10.10.2007 | 14:18
VÍS
VÍS var með auglýsingaherferð um daginn sem lítið fór fyrir en sumar auglýsinganna voru mjög góðar. Slagorðið er "það dýrmætasta sem ég á" og byggðu á stuttum vídeóupptökum. Sumar voru vissulega frekar væmnar en aðrar hitta beint í mark. Sú fyrsta er eiginlega best:
http://www.vis.is/uploads/documents/auglysingar/2007_05_afi_minn.wmv
http://www.vis.is/uploads/documents/auglysingar/2007_05_matargat.wmv
http://www.vis.is/uploads/documents/auglysingar/2007_05_linsulok.mpg
http://www.vis.is/uploads/documents/auglysingar/2007_05_landafraedi.mpg
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.10.2007 | 23:35
Súlan
Friðarsúlan er ágæt og mun jafnvel verða glæsilegt kennileiti með tímanum. Eina hættan er sú að skemmtanaþyrstir útlendingar haldi að það sé geggjað rave diskótek í Viðey. Ég tek þó undir með Össa vini mínum að Eldey hefði verið mun glæsilegri eyja fyrir slíka súlu enda hefði hún setið í hjarta stærstu súlubyggðar heims. Ég hef hins vegar efasemdir um að friðarsúlan hefði átt erindi á Goldfinger þó það sé sennilega stærsti súlustaður landsins.
Það er líka ágætt að ekkja John Lennon hafi ákveðið að halda minningu hans á lofti í Reykjavík. Þau eru orðin allmörg árin síðan ég heillaðist af Bítlunum og Lennon var alltaf fremstur meðal jafningja þar á bæ. Sama hvaða skoðun maður hefur á Yoko og syni hennar þá verður því seint neitað að þau tvö voru þær manneskjur sem stóðu honum næst síðustu árin.
Það var hins vegar mjög vont að sjá Björn Inga og Vilhjálm Þ. viðstadda vígsluathöfnina. E-ð segir mér að spilltir stjórnmálamenn hafi ekki verið tebolli John Lennon. Því síður spilltir stjórnmálamenn sem voru í eina tíð aðstoðarmenn ráðherra sem tók ákvörðun um að styðja stríð úti í heimi. Yoko hefði kannski átt að vinna heimavinnuna sína en sennilega telur hún að allir Íslendingar séu voða góðir og hugsi og hagi sér eins og fyrirmyndarálfar. Veruleikinn er því miður allt annar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.10.2007 | 13:26
108
Ég var á leiðinni í vinnuna í morgun og þegar ég var rétt kominn fram hjá Hilton hótelinu rak ég augun í par hinu megin við götuna. Kona í grænum galasíðkjól og spjátrungslegur spariklæddur maður með mikið skegg röltu þarna hálf umkomulaus í mígandi rigningunni. Allt í einu leið mér eins og John Lennon stæði þarna ljóslifandi á Suðurlandsbrautinni. Sú upplifun rann fljótt af mér þegar ég áttaði mig á að sennilega var þetta japanska "pocket" útgáfan af hinum mikla meistara.
Hitt get ég fullyrt að sú tilfinning að sjá Lennon á Suðurlandsbraut er sennilega eins og að sjá Elvis í Síðumúla eða Napóleon í Faxafeni. Passar e-n veginn alls ekki, hvorki lífs eða liðnir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.10.2007 | 00:11
Treyja vikunnar 5
Colorado Caribous 1978:
Frá upphafi áttunda áratugarins og fram á byrjun þess níunda var NASL deildin í fullum gangi í Bandaríkjunum. Þetta var sannkölluð gullöld fótboltans vestanhafs, stærstu liðin fengu talsverða aðsókn og í sumum þeirra þáðu nokkrir af bestu knattspyrnumönnum sögunnar sinn ellilífeyri innan um miðlungsgóða leikmenn frá Ameríku. Nægir að nefna Pele, Cruyff, Beckenbauer, Best og Osgood. Þá voru treyjurnar oft á tíðum algert 70s gull
Colorado Caribous var hins vegar ekki eitt af þeim liðum sem náði að laða til sín stærstu stjörnur heimsins. Liðið var í raun bara til í eitt ár og var síðan flutt til Atlanta og kallaðist Chiefs uppfrá því. Arleifð Colorado liðsins er hins vegar mun mikilvægari en svo að hún tengist smáatriðum eins og fótboltagetu eða árangri á vellinum. Það sem gerir Caribous að goðsögn er treyjan sem þeir spiluðu í þetta eina ár, dökkbrún og ljósbrún gersemi MEÐ KÖGRI!! Þarna var markhópurinn greinilega aðdáendaklúbbur Kenny Rogers. Það hefur oft verið sagt að það sé allt til i Ameríku en þessi hönnun gefur því orðatiltæki nýja merkingu. Hvorki fyrr né síðar hef ég séð fótboltapeysu með kögri en ég vil þakka Colorado mönnum fyrir enda væri heimurinn örlitið fátækari án hennar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.10.2007 | 23:00
Madrid
Við hjónin erum á leiðinni til Madridar þann 22. október nk. Það er ekki leiðinlegt enda fáum við tækifæri til að sjá Guernica á Reina Sofia, borða steik á La Vaca Argentina, drekka Mojito á La Mordida, horfa á Real Madrid spila við Olympiakos og versla dálitið svo enginn fari í jólaköttinn.
Allt þetta fyrir einungis 9.900 kr. fram og tilbaka með sköttum. Það er ekki slæmt verð og jafnvel svo gott að við trúðum ekki okkar eigin augum. Það er kannski merki um verðvitund og verðlag á Íslandi að við skyldum varla trúa þessu meðan mágur minn í Danmörku getur reglulega fengið flug til Madridar frá Billund fyrir 1 kr. auk skatta. Það er reyndar helv.. góður díll.
Það var hins vegar smá vesen að finna hótel enda þurftum við að spá í verðið og staðsetninguna. Ofangreindur mágur lætur það stundum út úr sér að honum nægi e-r brundbeddi. Eins notalegt og það hljómar þá vildum við e-ð aðeins betra. Hitt er eins og að biðja lögguna að lána sér leðurbuxurnar hans Róberts Árna Hreiðarssonar. En við erum búin að bóka mjög spennandi nýtt hótel við listasafnahverfi borgarinnar. Þetta var ákveðið eftir talsverða legu yfir umsögnum á Tripadvisor.com. Það er fínn vefur til leiðbeiningar en ég er hræddur um að maður geti ekki trúað öllu sem kverúlantarnir þar eru að skrifa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.10.2007 | 13:53
Stonehenge
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.10.2007 | 14:24
Formúla 1
Ég hef aldrei horft á heila keppni í Formúlu 1 og hef engan áhuga á að sitja yfir þessari hringjavitleysu. Get þó ekki með neinu móti útilokað að e-r hópar hafi gaman af þessu. En það er eitt sem ég skil ekki. Af hverju eru ökumenn í sama liðinu látnir keppa innbyrðis. Þetta er afspyrnuheimskulegt eins og komið hefur í ljós á yfiirstandandi tímabili þar sem tveir liðsfélagar hata hvorn annan meira en pestina. Ekki var þetta heldur skárra fyrir nokkrum árum þegar liðsstjóri Ferrari var að biðja Barrichello að hægja á sér svo Schumacher fengi fleiri stig. Það má vel vera að reynt hafi verið að setja reglur svo þetta eigi sér ekki stað, en það gengur bara ekki upp.
Ég verð reyndar að viðukenna að ég hef ákveðna samúð með Alonso. Vinahópurinn úr Kópavogi var með Formúluleik fyrir mörgum árum og þá minnir mig að hann hafi verið að koma inn sem nýliði og þar sem hann er spænskur ákvað ég að halda með honum. Eftir það lá leiðin upp á við og að lokum var hann orðinn tvöfaldur heimsmeistari. Samt fékk hann ekki það hrós sem hann átti skilið og endalaust var verið að tala um að Raikonen væri mikið betri og blablabla, en ég held að hið gagnstæða hafi komið í ljós. Svo skiptir hann um lið og fær betri bíl og þá er fyrir e-r gullpungur, sem er vissulega mjög efnilegur og jafnvel fantagóður. Allt í einu getur hann ekki verið viss um að vera aðalökumaður liðsins þar sem gullpungurinn verður að skína og við það fer allt í vitleysu innan liðsins. Þarna er vandamálið í hnotskurn og ef það væri bara einn ökumaður fyrir hvert lið þyrfti sá sami tæplega að óttast að hafa ekki 100 % stuðning liðsins. Það er ástæða fyri því að félög geta ekki teflt fram A og B liði í sömu deild í fótbolta og væntanlega fleiri íþróttum.
Annars veit ég ekki hvað er satt og logið í þessu stríði. Spænsku blöðin segja eitt og breska pressan annað. Sú breska á því miður mun greiðari leið að eyrum Íslendinga í þessu sem og öðru. En kannski er Alonso bara tapsár fýlupúki en málið er sjaldnast svo einfalt. Hann hefur hins vegar sýnt að hann er afburða ökumaður og það stendur. Þó ég hafi engan áhuga á Formúlunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.9.2007 | 23:53
Kolaportið
Ég fór með dætur mínar í Kolaportið í dag en þangað hafði ég ekki komið í nokkuð langan tíma. Það verður seint sagt að mikið hafi breyst í portinu en það er ágætt að kíkja þangað öðru hverju til að finna e-ð drasl og finna fyrir því að Reykjavík eigi sinn eigin flóamarkað. Svona markaðir eru flestum borgum mikilvægir, og þó Kolaportið standi Rastro í Madrid eða Camden og Portobello í London nokkuð langt að baki, myndast nokkuð góð almúgastemmning á staðnum. Þess vegna eru hugmyndir Tollstjóra um stækkun bílastæðahúss í byggingunni, sem mun stöðva starfsemi portsins um tíma og skerða svæðið í framhaldinu, afar vondar. Ég held að yfirmenn hjá Tollstjóraembættinu ættu frekar að einbeita sér að því að hækka laun starfsmanna frekar en að eyða fjárframlögum í bílastæði.
Einn best hluti Kolaportsins er matarmarkaðurinn. Hrossakjöt, kartöflur, harðfiskur, hrogn, lifur og fleira "góðgæti" er á boðstólum ásamt bakkelsi frá Selfossi. Ég keypti kleinur og hafrakökur fyrir okkur og var sérstaklega spenntur fyrir höfrunum, því það er fátt betra en hafrakaka með rúsínum. Það var því um mikil vonbrigði að ræða þegar ég beit í fyrsta bitann af kökunni og í ljós kom að sennilega höfðu kökurnar verið geymdar í sama skáp og þvottaefni konunnar sem bakaði þær. Hafra- og rúsínubragðið var því blandað óskilgreindu sápubragði sem eyðilagði alla hafralöngun. Sem er óvenjulegt enda hef ég nýverið tekið að mér formennsku í Oatmeal Anonymus.
Sem minnir mig reyndar á nokkuð sem tengist haframjöli. Þegar ég var lítill fékk mér oft haframjöl með kakómalti og mjólk, og sparaði sjaldnast kakómaltið. Seinna fór ég að gera tilraunir með þessa blöndu og hellti kakómaltinu yfir haframjölið og stráði svo sykri út í hliðarnar allan hringinn. Svo passaði ég mig á því að hella bara mjólk yfir sykurinn en kakófjallið stóð tignarlegt eins og Fujifjall þar til ég vann mig inn í það eins og malarnámumaður við Ingólfsfjall. Ég hef heyrt um nokkrar góðar útfærslur af haframjöli með mjólk og kakómalti, sumar nota reyndar kakó, og e-n tímann sagði Jói vinur minn mér að þetta hefði verið kallað krúska heima hjá honum. Það finnst mér kostulegt heiti og vildi gjarna vita hvort fleiri kannist við þetta nafn og dásemdina sem felst í haframjöli með kakómalti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.9.2007 | 11:50
Treyja vikunnar 4
Hull City 1992-1993:
Á fyrri hluta tíunda áratugarins hófu treyjuframleiðendur að framleiða peysur sem áttu að passa við gallabuxur og litu ekki illa út á pöbbnum. Úr varð sögulegur hryllingur sem var viðbjóður á velli og enn verri í samkvæmislífinu. Til eru mýmörg dæmi frá þessum tíma, og þar voru einkum varatreyjurnar á köflum vitnisburður um stórhættulegt hugmyndaflug. Þessi Hull treyja hefur þó jafnan vermt toppsætið yfir verstu fótboltateyjur allra tíma. Liðið er kallað The Tigers og hönnuðurinn vann greinilega út frá þeirri hugmynd. Af útkomunni að dæmi átti þessi hugmynd aldrei erindi út af teikniborðinu enda hefur hlébarða- og tígrisdýramynstur yfirleitt tengst glyðrulegu háttalagi. Hinn venjulegi sjóari í Hull var því eins og api á pöbbnum, með Bonus á bringunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.9.2007 | 11:04
RIFF
Kvikmyndahátíð hófst í gær. Fyrir fimmtán árum lá maður yfir dagskránni og pikkaði út það mest spennandi, sem þegar litið er til baka voru kannski oft hundleiðinlegar myndir en aðrar ágætar. Ég man sérstaklega eftir myndinni Erkiengillinn eftir vesturíslenskan náunga sem heitir Guy Madden. Myndin leit út eins og rússnesk mynd frá 1930 og við KGB sátum í bíóinu haustið 1990 og heilluðumst af þessum einstaka stíl leikstjórans. Þegar ég lít tilbaka voru þetta sennilega yfirgengileg leiðindi. En það er víst nauðsynlegt í þroskaferli hvers manns að vera ungur og vitlaus.
Það er ekki þar með sagt að ekki leynist inn á milli gullmolar en í dag hefur maður einfaldlega takmarkaðan tíma og áhuga að vera að elta 25 myndir sem sýndar eru á 1 og 1/2 kvöldi. Því væri gott ef e-r lesandi síðunnar myndi benda á spennandi myndir á hátíðinni. Ég er hins vegar ekki spenntur fyrir ábendingum eins og Dagur Kári kom með í blaðinu í gær. Hann var sérstaklega áhugasamur um mynd eftir mann sem leikstýrði annarri mynd sem gekk svo fram af Degi að hann kastaði upp. Hann var því spenntur að vita hvað leyndist í pokahorninu núna.
Það er ömurlegt að kasta upp. Ef e-ð er ömurlegra en að kasta upp þá er það að kasta upp í bíó. Ég vil því ráðleggja Degi Kára að sitja bara heima og stinga puttanum upp í kok og losa um. Eftir það getur hann hreiðrað um sig í sófanum og horft á Steikta græna tómata. Það er e-n veginn mikið eðlilegra.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)