17.5.2008 | 22:40
Tónlistarlegt sjálfsmorð
Það eru til frábær lög og það eru til ömurlega leiðinleg lög. Og svo allt þar á milli. Að lokum eru til lög sem eru frábær en listamanninum eða hljómsveitinni tekst e-n veginn að klúðra laginu svo illa að maður fær óbragð í munninn og pirring í kjálkana við hverja hlustun. Ég ætla ekki að setja upp endanlegan lista yfir þessi lög en gef þess í stað dæmi og vil gjarnan að lesendur bæti öðrum við.
Í fyrsta lagi er það Rapture með Blondie. Blondie var að sjálfsögðu frábær sveit á sínum tíma og eftir hana liggja mörg klassísk lög. Ég man þegar ég heyrði Rapture fyrst hugsaði ég með mér hvaða glæsilega gotneska nýbylgjudiskó þetta væri eiginlega, með dómsdagsbjöllum, túmat og sinnepi. Frábær laglína og hæfilegur drungi framan af eða allt þar til ungfrú Debbie Harry fer að rappa!!! Þetta skelfilega ættarmótsrapp rústar gjörsamlega laginu og minni geðheilsu í leiðinni.
http://www.youtube.com/watch?v=xHPikUPlRD8
Í öðru lagi er það alþekkt dæmi sem flestir íslenskir tónlistaráhugamenn kannast við. Ég er að sjálfsögðu að tala um óþolandi innkomu Einars Arnar Benediktssonar í Planet með Sykurmolunum. Þetta er án efa besta lagið þeirra ásamt Walkabout, með magnaðri gítarlínu. Maður er næstum kominn í draumatrans þegar Einar leggur munninn upp að eyranum á manni og æpir: EVERY MAN, EVERY WOMAN!! Og maður hrekkur upp í svitakófi og reynir að átta sig á hvað breytti draumnum í martröð. Og fattar að lokum að það var Einar sykurmoli enn eina ferðina að láta ljós sitt skína. Lagið er komið í spilarann til hliðar.
Í þriðja lagi er það With a little help from my friends með Bítlunum. Flott lag af frábærri plötu en hvers vegna í ósköpunum var Ringo fenginn til að syngja. Hann sleppur kannski í Yellow Submarine en þessi nefmælta, laglitla trommuvera átti að öðru leyti lítið erindi að hljóðnemanum. Kannski er best að snúa þessu við og segja: Hvað ef Ringo hefði fengið að syngja Strawberry Fields, Penny Lane eða I am the Walrus? Eða Eleanor Rigby?
Í fjórða lagi er lag sem alltaf er verið að spila á Rás 2 og heitir No festa eða e-ð svipað með Super mambo djambo held ég. Þetta er að sjálfsögðu engin tímalaus snilld, bara létt Afríku mambósalsa flutt af fólki sem kann að flytja og dilla sér við svona tónlist. Kemur þá ekki Egill Ólafsson fram með e-a óþolandi leiðinlega predikun um hreina og beina hugsun. Maður sér hann fyrir sér sveittann og graðann upp í sviði í strápilsi og fráhnepptri skyrtu, með þennan dæmigerða einbeitta Egils svip. Landkönnuðir koma víða við og Egill er þar engin undantekning.
Athugasemdir
Egill Ólafs er alltaf graður, rétt eins og maðurinn er alltaf einn! Hann vaknar graður og hann fer að sofa graður. Það er ein af staðreyndum tilverunnar, hvort sem lög eru léleg eða ekki. Einsi er hins vegar ómissandi tannhjól í þá maskínu sem er Sykurmolarnir.
Kveðja
Boris Jeltsin
Þórirrrrr eehhhh (IP-tala skráð) 18.5.2008 kl. 03:41
Í þriðja lagi - var Ringo ekki fenginn að því hann var mest sannfærandi í rullunni? Hann hljómaði alltaf hálf hjálparþurfi þegar hann söng, blessaður anginn ...
Jón Agnar Ólason, 20.5.2008 kl. 00:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.