn er snillingur. Topparnir eru byrjunin sem lýst hefur verið, þegar leikmaður segir við hann þegar texti birtist: Af hverju gerir þú þér alltaf svona erfitt fyrir? og Rafa svarar: Gerir þú aldrei mistök.. eða hvað?, þegar Ronaldo segir eftir að Rafa þarf augndropa: Af hverju kemur alltaf e-ð fyrir hann ?? og þegar hann rennur á línunni og liggur sár eftir.
http://www.youtube.com/watch?v=3tRZ6LkOuuY
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.11.2006 | 00:25
Kalli og Dahl
Fjölskyldan á Hjarðarhaganum ákvað að hafa kósýkvöld á föstudaginn. Keyptur var ís og Kalli og sælgætisgerðin rúllaði í DVD spilarann meðan ískalt rokið lamdi trén fyrir utan. Held að Sólveigu Höllu finnist ekkert betra en svona kvöld.
Ég átti bókina um Villa Wonka þegar ég var lítill en hef aldrei séð myndina frá 1971. Get þó vel ímyndað mér að Gene Wilder hafi verið góður sem sælgætismógúllinn. Nýja myndin er alveg þokkaleg eins og Tim Burton er von og vísa, útlitið óaðfinnanlegt en Johnny Depp er aðeins of skrýtinn sem Wonka. E-s konar ofleikur sem ég kann ekki að meta.
Meðan ég var að horfa á myndina fór ég hins vegar að velta fyrir mér höfundi sögunnar. Roald Dahl var snillingur sem skrifaði einstakar barnabækur en hann er kannski einna frægastur á Íslandi fyrir þetta:
http://www.youtube.com/watch?v=oCvzJbX1jro
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)