27.10.2006 | 16:23
Óskastundin
Þegar ég startaði bílnum í morgun voru fréttir. Að þeim loknum kom í ljós að ég var að hlusta á Rás 1 og Gerður G. Bjarklind var að fara af stað með þátt sinn Óskastundina. Þessi þáttur er nokkurs konar Síðasti móhíkaninn í íslensku útvarpsumhverfi. Eldra fólk hringir inn og sendir kveðju til vina og vandamanna sem eru annað hvort á hjúkrunarheimili eða eiga stórafmæli. Ég náði einni góðri kveðju frá manni sem sendi konu á Heilsuhælinu í Hveragerði lagið Smalastúlkan. Texti lagsins var auðvitað á þá leið að unga stúlkan væri björt yfirlitum í fjallasal. Ég fór að spá í hvernig þetta verður þegar maður verður sjálfur kominn inn á stofnun. Krakkarnir sem hafa umsjón með Útvarpi Samfés stjórna óskalagakveðjuþættinum Perlum, komin með jólakveðjurödd í samræmi við áratugastarf á Gufunni. "Sigurlaug Stefánsdóttir sendir eiginmanni sínum Eiríki Gunnsteinssyni, Hjúkrunarheimilinu Grund, bestu kveðjur með laginu I want you með Mugison". Síðan endar kveðjan á orðunum: "Og mundu, Eiríkur minn, að nú fer hver að verða síðastur að vera hip og kúl."
Athugasemdir
Ha,ha,ha, gott og skemmtilegt ímyndunarafl!
Laulau (IP-tala skráð) 29.10.2006 kl. 19:30
þú ert ágætur.
-þórunn
þórunn (IP-tala skráð) 29.10.2006 kl. 21:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.