Gúrka

Tja, ég veit ekki hvað skal segja. Á forsíðu mbl er að finna þessa frétt, http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1204428. Nú þekki ég málið allvel og get með sanni sagt að þó sigur í því  hafi verið ánægjulegur, þá átti ég von á dauða mínum fyrr en að það lenti á forsíðu í blaði allra landsmanna. Gúrkan er sem sagt mætt og á næstu vikum má vænta frétta eins og Snuð brunnu við í potti í Vesturbæ Reykjavíkur og Ísólfur Gylfi frumflytur nýja Framsóknarsömbu fyrir gítar og skemmtara.


Bitlaust

Annað verður ekki sagt um spænska landsliðið sem spilaði æfingaleik við Rússa í gær. Ég hef áður sett fram efasemdir um Luis Aragones, þjálfara Spánverja sem af e-m undarlegum ástæðum er kallaður vitringurinn frá Hortaleza. Efasemdirnar hafa verið staðfestar upp á síðkastið, í fyrsta lagi með því að skilja Morientes eftir heima og taka varnarmann með í hans stað. Í öðru lagi kom greinilega fram í gær að hann virðist ekki hafa neina hugmynd um hvernig byggja á gott sóknarlið upp. Í stað þess að mæta vel skipulögðum Rússum með blússandi sóknarbolta stillir hann tveimur varnarsinnuðum miðjumönnum upp og niðurstaðan 0-0. Það er því frekar líklegt að Spánverjarnir lendi í miklum erfiðleikum að skora á HM en ég verð bara að vona að flóðgáttirnar opnist þann 14. júní nk. og allt verði á floti til og með 9. júlí. En er það líklegt?

Verð reyndar að minnast á fyndna umfjöllun um Frakkana. Coupet, markvörður Lyon, stakk af úr æfingabúðum liðsins í fússi þegar ljóst var að Domenech,sem þjálfar Frakka, hafði tilkynnt að Barthez verði aðalmarkvörður á HM. Ég skil reyndar að hann sé fúll, Barthez er búinn að vera í banni í sex mánuði fyrir að hrækja á dómara en Coupet var valinn markvörður ársins þar í landi. En þessi þjálfari er kostulegur, hann hefur víst lýst því yfir að hann muni aldrei velja menn sem eru í sporðdrekamerkinu. Hvernig komast svona erkifífl í þessa stöðu?


Kosningar

Djöfull er leiðinlegt að hlusta á stjórnmálamenn ræða niðurstöður kosninga. Allir geta fundið e-ð jákvætt við sína niðurstöðu þó hún sé vonbrigði og þurfa að skjóta á næsta mann. Staðreyndin er sú að aðrir en Framsókn mega nokkuð vel við una á landsvísu þó að Samfylkingin megi vera ósátt við niðurstöðuna í Reykjavík.

Ég lít svona á þetta. Í fyrsta lagi átti Dagur að láta e-n annan taka skellinn og mæta ferskur til forystu eftir fjögur ár. Hann hefur lent í því að verja R-listann sem er rjúkandi rúst þrátt fyrir ágæta framgöngu í mörgum málum. Annað var vissulega verra, því verður ekki neitað. Hins vegar hafa Vinstri grænir falið fortíðina á bak við Svandísi sem er mjög frambærileg, en hinn hrútleiðinlegi Árni Þór hefur varla sést þó hann beri einna mesta ábyrgð á Hringbrautarslysinu. Framsókn er líka með nýja menn og hafa komið sér undan að ræða sín verk í tíð R listans. Það sem lesa má út úr þessu er þó einfaldlega það að þessir tveir flokkar eru ekki fá meira út úr því að bjóða sér heldur en undir merki R-listans. Framsókn tapar meira að segja manni. Í rauninni er Samfylking að fá meira en síðast, fjóra í stað þriggja ef við teljum Dag sem Samfylkingarmann þó hann hafi verið óháður fyrir fjórum árum. Í öðru lagi eru Vinstri grænir að vinna mikið á og mega vel við una, sérstaklega er ég sáttur við þá í Kópavogi þar sem karl faðir minn hefur lagt hönd á plóginn. Í þriðja lagi vonaði ég að Sjallar fengju átta menn í Reykjavík úr því sem komið var, svo þeir beri einir ábyrgð og geti ekki kennt öðrum um e-r málamiðlanir þegar efna á loforð. Ef þeir vinna ekki að því að koma flugvellinum úr Vatnsmýrinni eru þeir strax orðnir ómerkingar. Hins vegar er alveg útséð að Ólafur gefur ekki eftir flugvöllinn fari hann með sjöllum í meirihluta enda hefur hann örugglega fengið mörg atkvæði út á þessa hentistefnu.

Á öðru hef ég lítinn áhuga.

Hápunktur kvöldsins er samt án efa Gísli Sigurgeirsson á Akureyri. Þetta er klárlega versti fréttamaður landsins og takið eftir því hvernig hann heldur á hljóðnemanum. Hryllingur!!


Nostalgía

Lykt og tónlist getur fært mann á augabragði ár eða áratugi aftur í tímann. Ef ég finn t.d. sveitta Landrover lykt er ég kominn í hringferð um landið fyrir tæpum þrjátíu árum þó að ég muni lítið eftir ferðalaginu. Sama má segja þegar ég heyri veðurfréttir á Rás eitt, það minnir mig á þegar ég flutti til Íslands fjögurra ára. Prins Póló lagið með Magnúsi Ólafssyni og Sumargleðinni og Hver vegur að heiman er vegurinn heim með Pálma Gunnarssyni eru svipuð, þegar ég heyri þessi lög umlykur mig e-r notaleg söknunartilfinning. Oftar en ekki tengist þetta ferðalögum og útilegum, jafnvel Akraborginni, eins undarlegt og það má vera. Það er verulega skrýtið hvernig sumir hlutir kalla þessar minningar fram en aðrir ekki. En oft eru áhrifin mun sterkari heldur en að skoða myndir. 

NFS

Mér sýnist NFS hafa mistekist ætlunarverk sitt. Þeir senda út allan sólarhringinn en samt eru þeir með ferlega lélega og innihaldslausa kosningaumfjöllun. Ég efast ekki um að þeir geti sýnt fram á að svona mörgum klukkutímum hafi verið varið í kosningarnar en mikið af þessu er endursýnt efni frá m.a. gömlum borgarafundum þar sem stundum voru ekki einu sinni öll framboð komin fram. Á maður að taka mark á þessu rugli?

Annað sem er ekki síður slæmt er að umræðan snýst oft nær eingöngu um skoðanakannanir en ekki málefni. Er virkilega ekki hægt að fá vitsmunalega umræðu um stefnu flokkanna? Er enginn nógu góður til að fara í kjölinn á málum og halda aftur af þessu tuði? Jafnvel Egill Helgason tístir og hristist yfir því hver sé að útiloka hvern og hvernig nýjasta samstarfskjaftasagan hljómar. Mér hefur oft fundist Egill sniðugur en upp á síðkastið veit maður varla hvort hann er að koma eða fara, svo mikið talar hann í mótsögn við sjálfan sig. Hann var t.d. manna æstastur þegar skopmyndamálið kom upp í Danmörku og vildi helst gera meira af því að ögra aröbum en þegar Silvía Nótt segir fuck you við e-n grískan sviðsmann þá stekkur hann til varnar Grikkjum því þeir séu svo vandir að virðingu sinni. Mér sýnist á viðbrögðum Grikkja í Júróvisjón að þar fari dónaleg og hörundssár þjóð því það var ekki bara púað á Silvíu.


El Moro

Morientes á leið til Valencia! Ég spái því að þetta verði Valencia til mikillar gæfu, Morientes er og verður góður framherji þrátt fyrir slappar stundir hjá Liverpool.

Bjánahrollur

Er e-ð ömurlegra en uppstrílaður Jón Axel að kynna fegurðarsamkeppni Íslands. Eftir einstaklega sterílt atriði þar sem stúlkurnar gengu fram í síðkjólum með aðstoð fjögurra sveina í svörtum jakkafötum og velfráhnepptum hvítum skyrtum, hafði hann ekkert betra að segja en að þetta væri "mjög fallegt atriði". Ég held að þarna hafi hámarki smekkleysis og skynvillu verið náð.

Annars var í rauninni eitt sem skyggði á Jón þetta kvöld og það var Unnur Birna með risastóra kórónu að ávarpa lýðinn: "Mér er sönn ánægja að vera með ykkur hér í kvöld því það er ekki auðvelt þar sem ég hefði getað verið hvar sem er í heiminum blablabla...." Gat ekki annað en engst um í sófanum meðan bjánahrollurinn hríslaðist um mig þangað til Silla var búin að skipta um stöð. Ég nenni ekki að gagnrýna þessa kroppasýningu, það virðist alltaf vera nóg af hégómafullu fólki sem tekur þátt og þeim er það velkomið mín vegna. En ég ætla sannarlega að vona að dætur mínar vaxi upp úr því í síðasta lagi við fermingu að langa að vera lítil prinsessa með kórónu. Það er nefnilega fátt bjánalegra fyrir fullorðið fólk.


Afstaða

Ég varð fyrir ákveðnu áfalli í dag þegar ég tók könnun á www.afstada.is. Nú er ég búinn að ákveða að kjósa Samfylkinguna og þetta mun ekki breyta þeirri afstöðu en það var samt mjög slæmt að sjá að af 10 spurningum var ég 4 sinnum sammála exbé, 3 sinnum Samfylkingu, 2 sinnum Vinstri grænum og einu sinni sjálfstæðisflokki. Bót í máli var að ég var aldrei sammála Frjálslyndum enda hef ég misst mikið álit á þeim fúla flokki undanfarið. Þetta sýnir hins vegar að framsókn er oft með frambærileg mál en flokkurinn er bara svo plebbalegur að það kemur ekki til greina að gefa honum atkvæði.

Að öðru sem þó er skylt. Ingvi Hrafn sjallapungur er mun vægari en ég átti von á. Nú hef ég tvisvar séð Stefán Jón hjá honum og sá síðarnefndi hefur kjaftað hann svo í kaf að hrafninn segir bara já og amen. Gott ef hann vildi ekki meina að það væri lítill munur á framboðunum í Reykjavík. Þó að margir þoli ekki Stefán Jón þá má hann eiga það að hann hefur munninn fyrir neðan nefið og hæfilegt sambland af ósvífni og brosmildi. Það væri mjög gott að Dagur hefði brot af þessum hæfileika, þegar hann lendir í tuðinu stífnar hann allur upp og virðist alls ekki liða vel. Því miður er það þannig að menn eru oft metnir á því hvernig þeim gengur í framíköllum og tuði án þess að fá einfaldlega tækifæri til að koma málum sínum á framfæri.


Europop

Þegar maður eldist þroskast maður á þann hátt að ljúfsár þjóðlagaballaða frá Bosníu hljómar vel. En því miður virðist maður verða óþroskaðri með aldrinum líka þannig að teknó europopp með falsettu frá Rúmeníu lætur einnig ágætlega í eyrum. Ég get ekki komist undan því að viðurkenna að ég hef alltaf haft gaman af Eurovision, en áhuginn náði líklega hámarki þegar ég var svekktur yfir þvi að Frakkar töpuðu fyrir Carolu 1991 með laginu White and Black. Ég vissi ekki fyrr en löngu seinna að snillingurinn Serge Gainsbourg átti heiðurinn af því lagi. Hins vegar er algerlega óútreiknanlegt að spá fyrir um sigurvegara í þessari keppni. Í fyrra vann europopp og í ár unnu Orkar í latexbúningum með Spinal Tap lag.

Ég legg til að fá við fáum Mána Svavarsson til að semja lag fyrir Eyþór Arnalds og Sollu stirðu í næstu keppni. Máni hefur gert góða europopp hluti með Latabæ og með smá sellóskoti getur þetta ekki klikkað. Solla stirða syngur og Siggi sæti á sundskýlunni fyrir aftan með bongótrommu. Eyþór hefur örugglega ekkert betra að gera meðan hann er ekki með bílprófið. Með þessu sameinum við latex, europopp, smá djók og þjóðlegt selló. The winning formula!


Löggiltur frídagur

Ég legg hér með til að föstudagur eftir undankeppni Eurovision verði gerður að löggildum frídegi. Með því móti verður hægt að flytja partýin yfir á fimmtudagana þegar Íslendingar taka þátt enda sé ég ekki fram á að við munum komast í aðalkeppnina næstu tuttugu árin amk. Það skiptir engu máli máli hvort við séum að reyna að vera góð, fyndin, hress eða dramatísk með framlagi okkar, það er öllum sama og kjósa frekar tattóveraða kynskiptinga frá Tyrklandi eða spriklandi bankamenn frá Litháen. Reyndar fær Silvía plús fyrir að hafa náð að pirra Grikki svona rosalega, hver nennir að æsa sig yfir leikinni persónu? En hitt var verra að þulir annarra sjónvarpstöðva tóku sérstaklega fram að um grín væri að ræða og það er líklega það versta sem hendir grínista, að það verði að útskýra brandarann. En líklega mátti búast við þessu, lagið er ekki gott og fólk var ekki að fatta brandarann. Hvað stendur þá eftir?

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband