Af tónleikum

Við Silla skelltum okkur í Fríkirkjuna í gær til að sjá Sufjan Stevens. Það er óþarfi að hafa mörg orð um það að mér fannst þessir tónleikar frábærir. Hápunkturinn var sennilega í lokin þegar hann tók Casimir Pulaski day á óðfinnanlegan hátt. Í heildina var lagavalið gott, sum lögin hafði ég reyndar ekki heyrt en mér leiddist aldrei. Af þessum lögum var ég hrifnastur af Majesty Snowbird sem var fyrsta lagið sem hann tók. Reyndar runnu á mig tvær grímur þegar hljómsveitin mætti í salinn með grímur og vængi. Aðeins of mikið "heyriði krakkar eigum við að vera ferlega flippuð og spila með vængi og grímur". En þegar tónlistin byrjaði að óma gleymdist þetta og Stevens átti salinn.

Annars er merkilegt rannsóknarefni fyrir mannfræðinga að kanna samsetningu á íslenskum tónleikagestum. Það mæta til að mynda alltaf þrjár tegundir af karlmönnum á alla tónleika sem maður sér.

Í fyrsta lagi er það fátæki bókmenntafræðineminn sem getur ekki fyrir sitt litla líf viðurkennt fyrir nokkrum manni á Sirkus að hann hafi ekki séð hina og þessa tónleika. Þess í stað þvælist hann á milli tónleikastaða eins og útspítt hundskinn, blankur, þunnur og illa lyktandi. Hárið er alltaf þakið ca. vikugömlu lýsi, klæðnaðurinn rónalegur en samt töff og síðast en ekki síst er annar handleggurinn þakinn Roskilde armböndum, sem menn taka e-a hluta ekki af sér fyrr en eftir læknisráð og lögræðissviptingu, þó hátíðin sé löngu búin.

Í öðru lagi er það thirtysomething gæinn sem er kominn með fjölskyldu og virðulegt starf hjá e-m banka eða ráðuneyti. Til að sýna umheiminum að hann sé ekki alveg búinn að missa kúlið mætir hann í snjáðum gallabuxum, bol sem stendur á Pogues are better than sex og flauelsjakka eða úlpu með loðkraga. Þeir hörðurstu draga svo fram klúta frá háskólaárunum og ef maður er sérstaklega róttækur vefur maður Palestínuklút um hálsinn. Sem reyndar staðfestir að maður ber ekkert skynbragð á kúlið. Þessi gæi situr svo og ruggar höfðinu fram og tilbaka, milli þess sem hann lítur einbeittur í kringum sig og hugsar: "Ég er pottþétt með besta tónlistasmekkinn hérna inni, þessir krakkar voru enn með bleyju þegar ég var hlusta á Violent Femmes og The Fall".

Í þriðja lagi er það gaurinn sem er í Tónlistarskólanum og veit mikið um tónfræði og fylgist vel með. Getur hins vegar ekki undir neinum kringumstæðum talist hip, töff eða kúl því hann gæti verið einn af aðalleikurunum í Revenge of the Nerds. Hann er hins vegar alltaf snyrtilegur, vel girtur en yfirleitt annað hvort burstklipptur eða með þrifalegt sítt að aftan hár. Tónlistargáfu hans eru hins vegar engin takmörk sett og þegar flytjandinn byrjar lag sem fáir átta sig á í fyrstu hvað er, er hann fljótur til og svipurinn, sem er sambland af ánægju, undrun og aðdáun, segir: "Ég trúi því ekki að hann ætli að taka þetta í c-moll!!!"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

og þú tilheyrir.....?

Laulau (IP-tala skráð) 19.11.2006 kl. 20:02

2 identicon

... og fjórði hópurinn sem þú tilheyrir væntanlega eru þeir sem eiga vini sem vita ekki hver Sufjan Stevens er og eru búnir að fjárfesta í jeppa...
U

unnur (IP-tala skráð) 20.11.2006 kl. 08:54

3 identicon

tilheyrir hann ekki bara hópi númer 2.................?????

Ása (IP-tala skráð) 20.11.2006 kl. 12:23

4 identicon

Eiki er pottþétt hópur 2!!! Síðan á hann systur sem hefur aldrei heyrt um þessa hljómsveit.

Kristín (IP-tala skráð) 20.11.2006 kl. 13:14

5 identicon

Eiríkur! Farðu nú að setja upp Palestínuklútinn, við skulum ekki stríða þér enda kristilega þenkjandi eins og mér skilst að hann Sufjan sé!

Unnur (IP-tala skráð) 20.11.2006 kl. 19:42

6 identicon

Það er kominn einhver rauðhærður lítill drengur með engar hendur efst á síðuna.

Kjarri (IP-tala skráð) 20.11.2006 kl. 23:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband