7.12.2007 | 14:19
Úfff!!
Djöfull er ég lélegur bloggari. Enda les þetta enginn og sjálfur Korntopp, sem margir kannast við sem fylgst hafa með ÍR í gegnum tíðina, er með miklu fleiri bloggvini og heimsóknir en ég. Mínir bloggvinir telja hins vegar dauða bókaútgáfu (reyndar vona ég að fréttir af andláti hennar séu ótímabærar) og hund. Ég mun hins vegar setja afspyrnunördalegt efni áfram inn á síðuna öðru hverju og jafnvel í stórum gusum þegar þannig liggur á. Þeir sem leita eftir gáfulegum athugasemdum um menn og málefni verða því miður að leita annað (bendi á Stefán Fr. Stefánsson sem er örugglega ekki í vinnu en ef hann er í vinnu krefst hún væntanlega lítilla afkasta).
Annars var ég að velta fyrir mér áðan hvernig er með muninn á Góðan dag og Gott kvöld á íslensku, sérstaklega í skammdeginu. Maður kemur með nokkrar vörur á kassann í 10/11 um sexleytið og afgreiðslustúlkan segir "Góðan dag" og maður lítur á hana stríðnislega og segir mjög skýrt "GÓÐA KVÖLDIÐ!" og glottir sposkur á svip. Stelpugreyið verður dálítið vandræðaleg og segir "Já sorrý Góða kvöldið".
Hvar liggja mörkin? Er maður með Góða kvöldið trompið á hendi kl. fimm síðdegis! Hefur aldrei verið til siðs að segja Góða síðdegið, Góðan eftirmiðdag eða Sælan seinnipart á tungu víkinganna? Englendingar segja Good afternoon og Spánverjar segja Buenos tardes. Það ætti að forða manni frá vandræðum sem geta átt sér stað í búð um fimmleytið ef maður segir sposkur "Gott Kvöld" og krakkinn á kassanum svarar á móti "Skv. minni skilgreiningu er ekki komið kvöld kl. fimm" og það kemur vandræðalegt hik á mann, öll sniðug svör sitja föst í hausnum og þegar maður lítur eftir hjálp í röðinni, mæta manni glottsvipir sem segja"Gott á þig, helvítis besserwisserinn þinn". Að lokum hrökklast maður út með skottið á milli lappanna, bara vegna þess að Íslendingar þekkja varla mun á nóttu og degi.
Ég verð reyndar að minnast á strákinn sem hringdi í Hvíta húsið. Ekki vegna þess að mér finnist þetta svona sniðugt eða svona asnalegt því mér er alveg sama. Það besta var hins vegar þegar hann kom fram í sjónvarpinu og var spurður hvers vegna hann hefði gert þetta, sagði hann "Bara að flippa" og gerði luftgæsalappir. Luftgæsalappir eru sennilega vanmetnasta tjáningarform íslenskunnar og ef þið sjáið e-n nota þær er enginn vafi á að viðkomandi er afburða sniðugur og skemmtilegur einstaklingur, sérstaklega ef þær eru gerðar í "takt" við "orðið". En oft getur maður sagt sér fyrirfram hverjir gera luftgæsalappir. Þeir hafa alveg einstaka áru.
Athugasemdir
Sælan seinnipart, bloggvinur. Mundu að almennt gildir, í blogginu sem annars staðar, að gæði eru meira virði en magnið. Svo þú ert ekki svo afleitur bloggari og með "treyjum vikunnar" (þetta voru luftgæsalappir í takt) hefurðu skapað þér óumdeilanlega sérstöðu. Haltu því áfram, kæri vin, og láttu ei deigan síga.
Jón Agnar Ólason, 7.12.2007 kl. 14:29
Þætti gaman að heyra nánari lýsingu á árunni minni.
Laulau (IP-tala skráð) 7.12.2007 kl. 22:26
Ekki gerir Árbæingurinn luftgæsalappir??
EG, 7.12.2007 kl. 22:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.