Uppgjör

Veislan búin. Manni finnst þetta hafa staðið yfir svo mánuðum skipti en samt eru ekki nema þrjár vikur síðan ég var í Stuttgart. Þátttaka Spánverja er eins og fjarlæg minning, öll tilþrifin gleymd eins og þeir hafi aldrei verið með. En það breytist þegar farið verður yfir keppnina síðar.

Zidane kvaddi boltann á ógleymanlegan hátt, var algerlega trúr sínu undarlega eðli sem leysist úr læðingi með nokkurra ára millibili. Gaman fyrir hann að það skyldi gerast á 108. mínútu í úrslitaleik á HM. Leikurinn var samt hin besta skemmtun og ég get ekki sagt að ég hafi vorkennt Trezeguet  og Henry mikið. Fæstir leikmenn vinna HM og þeim hefur tekist það einu sinni. Það sem kom kannski mest á óvart var hvað öll vítin voru góð og hvað markmennirnir voru langt frá því að verja, sérstaklega Buffon. Brottrekstur Zidane skipti hins vegar ekki sköpum, það voru miklu minni líkur en meiri að Ítalir fengju á sig mark á síðust 10 mínútunum og allar skyttur Frakkana skoruðu nema Trezeguet, sem hefði líklega engu að síður tekið víti.

Gaman samt af því hvað ég var oft nálægt í spánni fyrir keppnina, ég sagði að Ítalía, Holland, Argentína eða Spánn (þrjár síðustu óskhyggja) myndi vinna, Þjóðverjar færu í undanúrslit, Brassar ekki lengra en í undanúrslit jafnvel fyrr, Tékkar kæmust ekki upp úr riðlinum, Úkraína yrði mögulega spútniklið keppninnar (ókei, kannski ekki spútnik en komust lengst af þessum minni þjóðum) og að síðustu átti ég ekki von á að Englendingar gerðu rassgat. Verð hins vegar að viðurkenna að ég átti ekki von á svo góðum árangri Frakka en ég held að það hafi komið fleirum á óvart.

Úrvalslið keppninnar er svona: Buffon, Zambrotta, Cannavaro, Ayala, Lahm, Pirlo, C. Ronaldo, Viera, Riquelme, Klose og Torres.

Ástæðan fyrir því að Zidane er ekki með er að mér fannst hann einfaldlega ekki besti playmeikerinn í keppninni. Hann sýndi flott tilþrif á köflum en hann náði aldrei að dómínera leiki eins og hann gerði fyrir nokkrum árum. Nema á móti Brasilíu en Ghana gerði það líka svo það er ekki mikið að marka.

Nú bíður Suður Afríku búa það vandasama verkefni að feta í fótspor Þjóðverja. Strax eru uppi raddir um að þeir nái ekki að klára þetta í tæka tíð. Þeir eiga fáa boðlega velli, almenningssamgöngukerfi er varla til staðar, glæpatíðni er há osfrv. Kannski verður keppnin flutt til Ástralíu og þá fer maður að safna í ferðasjóð.

 


Mannréttindi

c_documents_and_settings_eirikur_my_documents_my_pictures_200px-boo-marvel.jpg
Það heyrist alltaf reglulega í frelsispennum. Krafan er jafnan um lögleiðingu fíkniefna, áfengi í matvöruverslanir eða e-ð álíka. Fólk getur haft hvaða skoðun sem það vill varðandi þessi baráttumál en þau komast hins vegar ekki í hálfkvisti við þau mannréttindabrot sem framin eru á hverjum degi með því að banna innflutning á Trixi, Boo Berry og fleiri morgunkornstegundum sem vekja upp fortíðarþrá. Er e-ð vit í því að selja leyfa sígarettur en ekki Trix vegna litarefna?

Pros and cons

Ég er að reyna að gera upp hug minn varðandi úrslitaleikinn á sunnudaginn. Helst hefði ég viljað að hvorugt liðið hefði unnið en það er víst lítið við því að gera núna. Það er því ekki um annað að ræða en að fara yfir kosti og galla liðanna:

Frakkland:

Kostir: Zidane og Makalele. Flissuðu að lélegum framburði á Laugardalsvelli 1998.

Gallar: Barthez, Henry, Wiltord. Þjálfarinn er algert fífl sem má helst ekki komast í sögubækurnar sem sigursæll þjálfari.

Ítalía:

Kostir: Pirlo, Cannavaro og Buffon. Lippi er heimsklassaþjálfari sem má bæta einni rós í gatið.

Gallar: Materazzi, Inzaghi, Iaquinta. Leiðinda leikaraskapur á köflum.

Hallast jafnvel að Ítalíu þar sem Zidane hefur unnið einu sinni en vonum bara að leikurinn verði skemmtilegur. Megi betra liðið vinna.

Hans Steinar Bjarnason fór á kostum í íþróttafréttum á NFS í kvöld. Tilvitnun: "Úrvalslið HM hefur verið valið og vekur athygli að einungis einn leikmaður er frá liði Englands og Brasilíu". Hvers vegna vekur það athygli? Satt að segja finnst mér það einum manni of mikið. Annað sem vekur athygli er að Riquelme er allt í einu í hópi vonbrigða keppninnar skv. 4 4 2. Hann lagði upp fjögur af ellefu mörkum Argentínumanna, var aðalmaðurinn hjá þeim í riðlakeppninni og átti nokkrar frábærar stungur gegn Mexíkó. Svo er hann tekinn út af á móti Þýskalandi í stöðunni 1-0 og er skyndilega vonbrigði. Ef Pekerman hefði þorað að spila sóknarbolta áfram, væri Argentína etv í úrslitum og Riquelme væntanlega hetja. En því er ekki að neita að Riquelme er eins og Óli Stefáns, eina stundina bestur í heimi en svo hverfur hann og virðist ekki hafa neinn áhuga á boltanum. 


Eitt sinn Paul Stanley, nú Zidane

Þegar ég var níu ára hélt ég rosalega mikið upp á KISS. Aðdáunin var nær takmarkalaus allt þar til sú saga fór að ganga fjöllunum hærra að Paul Stanley reykti. Þar sem ég var bara saklaust  barn fékk ég kvíðakast og sting í hjartað yfir þessu fréttum og jafnaði mig ekki fyrr en mörgum árum seinna.

Í kvöld líður mér eins. http://www.unison.ie/sportsdesk/pictures.php3?ca=12&pi=401997


Gullkrullan og Ivanovinn

Ætli það sé ekki best að veita nokkur verðlaun nú þegar HM er senn á enda. Ég vil endilega biðja menn að veita atkvæði sínum uppáhaldskandidötum.

Versta greiðslan:

Juan Pablo Sorin: Ekki veit ég hvenær Sophiu Hansen trendið lenti í Argentínu en það eru allir að djakka.

Gabriel Milito: Þessi er að safna í Sophiu enda hefur hann hárlitinn.

Fabrizio Coloccini: Það er lítið rokk í þessu. Permanet fyrir fullvaxta, forljóta leikmenn er bara ekki að gera sig.

Chun Soo Lee: Þessi greiðsla er verri live en á þessari mynd. Það er eins og hann sé með mjúkan feld á hausnum eða svona fíngerða ull sem maður festir nýklipptar neglur í og fær gæsahúð frá toppi til táar.

Ronaldinho: Öðru nafni Samba-Sophia. Hefur ekki alveg Jennifer Beals andlitsfallið til að geta borið þessa greiðslu.

Rio Ferdinand: Þessi röndótta sítt að aftan reggaegreiðsla er ekki alveg að gera sig. Minnir mig alltaf á Guffa, með þennan króníska aulasvip.

Ljótasti leikmaðurinn:

Mineiro: Þessi Brassi er kannski ekki sá frægasti en þegar maður er farinn að líta út eins og persóna úr Deep Space Nine hlýtur maður að eiga séns í Ivanovinn.

Ribery: Leiðinlegt að hann skyldi lenda í bílslysi en hann getur tekið gleði sína á ný ef hann vinnur Ivanovinn.

Tevez: Kannski er hann vampýra, kannski hellti mamma hans bara te-i á hann, en eitt er víst: Hann á heima meðal þeirra bestu í Ivanovinum.

Cabanas: Hversu margir vildu mæta þessum í dimmu húsasundi í miðborg Asuncion?

 


Undarlegt

Getur e-r sagt mér hvernig á því stendur að 60 milljóna þjóð sem hefur takmarkalausan áhuga á fótbolta og getur lítið sem ekkert í öðrum hópíþróttum, getur ekki mætt með 22 góða leikmenn á HM? Það þýðir ekki að kenna Eriksson um, það þýðir ekki að kenna dómaranum um, það þýðir ekki að kenna hitanum um, það þýðir ekki að kenna grasinu um og það þýðir ekki að kenna boltanum um. England er ekki lengur á HM og ástæðan fyrir því er einföld, þeir eru ekki nógu góðir. Meira að segja Chris Waddle sjálfur sagði í Guardian að þeir væru "over hyped". Það lýsir enska liðinu ágætlega.

Reyndar hefði ég líka viljað Portúgalina út, þvílíkt leiðindalið. En þeir voru með fáránlega taktík, fara í vítakeppni og vinna. Og það gekk fullkomlega upp.

Annars finnst mér merkilegt að lesa í Guardian að Englendingar geti verið sáttir að hafa farið lengra en Spánverjar og jafnlangt og Argentínumenn. Hvernig er hægt að bera lið saman á þennan hátt? Ég er enn sannfærður um að Argentína hafi verið með besta liðið í þessu móti og það er móðgun að bera enska liðið saman við það. Að sama skapi er ekki hægt að bera það saman að tapa fyrir Frökkum sem unnu Brassa við það að komast áfram með því að vinna Ecuador. En ég hef svo sem enga ástæðu til að verja heiður Spánverja, þeir voru bara ekki nógu góðir þegar á reyndi.

Á sama hátt er algerlega út í hött að spila um þriðja sætið í mótinu.

Ætli það verði ekki Ítalía-Frakkland í úrslitum. Ítalir eru mestu party poopers sem til eru og það hljóta margir að gleðjast yfir því að sjá Zidane í sínu gamla góða formi. Hann skyggði algerlega á Ronaldinho, sem ég sá satt að segja varla í leiknum. Reyndar tók Dinho eina af sínum frægu aukaspyrnum, stillti sér upp, horfði einbeittur á vegginn og......ekkert.

 

 


Álög

Á mér hvíla þau álög að öll lið sem ég held með á HM detta út. Reyndar á þetta við um þýsku deildina líka því Thomas mágur minn hefur ekki enn jafnað sig á að ég skyldi byrja að halda með Karlsruhe fyrir mörgum árum. Þeir féllu árið eftir og hafa ekki borið barr sitt síðan.

Haldi e-r lesandi þessarar síðu á móti e-u liði er hægt að leggja inn pöntun og ég mun halda með því liði eins og ég get. Fyrir það tek ég ekki nema 15.000 kall.

Með þessu áframhaldi munu Ítalía og England spila lokaleikinn og þeir síðanefndu vinna. Draumurinn breytist í martröð.

En það er sárt að sjá eftir Argentínumönnum. Ég skil ekki hvaða taktík þetta var hjá Pekerman að taka heilann úr liðinu. Riquelme átti kannski engan stórleik enda lágu Þjóðverjar aftarlega en þegar Þjóðverjar urðu að sækja opnast svæði fyrir svona snilling. Þá er lítið vit að hafa hann á bekknum. En það var alltaf vitað að heimamenn myndu taka vítakeppnina.


Þú tryggir ekki eftir á

Stundum koma textasmiðir með vel heppnuð slagorð. "SS bestir fyrir bragðið" og "Ginkeyptur fyrir Greip"er nokkuð gott en "Öruggur staður til að vera á" hittir hins vegar engan veginn í mark, amk ekki hjá mér. Sérstaklega þegar það er sungið.

Í morgun sá ég nýtt, líklega frá Umferðaráði, sem mér fannst hitta beint í mark. "Sumir fara aldrei framúr aftur". Hrollkaldur boðskapur fyrir fríið.

En er ekki dálítið kaldhæðnislegt að Tevez hjá Argentínu lítur svona illa út því mamma hans hellt te i á hann þegar hann var polli.  


Útleið

Fátt kom á óvart í kvöld, búið var að byggja upp væntingar í kringum spænska liðið sem klikkaði þegar á reyndi. Frakkarnir áttu einfaldlega skilið að vinna. En það gladdi mig mikið að Henry skoraði ekki og spilaði illa.

Hins vegar á þetta spænska lið framtíðina fyrir sér ef rétt verður haldið á spilunum. 7-8 leikmenn í byrjunarliðinu eru fæddir eftir 1980 og svona leikir fara beint í reynslubankann.

Zidane er aftur á móti kallaður Gamli maðurinn þó hann sé ekki nema ári eldri en ég. Tíminn flýgur.

Nú er það Argentína sem ég held með og ef þeir tapa á föstudaginn mun ég halda með Þjóðverjum. Það er saga til Mosfellsbæjar.


Leipzig, Stuttgart

Sáttir
Nokkrar myndir úr bulluferðinni

Fleiri myndir

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband