Treyja vikunnar

Sporting Gijon 1981:

sporting gijon 1982 adidas worn front Sporting Gijon er eitt allra spænskasta lið Spánar að mínu viti. Félagið kemur að sjálfsögðu frá hafnarborginni Gijon og það fyrsta sem minnir mann kröftulega á Spán er framburðurinn. Þetta er ekki Gísjon, Gíjón eða Gídjonn heldur er nafnið borið fram Gíhghhon, með svona soghljóði sem minnir á munnvatnssuguna hjá tannlækninum. Maður sér stuðningsmennina fyrir sér á hráum bar með stálbarborði, teygandi cider í langri bunu úr belgjum og öskrandi soghljóð að leik sem er í gangi í gömlu sjónvarpstæki sem hengt hefur verið upp í einu horninu. Á hvítmáluðum veggjum barsins hanga myndir af gullaldarliðinu frá því um 1980 þegar liðið komst tvisvar í úrslit bikarkeppninnar og varð einu sinni í öðru sæti deildarinnar. 

Árið 1998 féll liðið hins vegar úr 1. deildinni með eftirminnilegum hætti, vann einungis tvo leiki og fékk 13 stig. Markatalan 31-80. Síðan hafa þeir svamlað í annarri deild en eygja þó möguleika að spila meðal þeirra bestu á næsta ári. 

Skýringuna á góðu gengi liðsins á áðurnefndu tímabili kringum 1980 er án efa að finna í kraganum á adidas treyjunni sem hér er til umfjöllunar. Annars staðar í Evrópu voru treyjurnar með hefðbundnum kraga, en á Spáni spiluðu "machos", sannir karlmenn með með kraga út að handarkrika og svo vel flegnu v-hálsmáli að gullkeðjan fór ekki á milli mála. Tony Montana og John Travolta hefðu steinlegið í byrjunaliðinu í Gíjon enda hefði treyjan án efa svínvirkað undir jakkafötum með kragann út fyrir. 

Það gat enginn verið viss um hvort leikmennirnir voru á leið í leik eða á diskótek. Slíkur er máttur treyjunnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband