Færsluflokkur: Bloggar
8.6.2006 | 09:39
Gudjohnsen
Fór inn á spænska boltablaðið AS í morgun og þar blasti við mynd af Eiði Smára og fyrirsögnin Sá útvaldi fyrir Barcelona. Gott og vel, þó um sé að ræða Barcelona þá tók smásálin í mér kipp allt þar til ég var kominn lengra og sá þessi orð: El finlandes Gudjohnsen....! Finnland 1-Ísland 0.
Vonandi verður þetta leiðrétt einn góðan veðurdag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.6.2006 | 17:59
Brennslan mín-erlend
Það er líklega langt í að ég verði svo frægur að komast í Birtu með brennsluna. Ég hef því ekki önnur ráð en að setja lagalistann hingað en lögin fylgja ekki með.
Five miles out: Þetta snilldarlag frá Mike Oldfield er eitt af mínum uppáhaldslögum og hefur verið lengi. Það er e-r sérstök blanda af krafti, melodíu og söng Maggie Reilly sem gerir þetta að algerri perlu.
1984: Ég hefði getað valið aragrúa af Davið Bowie lögum en þetta varð fyrir valinu þar sem mér finnst þetta einfaldlega vera besta lagið á uppáhalds plötunni, Diamond dogs.
Bigmouth strikes again: The Smiths eru í miklu uppáhaldi hjá mér og ég er ekki frá því að þetta sé af bestu plötu þeirra, The queen is dead. KGB vinur minn kynnti mig fyrir þessu í menntaskóla og ég hef aldrei fengið leið á þessu síðan.
I´ve been tired: Pixies klikka sjaldan þó maður sé kannski ekki eins spenntur fyrir þeim og oft áður. Þetta lag af Come on pilgrim er klassískt, textinn góður og áhrifin fín.
Chovendo na roseira: Sambajazz a la Antonio Carlos Jobim er snilld. Ímynda sér að sitja í hvítum jakkafötum á bar við ströndina í Ríó ca. 1965 með kokteil í glasi og hlusta á þessa snilld.
Julia: Það er auðvitað til urmull laga frá Bítlunum sem vert væri að setja hér inn. Þetta lag er hins vegar eitt af þeim sem sitja eftir þegar þessi frægustu eru orðinn pínulítið útlifuð.
This town ain´t big enough for the both of us: Fáránlegt lag með Sparks. Silla spurði mig hvort lagið væri með Leoncie þegar ég leyfði henni að heyra það. Ekki beinlínis hrós. En það er e-ð sem heillar mig við þetta lag. Ekki spyrja mig hvað.
Initials BB: Gainsbourg var snillingur og þetta er uppáhaldslagið mitt með honum. Það var ekkert plebbalegt við kallinn þangað til hann fór að semja hrikalega vondar diskó sólarsömbur með stunum og öllu, uppúr 1980.
Only when I lose myself: Ég fór á tónleika með Depeche Mode í San Sebastian 1998. Hafði lítið hlustað á þá og fannst þeir satt að segja bara vera e-r leifar frá níunda áratugnum þó vinir mínir héldu öðru fram. En þeir eru helv.. góðir og þetta er það lag sem ég er hrifnastur af.
Moving: Ég er alger Kate Bush kall og þetta er af bestu plötunni hennar, The kick inside. Platan er alveg mögnuð og hún var ekki nema tvítug þegar hún var gerð. Hins vegar er erfitt að gera upp á milli laganna en þetta stendur líklega upp úr og hefur gert frá því ég heyrði það fyrst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2006 | 17:27
Tvöfalt líf Veróniku
Fékk diskinn með tónlistinni lánaðan um daginn til upprifjunar. Mjög góður enda er myndin frábær í minningunni.
Kieslowski var frábær og standa þessi mynd og Stutt mynd um dráp upp úr. Ég veit um einn sem fílar Rauðann og ég get alveg tekið undir það.
Blessuð sé minning Krysztof Kieslowski.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.6.2006 | 17:15
Plebbismi taka tvö
Sýnarvesenið fór þokkalega. Ég fæ Sýn á 1650 kall en er samt ekki fullkomlega sáttur því ég er viss um að tilboðið var til 5. júlí. En ég ætla ekki að missa af HM út af 1650 krónum íslenskum. Ráðlegg hverjum þeim sem fær tilboð frá 365 að fá allar tölur skriflega.
Ég veit ekki hvort eftirfarandi flokkist undir plebbisma en það er alla vega ekki kúl:
Að birta afmæliskveðju til Bubba Morthens á heilsíðu í dagblaði og reyna að vera persónulegur. Svona gera bara menn sem koma frá bæ þar sem meira að segja takkaskórnir eru frá Buffalo.
Að setja málverk og bleika sjöu e. Arne Jacobsen inn í herbergi kornungrar dóttur sinnar til að kenna henni að hafa góðan og dýran smekk. Ég hélt satt að segja að það væri hægt að vera með góðan smekk án tillits til þess hvort það hefði í för með sér mikil fjárútlát eður ei.
Að keyra á amerískum pallbíl í Reykjavík. Ég tek tilbaka að Toyota sé plebbaleg þó ég skilji ekki alveg þessar gríðarlegu vinsældir. Þetta eru ágætir bílar. En pallbíllinn er skelfilegur.
Ég treysti mér hins vegar ekki til að segja til um hvað er hip og kúl enda er ég sjálfur plebbi á framsóknarjeppa. En ég get greint plebba um leið og ég sé hann. Það fer ekki mikill tími í það enda sannast hið forkveðna: It takes one to know one.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.6.2006 | 23:05
Sýnarævintýri
Ég ætla að vona að það taki enginn plebbafærsluna alvarlega, þetta er bara samkennd Íslendinga sem hefur sínar skondnu hliðar. En það er enginn laus við að vera plebbi.
Annað alvarlegra mál er framkoma stafsfólks Stöðvar tvö. Það var hringt í mig í sept.-okt. á síðasta ári og mér boðið að gerast áskrifandi. Það stóð ekki til hjá mér en þar sem tilboðið var upp á Sýn út júní f. uþb. 16.000 kall og evrópupakkinn á 2.200 á mánuði, ákvað ég að slá til. Ég var reyndar ekki viss þannig að ég bað konuna sem hringdi að senda mér póst með tilboðinu. Hún vildi það hins vegar ekki og það hefði, eftir á að hyggja, átt að hringja e-m viðvörunarbjöllum hjá mér. Þegar ég sótti myndlykilinn var mér sagt að Sýn extra væri með og svo reyndist vera. Ég var því alsæll. Fyrir nokkrum mánuðum kom hins vegar í ljós að Sýn extra var dottin út og ég hringdi uppeftir til að kanna málið. Þá var mér svarað þannig að Sýn extra væri bara í Sportpakkanum en ég gæti keypt hana fyrir 890 á mánuði. Ég sagði þeim að þetta væri engan veginn það sem mér var lofað en þar sem ég vissi að ég myndi ekki nota Sýn extra eftir átta liða í Meistaradeildinni féllst ég á að hafa hana í mánuð til viðbótar. Var samt ekki sáttur en hélt að mesta vesenið væri afstaðið.
En svo var aldeilis ekki. Í kvöld sá ég að Sýn var dottin út og hringdi strax uppeftir. Þá var mér sagt að ég hefði bara tekið tilboðið í átta mánuði þeas út maí. Ég sagði þeim að tilboðið hefði hljóðað upp á áskrift út júní og ekkert hefði verið talað um átta mánuði. Enda er það fáránlegt fyrir fótboltafíkil eins og mig að hætta með Sýn þegar HM er að byrja. Þegar ég spurði hvað Sýn kostaði stóð ekki á svari: 14.000 í þrjá mánuði. En fyrir einn mánuð meðan HM er: 13.000!!!!!! Hvernig dettur þeim í hug að verðleggja Sýn á þessa upphæð. Þetta er ekki rán um hábjartan dag, þetta er nauðgun af verstu gerð. Manni er bara sagt að beygja sig fram meðan Þorsteinn, Gaupi og co. losa um beltið. Ég veit ekki hvað gera skal, mér er verulega misboðið og mun hringja í e-n yfirmann á morgun. Ef málið verður leyst farsællega fyrir mig get ég sáttur verið þó þetta sé óþolandi. Ef þetta verður hins vegar e-ð vesen mun ég aldrei skipta við þá aftur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.6.2006 | 16:27
Plebbismi
Það kom út góð bók fyrir örfáum árum eftir Jón Gnarr sem hét Plebbabókin. Í henni mátti finna fjöldann allan af leiðbeiningum um hvað er plebbalegt. Flest allt var mjög fyndið en sumt gekk manni ansi nærri enda held ég að maður verði aldrei alveg laus við að vera plebbalegur. Orðið plebbi er náskylt meðalmennsku sem er okkur Íslendingum í blóð borin, hvort sem við viljum það eða ekki. Mér datt þetta í hug þegar ég var að rifja upp fleyg orð Hallgríms Helgasonar að á Íslandi mætti gera grín að öllu nema U2 og Man. utd. Hér eftir fylgja nokkur atriði sem mér finnst vera dæmigerð fyrir íslenskan plebbisma:
Nóa Siríus: Það er ekkert varið í Nóa konfekt en samt lekur þetta út um eyrun á manni um hver jól. Er ekki komin tími til að bjóða upp á e-ð annað? Og hvað er málið með páskaeggin? Ég er feginn að fleiri sælgætisgerðir eru farnar að herja á þennan markað enda er Íslendingum smátt og smátt að verða ljóst að páskarnir koma þó enginn sé Nói. Bestar eru samt hugmyndirnar um að flytja þetta út.
SS-pylsur: Það er engu logið í auglýsingunum, Íslendingar borða SS pylsur. En hvernig stendur á því að það jaðrar við lögbroti að kaupa Goða. Það er þó e-ð bragð af þeim.
Enski boltinn: Það er skelfilega plebbalegt að halda með Liverpool eða Manchester United en eitt er verra. Það er að halda með e-u skelfilega lélegu neðri deildarliði eins og Úlfunum eða Leeds. Ég tala nú ekki um Luton. Og verst er auðvitað að halda með enska landsliðinu.
Toyota: Er ekki e-ð undarlegt við þetta ástarsamband Íslendinga og Toyotu? Ég held að Landcruiser hafi einu sinni verið söluhæsti bíllinn á landinu!! Vissulega ágætir bílar en réttlætir það að annar hver bíll á götunni er Toyota?
American Style: Það eru alveg furðulega margir Íslendingar sem halda því fram að borgararnir á þessari búllu beri höfuð og herðar yfir aðra. Þessi borgari fæst í hverri einustu sjoppu við þjóðveginn, með sömu hamborgarasósunni og iceberginu. Einstaklega lítið spennandi.
U2: Ekki það að ég hafi ekki gaman af mörgum lögum þessara gaura en það er ekki hægt að neita því að það er plebbalegt að halda upp á U2. Við skulum bara orða það svona: Ef þú deilir uppáhaldshljómsveit með Valtý Birni þá er kominn tími á að fara í Skífuna og skoða e-ð nýtt.
Kók: Eitt það allra plebbalegasta er að drekka bara kók en ekki aðra kóladrykki. Dæmigerðar samræður á veitingahúsi: "E-ð að drekka?" "Uhh, kók fyrir mig", "Við erum bara með Pepsi." "Nú þá vil ég bara vatn". Sama gildir um þá sem geta bara drukkið eina tegund af appelsíni.
Dominos: Sumt slær í gegn hjá Íslendingum en annað ekki. Dominos hitti beint í mark. Hvers vegna er ráðgáta. Ekki það að ég taki ekki eitt og eitt megatilboð við og við en borið saman við Eldsmiðjuna og nokkrar aðrar er þetta eins og seigt gúmmíbrauð með skinku og osti.
Benidorm: Þetta er kannski mesta klisjan en málið er að ef þig langar til Benidorm og ert eldri en 18 þá eru 98 % líkur að þú búir í Fellunum, Bökkunum eða í Sandgerði.
Hreimur: Þessi er fyrir Sverri. Ef e-r segist hafa verið í Alabama og þú svarar: "Elabeeemaa" eða maður segist halda með Real Madrid og fær um hæl: "Já Real Maðríííð".
Mugison, Sigurrós og Dead: Íslendingar eru snillingar í að gera e-ð sem er öðruvísi og frumlegt á Íslandi að því plebbalegasta sem til er án þess að hafa nokkuð fyrir því. Ef Sigurrós væri útlensk sveit myndi 1,5 % þjóðarinnar vita af henni og hafa áhuga á að hlusta. Bó drap kúlið í Dead á einu kvöldi og ég varð vitni að menningarvitum á fimmtugsaldri stappa í takt við Mugison í Mál og menningu einu sinni fyrir jól. Það er ekkert plebbalegra en að þykjast vera hip og kúl þegar maður er ekki hip og kúl.
Sjálfstæðisflokkurinn: Þetta íhaldsapparat er með 40-50 % stuðning á landsvísu. Líklega er ástæða fyrir 10 % stuðningsmanna hans að kjósa flokkinn. Restin er að miklu leyti menn með lítið sjálfstraust sem telja sig stóra kalla því þeir kjósa Flokkinn.
Mogginn: Sorrý Jón og aðrir sem ég þekki á Mogganum. Það er hins vegar útbreiddur misskilningur að Mogginn sé eina alvöru blaðið á landinu. Dæmigerður Íslendingur hefur örugglega sagt oftar en einu sinni: "Það besta við heimferðina er að fá Moggann í flugvélinni". Blað þar sem meira en helmingurinn er þýddar Reuters fréttir, slappar aðsendar greinar, minningargreinar, dánartilkynningar, dagskrá og auglýsingar hefur lítið erindi til manns í dag. Því miður. En mbl. vefurinn er alltaf að batna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.6.2006 | 15:08
Árni Finnsson
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.6.2006 | 09:54
Snilld
Nú hef ég ekki lagt það í vana minn að lesa ljóð. Hins vegar kemur alltaf eitt og eitt sem ég kann vel að meta. Þetta fellur í þann flokk:
Stingdu kanilstöng
upp í þvagrásina,
og sítrónu í rassgatið.
Eins og fyrir töfra
virðist efnahagsvandinn
alls ekki svo alvarlegur
Höf. Þorsteinn Guðmundsson
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.6.2006 | 16:21
Sveitalaugar Topp tíu
Nú er sumarið komið með roki og vætu og þá er ekki seinna vænna en að byrja að spá í sveitalaugar fyrir sumarið. Ég ætla að setja upp lista fyrir amatöra og þeir sem leggja land undir fót geta þá etv nýtt sér þessar upplýsingar. Þannig verður fullkomnun náð í fríinu. Í grófum dráttum hefur góð sveitalaug þessa kosti: Góð staðsetning með fögru útsýni, gamaldags búningsaðstaða með upprunalegum áhrifum, góðir pottar (algert lykilatriði) og síðast en ekki síst verður laugin að fylla mann góðum minningum og þ.a.l. skiptir veðrið og önnur stemmning öllu máli. Þá er mikilvægt að laugin sé ekki í stærra þéttbýli en 1000-2000 manns, helst færri. Eftirtaldar laugar uppfylla þessi skilyrði, eitt eða fleiri:
Húsafellslaug: Lengi vel var þessi laug eins og vatnsrennibrautargarður frá sturlungaöld. Frábærir heitir pottar þar sem vatnið virtist koma beint úr borholunni, rennibraut og sundlaug. Allt lá þetta hvert ofan á öðru í miklu kaosi og ekki má gleyma búningsaðstöðunni sem var þröng og léleg eins og góðra sveitalauga er siður. Nú hefur þessu að e-u leyti verið breytt, ný búningsaðstaða og e-ð fleira en andinn lifir að mestu.
Hrísey: Prófaði þessa í fyrsta sinn í fyrra og var sáttur. Mjög góður pottur með frábæru útsýni inn Eyjafjörðinn, laugin er fín og það sem kannski er ekki síst er að búningsaðastaðan lítur út fyrir að vera ekki degi yngri en 80 ára. Reyndar er algengur vandi í þessari laug að konur þvælist "óvart" inn í karlaklefann en það er skyggir þó ekki á almenna ánægju.
Vaðnes: Kannski er þetta besta minnsta sundlaug landsins. Sumir myndu kalla þetta pott en þeir sem til þekkja kalla þetta Sundlaugina. Frábær staðsetning úti í móa. Ekki opin almenningi.
Varmaland: Það er alltaf gaman að koma í laugar sem tengjast heimavistaskólum eða stofnunum í sveitinni. Búningsaðstaðan er svona seventies steypaklumpa hönnun með gulum flísum. Það er því bullandi nostalgía í gangi en sturturnar eru lélegar. Brilliant heitur pottur, mjög óvenjulegur og frábært útsýni yfir Borgarfjörð og Skarðsheiði.
Flosalaug í Öræfum: Á þessu svæði er lítið um heitt vatn en bændurnir leystu vandann með því að hita laugina með sorpbrennslu. Þetta fer ekki á milli mála þegar maður keyrir upp að og eflaust myndu e-r PR menn telja þetta lélega markaðssetningu en ég get fullvissað fólk um að þessi laug er vin í eyðimörkinni.
Seljavallalaug: The mother of all country pools!! Laugin er reyndar formlega lokuð vegna heilbrigðiseftirlits en það getur hver sem er tekið sprett, kjósi hann svo. Ég kom þangað síðast með Sillu og Sólveigu Höllu 2002 eða 2003 og þá hafði e-r útlensk stelpa tjaldað upp við laugina og svamlaði þarna í rigningunni.
Vopnafjarðarlaug við Selá: Þessi er einfaldlega besta sveitalaug á landinu. Staðsetningin við bakka Selár er frábær, það er ekkert rafmagn, húsið er upprunalegt og svo hefur heilmikið verið lagt í pottana og laugina. Þegar við fórum í þessa laug fyrir nokkrum árum hafði e-r kúkað í hana daginn áður og verið var að láta renna í hana aftur. Hún var því formlega lokuð en þegar við ætluðum að snúa við kom miðaldra kona með litað hár og í hlébarðadressi til okkar og sagði að það væri í góðu lagi að skella sér í hana. Sem við og gerðum. Svona á þetta að vera.
Reykholt í Biskupstungum: Það verður að vera laug í Tungunum. Á þessu svæði eru nokkrar góðar t.d. á Flúðum en þessi fær mitt atkvæði af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi spilaði ég mjög eftirminnilegan fótboltaleik í íþróttahúsinu við sundlaugina fyrir rúmum tveimur árum og á eftir tók laugin við. Síðan rámar mig í að þegar ég var lítill hafi ég farið með foreldrum mínum í þessa laug og fengið Flórída súkkulaði á eftir. Í gulum umbúðum með pálmatré. Góður pottur, rennibraut, sveitasæla. Allur pakkinn!
Víðilundur við Ásbyrgi: veit ekki hvort ég sé með rétt nafn en þessi laug er allavega á leiðinni frá Ásbyrgi að Kópaskeri. Frekar lítil laug og einn pottur en heillandi að sama skapi. Fín aðstaða að öllu leyti.
Hveragerði: Frábær laug sem mun ávallt lifa í hjörtum meðlima Lárusar Rist. Einstök hönnun, staðsetning, pottar, gufa og sundlaugin sjálf er afbragð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
29.5.2006 | 23:38
Tvö ár
Í dag er tvö ár síðan við Silla gengum í hjónaband að Breiðabólsstað í Fljótshlíð. Þó við séum bæði malbiksbörn par excellence þá kom aldrei annað til greina en að gifta sig og halda veislu í sveitasælunni enda erum við sveitarómantíkur af bestu gerð. Þetta heppnaðist líka ferlega vel, allt frá hinum umdeilda presti Önundi, einstökum söng Maríönnu Másdóttur í kirkjunni og til veislunnar á Hellishólum. Það er hins vegar leiðinlegt að vita til þess að Sigurborg og co. séu ekki lengur húsráðendur þar. Þau reyndust okkur einstaklega vel í öllum undirbúningi og meðan á veislunni stóð.
Fyrir ári síðan héldum við upp á tímamótin með því að leyfa okkur algjöran lúxus á Hótel Búðum í ægifögru veðri. Í dag erum við hins vegar bundin yfir skvísunum okkar tveimur, Sólveig Halla er lasin og sú stutta er bara rúmlega mánaðar gömul. Við höfum því bara gert okkur dagamun á Hjarðarhaganum. Nú sitjum við fyrir framan tækið og fylgjumst með Davið Hasselhoff grenjandi yfir sigri Taylor Hicks í American Idol. Og jöplum á brúðkaupstertunni sem bragðast eins og ný þrátt fyrir tvö ár í frysti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)