Once in a lifetime

Mæli með því að þeir sem hafa áhuga á poppmenningu, fótbolta og New York lesi Once in a lifetime, sem fjallar um sögu New York Cosmos frá 1971-1985. Það er í rauninni ótrúlegt að lesa um fóboltalið í Bandaríkjunum sem var meira í fréttum en Yankees, Metz, Giants og Knicks og voru þar að auki mestu stuðboltarnir á djamminu. Kannski ekki skrýtið þar sem búið var að safna Pele, Beckenbauer, Carlos Alberto og Giorgio Chinaglia (sem er kannski ekki mjög þekktur í dag en var súperstjarna á Ítalíu og í Bandaríkjunum) saman í eitt lið.

Það segir kannski nokkuð um stemmninguna að áðurnefndur Chinaglia geymdi viskí, sígarettur og forláta silkislopp í skápnum sínum á vellinum auk þess sem kynlífshneyksli var daglegt brauð. 

Ekki fjarri lagi að ímynda sér Hugh Hefner reima á sig takkaskóna.

Líf Cosmos var hins vegar ekki alltaf dans á rósum, þvert á móti. Í byrjun spilaði liðið á lélegum grasvelli í e-u úthverfi New York. Þegar Pele kom til liðsins var fyrsti leikurinn hans á þessum velli og til að líta betur út í augum Brasilíumannsins var yfirborðið spreyjað með grænni málningu. Í hálfleik hélt Pele að hann væri kominn með alvarlega sýkingu þar sem lærin voru þakin grænum flekkjum. Tveimur árum síðar voru þeir hins vegar búnir að færa sig yfir á Giants stadium þangað sem að meðaltali mættu um 60.000 manns en hápunktinum var náð þegar tæplega 80.000 manns sáu lokaleik Pele 1977. Eftir þetta lá leiðin hægt og rólega niður á við þar til síminn var tekinn úr sambandi árið 1985. Í dag er óljóst hver á réttinn að félaginu.

Fjörið var að mestu fjármagnað með peningum Warner samsteypunnar, ekki síst þeim ofsagróða sem Atari skilaði með spilakössum og tölvuleikjum í kringum 1980. Betri verður retró stemmningin ekki.

pelengiorgio.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband