13.10.2006 | 14:10
Nostalgía nr. 1. Star Wars
Þegar ég var 5 ára var ég neyddur í bíó með pabba mínum og systrum þar sem mamma var í próflestri. Ég reyndi að malda í móinn og sagðist einfaldlega ekki vera í stuði en allt kom fyrir ekki, ég var dreginn á Star Wars. Eftir myndina var ekki aftur snúið. Ég eignaðist Star Wars kalla og alls kyns dót eins Fálkann og X-vængjuna. Ekki var heldur verra í þá daga að með morgunkorninu fylgdu Star Wars myndir. Upp úr 1984 fór áhuginn hins vegar að dvína og dótið endaði niðri í geymslu. Það var svo ekki fyrr en ég var kominn í menntaskóla að haldin var sýning á myndunum þremur. Við það tækifæri ákvað ég að lána dótið til að stilla því upp og auglýsa þannig sögulegan viðburð. Ég sá dótið aldrei eftir það og fæ enn vont bragð í munninn yfir því miskunnarleysi sem fólst í því að láta bernskuna þurrkast út á einu bretti. Ég fæ hins vegar enn gæsahúð þegar stafirnir birtast á skjánum og flaugin í kjölfarið.
George Lucas fær reyndar mínusstig fyrir að ljúga því að upprunalegu útgáfurnar af gömlu myndunum kæmu aldrei aftur út. Þær eru til sölu á Starwars.com en maður er e-ð tregur til að láta hafa sig að fífli þó það verði eflaust lendingin. Helv... peningaplokk!!!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.