20.4.2008 | 02:51
Myndbandaleiga kvikmyndahúsanna
Fyrir a.m.k. 20-25 árum var myndbandaleiga kvikmyndahúsanna flottasta leigan í bænum. Á venjulegum sjoppuleigum fékkst bara Lets get laid með Robin Askwith og Private lessons með Silviu Kristel úr Emanuelle, en um leið og maður gekk inn í kvikmyndahúsaleiguna fann maður klassíkina liggja í loftinu. Raging Bull, Guðfaðirinn og Lawrence of Arabia voru sennilega allar þarna ásamt öðrum meistarastykkjum kvikmyndasögunnar, pakkaðar inn í hulstur sem voru skreytt með filmulengju. Það fór ekki á milli mála að þetta var ekki hver önnur pulsuleiga.
Þetta hvarflaði að mér eftir að ég fór í Bónusvideó vestur í bæ í kvöld. Ég hef alltaf verið á þeirri skoðun að í gamla Vesturbænum byggju mestu menningarvitar þjóðarinnar. Fólk með einstakan smekk á ljoðum, heimsbókmenntum, rauðvíni og myndlist. Og ekki síst kvikmyndum. Þessi skoðun mín fær hins vegar ekki staðist lengur miðað við þær drasl leigur sem ráða ríkjum á þessum slóðum. Skýringin gæti reyndar verið sú að menningarelítan leigi einfaldlega ekki vídeó heldur sitji með rauðvínsglas í Le Corbusier stólnum sínum og fletti Ulysses eftir James Joyce en gjói ekki augunum að sjónvarpinu nema sýnd sé Tarkovsky mynd á sunnudagskvöldi.
Þetta er hins vegar mjög ósennilegt því það fara allir út á leigu e-n tímann nema kannski Sigurður A. Magnússon og Gunnar Dal. Það er alltaf e-r sem missti af nýjustu Almodóvar myndinni í bíó, hefur heyrt vel af Little Miss Sunshine látið eða bara til að leigja aðra seríu af Friends.
Og þá væri gott að vera með góða leigu í nágrenninu. En því miður er það svo að á öllu svæðinu frá Klapparstíg og alla leið vestur að Gróttuvita er ekki að finna eina einustu þokkalega leigu. Snælandsvídeó við Ægisíðu er vondur samtíningur úr spilakassasal, kjörbúð, pulsusölu og neðanjarðarklósettinu í Bankastræti 0 með enn verra myndaúrvali, leigan við Dunhaga er að ég held dauð og grafin, Gerpla við Hofsvallagötu er eins og e-r hafi ákveðið að opna leigu í neðanjarðarklósettinu í Bankastræti 0 og svo er það Bónusvídeó við Ánanaust. Það var í rauninni eina leigan sem hægt var að skipta við áður fyrr, þ.e.a.s. allt þar til í kvöld. Ástæðan fyrir því er einföld því áður takmarkað úrval hefur að því er virðist verið skorið enn meira niður og staðnum breytt í e-s konar sjálfsafgreiðslustöð fyrir myndbandaleigjendur.
Og úrvalið? Til að taka stutt dæmi þá smellti ég á flokkinn Klassík á tölvuskjánum og þá komu upp fjórar myndir. Guðfaðirinn, 2001, Casablanca og Rocky spyrja sig eflaust margir?! Nei ekki alveg en nærri lagi þó. Myndirnar sem spekúlantar Bónusvídeó hafa valið sem þær klassískustu í safni sínu eru (hér vil ég að þú lesandi góður ímyndir þér svona spennutrommuslátt):
Charlie and the Chocolate Factory með Johnny Depp
Pirates of the Caribean með Johnny Depp
Jerry McGuire með Tom Cruise
og síðast en ekki síst...
Arthur með Dudley Moore!!!
Hvað getur verið klassískara í kvikmyndasögunni en lítill kall með asnalegt hár, flissandi blindfullur í baði.
Ég hef bara einu við þetta að bæta: Lengi lifi Laugarásvideó við Dalbraut.
Athugasemdir
Það er helvítis "frelsið" sem gerir þetta!
Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 20.4.2008 kl. 03:02
Fjölskyldan á Vesturgötu 20 grenjaði úr hlátri yfir þessari færslu!
Lára (IP-tala skráð) 20.4.2008 kl. 22:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.