7.7.2008 | 20:49
Að utan
Það er dýrtíð Danmörku og Svíþjóð þessa dagana. Þetta eru svo sem ekki ný tíðindi og margir höfðu sagt mér frá því áður en ég fór út en samt kom það á óvart. Það er sennilega 30-40 % hækkun frá því fyrra á öllu vegna gengisfalls krónunnar. Það er bara helvíti mikið og hækkar sennilega heildarpakkann um 100.000 kall. Ég hefði gjarnan viljað nota þann kall í annað. Að öðru leyti er fríið búið að vera gott.
Hápunktar:
Astrid Lindgren garðurinn: Mæli með að allir foreldrar skelli sér með krakkana sína í þennan garð og taki krakkann í sjálfum sér með. Það er ekki leiðinlegt að koma loksins í Kirsuberjadal jafnvel þó þeir bræður virðist hafa verið dvergar miðað við stærð húsanna.
Sænskur matur: Svíar verða seint sakaðir um að vera gourmet matgæðingar en fyrir 34 ára gamlan mann sem flutti frá Svíþjóð fyrir 30 árum er meiriháttar að smakka Blodpudding með lingonsultu. Ekki var síðra að smakka sænskar kókosbollur sem kallaðar eru Delikatessen. Í öðrum löndum er allt sem orðið delicatessen er notað yfir e-ð sem inniheldur guðdómlegt bragð, konfekt úr hágæða súkkulaði, ostar sem hafa verið meðhöndlaðir í fjölda ára, afburða rauðvín eða unaðslegar kæfur úr alls kyns innyflum fugla. Í Svíaríki er delikatessen hins vegar haframjöl, smjör, kakó og sykur hnoðað saman í litlar kúlur og rúllað upp úr kókosmjöli. Hreinn unaður.
Spánn: Áður en ég fór út gerði ég mér grein fyrir að talsverðar líkur voru á því að ég myndi horfa á Spánverja vinna Þýskaland í húsi fullu af Þjóðverjum og bandamönnum þeirra. Það er óhætt að segja að spennan hafi verið rafmögnuð þegar leið á leikinn en ég vil þakka öllum sem sýndu mér andlegan stuðning með SMS sendingum. Það er hins vegar ljóst að spænska liðið var best á mótinu þrátt fyrir lipra takta annarra liða og tilfinningin þegar Casillas lyfti bikarnum var ólýsanleg blanda af létti, gleði og spennufalli. Ég vil líka að það komi fram að ég studdi Aragones í þvi að skilja Raúl eftir en hafði samt ekki trú á honum sem þjálfara. Fannst fáranlegt að skilja Guti þar sem hann hefði sennilega komið að góðum notum í Ítalíuleiknum. En þetta fór allt vel og það verður spennandi að fylgjast með liðinu í framtíðinni. Þeir geta náð öðrum titli en það verður erfitt.
Svo er brúðkaup á laugardaginn og eftir það liggur leiðin smátt og smátt heim.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.