2.12.2007 | 00:22
Griselda og kókaínkúrekarnir
Konan á myndinni til hliðar heitir eða hét Griselda Blanco og er frá Kólumbíu. Ég veit ekki hversu margir lesendur kannast við þessa kellu en ég hafði aldrei heyrt um hana fyrr en í gærkvöldi. Ég skrapp á bestu leigu bæjarins við Dalbraut til að ná mér í e-ð að glápa á og rak augun í heimildarmynd um kókaínbrjálæðið í Miami um og eftir 1980, Cocaine Cowboys. Myndir er sögð vera raunverleikinn á bakvið Miami Vice og Scarface. Í minningunni er Miami Vice fyrst og fremst léttir sumarjakkar með uppbrettar ermar, lágmarkslaunalöggur á rándýrum sportbílum og frábærlega samin sjónvarpstónlist.
Öðru máli gegnir um Scarface. Allt frá því að ég sá hana fyrst fyrir um 20 árum hef ég verið aðdáandi. Pacino hefur aldrei verið betri nema kannski í annarri Guðföðurs myndinni. Svo er þetta tímabil upp úr 1980 skelfilega hallærislegt, rosaleg glysgirni og almennt smekkleysi. Samt hefur mér á e-n undarlegan hátt alltaf fundist þetta tímabil spennandi. Það sem stóð uppúr í myndinni var samt hrátt ofbeldið og þá sérstaklega mjög eftiminnilegt keðjusagaratriði á baðherbergi. Umrætt atriði er ótrúlega viðbjóðslegt en samt á e-n hátt trúverðugt enda eigast bara við lúðar frá Kúbu og Kólumbíu í Hawai skyrtum og ljótum brúnum efnisbuxum. Erfitt að skýra það nánar en ég á alltaf hálf erfitt með að horfa á þetta atriði enda hef ég horft öðrum augum á Kólumbíumenn síðan þá. Þrátt fyrir að Bólívíumenn og Kúbumenn séu í aðalhlutverkum í myndinni eru það Kólumbíumennirnir sem vekja mestan óhug.
Í heimildarmyndinni kemur fram að það var þessi kona sem stóð að miklu leyti á bakvið hið gegndarlausa ofbeldi sem breytti Miami í hættulegustu borg Bandaríkjanna á örfáum árum. Hún var ýmist nefnd Guðmóðirinn eða Svarta ekkjan og er talin bera ábyrgð á um 200 hundruð morðum á ca. 5 ára tímabili. Grimmdin var slík að hún krafðist þess að heilu fjölskyldurnar væru drepnar vegna vanskila og voru börn ekki undanskilin. Þá naut hún þess að láta brytja lík niður og skilja þau eftir í vegkanti á fjölförnum slóðum. Það var þessi síkópatíska grimmd sem gerði hana að valdamestu manneskjunni í kókaínheiminum í Miami á þessum árum. Að lokum náði lögreglan henni en vegna klúðurs hjá saksóknara slapp hún við dauðadóm. Hún var látinn laus árið 2004 og send til Kólumbíu. Ekki er vitað hvar hún er niðukomin en ef konan á myndinni flytur í húsið eða íbúðina við hliðina á ykkur er best að þrífa sameignina og halda kjafti. Það margborgar sig.
Athugasemdir
Hún er örugglega ekki nágranni minn í dag, góðu heilli, en í endurliti má vel vera að hún hafi búið á efri hæðinni þar sem ég bjó í Hafnarfirðinum - sú grýla var allavega síkópatískt viðrini; orðljót, illskeytt og drykkfelld.
Jón Agnar Ólason, 2.12.2007 kl. 23:40
Ekki ólíklegt að hún búi á hæðinni fyrir ofan mig, lýsingin passar algjörlega
Unnur (IP-tala skráð) 4.12.2007 kl. 14:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.