8.12.2007 | 00:29
Plötur lífs míns nr. 1: Diamond Dogs (1974)
Ég hef tekið nokkrar dellur í gegnum tíðina. Fyrir mörgum árum síðan tók ég David Bowie tímabil sem ennþá lifir þokkalegu lífi.
Ég hafði auðvitað vitað lengi af kauða, Ása systir átti e-r plötur og svo voru Starman og fleiri lög, vinsæl singalong í menntaskólapartýjum. Það var því bara tímaspursmál hvenær maður færi að sökkva sér í plöturnar hans og ég var kominn á bólakaf fyrir 10-15 árum. Það var sannarlega vel þess virði því margar plötur kappans eru einfaldlega frábærar. Sennilega standa þó upp úr Ziggy Stardust and the spiders from Mars, Hunky Dory, Aladdin Sane, Low og svo umrædd Diamond Dogs. Sú síðastanefnda er þó sjaldnast á toppnum þegar Bowie plötur eru settar niður á lista og var víst flengd illilega af gagnrýnendum þegar hún kom út.
Samt er það svo að ef ég gríp disk þegar ég er að fara í lengri bilferðir einn, þá verður þessi jafnan fyrir valinu. Platan er víst tekin upp á miklu hass og dóp tímabili í lífi Bowie og það má vel heyra á plötunni. Stundum koma fyrir þung stef sem jaðra við að vera fölsk en í næsta kafla er skipt í snarheitum yfir í léttleika, Svona gengur platan fram og tilbaka og dettur meira að segja inn í hryllingsdiskó í 1984. Það er þó rétt að taka fram að ég fíla ekki alla plötuna því titillagið og Rebel rebel gera lítið fyrir mig. Restin er bara svo mikil snilld á e-n hátt, sem ég á erfitt með að útskýra, að þessi plata hefur um nokkuð langt skeið verið í uppáhaldi. Ég set þrjú lög inn í spilarann sem koma eiginlega fyrir sem eitt á plötunni. Þarna nær meistarinn hæstu hæðum og heldur mér föngnum á ferð.
Athugasemdir
Þú? Dellur?! Getouttahere....
Jón Agnar Ólason, 9.12.2007 kl. 23:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.