8.11.2007 | 12:01
Madrid
Madridarferðin var velheppnuð eins og búast mátti við. Mér líður satt að segja hvergi betur en í Madrid nema auðvitað með skyttunum mínum þremur nær hvar sem er á Íslandi. Borgin hefur hins vegar sína kosti og galla:
Kostir:
1. Metro-Metróið í Madrid er þriðja lengsta metrokerfi í heimi. Það er í raun stórmerkilegt í borg þar sem búa "aðeins" fimm milljónir. Þjónustan er frábær og lestirnar koma með stuttu millibili.
2. Næturbröltið-Við vorum í miðri viku en samt er alltaf e-r á ferli og það er ekkert mál að skella sér á veitingastað þó komið sé fram yfir miðnætti.
3. Santiago Bernabeu: Það er hrikalega gaman að lenda á góðum kvöldleik í Meistaradeildinni. Við vorum reyndar ótrúlega heppin með leik, sex mörk, vítaklúður, rautt spjald og þriggja stiga heimsklassamarkvarsla hjá Casillas á síðustu mínútunni.
4. Listasöfnin: Við hjónin erum kannski ekki mikið safnafólk en það er ekki hægt að sleppa því að fara á safn í Madrid. Thyssen Bornemisza varð fyrir valinu i þetta sinn en ég mæli með hinum stóru, sérstaklega Reina Sofia.
5. Café con leche: Það er ótrúlega ljúft að bregða sér inn á dæmigerðan stálbar með tapas, öli, churros sem dýft er í fljótandi heitt súkkulaði, spænskri tortillu og manchego osti. Þjónarnir klæddir í hvítar stutterma skyrtur, gamlir og reyndir í starfi, enda fer það ekki framhjá nokkrum manni þegar þeir æpa pöntun yfir staðinn við undirleik glamrandi leirtaus og flautandi kaffivéla. Það er nettur Þorsteinn joð í þessari lýsingu en hvað um það.
6. FNAC: Ég held að þetta sé frönsk keðja en verslunin í Madrid er fastur punktur hjá okkur hjónunum. Bækur, DVD, tímarit og alls kyns dót á 6 eða 7 hæðum.
7. Nokkurn veginn allt annað: Plaza Mayor, Chueca hommahverfið, Calle Arenal göngugatan og Plaza de Oriente milli Konungshallarinnar og Óperunnar.
Gallar:
1. El Corte Ingles: Drasl vöruhús sem maður kemst því miður varla hjá að versla í þó ekki sé nema til að ná sér í vatn. Skelfilegt starfsfólk og alltof hátt verð.
2. Real Madrid búðin: Ákveðin vonbrigði, engir DVD diskar með gömlum töktum eða retró treyjur. Aðeins of straumlínulagað fyrir minn smekk.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.11.2007 | 11:23
Flottur kokkur
Á Thyssen Bornemiza safninu í Madrid leynast nokkrar perlur úr listasögunni. Safnið er næststærsta einkasafn heims og var slegist um það þegar ákveðið var að koma því fyrir sjónir almennings í kringum 1990. Að lokum hreppti Madrid hnossið og safnið stendur nú við aðal breiðgötu borgarinnar, Paseo del Prado.
Innan um Rafael, Kandinsky, Picasso og alla hina leynist þessi magnaða mynd. Formið er alþekkt, brjóstmynd með daufri ljóstýru. Efnistökin eru hins vegar óvenjuleg enda er titill myndarinnar "Sennilega kokkur George Washington".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2007 | 01:00
Spurning
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.11.2007 | 00:56
Að taka "panenka"
Úrslitaleikur í Evrópukeppni landsliða. Framlengingin er búin og vítaspyrnukeppnin er langt komin. Það er komið að þér að taka fimmta og síðasta víti þíns liðs. Með því að skora vinnur landið þitt stórmót í fyrsta og kannski síðasta sinn. Með því að klúðra hleypir þú V-Þjóðverjum aftur inn í keppnina og þú veist jafnvel og allir aðrir að það jafngildir aftöku án dóms og laga. Það sem þú veist hins vegar betur en allir aðrir er að þú ert mesti töffari í heimi, með þétta kolanámumottu undir nefinu og hárið sleikt til hliðar með dassi af munnvatni og tékkneskum elegans. Þetta er rétti tíminn til að sýna umheiminum að það jafnast ekkert á við tékkneskan djass. Sepp Maier stendur í fyrir framan þig í markinu, þú hleypur að boltanum og .....
Framhaldið þekkja flestir en ég verð alltaf hálf lamaður í fætinum þegar ég sé þessa takta. Nafn Panenka gleymist seint.
http://uk.youtube.com/watch?v=lp2V2J5wkes
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.11.2007 | 00:33
Um negrastráka
Stórum hópi Íslendinga finnst það mesta mannréttindamál í heimi að geta lesið bók um tíu litla negrastráka. Ef e-r bendir á að hvorki kvæðið, sagan eða myndirnar í bókinni séu fullkomlega eðlilegar verður maður var við e-a undarlega þvermóðsku sem er rökstudd á þann hátt að amma gamla, sem las alltaf bókina fyrir barnabörnin, hafi alls ekki verið rasisti, börnin sem lásu bókina hafi alls ekki áttað sig á neinum rasisma í henni eða að nú ætli forræðishyggjan að takmarka frelsi manna til að hugsa fyrir sig sjálfir, með því að banna og stranglega banna.
Það hefur ekki nokkur maður sem ég veit um lagt til að þessi bók verði bönnuð. Og málið snýst ekki um hvort þeir hvítu Íslendingar sem lesi bókina fyrir börnin sín séu rasistar eða hvort amma og afi hafi verið rasistar. Og allra síst snýst þetta um hvort börn séu svo klár að þau geti strax séð muninn á réttu og röngu. Krakkar eru að mörgu leyti klárir og fljótir að læra en þeir eru jafnframt fljótir að temja sér vonda siði og læra allt það sem fyrir þeim er haft, ef ekki er farið varlega.
En ég er svo sem ekki heilagur í þessu frekar en öðru. Ein vinsælasta bókin á þessu heimili heitir Litli Svarti Sambó og margir þekkja. Ég hef reglulega heyrt að bókin sé full af fordómum í garð blökkumanna en hún á hins vegar að gerast á Indlandi og lýsir snilldar samningatækni og klókindum aðalsöguhetjunnar sem endar fullklædd og með magafylli af pönnukökum. Það er því ekki hægt að líkja sögunni af Sambó við örlög litlu negradrengjanna.
Málið snýst um hvort eðlilegt sé að boðið sé upp á svona barnaefni í þjóðfélagi þar sem ört stækkandi hópur barna er dökkur á hörund. Ætlar e-r að segja mér að leikskólakennarar muni ekki hugsa sig tvisvar um áður en þeir lesa bókina fyrir krakkana á deildinni sinni ef eitt barn, eða fleiri, er dökkt á hörund, hvort sem þessi umræða hefði farið af stað eða ekki? Ætli það verði ekki e-r tvístígandi á jólaböllunum áður en lagið er sungið ef e-r "litlir negrar" eru viðstaddir? Hver ætli ástæðan sé fyrir því? Gæti hún verið sú að bókin er fordómafull og niðurlægjandi tímaskekkja fyrir þá aðila sem eiga nú þegar kannski dálítið erfitt vegna húðlitar. Ég hef a.m.k. kynnst því betur eftir því sem ég hitti fleiri Íslendinga hvað þeir geta verið miklir rasistar.
Í myndinni Festen eru mörg góð atriði. Eitt það minnisstæðasta er þegar svartur kærasti systurinnar er kominn í veisluna og bróðir hennar byrjar að syngja rasistasöngva. Ekki líður á löngu þar til allir gestirnir taka undir og á meðan reynir kærastinn að fá svör við því hvað sé verið að syngja um, en spurningarnar drukkna í hávaðanum. Ég efast um að atriðið eigi að sýna að allir veislugestirnir séu rasistar heldur kannski frekar hvað fólk getur verið ósmekklegt og tillitslaust gagnvart umhverfi sínu. Úr verður magnað atriði sem er pínlegt að horfa á. Viðbrögð fylgismanna bókarinnar minna um margt á þetta atriði. Þeir eiga að fá að lesa þessa bók og þá skipta tilfinningar annarra og tillitssemi engu máli.
Ef foreldrar þeldökkra barna lýsa áhyggjum sínum vegna bókarinnar er ástæða til að hlusta. Því frelsið á aldrei að skaða aðra, eða svo segja frjálshyggjupostularnir. Allra síst lítil börn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.10.2007 | 00:36
Góð grein
Vildi bara benda á þessa grein.
http://blog.central.is/gautieggertsson?page=comments&id=3363126#co
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.10.2007 | 00:28
Treyja vikunnar 8
Athletic Bilbao ca. 2004:
Í Bilbao er frægt Guggenheim safn sem lítur út eins og blautur draumur starfsmanns í blikksmiðju. Byggingin er framúrstefnuleg og í raun súrrealísk að efni og formi. Að mörgu leyti afspyrnuglæsilegt hús.
Forráðamenn Athletic Bilbao vildu ekki vera eftirbátar safnsins og fengu listamann til að hanna nýja treyju fyrir sig. Eins og margir vita spilar Athletic í Þróttarabúningum en listamaðurinn vildi færa sig aðeins út fyrir rammann. Úr varð hinn svokallaða tómatsósutreyja sem féll því miður ekki í kramið hjá íhaldssömum áhangendum frá Baskalandi. Treyjan var því fljótlega tekin úr umferð og mega þeir prísa sig sæla sem náðu í eintak.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.10.2007 | 11:07
Stemmningsleysi
Það er talað um stemmningsleysi í íslenska fótboltalandsliðinu. Ég er með lausnina til að hrista aðeins upp í hópnum. Hún heitir Haka og hefur verið notuð af Nýsjálendingum síðan í lok 19. aldar.
Maður getur rétt ímyndað sér hvað Eiður Smári væri flottur stjórnandi og svo myndi glitta í blóðhlaupin, tryllingsleg augu Emils Hallfreðssonar og Arnars Þórs Viðarssonar fyrir aftan. Farseðillinn á HM 2010 er kominn í hús.
http://uk.youtube.com/watch?v=kd0kDxP04eI
http://uk.youtube.com/watch?v=83U_Vg1GRvA&NR=1
http://uk.youtube.com/watch?v=3o0pv6k37yE
Í lokin er útgáfa af Haka sem er sennilega líkari því sem íslensku strákarnir myndu bjóða uppá. Það ætti kannski bara að prófa Vikivaka eða Fugladansinn.
http://uk.youtube.com/watch?v=nZ96rNaHR_E
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.10.2007 | 23:58
Treyja vikunnar 7
Olympique Marseilles 1987-1988:
Árið 1987 var Bernard Tapie að byrja uppbyggingu sína á Marseilles liðinu sem átti eftir að verða stórveldi í Evrópu nokkrum árum síðar. Á sama tíma sat bólugrafinn unglingur að nafni Zinedine, á pöllum Velodrome vallarins og lét sig dreyma um að mata Jean Pierre Papin og Klaus Allofs á eitruðum sendingum.
Þessa tíma verður þó fyrst og fremst minnst sem tíma hins lauslega tískufatnaðar, víðir jogginggallar, uppbrettar jakkafataermar, pokabuxur, sítt að aftan og hormotta. Mér finnst Marseilles treyjan þetta tímabil lýsa þessari tísku vel, treyjan virðst vera úr joggingbómull þó svo sé sennilega ekki og svo þessar snilldarermar, sem er hvorki stuttar né síðar. Kemur út eins og léttur, hvítur sumarjakki, sem brett hefur verið snyrtilega upp á ermarnar á, við ljósan bómullarbol. Alveg hreint tilvalið á Frönsku rivierunni
Bloggar | Breytt 21.10.2007 kl. 12:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)