27.11.2006 | 13:26
Peter Sellers
Við Peter Sellers ólumst upp saman, hann í sjónvarpinu en ég fyrir framan það. Sérstaklega um helgar þegar Ríkissjónvarpið réð eitt ríkjum, var fátt meira spennandi en þegar mynd með Peter Sellers var á dagskrá. Um mig fer e-r notaleg tilfinning þegar ég hugsa til þess þegar laugardagur rann upp, rúllað var út í sjoppuna í Vörðufelli og aftur tilbaka með kók í gleri og hraun. Stundum lakkrísrör til að dýfa oní flöskuna. Þegar heim var komið var MASH fyrst á dagskrá og svo mynd kvöldsins, Bleiki pardusinn snýr aftur. Og það sem maður gat hlegið að þessu franska fífli. Mig minnir líka að snilldarmyndin Being there hafi verð fyrsta myndin sem sýnd var í Bíóhöllinni. Reyndar er e-ð undarlegt við það að hið actionóða bíóhúsakyn frá Keflavík skyldi hefja ferilinn í Reykjavík með slíkri gæðamynd. En það er önnur saga.
Það var ekki fyrr en seinna sem maður heyrði sögur af því að Sellers hafi verið snarbrenglaður kararkter, vondur við menn og málleysingja, einkum konur og börn sín. Það var erfitt að kyngja slíkum sögum sem virtust ekki vera í neinu samhengi við svona viðurstyggilega fyndinn og skemmtilegan mann. Ég kafaði þó aldrei djúpt ofan í þessar sögusagnir enda var mér nokkurn veginn sama um Peter Sellers á þeim tíma.
Það var hins vegar kærkomið hjá RÚV um helgina að sýna mynd um ævi Sellers. Myndin er bara nokkuð góð, haldið uppi af Geoffrey Rush sem sýnir ansi góða takta sem Sellers og talsvert betri en ég átti von á, því hlutverkið er enginn hægðarleikur. Í fyrsta lagi var Sellers afburðaleikari sem gat brugðið sér í allra kvikinda líki og í öðru lagi er hann með svo sterka ímynd í huga fólks. En þetta gekk ágætlega upp þó myndin vaði fullmikið úr einu í annað enda er reynt að gera ferlinum, sem var mjög viðburðarríkur, skil á tveimur tímum. En það sem kannski er merkilegast við myndina er að í henni fær maður staðfest þvílíkt ómenni kallinn var, sérstaklega gagnvart börnum sínum og eiginkonum, þó samskipti við aðra hafi ekki verið upp á marga fiska. Þegar hann lést rann megnið af eigum hans til þáverandi eiginkonu en sama dag stóð til að þurrka hana úr erfðaskránni. Til barna hans runnu 2000 dollarar.
Þetta breytir þó ekki þeirri staðreynd að Peter Sellers er án efa einn besti gamanleikari sem fram hefur komið. Ef ekki sá besti.
Athugasemdir
Hvenaer skyldi koma ad tvi ad gerd verdi episk stormynd um aevi og storf gamanleikarans Kjartans Bjargmundssonar? Eg myndi kaupa mida a hana, svo margar eru spurningarnar sem leita a mig tegar minnst er a tennan meistara komikurinnar, en lif hans hefur alla tid verid sveipad dulud og mystik. Hver var primadonnan i Lionsklubbnum Kidda? Var mikil spenna a tokustad "A Badkari til Betlehem"? Hvernig tokst Kjartani ad solsa undir sig hlutverk illmennisins i "Sporlaust"? Var ekki heitt inni i isbjarnarbuningnum? Hverjir voru hapunktarnir i tattoku hans i aramotaskaupinu? Oteljandi spurningar en engin svor...ennta.
Kjarri (IP-tala skráð) 29.11.2006 kl. 11:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.