Diez

c_documents_and_settings_eirikur_fulltingi_my_documents_my_pictures_200px-skyline_from_jardins.jpg

Við Silla eigum 10 ára samveruafmæli í dag. Það er reyndar spurning hvort það er í dag eða gær því við fundum hvort annað eftir miðnætti á annarri hæðinni á 22. Á þessum tíma hefur okkur tekist að búa erlendis, séð framandi staði í fjórum heimsálfum, keyrt Kjöl, Sprengisand og Hringinn, búið á Stúdentagörðum, útskrifast úr HÍ, eignast íbúð og framsóknarjeppa, skoða Vestfirði, Landmannalaugar, Kárahnjúka og Þórsmörk, gift okkur í sveitinni og síðast en ekki síst eignast tvær stelpuskottur sem eiga hug okkar allann. Við ætlum að halda upp á þetta allt í dag með því að skella okkur í bíó og fá okkur svo e-ð að borða, líklega indverskt. Allt frekar rólegt enda nennir sú yngri ekki að sofa annars staðar en heima hjá sér. Hún á líka afmæli í dag og fagnar heilum fimm mánuðum. Myndir munu birtast á hinni síðunni okkar fljótlega. Sú eldri er hins vegar í lúxusgistingu hjá móðurömmu sinni.

Ég fékk mjög góðar gjafir frá Sillu af þessu tilefni þegar ég kíkti við heima í hádeginu. Mjög flottan nostalgíubol og Lonely Planet bók um bestu borgir í heimi. Mjög flottar myndir og skemmtileg umfjöllun um hverja borg og Reykjavík er að sjálfsögðu með. Það vakti reyndar athygli mína að skv. efnisyfirliti kemst Sao Paulo ekki á blað þó finna megi 200 borgir í henni. Nú er þetta líklega fjórða stærsta borg í heimi og miðstöð viðskipta í Brasilíu. Hvernig stendur á því að það virðist ekki vera neinn túrismi þar sem heitið getur a.m.k. ekki að mati Lonely Planet. Sautján milljóna manna borg hlýtur að hafa upp á e-ð að bjóða. Ég hef séð fjöldann af myndum þaðan og oft minna byggingaþyrpingarnar á Hattífattana úr Múmínbókunum. En það er ljóst að umhverfið minnir ekkert á sykurtoppana í Ríó.

Það er e-ð dularfullt við þennan stað sem einu sinni var kallaður "Blade Runner in the Jungle".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband