27.4.2006 | 15:59
HM, A-riðill
Nú er sólin farin að hækka verulega á lofti, úrslit ráðin í flestum deildum (nema vonandi á Ítalíu), einn súr úrslitaleikur eftir í Meistaradeildinni og því er full ástæða að fara að snúa sér að HM í sumar. Það er auðvitað von á veislu og ég er svo heppinn að vera á leið til Þýskalands að sjá 2 leiki með Spánverjum. Ég ætla aðeins að fara yfir liðin og möguleika þeirra eins og það horfir við mér. Það er best að taka þetta eftir riðlum en ég ætla ekki að gerast svo djarfur að spá fyrir um einstaka leiki heldur almennt hvernig ég tel að liðunum eigi eftir að vegna.
Fyrst er að fara yfir A riðilinn sem gæti verið sá lélegasti í keppninni:
Þýskaland: Þetta lið er algerlega óskrifað blað, þetta lítur ekki vel út en maður veit svo sem alveg að þeir gætu farið alla leið.Klinsmann á samt erfitt verkefni fyrir höndum, hann hefur verið mikið gagnrýndur heima fyrir og býr í Kaliforníu eins og fífl. Hann er reyndar ekki þessi dæmigerði agaði Þjóðverji, átti t.d. gamla VW Bjöllu og hefur að ég held aldrei verið með yfirvaraskegg, en sem leikmaður var hann á fullu allan tímann og verður að smita því til sinna manna. Hann er reyndar búinn að taka þá mjög svo mikilvægu ákvörðun að hafa Lehmann í markinu og það gæti verið sterkur leikur. Lehmann er einfaldlega í miklu betra formi en Kahn en þeir eiga að hins vegar sameiginlegt að vera hrikalega leiðinlegir. Þá bíður Ballack mikil ábyrgð að reyna að koma ungu leikmönnunum í gang en miðað við frammistöðuna á HM 2002, þar sem hann kom þeim í úrslitin en missti af þeim leik vegna banns, er hann fær um að standa undir þessu. Hvað hefði gerst ef hann hefði verið með veit enginn. Nái Podolski og Klose að skora e-ð og verði Ballack í stuði hallast ég að því að þeir fari í undanúrslit.
Costa Rica: Árið 1990 mætti Costa Rica með lið á HM sem var skipað áhugamönnum en komst samt upp úr sínum riðli meðan Svíar og Skota sátu eftir með sárt ennið. Duttu svo út fyrir hinum fagra Tomas Skuravy og félögum í Tékkóslóvakíu í 16 liða úrslitum. Ég man að það þótti voða fyndið að markvörðurinn eða e-r annar var hárgreiðslumaður. Þeir komust aftur á HM 2002 og voru í riðli með Brössum og Tyrkjum en féllu út á markamun. Veit samt ósköp lítið um að þetta lið, Wanchope er en aðalmaðurinn og þrátt fyrir að vera alger flækjufótur er hann til alls líklegur. Ég er samt ekki mjög bjartsýnn fyrir þeirra hönd en það er örlítill séns að þeira fari áfram en ekki lengra en í 16 liða.
Pólland: Síðan hætt var að sýna þýska boltann á RÚV veit maður ekkert um þessar austantjaldsþjóðir. Ég man að minnta kosti ekki eftir mörgum Pólverjum á Spáni, Englandi og Ítalíu. Pólverjar hafa hins vegar góða reynslu af því að spila í Þýskalandi á stórmóti og verða að teljast líklegir að komast áfram en annars sé ég þá ekki fara mikið lengra en það. Satt að segja þá er þetta eitt af þeim liðum sem mér gæti ekki verið meira sama um nema þeir spili við Englendinga þá vona ég að þeir vinni.
Ecuador: Voru með á síðasta HM og eru komnir aftur. Ástæðuna má rekja til þess að þeir spila heimaleikina í höfuðborginni Quito sem liggur mjög hátt yfir sjávarmáli og taka flest stigin þar eins og Bólivía er fræg fyrir. Þetta leiddi til þess að þeir voru í 3. sæti í Suður Ameríku sem er frábær árangur en þeir munu væntanlega berjast aftur um 3. sætið í sumar við Costa Rica sem fleytir þeim ekki langt.
Það verða því Þjóðverjar og Pólverjar sem fara upp úr þessum riðli.
Athugasemdir
100% sammála - ekki bara held ég heldur vona ég heitt og innilega að það verði Deutchsland og Polski sem fari áfram. Hafði spáð því fyrir tveimur árum síðan að Kevin Kurányi og Milan Baros yrðu stjörnur EM 2004. Var glettilega nálægt með Baros en Þjóðverjarnir klúðruðu öllu sem hægt var að klúðra. Það gerist ekki aftur. Eigum við ekki að segja að Kurányi verði góður og ég skal Þorgeir heita ef Þýskaland verður ekki meðal 4 efstu.
Kjarri (IP-tala skráð) 28.4.2006 kl. 22:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.