18.10.2006 | 22:25
Nostalgía nr. 4. Bíó í Kópavogi
Fyrir mörgum árum síðan var starfrækt kvikmyndahús í Kópavogi. Ég held reyndar að það hafi verið eitt í Hamraborg en það sem ég er að tala um var í iðnaðarhúsnæði við Skemmuveg. Á þessum tíma voru flest kvikmyndahús í miðbænum en þó var búið að setja á laggirnar Bíóhöllina í Mjódd. Það sem gerði þó bíóið við Skemmuveginn frábrugðið flestum öðrum var sú staðreynd að yfirleitt var frítt inn en einnig var myndaúrvalið allsérstakt. Flestir á mínu reki sem bjuggu í Hjalla-og Hólmahverfi ættu að muna eftir Undrahundinum og Starcrash en einnig voru þeir með fullorðinsmyndir (gott ef það var ekki bara Debbie does Dallas). Það var ekki óalgengt að sami maðurinn hefði séð Undrahundinn og Starcrash svo tugum skipti en það versta var að eigendurnir græddu ekkert á sælgætissölunni því flestir mættu með popp og gos að heiman. Þannig lauk því þessu bíóævintýri. Ég væri alveg til í að geta rölt inn í þennan sal og séð byrjunina á Starcrash en salurinn var því miður eyðilagður fyrir löngu. Ég held að það sé verkstæði eða skoðunarstöð þarna í dag.
Athugasemdir
Þurfti maður ekki þrívíddargleraugu til að horfa á undrahundinn?
Silla (IP-tala skráð) 19.10.2006 kl. 00:35
Ég held stundum að þú hafir alist upp á millistríðsárunum í Reykjavík. Var virkilega svona mikill munur á Kópavogi og Reykjavík?? Á þessum tíma voru Utangarðsmenn að trylla lýðinn í Reykjavík og Björk að stíga sín fyrstu skref á tónlistarbrautinni. En þú varst í bíó í einhverri skemmu í Kópavogi að horfa á C-myndir sem enginn man eftir nema einhverjir sveitalubbar úr Kópavogi.
Sverrir (IP-tala skráð) 19.10.2006 kl. 09:06
Sverrir þú verður að átta þig á því að pönkbylgjan fór af stað í Kópavogi. Þá varst þú enn að kúka í bleyju og segja da da da. Öll skapandi hugsun hefst við c-myndagláp í bíóskemmum. En ég viðurkenni fúslega að ég hafði engan áhuga á Utangarðsmönnum þegar ég var átta ára.
EG, 19.10.2006 kl. 09:40
Á þaki "bíóskemmunnar" var stórt rautt neon skilti sem stóð á BÍÓ. Þegar reksturinn fór á hausinn kom einhver snillingur og opnaði skemmtistað í húsinu sem að sjálfsögðu var skírður RÍÓ, þannig að það þurfti bara að sveigja neðri bolluna í B-inu út og málinu reddað.
Sævar Már Sævarsson, 19.10.2006 kl. 10:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.