9.12.2007 | 22:54
Sjálfstætt fólk
Ég gerði þrjár tilraunir til að lesa Sjálfstætt fólk. Mér þótti hún torlesin og leiðinleg í tvö fyrstu skiptin og hafði litla eirð í mér að klára hana. Í þriðja skiptið datt ég inn í hana og í janúar 2000 las ég síðustu setningarnar í bókinni, uppi í rúmi á Eggertsgötu 32, meðan tárin láku niður kinnarnar. Enginn bók hefur haft svona áhrif á mig, nema kannski Bróðir minn ljónshjarta á sinum tíma. Það var hins vegar e-ð við orðin, söguna og samband aðalpersónanna eftir allt sem þær hafa gengið í gegnum, sem hafði þessi áhrif en samt er engan veginn um að ræða hefðbundið fimmvasaklúta tilfinningaklám. Húmorinn er hins vegar aldrei langt undan þrátt fyrir hörmungar einyrkjans.
Ég held að meðmæli geti ekki verið betri með bók. Það hefði verið auðvelt að segjast hafa lesið Sjálfstætt fólk og fundist hún rosa góð, listaverk á íslensku eða prentaður demantur. Þannig væri lítið mál að afskrifa mann sem enn einn Laxness snobbarann. Bók sem fær mann hins vegar til að grenja og viðurkenna það þar að auki, hlýtur að vera ekta. Það er e-ð meira en ódýrt snobb.
Ég veit reyndar að ég er ekki sá eini sem hefur klárað Sjálfstætt fólk með vota hvarma. Einn í þeim hópi er bandaríski gagnrýnandinn Brad Leithauser sem er mikill aðdáandi bókarinnar. Hann lýsir því mjög skemmtilega þegar hann lauk henni á kaffihúsi í Róm. Síðustu setningarnar grúfði hann sig ofan í bókina, bæði vegna þess að tekið var að rökkva en kannski ekki síður vegna þess að hann vildi ekki að aðrir gestir sæju að hann væri að gráta. Slíkur er máttur bókarinnar þegar vel tekst til.
Athugasemdir
Grenjandi aumingi.
Kjartan (IP-tala skráð) 10.12.2007 kl. 00:07
Eru hjónin að skiptast á að setja inn athugasemdir. Lesið þið þetta saman? Gaman að þessu. Í janúar eru 8 ár síðan ég grenjaði síðast. Ég ætla að bjóða valinkunnum einstaklingum heim í partý til að lesa bækur og horfa á myndir sem fá mann til að grenja. Terms of Endearment og Sophies Choice sýndar og svo les Sigurður Pálsson uppúr Harmsögu ævi minnar. Búinn að bjóða Birni Inga, John Terry, John Travolta og Maradona. Ertu geim?
EG, 10.12.2007 kl. 00:28
Ætlarðu ekki að bjóða einum afar tignum í hópi norrænna frænda?
Unnur (IP-tala skráð) 10.12.2007 kl. 14:08
Ertu að tala um þann sem giftist áströlsku konunni?
EG, 10.12.2007 kl. 14:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.