30.4.2006 | 09:15
Í röð
Í Vesturbænum er starfrækt velþekkt ísbúð. Tengdafjölskyldan hefur mikið dálæti á ísnum sem þar fæst og er jafnan þekktur sem sá gamli og jafnvel sá kaldi. Eins furðulegt og það er. Ég er ekki jafnheillaður af þessum ís en get svo sem skóflað honum í mig þegar þannig liggur á mér. Stærsti gallinn við ísbúðina er hins vegar sá að þarna ræður ríkjum undarlegur maður, sem hélt því m.a. fram þegar hann rak Félagsheimilið á Seltjarnarnesi að Sykurmolarnir vildu helst ekki spila annars staðar. Í gærkvöldi fór ég í búðina til að kaupa ís með eldri dóttur minni og mætti þar röð út úr dyrum sem lengdist smátt og smátt. Hins vegar voru fáir inni í búðinni sjálfri enda hefur þessi venja skapast þrátt fyrir að hitastig geri ekki beinlínis ráð fyrir því á Íslandi. Líklega finnst fólki þetta skárra en að troðast inni í búðinni með pókersvip og vera stöðugt á varðbergi hvort e-r ætli að svindla sér fram fyrir mann. En það er lausn á þessu sem heitir númerakerfi og hefur verið notað við góðan orðstír í mörg ár víðs vegar í heiminum. Vissulega byltingarkennd hugmynd en ég ákvað samt að bera hana upp við þau hjónin þegar ég var að borga. Og ekki stóð á svari hjá kallinum. það er alltof mikil hætta á misnotkun. Nú hef ég heyrt um ýmis konar misnotkun en misnotkun á númerakerfi? Ég er hræddur um að meistarinn sé að spara.
Athugasemdir
Ég skil kallinn mjög vel. Einhverjir gætu stolið nokkrum númerum úr rúllunni, farið heim, sent númerin til Lettlands og látið falsa þau og þannig aukið líkurnar á því að röðin komi fyrr að þeim þegar þeir mæta næst á Hagamelinn. Það verður að hugsa málið til enda.
Sverrir (IP-tala skráð) 2.5.2006 kl. 16:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.