3.5.2006 | 15:18
Borgir
Við Silla vorum að ræða þær borgir sem við höfum komið til. Nú erum við engir landkönnuðir en höfum gaman af því að ferðast g höfum reynt að sjá nýja staði eins og kostur hefur verið. Það eru alltaf skiptar skoðanir á því hvaða staðir eru skemmtilegir og hverjir eru leiðinlegir, hvar er fallegt og hvar ekki enda getur upplifunin litast af veðri, skapi, fólki og í raun hverju sem er. Við skelltum okkur til dæmis til Köben fyrir jólin og vorum ekki alveg nógu ánægð. Kannski voru það allir Íslendingarnir á Strikinu, á Ráðhústorginu, á hótelinu, á flugvellinum, á Reef and beef og í rauninni hvar sem maður var. Við þekktum í raun fleiri í Strikinu en á Laugaveginum. En ég get vel ímyndað mér að þeir sem þekkja borgina vel kunni betur við hana. Hins vegar eru aðrar borgir sem hafa fallið betur í kramið hjá mér. Fyrst er að nefna Madrid, þar sem við Silla bjuggum fyrir sjö árum. Ég hef heyrt alls kyns viðbrögð við heimsóknum þangað, þýskum mági mínum finnst hún t.d. ógeðsleg en ég gæti ekki verið meira ósammála. Madrid er stórborg á evrópskan mælikvarða og þar er hægt að gera allt sem hugurinn girnist og mannlífið er einstakt. Á vorin og sumrin situr fólk úti nær allan sólarhringinn og það fylgir því e-r vellíðunartilfinning að vera léttklæddur þegar nálgast miðnætti og heilu fjölskyldurnar eru saman komnar á útiveitingastöðum. Ekki spillir heldur fótboltinn fyrir. Önnur borg sem heillaði mig strax var Berlín. Það eru reyndar að verða 10 ár síðan ég kom þangað en það var einstakt. Ég hef reyndar ekki komið til Rómar en ég get varla ímyndað mér að sagan sé jafn áþreifanleg í öðrum borgum. Þegar ég var þarna var verið að byggja upp einskismannslandið milli múranna og stemmningin í austurhlutanum var mögnuð, gamlir Trabantar hálfgrafnir í bakgörðum og alveg magnað djamm. Fyrir þremur rættist gamall draumur að fara til New York. Við vorum ekki ósátt við þá reynslu. Það er í fyrsta lagi magnað að keyra í átt til borgarinnar og sjá háhýsin á Manhattan upplýst í myrkrinu. Það er líklega klisja en það er í rauninni eins og að vera í bíómynd að vera í þessari borg. Umferðarljósin og skiltin, lögregluþjónarnir og leigubílarnir gætu allir verið hluti af leikmynd. Og þar sem ég hef alltaf verið með skýjakljúfadellu er enginn staður betri. Við fórum aftur til New York fyrir um tæpum tveimur árum áleiðis til Buenos Aires. Það var alveg frábær upplifun að koma til BA en reyndar leist mér ekkert á blikuna þegar við keyrðum inn í borgina enda lítið sofinn og það lá e-r grá slikja yfir öllu. Hinns vegar rann smátt og smátt upp fyrir mér að ég væri kominn til S-Ameríku og það var satt að segja mikið ævintýri. Hápunktarnir voru án efa að heimsækja tangóklúbb þar sem fólk á öllu aldri og af öllum gerðum dansar tangó framundir morgun, ekkert show off heldur e-n veginn alveg ekta, og svo var ekki síðra fyrir fótboltadellumann að komast á landsleik milli Argentínu og Uruquay. Þessi upptalning er samt ekki búinn fyrr en minnst hefur verið á London. Ég kom fyrst til London fyrir tuttugu árum með foreldrum mínum og hef alltaf ég gaman af því. Það er svo rosaleg poppmenning þarna sem ég kann að meta, hvort sem um fótbolta, bíómyndir eða tónlist er að ræða. Svo er úrval veitingastaða endalaust en þetta vita svo sem flestir Íslendingar en kannski er munurinn á London og Köben að Íslendingarnir týnast í London en ekki í Köben.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.