17.6.2008 | 01:24
EM so far
Sviss: Svisslendingar voru einstaklega óheppnir og áttu sennilega að fá amk fjórum stigum meira en þeir uppskáru. Þjálfari þeirra Kobi Kuhn hefði hins vegar steinlegið í hlutverki Jack Lemmon í svissneski endurgerð af hinni leiðinlegu mynd Dad, sem myndi þá væntanlega heita Vater.
Tékkland: Tékkar mættu með þokkalegt lið á EM en það er aðeins farið að slá í gömlu kempurnar og nýju mennirnir virðast ekki vera í sama klassa. Verð að vera sammála þeim að sem vorkenna Cech örlítið fyrir mistökin. Hann er í ömurlegu liði á Engladi en það er e-ð álkulegt og saklaust við hann. Ekki bætir höfuðfatið úr skák sem minnir á fuglinn í teiknimyndinni The Rescuers.
Tyrkland: Það heldur enginn með Tyrkjum nema þeir sem fylgjast bara með HM og halda að það sé sniðugt að halda með exótískri Evrópuþjóð. Og að sjálfsögðu þeir sem eru enn að hlægja inni í sér þegar þeir heyra Halim heim brandarann. Ekki bætir hinn tyrkneski Gaui Þórðar neinu við aðdáun á þessu liði en ég verð að viðukenna að ég hef lengi verið veikur fyrir Nihat. Frammistaða hans gegn Tékkum staðfesti þetta.
Portúgal: Það er ekki hægt að dæma Portúgalina enn þá. Tveir sigrar á tiltölulega slöppum liðum segir ekkert um þá. Þeir virðast reyndar vera með eitt af fáum miðvarðarpörum í keppninni sem virka sannfærandi og miðjan er að mestu í lagi og svo er Ronaldo að sjálfsögðu skæður. Þeir spila hins vegar bara með einn framherja, sem má muna sinn fífil fegurri en það er e-ð sem segir mér að það verði klókindi þjálfarans þeirra frekar en knattspyrnuleg geta liðsins sem ræður öllu með framhaldið. Það verður e-r óþverri.
Austurríki: Komust skammlaust frá mótinu og náðu þriðja sætinu í sínum riðli. Áttu sennilega, eins og Svisslendingar, að ná amk þremur stigum í viðbót en líklega vantaði e-ð upp á knattspyrnulega getu til að klára leikina frekar en að óheppni hafi verið að spila rullu. Eini maðurinn sem má skammast sín er Toni Polster sem lagði til að hafin yrði undirskriftasöfnun þar sem skorað yrði á liðið að draga sig úr keppni.
Pólland: Gamli Real þjálfarinn Leo Beenhakker reið ekki feitum hesti frá mótinu og var í raun heppinn að ná í stig. Það er e-ð sorglega leiðinlegt við Pólverja á stórmótum og þetta var engin undantekning. Maður verður að vera helviti fullur til að elska Pólland.
Króatía: Hæp mótsins hingað til. Voru heppnir að vinna Austurríki í fyrsta leik, tóku andlausa Þjóðverja í öðrum leik og svo slappt pólskt lið í lokin. Samt eru margir sem halda ekki vatni yfir þeim. Það má vel vera að þeir sýni e-ð í framhaldinu en ég held að krafturinn í Tyrkjunum gæti gert þeim erfitt fyrir.
Þýskaland: Ég skildi það ekki fyrir mót og skil það ekki enn af hverju margir eru vissir um að Þjóðverjar vinni mótið. Aðalmarkaskorarinn komst ekki í liðið hjá Bayern, framherjarnir hafa engan veginn náð sér á strik og vörnin er ekki sú traustasta. En þeir eru óútreiknanlegir.
Frakkland: Ég þykist viss um að Spánverjarnir voni að Frakkar komist ekki áfram á morgun. Ef svo verður mun leikurinn frá HM 2006 endurtaka sig og Spánverjar verða á leið heim í fyrsta útslætti. Þetta er hins vegar ekki öflugt lið en þeir eru þó skárri en markatalan í Hollands leiknum segir til um.
Ítalía: Annað lið sem enginn vill fá í útslætti. Ítalir byrja alltaf illa í stórmótum en taka svo Billy Ocean þegar harðnar á dalnum. Þeir eru samt greinilega með slakari vörn en nokkru sinni fyrr og Buffon verður að vera með hanskana vel útspýtta ef ekki á illa að fara.
Rúmenía: Það bókar enginn sigur gegn Rúmenum en þetta er ekki beinlínis heillandi lið. Samanburður við 1994 liðið er ekki hagstæður að mínu mati en þeir þekkja Hollendinga vel og hafa tak á þeim. Ég vil samt fá þá í átta liða frekar en Ítalíu eða Frakkland.
Holland: Án efa lið keppninar hingað til. Það er snilld að sjá hvað Basten tekur virkan þátt í leiknum og það er rétt sem sagt hefur verið að hann hafi breyst úr hrokafullum leikmanni í heillandi þjálfara. Tek þó fram að ég er mikil Basten maður og tel hann sennilega einn af tíu bestum leikmönnum allra tíma. Þá er ekki síður ánægjulegt að sjá Real mennina blómstra. Hins vegar hafa fá lið farið í gegnum alla leikina með látum en það verður e-ð mikið að gerast ef þeir fara ekki amk í undanúrslit.
Spánn: Mínir menn hafa ekki verið sannfærandi en fyrsti leikurinn gegn Rússum var nokkuð góður og á köflum var Svía leikurinn allt í lagi. Það má hins vegar ekki gleymast að Svíar eru með hörkulið sem erfitt er að brjóta á bak aftur. Mestar áhyggjur hef ég af Ramos sem hefur verið í miklu uppáhaldi á þessum bæ en hann hefur verið áttavilltur og sennilega einn slappasti varnarmaður mótsins hingað til. Hef samt trú á það lagist. Þeir þurfa þó að bæta leik sinn töluvert ef ekki á illa að fara. Ef Aragones nær að berja í þá krafti eiga þeir möguleika en sennilega á hann nóg með að ná á klósettið.
Svíþjóð: Svíarnir eru með gott skipulag og góða sóknarmenn. Það verður hins vegar spennandi að sjá hvað þeir gera gegn Rússum. Það verður háspenna/lífshætta á Álfhólsvegi 79c þegar þeir mæta sonum Raspútins.
Rússland: Þetta er fínt lið sem ég ætla að spá áfram. Ashavin kemur inn og töfrar fram stoðsendingu sem sendir Svíana heim.
Grikkland: Yfirlýstir stuðningsmenn Grikkja eru tveir þéttvaxnir, krullhærðir besserwisserar. Það segir eiginlega allt um þetta leiðinlega lið.
Athugasemdir
Frábær greining og það er rétt, menn þurfa að vera ansi fullir til að elska Pólland.
Örn Úlfar Sævarsson (IP-tala skráð) 17.6.2008 kl. 14:45
Ekki slæmt að fá Rússana áfram og þá í leik við Hollendinga í átta liða úrslitum, svona af því að menn tala mikið um Basten og ´88.
Svíar hafa reyndar tak á Rússum á stórmótum og ég held að Arshavin sé nú ekki að fara að breyta miklu í þetta skiptið. Vona þó að hann verði sprækari í kvöld en venjulega þegar mikið er undir hjá Rússum, svona til að svekkja ekki Jón og fleiri fótboltafagurkera með enn einu austantjaldshype-inu.
Sævar Már Sævarsson, 18.6.2008 kl. 14:24
Everybody is hapskí, da!! Rússkí karamba sálguðu Svíagrýlunum og er það vel.
En Eiki; þýsk endurgerð á Dad hlýtur að heita "Vati", en ekki Vater.
Jón Agnar Ólason, 18.6.2008 kl. 22:09
Ég samgleðst Sævari með árangur Rússanna. Þeir voru frábærir í gær en þeir þurfa að fara miklu miklu betur með færin til að eiga einhvern séns á móti Hollandi.
Örn Úlfar Sævarsson (IP-tala skráð) 19.6.2008 kl. 10:34
Svíinn Fredrik Stoor tók 14 innköst í leiknum og var nýtingin 71%. Gaman að segja frá því.
Takk Öss, ég hef engar áhyggjur af því að Rússar vinni Hollendinga en gæti orðið helv... skemmtilegur leikur.
Sævar Már Sævarsson, 19.6.2008 kl. 10:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.