Londres

Fór til London síðustu helgi. Alltaf gaman að koma þangað enda eru fáar borgir í heiminum sem bjóða upp á jafn marga viðburði sem maður hefur áhuga á. Enda tók ég á hámenningu, millimenningu og lágmenningu sem aldrei fyrr.

Hámenningin var ferð á Tate Modern og sérstaklegaá sýningu á verkum Mark Rothko. Millimenningin fólst í ferð á Mamma Mia sýninguna og ég get væntanlega fullyrt að eini maðurinn sem varð fyrir vonbrigðum þar var Frakkinn sem þurfti að hella kampavíninu í plastglös þegar hann kom inn í salinn eftir hlé.

Lágmenningin var að sjálfsögðu leikur Fulham og West Ham. Einu sinni var sagt að Zidane væri stundum eins og balletdansari á velli, ergo hámenningarlegur fótbolti. Þessi leikur var bakaðar baunir með feitri pulsu. En þrælskemmtilegur samt. Upp úr boltaferðinni stóð samt gengi krónunnar. Það var ekki nóg að miðinn kostaði 65 pund sinnum 172, heldur var trúin á krónuna það lítil að við fengum ekki að sjá nema hluta af vellinum. Myndirnar segja meira en mörg orð.

 

Þetta breytir því hins vegar ekki að Craven Cottage er sennilega einn best staðsetti völlur Englands, á bökkum Thames.

 

fulham.jpg fulham_2.jpg


Að lina sársauka

Á þessum erfiðu tímum finnst mér þetta ljóð viðeigandi sem aldrei fyrr:

 

Stingdu kanilstöng
upp í þvagrásina,
og sítrónu í rassgatið.
Eins og fyrir töfra
virðist efnahagsvandinn
alls ekki svo alvarlegur

Höf. Þorsteinn Guðmundsson

 


Treyja vikunnar: Tíbet

tibet-02-homels.gifÁrið 2001 lauk ungur Dani, Michael Nybrandt, námi sínu í frumkvöðlafræðum frá Kpilot prógraminu í Árósum. Lokaverkefni hans fólst í að skipuleggja fyrsta landsleik Tíbet og þurfti hann m.a. að kljást við hótanir Kínverja að slíta viðskiptasambandi við Danmörku færi leikurinn fram. Leikurinn fór að lokum fram og voru andstæðingarnir engir aðrir en hinir geysisterku Grænlendingar. Fóru leikar svo að nágrannar okkar unnu sprækt lið Tíbet 4-1.

Það kemur kannski ekki á óvart en lið Tíbet er ekki viðurkennt af FIFA og spilar því bara öðru hvoru við lið eins og Norður Kýpur,Tadjikistan og Butan. Það er hins vegar alltaf ákveðin viðburður þegar liðið spilar.

Það kom ekkert annað til greina í þessu danska verkefni en að fá Hummel til að sauma treyjur á drengina. Það er ákveðin retro stemmning í sniðinu, og litinir eru sóttir beint í fána landsins. Vel til fundið þó ég neiti ekki að það hefði verið gaman að sjá Hummel rendurnar niður alla ermina. En fyrst og fremst sögulegur gripur.


Eina ósk

Ef ég myndi finna lampa á víðavangi, sem ég tæki upp og byrjaði að nudda (sem er svo sem fáránlegur verknaður í sjálfu sér), og upp úr honum gysi andi með fez á hausnum, sem byði mér eina ósk myndi ég varla biðja hann um heimsfrið eða mat handa öllum jarðarbúum.

Nei því miður yrði ég að biðja þennan gjafmilda anda um að tryggja að ég heyrði aldrei aftur, og þá meina ég ALDREI AFTUR, fréttir af Ásdísi Rán.

Það er mín ósk.


Enski boltinn

Það er stundum erfitt að halda ekki með neinu liði í enska boltanum. Maður verður pínulítið út undan þegar fólk stendur á kaffistofunni og hlær að boltaörlögum manneskjunnar við hliðina. Í ljósi þess að Arabar eru komnir inn í dæmið verð ég að finna mér lið eða amk að reyna að finna mér lið. Kostirnir eru þessir:

Liverpool: Ég er mun jákvæðari en áður gagnvart Liverpool, einkum vegna spænsku leikmannanna og þeirrar staðreyndar að nær allir í fjölskyldunni hennar Sillu halda með Liverpool. Staðreyndin er hins vegar sú að þetta er alltof seint, ég get ekki byrjað að halda með Liverpool á gamals aldri. Plús sú staðreynd að stór hluti íslenskra Liverpool aðdáenda eru apar.

Manchester United: Ég var einn harðasti United maður landins frá 7-14 ára aldurs. Síðan þá hafa Alex Ferguson og co farið skelfilega mikið í taugarnar á mér þó að það hafi minnkað örlítið síðustu ár. En það verður ekki aftur snúið. Svo einfalt er það.

Arsenal: Ég dáist að þeirri hugsun sem er í gangi hjá Arsenal og Arsene Wenger. Stórkostlegur fótbolti á köflum. En það hefur ekki alltaf verið svona og verður ekki alltaf. Ég er samt dálítið veikur fyrir þessu liði en...

Chelsea: Ekki séns

Aston Villa: Þegar ég byrjaði að fylgjast með ensku deildinni var Villa með hörku lið. Ekki nóg með að vera Englands og Evrópumeistarar heldur héldu Duran Duran með þeim. Síðan þá hafa þeir hins vegar verið litlausir og lítið spennandi. Mjög hæpið að ég taki þessari áskorun.

Tottenham: Ég hef alltaf verið veikur fyrir Tottenham en þar sem það eru þegar nokkrir Tottarar í vinnunni minni er e-ð hálflúseralegt að koma núna fram og þykjast hafa haldið upp á Gary Mabbutt alla tíð.

Stoke: Það er freistandi að velja Stoke en þar sem þeir eru sennilega á leið úr deildinni í náinni framtíð er það jafnframt hálf tilgangslaust.

Sunderland: Ótrúlega lítið spenandi lið.

West Ham: Þessir kom til greina. Verð að viðurkenna að ég held alltaf ósjálfrátt með Íslendingum erlendis og svo hefur West Ham ýmislegt með sér s.s. London, cockney, nokkuð góða búninga og að þeir verða sennilega alltaf viðriðnir úrvalsdeildina. Þá er lítil hætta á að þeir muni mæta Real í alvörukeppni.

Portsmouth: Annað lið sem kemur til greina sérstaklega eftir magnaða frammistöðu stuðningsmannanna á White Hart Lane í febrúar 2004.

Wigan: Held ekki.

Hull: Freistandi en samt alls ekki.

Middlesborough: Það er e-ð steindautt við Middlesborough.

Bolton: Einn sterkasti kandídatinn. Það hafa alls kyns snillingar spilað með Bolton á síðustu árum s.s. Okocha, Ivan Campo og Fernando Hierro. Mjög sterkur kandidat sem ég hef líka fylgst vel með á síðustu árum.

Fulham: Ég er sennilega að fara leik Fulham og West Ham seinna í mánuðinum. Það er samt e-ð verulega óspennandi við Fulham.

Everton: Ég ólst einnig upp við það að Everton væru góðir. Það leiddi hins vegar ekki til þess að ég dáðist að þeim heldur þvert á móti. Það er því algerlega útilokað að ég muni gefa þessum fákum atkvæði mitt.

Manchester City: Kannski fyrir tveim vikum síðan. Ekki núna.

Blackburn: Æii nei.

Newcastle: Það hefði verið möguleiki að byrja að halda með Newcastle fyrir 13 árum. Núna væri það eins og að drekka súra mjólk.

West Bromwich Albion: Það er bullandi nostalgía á sveimi í kringum þetta lið en þetta er hvorki staðurinn né stundin. Ef við hefðum hist fyrir mörgum árum hefði hins vegar verið möguleiki. But we´ll always have Cunningham.

Valið stendur því í raun á milli Bolton, West Ham og Portsmouth. Úfff ég verð að taka smá tíma í þessa mikilvægu ákvörðun.

Niðurstaðan verður sett inn á síðuna síðar.


TV

Nokkrar góðar minningar frá þeim tíma þegar lífið var einfalt.

 

http://uk.youtube.com/watch?v=VldsG5kFBfE 

http://uk.youtube.com/watch?v=Yva0iLQMMYM

http://uk.youtube.com/watch?v=BDEMthILzpA

 


Nostalgía: Game & Watch

Datt inn á nördasíðu um daginn þar sem má finna öll Nintendo tölvuspil frá upphafi. Þegar ég skoðaði myndirnar byrjaði gormalegt tölvuleikjasuð í eyrunum og ég hvarf á augabragði aftur til 1983. 

octopus_gif.jpgdonkey.jpg


Robinho

Ef Arabarnir sem eiga núna Manchester City halda að þeir hafi verið að kaupa Ronaldinho, Ronaldo eða e-s konar Maradona gætu þeir orðið fyrir vonbrigðum. Leikmenn sem koma frekar upp í hugann eru Denilson og Mirandinha.

Ég er eiginlega himinlifandi að mínir menn hafi selt Robinho meðan e-r peningur fékkst fyrir hann. Hann er gæddur alls kyns hæfileikum en það hefur farið lítið fyrir þeim á síðustu árum.


Facebook

Ég er með Facebook síðu. Veit eiginlega ekki hvers vegna en minnir að hinn mikli elgur, Örn Úlfar Sævarsson, hafi séð endalausa möguleika í bókinni góðu. Því lét ég tilleiðast en verð þó að viðurkenna að ég skil ekki tilganginn með þessu. Eftir smá skoðun sýnist mér þetta reyndar byggja á nostalgíu, eins og svo margt annað í lífinu. Ég hélt fyrst að ég væri þriðji elsti maðurinn á Facebook, á eftir elgnum og KGB. Það var öðru nær því maður er endalaust á rekast á fólk frá gamalli tíð, hvort sem um er að ræða gamla grunnskólafélaga, menntaskólafélaga eða vinnufélaga, sem maður hefur ekki séð í fjölda ára.

Þetta er í rauninni eins og fara í IKEA, niður í bæ á 17. júní eða í Húsadýragarðinn þar sem maður hittir e-n sem var með manni í ellefu ára ára bekk og maður hefur ekkert að segja við en finnst það leiðinlegt og vandræðalegt því maður vill tengjst fortíðinni og minningunum.

Þá er betra að geta bara spurt viðkomandi í netheimum hvort hann vilji aftur verða vinur manns og allt verður gott á ný. Án þess að þurfa að segja orð.

Kannski leiðir Facebook til þess að minningargreinar í Morgunblaðinu verða svo gott sem óþarfar. Þess í stað verður stutt klausa í blaðinu:

"Eiríkur Gunnsteinsson, fæddur 22.11.1973, dáinn 23.11.2073. Hann átti 852 vini á Facebook."

 


Ota sínum tota

Hvað var ríkisstjórnin að gera uppi á sviðinu við Arnarhól? Ég fór með stelpunum mínum niður í bæ og var svo sem ekkert að spá í þetta þá en fór núna að velta fyrir mér hvað þetta var hrikalega hallærislegt.

Vinsamlegast ekki blanda saman stjórnmálum og íþróttum. Þegar Spánverjar fögnuðu evrópumeistaratitli í fótbolta var ekki hálfur stjórnmálamaður á sviðinu í miðborg Madridar. Hvað þá heil ríkisstjórn.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband