Treyja vikunnar 3

Southampton 1981-1982

football+shirts+045+$28Small$29

Án efa besta treyja sem Southampton hefur spilað í enda muna sennilega e-r eftir Kevin Keegan hlaupa um velli Englands klæddan í þessa klassík. Merki félagsins í miðju og framleiðandinn á ermunum en það er að sjálfsögðu hið goðsagnarkennda Patrick merki. Á þessum árum voru Patrick fótboltaskór algengir og ekki ómerkari kappar en Platini, Laudrup og Gunnsteinsson voru með samning við þá. Að lokum fór að halla undan fæti og þær eru ekki margar treyjurnar sem koma frá Patrick í dag. 


Draumur

Ég var að klára að horfa á mynd sem heitir The science of sleep. Þokkalegasta mynd og Gael Garcia Bernal er yfirleitt ágætur. Samt ekki í sama klassa og Y tu mama tambien eða Mótorhjóladagbækurnar.

Myndin er að miklu leyti um skilin milli draums og veruleika, sem er sérstaklega skemmtilegt því mig dreymdi draum í dag sem ég er ekki enn búinn að átta mig hvort var í raun draumur eða veruleiki. Ég lá nefnilega með flensukvef í allan dag uppi í rúmi en á e-m tímapunkti var ég kominn á Laugardalsvöll þar sem Íslendingar öttu kappi við Letta. Á næstu stundu er ég kominn yfir í hina stúkuna og þar situr maður, sem líktist Friðriki 2000 ískyggilega mikið, og veifar bandaríska fánanum. Ég geri strax athugasemd við þetta en sé þá að fáninn er ekki í sínum venjulegu þremur litum heldur grænn og svartur. Þegar ég spyr Friðrik hvernig standi á þvi að hann mæti með bandaríska fánann á fótboltaleik reynir hann að útskyra fyrir mér að hann sé einungis að heiðra minningu þeirra hermanna sem björguðu Lettum undan ógn nasismans. Áður en ég næ að rökræða við hann um þátt Bandaríkjanna í seinni heimsstyrjöldinni er ég aftur staddur í bólinu á Hjarðarhaga 56.

Og því spyr ég þig kæri sáli, hvað segir Draumráðningabókin um Friðrik 2000?

 


Kraft Geiri

Maður gærdagsins var Geir Ólafsson sem mætti á völlinn í stífpressaðri, fráhnepptri hvítri skyrtu innan undir snjáðum Kraft gallanum. Svona gerir hann þetta "his way", heimsborgaraleg fágun í bland við hrollkaldan plebbaskap.

Annars er ég með hugmynd fyrir KSÍ. Seljið miðana á 1000, 1500 og 2000 kall. Þá verða ekki stórir skallablettir úti til hliðanna á dýrustu svæðunum eins og reyndist vera í gær. Hinum megin við ca. 20 cm breiðan steinvegg sat fólk sem hafði sennilega greitt amk 5000 kall fyrir miðann meðan minn miði var á 1500. Sama útsýni, 3500 kr. verðmunur. Það hlýtir að vera metnaðarmál fyrir Geir Þorsteinsson að fylla völlinn í hvert einasta skipti. Fótbolti snýst ekki bara um að fá pening í kassann.


Treyja vikunnar 2

Colo Colo 1980:

colo-colo1980-01

Colo Colo er ekki mjög þekkt lið á Íslandi en er engu að síður vinsælasta og sigursælasta liðið í Chile. Nafn félagsins er fengið frá Mapuche indíána sem barðist við Spánverja og gafst aldrei upp. Liðið er eina chilenska félagið sem unnið hefur Copa Libertadores keppnina í S-Ameríku og spiluðu þeir þá með auglýsingar frá Lödu. Í kjölfarið töpuðu þeir leiknum um heimsmeistara félagsliða gegn Rauðu Stjörnunni í Tokyo árið 1991.

Treyjan er klassísk síð 70´s adidas treyja með þríhyrningsdiskókraga. Punkturinn yfir i-ið á þessari treyju er hins vegar þessi frábæra auglýsing fyrir Kondór bjórinn. Er e-ð meira viðeigandi en að dreypa á köldum Kondór í skjóli Andesfjalla? Ef e-r fróður Chilefari veit meira um Colo Colo eða Kondór bjórinn má hann endilega henda inn athugasemd.

 


"Hér syndum við stóru fiskarnir"

Hetjutenórinn Kristján Jóhannsson syrgði andlát jafningja síns Luciano Pavarotti með því að tileinka honum eitt lag á tónleikum á Akureyri. Um fremsta tenórsöngvara allra tíma hafði hann þetta að segja:

Við vorum ágætis mátar þótt við stæðum aldrei á sviðinu saman. Við skiptumst á sýningum um allan heim og hann var mikill listamaður," segir Kristján Jóhannsson stórtenór sem heldur tónleika á Akureyri nú á sunnudaginn."

Íslendingar mega vera stoltir af þessum mikla meistara.

Þess má geta að stutt Google leit að Kristjáni skilar 119.00 niðurstöðum. Niðurstaða nr. 2 er reyndar e-r lektor í viðskiptafræði. Pavarotti skilar 28.200.000 niðurstöðum. Sá síðarnefndi virðist hafa verið með betri PR mann.


Laugardalsvöllur

Það gekk ekki vel að selja í öll sætin á leik Íslands og Spánar og ég hef reyndar ekki fengið staðfest að það hafi tekist. Vissulega hefur ekki verið mikil stemning fyrir landsliðinu undanfarið en ef það gengur erfiðlega að fylla völlinn þegar ein sterkasta boltaþjóð heims kemur til landsins þá má fullyrða að ekki sé tímabært að loka stúkuhringnum. Sem er nokkur synd. En þeir sem mættu skemmtu sér hins vegar vel í rokinu og rigningunni. Tilfinningar voru reyndar blendnar þar sem ég vonast innilega til þess að Spánverjar nái inn á EM næsta sumar. En sem betur fer fóru úrslit annarra leikja á besta veg.

Þess vegna er leiðinlegt að sjá að það gengur ekki vel að fylla völlinn fyrir leikinn á móti N-Írum. Írarnir eru auðvitað engin stórþóð en þetta er lið sem er svipað íslenska liðinu og eftir leikinn á laugardaginn hefði maður haldið að það yrði stemmning á pöllunum. Kannski er einfalt að leita skýringa á dræmri miðasölu. Miðinn í Sýnar stúkuna kostar 4000 kall en miðinn í gömlu stúkuna 5500 kall. Það er ekki fyrr en komið er í nýju stúkuna sitt hvoru meginn við gömlu stúkuna sem verðið verður ásættanlegt eða 2000 kall. Það er kannski kominn tími til að forystusveit KSÍ átti sig á þvi að fólk er ekki tilbúið að borgar hvað sem er fyrir miða. Þannig væri eðlilegra að miðinn á N-Íra leikinn kostaði minna en á Spánarleikinn þar sem N-Írar hafa einfaldlega ekki sama aðdráttarafl. Það er ekki eins og um byltingarkennda hugmynd sé að ræða enda hefur þannig verðlagning tíðkast lengi erlendis.


Ísland-Spánn

Ég fór í bíltúr með stelpurnar áðan og ákvað að koma við á Laugardagsvellinum til að sjá hvort Spánverjarnir væru að æfa. Heppnin var með okkur og við fylgdumst með með þeim sprikla í upphitun og reitarbolta í nokkrar mínútur. Annars sýndist mér Liverpool menn vera í meirihluta viðstaddra, amk var einn áberandi í Liverpool jakka og með Liverpool regnhlíf. Sem er kannski ekki að furða, það eru þrír spænskir púlarar í liðinu en t.d. bara tveir frá Real Madrid. Öðruvísi mér áður brá en ég get þó huggað mig við að sennilega verða tveir úr hvoru liði á vellinum á morgun en flestir frá Valencia.

Það er reyndar merkilegt hversu lítinn áhuga Spánverjar hafa landsliðinu sínu. Þegar ég skoðaði spænsku íþróttablöðin á netinu í morgun þótti merkilegra að Arjen Robben væri farinn að snerta bolta á æfingum heldur en þessi landsleikur. Á sama tíma eru Englendingar að velta landsliðinu fyrir sér fram og til baka. Því verður hins vegar ekki neitað að Spánverjar hafa pínulitlar áhyggjur af leiknum þó þeir reyni að bera sig mannalega, enda mega þeir gera það. Íslenska liðið hefur ekkert getað síðan þeir gerðu jafntefli við Spánverja fyrir ári síðan, en Íslendingar vilja alltaf sýna að þeir séu ekkert verri en þessir "spanjólar" sem geta ekki staðið í lappirnar. Samt eru þeir varla betri en Kanadamenn. Það kæmi mér þó ekki á óvart að við næðum jafntefli

Annars er bara gaman að því að verið er að reyna að skapa stemmningu. Það eiga allir að mæta í bláu og stuðningsmannakórar hafa samið texta við Ó María og fleiri perlur. Þá er tilboð á íslensku landliðstreyjunni í Jóa útherja. Nú hefur verið lítil stemmning fyrir þessari treyju fram að þessu en fyrst verið að að reyna skapa stemmningu er synd að treyjan sé svona ljót. Í fyrsta lagi er e-r firmakeppnisbragur á henni en það eina sem forðar henni frá því er undarleg hönnun sem kemur út eins og þetta sé skyrta innan undir v-hálsmálspeysu. Má búast við að næsta treyja líti út eins og bundin hafi verið peysa utan um hálsinn, eins og tíðkast hjá sænskum mokkasínutöffurum. Það er því miður e-r bónusbragur á treyjunni.

1676867_iceland_home_06_07

Má ég þá frekar biðja um gömlu adidas treyjuna með gamla KSÍ merkinu. Af hverju var verið að skipta þessu merki út? Nýja merkið er eins og það hafi verið hannað fyrir landsfund stjórnmálaflokks eða landsmót ungmennafélaganna. Gamla merkið hefur miklu meiri þunga, eins og sterk keðja eða stuðlaberg. Annars eru engin verðlaun fyrir að þekkja þennan unga mann  á myndinni. Sagan segir að hann hafi verið nýsloppinn úr Auschwitz þegar myndin var tekin. Getspakir mega engu að síður giska.

U16-1989-0039


Lyfjaakstur?

Þessi setning var á mbl.is í gærkvöldi í tengslum við frétt af e-m handrukkurum:

Mennirnir eru á þrítugsaldri og fyrir utan hótanirnar um líkamsmeiðingar og ólöglegan vopnaburð verður annar maðurinn að öllum líkindum kærður fyrir lyfjaakstur.

Hvað er lyfjaakstur? Eru sendlar hjá apótekum landsins undir stöðugu eftirliti lögreglu? Væri ekki nær að kalla þetta vímuakstur, svona rétt til að færa þennan verknað meira til samræmis við ölvunarakstur, sem ég held að ég hafi aldrei heyrt kallaðan áfengisakstur, vínakstur eða bjórakstur.


Playmó

Ég stóð við Playmobil rekkann í Hagkaupum um daginn og var að reyna að velja afmælisgjöf með Sólveigu Höllu. Þá rak ég augun í playmó pípulagningarmann á milli rómversks hermanns og mótorhjólatöffara. Sýndist ég líka sjá grillandi fjölskylduföður í hillunni fyrir ofan. Framleiðendur playmó gleyma svo sannarlega ekki hversdagshetjunni en það eru kannski smáatriðin sem heilla mest, eins og góðum Þjóðverjum sæmir. Þannig er hann með drullusokkinn í hendinni við vaskinn en best er að þegar maður beygir kallinn fram grillir í örlitla rassaskoru.

4655

Annars er ég algerlega á þeirri skoðun að playmó sé besta dót sem krakkar geta leikið sér með. Ég hef verið aðdáandi í 30 ár og gekk meira að segja svo langt að heimsækja playmógarð i Þýskalandi fyrir nokkrum árum. Hver man t.d. ekki eftir þessum makindalegu hetjum villta vestursins frá því um miðjan áttunda áratuginn? Ég er því algerlega á móti því að Sólveig Halla fari að leika sér með barbídúkkur sem líta ekki út eins og gleðikonur, heldur eins og mellur. En svo er að sjá hversu lengi sú mótspyrna endist.

3241_A

 


Treyja vikunnar

Danmörk 1984-1985:

5bc6_1_b

Fyrsta treyjan sem er tekin fyrir í hinum uþb vikulega treyjuþætti síðunnar er danska treyjan frá EM 1984. Þessi treyja er ásamt tívolí treyjunni frá 1986 holdgervingur danska landsliðsins á þessum árum. Laudrup, Elkjær, Lerby, Simonsen, J. Olsen og M. Olsen, og kannski sá allra flottasti Ivan Nielsen, áttu allir sínar bestu stundir í treyjunni og ég er ekki frá því að hún sé flottari en tívolí treyjan sem er, þrátt fyrir klassíkina, ekki beint fagurfræðilegt veisluborð. Þessi er ekki með jafn tilþrifamiklu mynstri og svo verður að gefa hummel mönnum prik fyrir hummel borðann niður með síðunni og á ermunum (only in the land of Arne Jakobsen!!). Maður getur rétt ímyndað sér stemmninguna heima í stofu í Óðinsvéum 1985 í þessari treyju og með gömlu góðu klapphúfuna á hausnum. Og svona rétt til að fullkomna andrúmsloftið teygir fjölskyldufaðirinn sig í bjórhaldarahúfu með röri. Eðal eighties.

Danska landsliðið á auðvitað bara að spila í hummel eins og sést kannski best á eftirfarandi myndbandi sem er úr leik Dana og Sovétmanna 1985.

http://hummel.dk/Company/About/Milestones/1981-1990/1985.aspx


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband