Fótboltatreyjur

Ef þú hefur ekki áhuga á fótboltatreyjum er þessi færssla ekki fyrir þig.

Fótboltapeysur eru furðulegt fyrirbæri. Sama hvað maður verður gamall þá er maður alltaf til í að bæta í safnið. Liðið sem maður styður kemur með nýja peysu á hverju ári og það eina sem heldur aftur af manni er Visa reikningurinn og heimilisbókhaldið. Svo lætur maður eftir sér að kaupa eina og eina og þær lenda flestar inn í skáp og eru bara dregnar fram í vikulegum innanhúsbolta. Og þar eru flestir í sínum treyjum, menn af öllum stærðum og gerðum. Eflaust finnst mörgum þetta barnalegt en fyrir mér er þetta órjúfanleg tenging við strákinn í sálinni. Maður er nú einu sinni búinn að vera með þessu dellu frá sex eða sjö ára aldri og man svo sannarlega eftir Henson eftirlíkingunum af Man Utd treyjum og Stuttgart og öllum þessum liðum. Svo fór maður að fara oftar til útlanda og gat keypt sér ekta treyjur sem því miður passa ekki alveg í dag.

Nokkrar treyjur standa samt upp úr m.a. vegna nostalgíu og stíls. T.d. Liverpool peysan að neðan. Þegar ég var smár var Liverpool með lang besta liðið og ég hélt með Man Utd. sem stóð þeim nokkuð langt að baki. Ég hataði þetta Liverpool lið en þegar litið er tilbaka hríslast um mann Shoot og Match nostalgían þegar maður sér þessa peysu. Hins vegar hef ég aldrei átt svona treyju en tælenskar eftirlíkingar fást á ebay fyrir þá sem vilja.

 LIVERPOOL 1979 UMBRO SHIRT SIZE MEDIUM

Ég hélt með Man Utd á þessum tíma eins og margir aðrir og Bryan Robson var í miklu uppáhaldi. á þessum tíma spiluðu þeir í Adidas búningum með Sharp auglýsingu og ég átti svona peysu frá Henson en aldrei neina Adidas ef ég man rétt. En það er mikil Shoot nostalgía í þessari peysu. Svona peysur kosta reyndar "an arm and a leg" þegar þær bjóðast á ebay. Hins vegar stendur eiginlega upp úr í minningunni þegar við vinirnir vorum að þykjast vera Robson, Stapleton eða Mike Duxbury. Þá var það grátbroslegt þegar Sævar vinur minn fékk Liverpool treyju og tösku í jólagjöf þrátt fyrir að vera United maður.

MAN UTD 1982 ROBSON PLAYER SHIRT No.7

Platini var næstur á eftir Robson og ég átti tvær franskar landliðspeysur sem ég keypti í London 1986. Þessi er frá EM 1984 og var fyrirmyndin að HM 1998 peysunni. Mér finnst reyndar þessi flottari enda held ég ekki lengur með Frökkum, en einum vini mínum finnst nýrri peysan örugglega betri enda var hún límd við hann í nokkur ár. Ég á reyndar enn svona peysu en því miður gerði ég aulalega tilraun til þess fyrir mörgum árum að breytta henni í stutterma.

FRANCE 1984 PLAYER SHIRT No.19

Eins og fleiri hélt ég með Stuttgart þegar Ásgeir Sigurvinsson var þar. Þessi treyja er síðan 1984 þegar þeir urðu meistarar. Af því tilefni splæsti Henson sjálfur í eftirlíkingu af treyjunni og ég fékk þannig í jóla-eða afmælisgjöf. Hann tímdi reyndar ekki að hafa skyrtukraga á henni og það voru engar rendur á ermunum en mér líkaði þessi treyja engu að síður vel. Ég er jafnvel að hugsa um að bragða á Dinkel Acker öli þegar ég fer á HM í Stuttgart í sumar.

Að neðan er einn vinsælasti Real spilari allra tíma, Juanito, sem var e-s konar Roy Keane þeirra Madridinga. Treyjan sem hann er í frá 1984 og vel þröng yfir kassann. Ég fékk eftirlíkingu af svona treyju fyrir nokkru enda er þetta klassísk eighties adidas treyja með Zanussi sem eru heimilistæki af bestu gerð.

Árið 1986 hætti Real að spila í Adidas og við tók Hummel sem entist í heil 9 ár. Treyjan á myndinni er í sérstöku uppáhaldi því karl faðir minn kom með svona peysu frá London 1987. Sigurganga liðsins fyrstu fimm árin í Hummel var mögnuð og ég tengi þetta alltaf við Butrageno, Michel, Sanchez, Gallego, Gordillo og co. Ég verð samt að viðurkenna að mér fannst alltaf dálítið skrýtið að Real væri að spila í búningum frá Hummel en málið var að fyrrverandi leikmaður þeirra að nafni Jansen vann fyrir Hummel og náði þessum samningi.

Talandi um Hummel þá hefur danska dýnamítið alltaf verið í Hummel þangað til þeir skiptu yfir í Adidas fyrir stuttu. Ákveðin skandall en kannski var þetta orðið aðeins of ódyrt þegar HK er komið í Hummel. Búningurinn að neðan er eins og margir muna frá 1986 en ég átti svona treyju en veit því miður ekkert hvar hún er. Grunar þó að hún hafi lent í e-i söfnun. Það er e-r norrænn Polarn og Pyret fílingur í þessari, mjóar rendur og hlýir litir.

Eins og áður sagði var Platini í uppáhaldi og juve líka þar til ég sá ljósið 1987. Þetta er hins vegar klassísk treyja, mjög gamaldags Kappa treyja með Ariston auglýsingu. Á þessum  tíma voru stuttbuxur yfirleitt mjög þröngar en ekki á Ítalíu. Þar voru frekar síðar stuttbuxur og aðskornar treyjur. Ég á enn svona treyju sem ég fékk 1987 en það er ekki nóg með að treyjan sé orðin of lítil heldur er sniðið þannig að það þyrfti að klippa hana utan af mér ef mér tækist að troða mér í hana.

Að neðan er alger klassík, Adidas Milan treyja með Mediolanum auglýsingu. Bullandi nostalgía! Einn sem ég þekki úr Kópavogi og lagadeildinni fékk víst svona treyju gefins sem Costacurta hafði spilað í þegar hann var skiptinemi á Ítalíu. Ég var að íhuga að kaupa hana af honum á 15.000 í den en úr þvi varð þó aldrei. Hins vegar keypti ég adidas eftirlíkingu í Spörtu um svipað en því miður gleymdist hún í búningsklefa e-s staðar að ég held. Því miður.

Þegar ég gifti mig 2004 fékk ég svona Spánar 1982 treyju frá eiginkonu minni. Þetta er klassíkt adidas snið og ég geri ekki ráð fyrir öðru en að ég klæðist henni þegar ég sé Spánverjanna á HM í sumar. Vonandi lendi ég ekki í trylltum Úkraínu lýð fyrir vikið.

SPAIN 1983 MATCH WORN SHIRT

Fyrst ég er kominn til Spánar 82 verður þessi að fylgja með þó ekki sé nema fyrir nostalgíuna. Ég hef aldrei haldið með Englandi en þessi treyja er svo dásamlega hallærisleg að maður getur ekki annað en hrifist með. Þessi flotaforingja stemmning á herðunum og svo er treyjan framleidd af Admiral til að toppa það.  Þegar þeir duttu út sagði Ray Wilkins að það væri svartur dagur fyrir knattspyrnuna að England og Brasilía hafi dottið út. Þetta segir allt sem segja þarf um ofmat Englendinga á sjálfum sér sem virðist aldrei ætla að enda.

ENGLAND 1982 YOUTH MATCH SHIRT

Þegar ég var að taka til hjá mér um daginn fann ég hina rómuðu á ævisögu Glenn Hoddle, Leiðin á toppinn. Ég kíkti í hana og mundi þá eftir þessum klassíska Tottenham búningi. Þetta var á því undarlega tímabili þegar Tottenham og Aston Villa voru í fremstu röð og ég held að það sé hægt að fá svipaða treyju hjá Jóa Útherja. Aston Villa spilaði hins vegar nokkrum árum seinna í Henson búningum þannig að íslenska útrásin hófst með stórkostlegu framtaki Halldórs Einarssonar.

SPURS 1981 PLAYER SHIRT

Boltapeysuumfjöllun verður aldrei neitt án Ajax. Það er e-ð öðruvísi og flottara við Ajax búningana en flesta aðra. Þessi er frá Basten tímabilinu, Kappa með TDK auglýsingu. Ég hef hins vegar aldrei átt almennilega Ajax treyju enda hafa tilfinningar mínar til liðsins verið blendnar síðan þeir sungu "Milan? Who the fuck is Milan?" eftir úrslitaleikinn 1995.

AJAX 1988 KAPPA TDK SHIRT

Ég hef aldrei haldið með barcelona en þessi treyja er alger klassík og ég væri örugglega búinn að kaupa hana á 100 pund á ebay ef ég væri barca maður. Þeir spiluðu í svona treyju nær óbreyttri í 10 ár og þess vegna er þetta einfaldlega Barcelona eins og maður þekkir það. Það er auðvitað engin auglýsing en framleiðandinn var Meyba sem fáir þekkja.

Ég hef heldur aldrei verið Bayern maður en þetta er líka klassík. Það er alltaf gaman þegar auglýsingarnar eru orðnar úreltar, Commodore var auðvitað kóngurinn í leikjatölvum ca. 1987 en ég hef ekki hugmynd um stöðu þess í dag. Hræddur um að e-r myndi hlægja ef maður segðist hafa keypt sér Commodore fartölvu. Þessi treyja minnir líka á baráttu Real við Bayern og svo fá Bæjarar plús í kladdann fyrir að hafa spilað í Meistaradeildinni 2001 í svipuðum treyjum.

Tvær frá Buenos Aires. River Plate og Boca Jrs. Erkifjendur. River treyjan er frá 1986 sem er klassík á þeim bæ þegar þeir urðu heimsmeistarar. Það er e-ð mjög flott við þessa skárönd því þetta er Suður-Ameríku-legt og tengir mann við herforingja eða e-ð álika. Boca treyjan er frá 1981 þegar Maradona spilaði með þeim í fyrra skiptið. Menn hljóta að muna eftir samantektinni með honum sem Bjarni Fel sýndi í gamla daga og argentíski þulurinn gólaði "golgolgolgolgolgolgolgolgolgolgolgoooooooooldemaradona" yfir.

Þetta er snilldartreyja. Flamengo frá Brasílíu sem sjálfur Zico spilaði með. Treyjan er flott og svo fíla ég hvað Adidas merkið er klunnalegt og í raun Flamengo merkið líka. Mér skilst að þetta sé vinsæalasta liðið í Brasilíu og þeir fá mitt atkvæði fyrir þessa treyju þó ég hafi reyndar aldrei séð þá spila. Væri reyndar til í að sjá leikinn frá 1981 þegar þeir rúlluðu Liverpool upp í Tókýó.

 Ég verð líka að setja eina úr frönski deildinni. Þetta er St. Etienne treyja ca. 1981 og ég held að Jón Agnar félagi minn hafi verið svo heppinn að næla sér í svona treyju þegar hann bjó í Frakklandi. Þetta er klassískt franskt, stór og klunnaleg auglýsing og að sjálfsögðu frá Le coq sportiv og kallinn hefur örugglega verið í Patrick takkaskóm. Liðinu hefur reyndar gengið upp og ofan síðustu ár en ég held að ég fari rétt með að hljomsveitin hafi verið nefnd eftir þessu liði.

Þessar treyjur eru nær allar frá níunda áratugnum enda er ég persónulega á því að það sé besti tíminn. Allt fram á miðjan áttunda áratuginn var nær eingöngu um að ræða venjulegar bómullarpeysur án auglýsinga og upp á síðkastið eru eiginlega allir í eins peysum eftir því hver er framleiðandi. ÞAð vantar að gefa hverju liði karakter. Ég var t.d. að skoða HM treyjurnar og ég get ekki annað séð en að firmakeppnis fyrirkomulagið sé allsráðandi. Allar Puma treyjurnar eru t.d. eins og það sama má segja um Nike. Jói útherji hefði alveg eins getað reddað Prostar peysum á línuna. Það er smá munur á milli Adidas treyjanna en í grunninn eru þær eins, sami kragi og eins snið. Kannski fær maður sér Riquelme treyju.

Eina treyjan sem mér finnst flott er nýja Holland peysan frá Nike, einföld og dálítið gamaldags.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband