7.6.2007 | 23:18
Draumur að veruleika
Leiksviðið er sofandi hausinn á Davíð Oddssyni.
Við erum stödd á skrifstofu Helga S. Guðmundssonar, fyrrv. bankaráðsformanns Seðlabankans. Davíð Oddsson stendur í dyragættinni.
DO: " Má ég eiga við þig orð?"
HSG: "Já gjörðu svo vel. Hvað ertu að spá?"
DO sest í stól:" Ég var að fá starfstilboð utan úr bæ"
HSG: "Nú!"
DO: "Já það var haft samband við mig frá einum af stóru bönkunum"
HSG: "Ekki þó Kaupþingi"
DO: "Nei ertu vitlaus! En þetta er reyndar annar stór banki"
HSG: "Get ég ekki platað þig til að segja mér það?"
DO: "Ég held að það sé rétt að ég haldi því fyrir mig á þessu stigi"
HSG: "Ég skil það svosem. Ég ætla samt að vera hreinskilinn við þig Davíð. Ég er ekki tilbúinn að missa þig. Ég man þegar Finnur hætti þá tók rekstur bankans dýfu. Við náðum eiginlega ekki að rétta okkur af fyrr en þú komst um borð. Og ég er alls ekki til í að missa þig til keppinautanna. Hvað er verið að bjóða þér?"
DO: "Það liggur kannski ekki fyrir ákveðin krónutala en þetta er umtalsverð hækkun fyrir mig. Og sveigjanlegri vinnutími."
HSG: "Þú segir nokkuð. Ókei, þetta er ekki endanlegt en hvernig líst þér á að hækka um 200.000 og þú mátt mæta kl. 10 og fara kl. 2. Þú getur þá notað lausan tíma til að skrifa"
DO: "Mér líst ekkert illa á það en ég verð að viðukenna að mér hefur fundist álagið vera að aukast hjá mér í vinnunni og sérstaklega á bankaráðsfundum."
HSG: "Ég hef reyndar tekið eftir því. Það er helvítis álag á þér kallinn minn. Eigum við að segja að þú fáir 200.000 kall í álag á mánuði. Er það díll?"
DO: "Það er díll."
HSG: "Þú hringir þá bara bankann"
DO: "Hvaða banka?"
HSG: "Bankann sem var að bjóða þér vinnu!?"
DO: "Já þann banka! Heyrðu já ég geri það bara strax á eftir"
HSG: "Eru þá ekki allir sáttir?"
DO:"Allir sáttir"
Þeir takast í hendur og brosa til áhorfenda. Tjaldið fellur.
http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item158062/
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.6.2007 | 17:12
Tekinn
Var að keyra á Ægisíðunni um daginn og sá þá ungan þingmann á röltinu. Þingmaðurinn var "tekinn" af Audda Blö og Sævari Karli fyrir nokkrum mánuðum í búðinni hjá Sævari.
Nú er ég hræddur um að hann hafi verið tekinn aftur en e.t.v. bara af Sævari Karli í þetta skiptið. Málið er að hann var í mjög fínum jakka en gallinn er sá að um "vatteraðan" jakka er að ræða. Þeir sem vita ekki hvað hvað "vatteraður" jakki er, þá er um að ræða fóðraða jakka með tígulsaumi utaná, sem nær eingöngu "lekkerar" konur, sem komnar eru yfir fimmtugt, ganga í.
Sævar Karl, hvenær ætlarðu að segja stráknum þetta? Þetta er að verða pinlegt fyrir hann og ekki síður okkur hin. Svo ég tali nú ekki um þá sem telja hann boðbera nýrra tíma og ferskra hugmynda í íslenskri pólítík.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.5.2007 | 13:11
The winner takes it all
Hrikalega var ég feginn í gær að Milan náði að klára úrslitaleikinn. Það hefði verið skelfing að sjá Liverpool vinna þetta aftur þó að þeir hafi vissulega spilað betur en fyrir tveimur árum. Sumir myndu segja að þeir hafi verið betri í leiknum og það er svo sem erfitt að mótmæla því algerlega. En Mialn mönnum gæti ekki verið meira sama. Leikurinn var hins vegar frekar slakur, Milan menn virtust vera skíthræddir um að tapa öðrum úrslitaleiknum fyrir Liverpool og svo náðu Mascherano og co. að loka á Kaka og það munar um minna. Ég er ekki viss um að Liverpool menn átti sig á hvað hann er mikill fengur. Annars eru nokkrir punktar sem ég verð að koma með:
1. Inzaghi er fáránlegur leikmaður og hálf dapurt að hann hafi verið valinn maður leiksins. Best er samt að hann heldur því fram að aukaspyrnan hafi verið æfð. Kannski smá möguleiki en hann átti örugglega ekki að stýra honum inn með öxlinni. Það var líka óborganlegt að sjá hann vola í peysuna skömmu eftir bikarafhendinguna. Ég efast ekki um að hann verði að sturta sig í kvennaklefanum.
http://www.youtube.com/watch?v=QigGOOcwUuU
2. Kaka sýndi að hann er snillingur þó hann hafi verið lokaður af stærstan hluta leiksins. Smá pláss og það er mark. Snúningurinn gladdi líka augað. Maldini er líka snillingur en það vita allir. Hann spilaði á móti Platini sem segir meira en mörg orð um hvað hann hefur verið lengi að, enda lítur Frakkinn út eins og hver annar gamall kerfiskall innan knattspyrnuhreyfingarinnar.
3. Milan liðið er á síðasta snúningi. Þetta lið fer ekki aftur í úrslit á næsta ári nema miklar breytingar verði gerðar. Það er ekki bara hægt að treysta á frábært miðjuspil því þegar lokað er á það eins og í gær verða aðrir möguleikar að vera í boði. Tilraunir bakvarðanna til að fara up kantinn og senda la la sendingar fyrir á Inzaghi voru dæmdar til að mistakast. Þá er framtíð varnarinnar spurningarmerki þó reynslan sé vissulega mikil.
4. Fagnaðarlæti Milan voru á köflum þau kjánalegustu sem ég hef lengið séð. Í fyrsta lagi var mjög fyndið að sjá Gattuso rífast og skammast yfir því að nokkrir leikmenn ætluðu að hlaupa af stað með bikarinn og hann hélt þessum fasisma áfram eins og gæslustjóri á skólaballi. Í öðru lagi kom Berlusconi niður á grasið og byrjaði að hampa bikarnum þó að ég minnist þess ekki að hann hafi verið á leikskýrslu. Í þriðja lagi reyndu leikmennirnir að tollera Ancelotti með bikarinn í höndunum en þar sem umræddur bikar er ekki smár í sniðum steinlá hann á grasinu.
5. Nenni ekki að tala um Liverpool liðið, Mascherano var sá eini sem bar af og Pennant var nokkuð sprækur en hinir voru sjálfum sér líkir, margir nokkuð góðir en enginn snillingur. Mér skilst að Benitez ætli að gera miklar breytingar í sumar.
6. Ég þekki marga góða Liverpool menn en stærstur hluti Liverpool aðdáenda eru skelfilegir plebbar. Þegar ég var að keyra upp í Salahverfi til að horfa á leikinn var búið að flagga Liverpool fána við eitt húsið. Svo var fyndið að sjá stemmninguna á Players í tíu fréttum. Síðasti viðmælandinn var kostulegur. Spurning fyrst Svíagrýlan hefur verið kveðin í kútinn hvort upp hafi risið fyrirbæri sem heiti Liverpoolgrýlan eða er þetta afkomandi Leppalúða, svokallaður Liverpoollúði. Spyr sá sem ekki veit en hér er myndbrotið eftir mörkunum úr leiknum.
http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4338093/6
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.5.2007 | 21:08
Borneo
Áðan var þáttur um nefapa á Borneó í sjónvarpinu. Það verður seint sagt um þessa frændur okkar að þeir séu snoppufríðir enda lýsir Hörður skipstjóri þessu vel í hinni klassísku Tinnabók Flug 714 til Sidney, með orðunum "Ógeðslega ljótur svipur." Bætir við "Minnir mig á e-n sem ég þekki". Lítur svo yfir til félaga síns Rassópúlosar og áttar sig þá að aðgát skuli hafa í nærveru sálar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.5.2007 | 17:10
Á sjó
Magnús Þór Hafsteinsson náði ekki inn á þing. Kannski er það eina gleðilega við niðurstöðu kosninganna.
Aðspurður hvað hann hyggðist taka sér fyrir hendur sagðist hann sennilega fara á síld í sumar. Alltaf jafn dásamlegt þegar svona sparifatakallar þykjast vera í nánu sambandi við fólkið í landinu. Ætli hann endi ekki í þægilegri innivinnu.
En hvaða aðrir frambjóðendur fara sennilega líka á sjóinn?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.5.2007 | 00:34
Eiríkur rauði
Í kvöld sat örugglega e-r sniðugur þulur úti í Evrópu þegar Eiríkur nafni minn steig á sviðið: "Næst kemur frá Íslandi söngvari sem sennilega er fæddur milli fyrra og seinna stríðs. Gárungarnir í Helsinki kalla hann írska hrossið enda virðist hárgreiðslumeistarinn hans eiga við áfengisvandamál að stríða. Um lagið er það eitt að segja að fæst orð bera minnsta ábyrgð, en sennilega er óhætt að segja að það gæti verið lag eftir Meatloaf sem aldrei hefði komist inn á Bat out of Hell."
Verðum við ekki bara að sætta okkur við að lagið var einfaldlega ekki nógu gott og þó að nokkrir skandínavar þekki til hans er hann algerlega óþekktur annars staðar. Það er ekki nóg að hann sé vinsæll hjá blaðamönnum enda minnir það meira á vinsælustu stúlkuna í fegurðarsamkeppnum. Svo er það eiginlega staðreynd að á Eurovision skalanum eru austantjaldslöndin einfaldlega með betri lög. Ef e-r mafía er að störfum þá hefur hún að minnsta kosti betri smekk en Íslendingar. En ég neita því svo sem ekki að ég vildi Eirík áfram en sú ósk byggði á gamalli og góðri þjóðrembu.
Ég er reyndar dálitið ánægður með Sólveigu Höllu mína. Hún hélt með Georgíu og Búlgaríu en var nokk sama um Eirík þegar allt kom til alls. Hefði Georgía hins vegar misst af sæti væri staðan önnur. Eða eins og sagði í vikunni: "Ég vildi að Georgía væri ekki að keppa því ef það er að keppa og tapar það verð ég að gráta." Hún felldi hins vegar engin tár í kvöld og sofnaði sátt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.4.2007 | 16:11
Lið og nöfn
Þau eru ekki mörg nöfnin á fótboltaliðum í Evrópu sem skera sig úr. Flest eru þau kennd við heimaborgina, eða hverfi innan hennar, og svo er gefið í skyn að þau séu sameinuð, konungleg eða keppi á íþróttasviði, sem eru jafnan ekki tíðindi, og þá oft með olympíuhugsjón að leiðarljósi. Dæmi um þetta eru Leeds United, Real Betis, Deportivo La Coruna og Olympique Lyon. Í Þýskalandi hafa menn stundum bætt við módelinu svo sem er hjá Schalke 04.
Þetta er kannski ekki jafn áberandi á Íslandi þar sem menn reyndu eitt sinn að gefa liðum heiti sem gæfi byr undir báða vængi s.s. Valur og Huginn en allflest tengjast samt bæjarnöfnum. Þór, Þróttur og Víkingur eru hins vegar alíslensk heiti sem fleiri en eitt lið bera með stolti.
Staðan er svipuð í Suður Ameríku sem óhætt er að segja að sé hin aðalheimsálfan í boltanum. Þar heita lið eftir hverfum eða borgum og reyndar stundum eftir háskólum. Nafngiftirnar verða reyndar aðeins frumlegri þarna suður frá því nöfn eins og Vasco da Gama, Colo Colo (eftir frægum indíána frá Chile), 2. maí og 12. október (sem eru greinilega hátíðisdagar í Paraguay) stinga upp kollinum hér og þar um álfuna.
Bestir eru þeir samt í Bólívíu. Í þessu landlukta landi þar sem spilaður er fótbolti í yfir 3500 metra hæð yfir sjávarmáli kennir ýmissa grasa þegar farið er yfir stigatöfluna í efstu deild.
Fyrst skal nefna Bolivar, sem er svo sem ágætt nafn á liði, þar sem það hefur verið nefnt í höfuðið á frelsishetju S-Ameríku. Það merkilega við þetta nafn er hins vegar að þeir hafi náð svo heilögu nafni enda getur enginn verið á móti Bolivar í Bólivíu. Gæti e-r verið á móti liði sem héti Jón Sigurðsson?
Næst er að nefna Jorge Wilsterman, sem heitir í höfuðið á frægum flugfrömuði á þessum slóðum. Nafnið minnir reyndar meira á vindlategund en knattspyrnulið og maður getur rétt ímyndað sér hvað þetta er óþjált í munni á vellinum: "Adelante Jorge Wilstermann, dududududu". Svo er líka spurning um flugkappa að fyrirmynd. FC Ómar Ragnarson? Me don´t zink zo.
Þá er komið að flottustu nöfnunum. Ég held að margir geti verið sammála mér að forvitnilegt er að í landi, þar sem yfir helmingur er indíánar sem tala Quechua og Aymara indíánamál og restin spænskumælandi að mestu leyti, skuli vera þrjú lið sem heita enskum nöfnum. Reyndar heitir eitt Blooming, sem er tiltölulega saklaust, en það sama verður vart sagt um hin tvö. Þar eru á ferðinni The Strongest og Destroyers. Hér er um að ræða geysilega tilkomumikil nöfn á fótboltaliðum, sérstaklega þegar haft er í huga að nær ómögulegt er að bera ST fram á spænsku án þess að setja E fyrir framan. Þeir eru því væntanlega kallaðir Ðí Estrongest, sem dregur vissulega dálítið úr áhrifamætti orðsins. Ég væri líka alveg til í að heyra Bólívíumann bera fram Destroyer. En spurningin er kannski, átti KISS e-n þátt í nafngiftinni?
Það vill svo skemmtilega til að þessi lið eru að spila í dag en ég veit ekki niðurstöðuna. En sennilega er það alltaf óheppilegt fyrir þessi lið að tapa. Þó ekki væri nema fyrir nöfnin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.4.2007 | 10:53
YouTube
Ég fæ ekki nóg af þesari síðu og er ekki einn um það.
Fyrst er það eighties klassík. Ég er ekki frá því að þetta sé eitt besta lag þessa tíma en myndbandið er sannarlega vont. Í fyrsta lagi er tilgangslaust að sýna söngvara ráfa reglulega um eins og hann viti ekki hvert hann á að fara og í öðru lagi verða hljómborðsleikarar þessa tíma alltaf hrikalega asnalegir, skakandi sér fram og tilbaka með hljóðfærið uppi í fjalli. Og svo ekki sé rætt um mulletið.
http://www.youtube.com/watch?v=p_3g_yf1vzI
Svo kemur eilífðarspurningin um hver sé besti boltasparkari í heimi. Án þess að leggja endanlegan dóm á það mun ég samt veita þessum snillingi atkvæði mitt þessa stundina. Takið eftir litla drengnum sem missir boltann til hans. Sá er nokkuð efnilegur og hefur verið líkt við Maradona. Myndbrotið sýnir hins vegar bara einn sem minnir á Maradona og annan sem minnir á einn af álfum jólasveinsins.
http://www.youtube.com/watch?v=rL6g_BRM7wg
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.4.2007 | 23:56
VT
Ef maður vissi ekki betur myndi maður ætla að maðurinn á myndinni væri að taka við verðlaunum fyrir bestu sölumennsku ársins í Vörutorginu á Skjá einum. En svo er víst ekki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.4.2007 | 23:20
Í mynd
Ég hef tekið eftir því undanfarið að þungavigtarmenn á framboðslista VG eru dálitið ólíkir sjálfum sér á myndum sem hafa birst í fjölmiðlum. Myndirnar eru það undarlegar að ég hef komist að þeirri niðurstöðu að annað hvort er ljósmyndarinn snillingur sem hefur lagt af stað með ákveðið "Öreigar allra landa sameininst"-þema eða þá sú sorglega staðreynd að hann hafi einfaldlega klúðrað myndatökunni. Rétt er að útskýra þetta með nokkrum dæmum. Myndirnar eru teknar af vef VG en ljósmyndara er ekki getið.
Þessi maður heitir Ögmundur og hann þekkja flestir. Af þessari mynd að ráða hefur Ögmundur misst nokkur kíló og myndi maður ætla að það hafi verið í þeim tilgangi að koma ferskur inn í kosningabaráttuna. Því miður er ekkert ferskt við þessa mynd, heldur er hún umlukinn grárri slikju, og það fyrsta sem manni dettur í hug er að megrunaraðferð Ömma hafi einkum falist í sársaukafullri hálskirtlatöku, mjög ströngum laxerolíukúr eða að baki sé mjög erfið lyfjameðferð. Hann virðist jafnvel þurfa að kasta upp. Hann lítur vissulega út eins og öreigi en þar sem flestir vita að svo er ekki þá held ég að myndin eigi takmarkað erindi á tölvuskjái landsmanna.
Þetta er Jón Bjarnason. Hann er sósíalisti af gamla skólanum, maður sem skildi ekki róttækar vinstri hugsjónir eftir í menntaskóla líkt og margir, heldur hélt þeim ótrauður og vill sýna það í dag. Hann er þar af leiðandi, og því miður, með það sem ég vil kalla "Reynis Traustasonar"-syndromið á þessari mynd. Þetta syndrome felst í því að taka ekki að ofan þegar komið er inn í hús. Nú gæti verið að myndin sé tekin í faðmi fjallanna við Hóla í Hjaltadal en e-ð segir mér að svo sé ekki. Jón virðist því hafa krafist þess að halda húfunni enda er ég ekki í vafa um að hún sé einkenni þess að hann sé mjög róttækur, nokkurs konar Lenin okkar tíma. Þetta er svo sem þokkalegt lúkk en breytir því ekki að Jón er dóni að taka ekki að ofan.
Að lokum er svo Steingrímur. Nú vita margir að Steingrímur hleypur maraþon og gengur þvert yfir Ísland eins og að drekka vatn. Hann er því ekki eins grár og hinir en hefði ekki verið hægt að mynda slíkt hraustmenni án slikjunnar góðu.
Bloggar | Breytt 9.4.2007 kl. 08:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)