9.12.2007 | 23:25
Fréttastjórn
Ég horfi aldrei á fréttir Stöðvar tvö og því síður Ísland í dag. Þetta er ekki meðvituð ákvörðun en ég er smátt og smátt að gera mér grein fyrir því að undirmeðvitundin er að standa sig ágætlega. Ég á henni mikið að þakka því þessi ómeðvitaða undirmeðvitundarákvörðun hefur forðað mér að mestu frá því að þurfa að horfa á Steingrím Ólafsson, Ingu Lind Karlsdóttur og Svanhildi Hólm rembast við að líta út eins og grísk goð og gyðjur á skjánum en hafa ekkert gáfulegt að segja. Ætlar e-r að segja mér að þetta tríó sé A-lið íslenskrar fréttamennsku, það vanti bara Mr. T og þá sé komið A+?
Staða Steingríms er reyndar stórfurðuleg og verðugt verkefni fyrir fjölmiðlafræðinga. Hvernig getur maður sem hefur það markmið í lífinu að aldrei megi falla skuggi á Framsóknarflokkinn, Fram og Liverpool verið fréttastjóri? Og hvað er málið með helvítis Fram bollann? Var hugmyndin að skapa afspyrnu heimilislegt andrúmsloft í myndveri þar sem fréttamenn geta sötrað kaffið sitt úr uppáhaldsbollanum sínum. Hverjum er ekki sama hversu kósý er hjá Steingrími Ólafssyni og hvað hann er rosalega mikill stuðningsmaður Fram.
Annars veit ég ekki hvað segja skal um fjölmiðlamenn almennt. Án þess að alhæfa of mikið held ég að fáar stéttir taki sig jafnalvarlega og fréttamenn og fjölmiðlamenn. Það var t.d. alveg kostuleg umræða fyrir nokkru þegar ritstjóri e-s fríblaðs fór yfir á annað fríblað og tók son sinn með. Sonurinn var víst e-r færasti umbrotsmaður landsins og það var talsvert fjallað um það í fjölmiðlum. Gallinn var bara sá að hinn almenni borgari hefur ekki hugmynd um hvað umbrotsmaður gerir og var þar að auki skítsama.
Og hvað var hann að spá þessi gæi sem sagði upp um daginn vegna þess að hann var plataður til að taka viðtal við vitlausan mann en ekki hinn "flippaða" Vifil? Ég held að hann ætti frekar að segja upp núna fyrir að vera svona húmorslaus og asnalegur. Taka svo Steingrím með eftir að hann hótaði 16 ára dreng að það yrðu eftirmálar af því að hafa platað fréttamann frá Stöð tvö. Ég segi eins og bróðir flipparans: Hvað ætla þeir að gera, taka af honum áskriftina að Sýn.
Eitt af því sem mætti hins vegar breytast hjá RÚV er sá sem les fréttirnar. Ég held að hann sé útvarpsstjóri. Hvernig fyndist fólki ef Jón Ásgeir væri alltaf á kassanum í Bónus? Myndi maður ekki segja við hann "Heyrðu, hefur þú ekki e-ð betra að gera?"
Athugasemdir
Jón Ásgeir hefðu nú sennilega gott af því að taka nokkrar vaktir á kössunum í Bónus. Hann kæmist kannski að því að blessað fólkið á skilin hærri laun fyrir erfiðið en hann er núna að greiða þeim. Það er ekki að ástæðulausu að verkalýðsfélög kalli Bónus og Hagkaup þrælabúðirnar.
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 9.12.2007 kl. 23:43
Vááá......ég átti einmitt í þessum samræðum við Kjartan korteri áður en ég sá þessa færslu. Merkilegt.
Lára (IP-tala skráð) 10.12.2007 kl. 00:01
Það má vel vera að Jón Ásgeir hefði gott af nokkrum vöktum. Hins vegar væri fáránlegt ef hann færi að vinna á kassa í Bónus og væri samt áfram forstjóri Baugs.
EG, 10.12.2007 kl. 10:25
Munurinn er sá að Páll er launþegi hjá RÚV, þótt hann sé stjórnandi, en Jón Ásgeir er atvinnurekandi. Ein af ástæðunum fyrir hressilegri launahækkun núverandi útvarpsstjóra frá því sem var, er einmitt sú að hann grípur reglulega í fréttalestur. Það er allt tínt til, svo réttlæta megi greiðslurnar. Þessu samhengi er ekki til að dreifa hjá Jóni Ásgeiri - hann á allt klabbið og þarf ekki að standa skil á eigin launum gagnvart einum eða neinum.
Jón Agnar Ólason, 11.12.2007 kl. 01:46
Þannig að næsta launahækkun verður bundin þeim skilyrðum að hann hann grípi í uppvaskið í mötuneytinu. Það passar bara ekki að útvarpsstjóri sé að lesa fréttir á hverju kvöldi, það er örugglega fullt af fréttamönnum sem eru til í að vera "anchorman". Ef útvarpsstjórastaðan þolir ekki laun upp á 1.500.000 þá á hann einfaldlega að vera með lægri laun.
Svo ég taki annað dæmi en Jón Ásgeir. Hversu eðlilegt væri ef Kristinn Björnsson hefði alltaf verið á kvöldvakt á kassanum á Shell stöðinni uppi í Þórufelli? Til að toga upp launin.
EG, 11.12.2007 kl. 09:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.