25.10.2006 | 23:36
Besserwisser
Við hjónakornin gerðum okkur glaðan dag um helgina og leigðum Da Vinci Code. Ég var ekki það spenntur fyrir myndinni að það tæki því að eyða dýrmætri pössun og bíóferð í hana en leiga á disknum var kjörin. Í stuttu máli sagt er þessi mynd allt í lagi en einna merkilegast fannst mér hvað útlitið var líkt því sem ég hafði ímyndað mér við lestur bókarinnar. Þegar ég horfði á myndina rifjaðist upp fyrir mér að Egill Helgason gaf í skyn þegar bókin var sem vinsælust að þetta væri e.tv. lélegasta bók í heimi. Hvernig fær maðurinn það út? Liggur að sama skapi í augum uppi að Titanic sé lélegasta mynd allra tíma? Tapar bók, sem nýtur mikilla vinsælda, gæðum sínum, hvort sem þau voru mikil eða lítil? Þetta minnir mig á þegar ég var í menntaskóla og allt vinsælt var drasl. Líklega felst í þessu e-r ótti við að maður sé með svipaðan smekk og sauðsvartur almúginn. Það er að sjálfsögðu dauðasynd ef maður vill vera intellektúal. Ætti Egill ekki að vera vaxinn upp úr þessu?
Reyndar er fleira við Egil Helgason sem fara í taugarnar á mér. Einu sinni fannst mér hann sniðugur penni en í seinni tíð virðast hlutirnir bara vera svona eða hinsegin, svart eða hvítt, rúgbrauð eða fransbrauð. Gott dæmi er þegar hann hélt því fram að vitlausasta hugmynd í heimi væri þegar slökkt var á götuljósunum í Reykjavík. Ekki vegna þess að það þyrfti jafnframt að slökkva fleiri ljós. Nei, Egill sagði nokkrum dögum seinna að þetta hefði verið svo vitlaust því líkurnar á skýjuðu veðri voru yfirgnæfandi og menn gætu alveg farið uppí sveit til að horfa á stjörnurnar. Ég held að það átti sig allir á því að stjörnurnar sjást betur í sveit og varðandi skýin þá er það nú einu sinni þannig á haustin að það koma alltaf reglulega heiðskírir dagar og stjörnubjartar nætur. Í þessu fólst hugmyndin, að borgarbúar gætu séð stjörnurnar frá sínu heimili en þyrftu ekki að fara út í sveit. Mér leið hins vegar eins og ég væri í falinni myndavél þegar ég var búinn að slökkva allt inni og fór út á svalir án þess að sjá eina stjörnu. Á vinstri hönd stóðu hins vegar Háskólabíó og Hótel Saga eins og geimskip úr Nánum kynnum af þriðju gráðu. En maður getur rétt ímyndað sér hvað þetta gæti verið flott eins og veðrið var í síðustu viku.
Önnur bjánleg fullyrðing hjá Agli var e-ð á þessa leið:
"Aðalatriðið er þó að kommúnistar trúðu á vopnaða byltingu, þeir voru partur af alheimshreyfinu sem boðaði byltingu, hugmyndin var - allt í lagi, við förum eftir lýðræðislegum leikreglum þegar okkur hentar, en við aðrar aðstæður notum við vopn og tökum völdin. Áttu menn ekki að trúa kommúnistum, og kannski hugsa sem svo - þeir meina ekkert með þessu greyin?
Ef slíkur stjórnmálaflokkur væri starfandi núna, segjum til dæmis hreyfing herskárra íslamista, þá væri varla furða þótt menn væru tortryggnir."
Þetta er innlegg Egils í umræðu um hleranir. Ég spyr hvaða kommúnistar voru líklegir til að standa fyrir blóðugri byltingu? Var það Einar Olgeirsson eða var það kannski Gunnar M. Magnús, afi minn, sem alltaf var allmikið til vinstri? E.t.v. var það Ragnar Arnalds, sem menn áttuðu sig ekki hvort væri holdgervingur Mið amerískra byltingarhugmynda eða úlfur í sauðagæru. Allir sem séð hafa Ragnar hljóta að sjá að þar fer maður sem enginn getur treyst.
Hefði að sama skapi verið rétt að hlera síma íslenskra hægrimanna sem litu upp til M. Tatcher vegna þess að hún leit á Pinochet sem vin sinn og fagnaði árangri hans í lýðræðisátt í Chile? Var mikil hætta á að hægrimenn á Íslandi rændu völdum með fulltingi bandaríska hersins líkt og skoðanabræður þeirra í S-Ameríku?
Ég held að Egill hafi fantagott minni en ályktunarhæfni hans og skortur á common sense benda til þess að hann sé ekki jafn klár og hann þykist vera. Viðhorf hans til manna og málefna eru oftar en ekki sett fram í barnalegum einfaldleika og skortir dýpt sem stjórnmálaskýrandi verður að hafa.
Athugasemdir
Egill Helgason er beturviti af verstu gerð. Hann virðist hafa óstjórnlega þörf fyrir að vera öðruvísi en aðrir. Hann er GÓ (gjörsamlega óþolandi).
Sverrir (IP-tala skráð) 27.10.2006 kl. 11:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.