19.10.2007 | 22:39
Hverjir voru bestir?
Þegar ég byrjaði að skrifa á þessa síðu gerði ég lista yfir bestu lið sem evrópsk félagslið hafa sent frá sér. Það hefur greinilega e-r blaðamaður hjá World Soccer lesið þessa úttekt mína og étið hana upp eftir mér því í sumar birti blaðið lista yfir bestu lið allra tíma. Listinn þeirra er svona:
1. Brasilía 1970: Það er erfitt að meta þetta lið enda hefur maður bara séð nokkrar klippur úr HM 1970 og þar kemur leikur liðsins út eins og miðaldra menn að spila á sunnudagskvöldi í KR-heimilinu. Gönguhraði og ein og ein nett gabbhreyfing. Staða liðsins og yfirburðir 1970 gera það hins vegar að verkum að erfitt verður að steypa þeim af stalli.
2. Ungverjaland 1953: Ungverjar breyttu knattspyrnusögunni á 6. áratugnum þó þeir geti lítið sem ekkert í dag. Yfirburðalið á HM 1954 og ef þeir hefðu ekki klúðrað úrslitaleiknum væru þeir kannski í efsta sæti.
3. Holland 1974: Annað yfirburðalið sem klúðraði úrslitaleik á HM. Skemmtilegt að V-Þjóðverjar hafi verið ábyrgir fyrir partýprumpinu í bæði skiptin.
4. Milan 1989-90: Lengi vel náði lið Real Madrid fá 6. áratugnum hæst á sambærilega lista en nú hefur Milan tekið við keflinu. Ég er ekki frá því að þetta sé rétt og ég myndi jafnvel vilja setja liðið með frá tímabilinu 1991-1992, sem fór í gegnum heilt tímabil í Serie A án þess að tapa og 58 leiki í deildinni án taps allt í allt. Sennilega besta félagslið sögunnar og varla mikið síðra en 3 efstu liðin.
5. Brasilía 1958: E-r vilja meina að þetta lið sé betra en 1970 liðið. Ég hef ekki hugmynd um það þar sem ég hef bara séð eitt og eitt mark. Eina brasilíska liðið sem hefur unnið HM í Evrópu, það segir kannski ýmislegt.
6. Real Madrid 1956-60: Fimm evrópumeistaratitlar á fimm árum og e-r spænskir titlar líka. Liðið var bara vél þegar best lét með Di Stefano fremstan í sókn og aftastan í vörn á sama tíma, meðan Puskas gyrti ístruna vel í brók og raðaði mörkunum inn með vinstri. Liðið hefur hangið eins og skuggi yfir öllum liðum Real frá þessum tíma.
7. Brasilía 1982: Ef Brassar hefðu drullast til að vinna HM 1982 væri þetta lið sennilega í efsta sæti. Frábært lið fyrir utan hinn arfaslaka senter Serginho. Kannski má segja að lið sem þarf að vera með svo slakan senter geti aldrei talist frábært.
8. Barcelona 1991-94: Á Spáni er alltaf talað um draumaliðið. Vann CL eftirminnilega 1992 og La Liga fjórum sinnum í röð en beið afhroð gegn Milan í Aþenu og þrír af La Liga titlunum unnust vegna hrikalegs klúðurs hjá keppinautum í síðustu umferð. Frábært lið en kannski sitja þeir aðeins of hátt á lista.
9. Ítalía 1934-38: Um þetta lið hef é ekkert að segja nema kannski að tveir heimsmeistaratitlar og Giuseppe Meazza réttlæta kannski topp 10. Er samt ekki viss.
10. Frakkland 1998- 2000: Frábært lið en óþolandi. Ég er ekki viss um að þetta sé betra lið en Platini, Giresse, Tigana og co. með um miðjan 9. áratuginn.
11. River Plate late 1940: Hef lítið um þetta að segja en það er vissulega ánægjulegt að sjá S-ameriskt félagslið á listanum. Í liðinu lék Di Stefano og Omar Sivori sem gerði síðar garðinn frægan með Juventus. Lið var kallað Vélin vegna allsherjar sóknarbolta og var í raun forveri Total boltans hollenska.
12. Ajax 1971-73: Frábært lið með Cruyff fremstan í flokki. Algert yfirburðalið á þessum tíma og sýndu það sérstaklega í úrslitum 1973 gegn Juve þar sem þeir yfirspiluðu mótherjann fyrstu mínúturnar og skoruðu, en eftir það var leikurinn einfaldlega leiðinlegur því yfirburðirnir voru fáheyrðir.
13. Bayern Munich 1974-76: Beckenbauer, Muller, Hoeness og co. unnu allt, hvort sem var með V-Þjóðverjum eða Bayern.
14. Celtic 1967: Ansi ofarlega en þetta lið er auðvitað goðsögn á Bretlandseyjum. Fyrsta breska liðið til að vinna Evróputitil meistaraliða en ég er ekki viss um að margir á meginlandinu settu skosku ÍK-inganna á topp 20.
15. Frakkland 1984: Þetta var uppáhaldsliðið mitt og þess vegna vildi ég jafnvel fá þá ofar. Þó ekki væri nema fyrir treyjuna.
16. Danmörk 1986: Frábær heiður fyrir Dani þó að valið sé vissulega umdeilt. Það eru sennilega fáir sem efast um að þetta lið var betra fótboltalið en evrópumeistararnir frá 1992 en þeir unnu hins vegar enga titla. Maður gerir sér ekki alveg grein fyrir því að margir héldu að þeir yrðu heimsmeistarar 1986, slík var spilamennskan í riðlunum. En óvinurinn beið á bakvið þil og Butragueno kaffærði tívolídrengina. Eftir slíka útreið má spyrja sig hvaða erindi þeir eiga á þennan lista en maður getur ekki annað en þakkað fyrir minningarnar.
17. Real Madrid 1998: Það er leiðinlegt að segja það en þetta lið á ekkert erindi á þennan lista. Það hefði verið mikið nær að setja liðið frá 1985-1990 inn.
18. Tottenham 1961: Ég held að þeir hafi unnið deild og bikar þetta árið en ég efast og jafnvel stórefast um að þetta lið hefði náð inn á topp 50 í öðrum löndum.
19. Liverpool 1977: Liverpool var með afburðalið á þessum árum og alveg fram til 1984. Ég er ekki viss um að Keegan Liverpool hafi verið betra en Daglish Liverpool. En þetta er þó meginástæðan fyrir því að 87% allra starfsmanna á bilasölum, fasteignasölum og bönkum styðja Liverpool
20. Manchester United 1999: Ég þarf ekki að spyrja neinn United mann til að vita að þeir telja að þetta lið eigi að sitja ofar. Samt hef ég heyrt spekinga deila um hvort sé betra, 1994 liðið eða 1999 liðið. Það gekk vissulega allt upp á þessu tímabili og þrír stærstu titlarnir á sama árinu er auðvitað draumur hvers liðs. En geta menn ekki verið sammála að blómið hafi staðið út úr rassinum á þeim þessar frægu lokamínútur gegn Bayern. Þjóðverjarnir eltu líka þrennuna en klúðruðu henni. Fyrir vikið man enginn eftir þeim.
Ein spurning að lokum. Í umfjölluninni laumaði ég inn textabroti úr íslensku dægurlagi. Hver flutti, hver samdi og hvað heitir lagið?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.10.2007 | 16:06
Allt að verða vitlaust
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.10.2007 | 22:47
Kvikmyndin
Ég er að horfa á menningarþátt í sjónvarpinu og þar var Ásgrímur Sverrisson að tala við e-n "pompous ass" gagnrýnanda frá Bretlandi sem heldur því fram að árið 1968 hafi kvikmyndagerð lokið sem listgrein og engin endurnýjun hafi átt sér stað frá því.
Ég get ekki sagt að ég sé fullkomlega sammála þessum manni en er þó alltaf komast frekar á þá skoðun að gæði kvikmynda hafi minnkað frá 1990 með nokkrum undantekningum og upp á síðkastið hafi fátt bitastætt verið á boðstólum. Ég er aðallega að tala um amerískar myndir enda erfitt að koma með fordómafullar alhæfingar vegna mynda frá öðrum löndum þar sem ég hef ekki mikla yfirsýn yfir þær.
Sem dæmi vil ég taka The Departed. Loksins fékk Scorsese langþráðan Óskar en svo horfir maður á myndina og hugsar allan tímann; "Bíddu þetta er eins og léleg stæling á Scorsese mynd"!! Slómó senur með 70s rokki undir og Jack Nicholson rembist í hlutverki klikkaða illmennisins en kemur út eins og týpan úr As good as it gets hafi gleymt að taka töflurnar sínar og fundið byssu og eldhúshníf í hnífaparaskúffunni. Það var ekki merkilegt kvikmyndaár 2006 ef þetta stóð upp úr.
Topp 10 listi yfir bestu myndir frá 1990:
1. Fargo
2. Seven
3. Lord of the rings (allar myndirnar)
4. Pulp Fiction
5. Trainspotting
6. Swingers
7. Hable con Ella
8. Royal Tenenbaums
9. Lost in Translation
10. Shawshank redemption
Rétt að lokum eitt atriði úr Hable con ella sem hálfpartinn dáleiddi mig í Regnboganum fyrir ca. fimm árum. Frábær flutningur og frábært atriði.
http://uk.youtube.com/watch?v=a9kRUY4WLFI
Bloggar | Breytt 19.10.2007 kl. 13:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.10.2007 | 22:15
Venni Páer pússar pípuna
Vernharð Þorleifsson er betri í júdó en sviðsleik en Venni Páer er ekki sem verstur.
http://uk.youtube.com/watch?v=yfhppDibvhA
http://uk.youtube.com/watch?v=Tw6TFxRMOFs
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.10.2007 | 22:04
Neysluvara
Ég setti inn athugasemd hjá vini mínum um daginn vegna eilífðarumræðunnar um sölu á bjór og víni í verslunum. Þar sagðist ég vera sammála því að vín sé venjuleg neysluvara og eigi því heima í búðum.
Svo fór ég að velta þessu aðeins betur fyrir mér. Og komst eiginlega að þeirri niðurstöðu að vín og bjór geti í raun aldrei talist venjuleg neysluvara. Það þýðir ekki að ég sé endilega á móti því frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi. Ég er alveg til í að geta náð mér í kippu út í búð ef ég fæ skyndilega boð í partí eða býð fólki í heimsókn með stuttum fyrirvara. Það sem ég á við er að áfengi er sennilega eina varan sem gerir það að verkum að maður getur t.d. ekki sest undir stýri eftir neyslu þess þar sem það er einfaldlega bannað með lögum. Og ég efast um að margir séu á móti þeirri löggjöf og það er því viðurkennt af meirihluta landsmanna að áfengi brengli hugarástand það mikið að neytandinn geti ekki tekið þátt í þjóðfélaginu á eðlilegan hátt. Samt er ég alls ekki að vísa með þessu til alkóhólisma, hann er kapítuli út af fyrir sig.
Þannig verður áfengi aldrei lagt að jöfnu við skyr og majones og í raun líkara lyfjum. Ég hef sjaldan heyrt aðra en hörðustu frjálshyggjumenn halda því fram að lyfjasala verði gefin frjáls. Þá finnst mér ekki hægt að leggja þetta frumvarp að jöfnu við bjórbannið. Þar var ein tegund af e-m fáránlegum ástæðum tekin út og bönnuð meðan menn lágu hlandblautir af sjeneversjokki í sófanum heima hjá sér. Núna geta menn og konur náð sér í bjórinn sinn, rauðvínið sitt eða sjeneverinn sinn í næsta ríki án mikilla vandkvæða og úrvalið er ágætt. En ég viðurkenni fúslega að áfengissala er ekki hitamál a mínum bæ en sennilega er þetta fyrst og fremst prinsipmál fyrir þá sem sækja málið harðast.
Ég veit hins vegar fátt leiðinlegra en unga menn sem halda að tilvísun í 150 ára gamla frelsistuggu leysi öll mál samtímans og sé leiðin og lykillinn að fullkomnum heimi. Hann er flóknari en svo.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.10.2007 | 14:30
6 ára
Sólveig Halla Eiríksdóttir er 6 ára í dag.
Til hamingju með afmælið, litli snillingurinn minn!!
Myndin er tekin á einu af fáum virkjum á Íslandi. Hvað heitir það og hvar er það?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.10.2007 | 13:59
Uppáhalds
Það koma alltaf reglulega fram afspyrnusniðugir og skemmtilegir krakkar.
Einu sinni var lítill drengur fastagestur hjá Hemma Gunn. Hann kunni e-r ítalskar aríur og gólaði þær í sjónvarpinu þannig að fjölskyldan sat með tárvota hvarma fyrir framan skjáinn. Drenginn hef ég ekki séð lengi og kannski ekki ósennilegt að hann hafi horfið inn á tímans gráa mútuveg.
Edda Björgvins framkallaði tvo svona stráka. Sá eldri var sniðugasti strákur á landinu fyrir mörgum árum. Lítið spurðist hins vegar til hans um langt skeið en á síðari árum hefur hann dúkkað upp sem ágætis eftirherma. Sá yngri reyndi að vera sniðugur fyrir nokkrum árum en e-r mikill hugsjónamaður virðist hafa gripið inn í tæka tíð.
Edda er hins vegar ekki ein því biskup ber einnig mikla ábyrgð. Gallinn er bara sá að sonur hans er ennþá sniðugur krakki þó kominn sé langt á þrítugsaldur.
Ekki má gleyma ungum dreng sem sló í gegn í Cheerios auglýsingu fyrir mörgum árum. Hann var með gleraugu og eftir nokkrar skeiðar af seríosi var hann farinn að tala um tímann, snúning og möndul. Þegar ég var að byrja að deita Sillu fór ég með henni inn í eldhús heima hjá henni. Það fyrsta sem ég sá á ísskápnum var blaðaúrklippa með umræddri Cheerios auglýsingu. Hún hafði sagt mér að hún ætti bræður en að aðeins einn þeirra byggi á sama heimili. Það fóru því að renna á mig tvær grímur og jafnvel kalt vatn milli skinns og hörunds þegar smátt og smátt rann upp fyrir mér að ég ætti mögulega eftir að tengjast Cheerios drengnum tryggðarböndum. En drengurinn varð að manni og er mágur minn í dag.
Uppáhalds sniðugi krakkinn minn í dag er hins vegar Árni Beinteinn Árnason, sem mun bjóða upp á frábær innslög í Laugardagslögunum. Sennilega er hann fyrsti maðurinn/drengurinn í heiminum sem sem kemur með þá hugmynd að spyrja fræga fólkið óvenjulegra spurninga. Frábærlega skemmtileg og sniðug hugmynd sem mun sennilega ein og sér draga mann að skjánum á laugardagskvöldum. Ekki veitir af því þessi þáttur er eins og tímavél. Maður kastast aftur til ársins 1987 á augabragði því eini munurinn á þessum skemmtiþætti og Hemma Gunn er að kynnirinn er kona. Meira að segja fötin eru úr sama glansefni, sviðið er nákvæmlega eins og fyrir tuttugu árum og Pálmi Gunnarsson er ennþá flottastur. Með Litlum Neista og litun gæti hann unnið keppnina.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.10.2007 | 00:31
Treyja vikunnar 6
Skotland 1978:
"Phew! I haven't felt that good since Archie Gemmill scored against Holland in 1978!"
Skotar mættu kokhraustir til Argentínu 1978 og heima fyrir voru menn bjartsýnir að þeir myndu snúa tilbaka með heimsmeistaratitilinn í handfarangrinum. Svo fór hins vegar alls ekki en í dag stendur upp úr þeirri sneypuför markið hans Gemmill gegn Hollendingum og treyjan sem kapparnir klæddust.
Treyjan var valin besta landsliðstreyja allra tíma í e-i þýskri skoðanakönnun fyrir nokkru og það er í sjálfu sér erfitt að mótmæla því. Góður litur, "funky" 70s kragi, klunnalegt merki og Umbro demantarönd niður ermarnar. Ekki skemmdi fyrir hvað Archie var sjálfur unglegur og kynþokkafullur maður.
En hvaðan er tilvitnunin í byrjun?
I
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.10.2007 | 11:27
Hópsálir
Ég skil ekki eitt. Hægri mönnum er mikið í mun að halda því fram að ekki séu til þjóðfélög heldur bara einstaklingar. M. Thatcher hefur lengi verið helsta fyrirmynd í hópi áhrifamestu manna í Sjálfstæðisflokknum og mér skilst að eftir henni hafi verið haft að ekki væru einu sinni til fjölskyldur bara einstaklingar.
Samt er það svo að þegar talið berst að stjórnmálum þá eru ekki 63 einstaklingar á þingi eða 15 fulltrúar í borgarstjórn heldur heldur fjórir eða fimm flokkar og einn þeirra lang stærstur og bestur. Svo er röflað um e-n glundroða milli flokka.
Getur verið að fólk breytist úr einstaklingum í hóp þegar það gengur til liðs við Sjálfstæðisflokkinn? Og er frjálshyggjufólkið að flokknum ekki í hrópandi mótsögn við sjálft sig þegar það vill vera hluti af slíkum hóp og taka ákvarðanir og gera málamiðlanir út frá honum? Væri ekki eðlilegra að þeir gerðu þá kröfu um að einstaklingar væru í framboði en ekki flokkar.
Nei ég skil þetta ekki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.10.2007 | 15:26
Villti tryllti Villi
Gamli góði Villi er á útleið. Leiðinlegt fyrir hann því hann var svo glaður þegar hann fékk lykilinn að Ráðhúsinu. En ég græt hann ekki enda hef ég alltaf sagt að mönnum með hárkollu sé ekki treystandi. Þeir hafa alltaf e-ð að fela.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)