1.11.2006 | 22:47
Dublin
Um daginn var ég að velta vöngum yfir því hvað Íslendingum virðist vera lagið að gera hluti plebbalega. Dublin virðist vera eitt fórnarlamb þessarar séríslensku lagni. Ég stakk eitt sinn upp á því í vinnunni að farið yrði þangað í árshátiðarferð en við það byrjaði einn að fussa og sveia. Sagðist allt eins geta farið upp á Akranes á árshátíð. Mér þótti leitt að heyra þessa afstöðu enda hefur mig lengi langað til Írlands og ekki síst Dublin. Skýringa á þessari ímynd er þó ekki langt að leita enda hefur verið mynduð saumklúbbaloftbrú milli Íslands og Írlands á vorin og haustin í meira en áratug.
Nú grunar mig að íbúum Dublin þætti ekki sannfærandi að Reykvíkingar líktu borginni þeirra við Akranes. Það er nefnilega þannig að í bókinni The book of cities, sem gefin er út af Lonely Planet ferðabókarisanum, nær Dublin inn á Topp 30. Er það byggt á sérþekkingu starfsmanna LP en einnig voru ferðalangar beðnir um að senda inn sínar tillögur. Ekki þarf að fjölyrða um það að margar stórborgir sitja neðar á listanum og er þar helst að nefna allar borgir á Norðurlöndum, Chicago, New Orleans, Los Angeles, Toronto, Mexíkóborg, Skt. Pétursborg, Peking, Shanghæ, Kaíró, Aþena, Vín, Madrid o.s.frv. Nú ætla ég ekki að falla í þá gryfju að telja þennan lista óskeikulan og tæmandi. Hann er hins vegar vísbending um að e.t.v. bjóði Dublin upp á meira en fullar kellingar frá Hellissandi með bjórflösku í annarri og Top Shop poka í hinni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.