21.9.2006 | 16:38
Mín skoðun
Heyrði í Valtý og Bödda í gær. Kom reyndar inn í miðja einræðu litla mannsins um hvað enska deildin væri mikið betri en aðrar og tók sérstaklega þá spænsku fyrir. Fullyrti að á Spáni væru kannski 3-4 góð lið en restin væri í fluguvigt. Á Englandi væru hins vegar engir auðveldir leikir. Ég ákvað að gerast mjög plebbalegur og senda þættinum bréf vegna þessa. Úr varð hálfgerð ritgerð á þessa leið:
"Sælir
Ég get ekki á mér setið að senda ykkur nokkuð margar línur vegna óvenju "ítarlegrar" greiningar á spænska boltanum í þættinum í gær. Þar kom þessi gamla tugga um að Real Madrid og Barcelona væru stórir klúbbar, kannski Valencia og Sevilla líka en restin slöpp lið. Standardinn væri því allt annar en á Englandi þar sem heimsókn til Wigan væri meira að segja erfið. Ég vil aðeins mótmæla þessu með því að greina öll liðin í spænsku deildinni stuttlega:
Real Madrid: Þurfum ekki að ræða þetta
Barcelona: Sama hér.
Valencia: Tvisvar í úrslitum MD (2000 og 2001), spænskir meistarar 2002 og 2004. Mikil saga.
Sevilla: UEFA meistarar, Supercup meistarar, frábært lið í dag.
Real Betis: Voru í Meistaradeildinni á síðasta tímabili, ollu vonbrigðum en unnu Chelsea heima.
Deportivo: Spænskir meistarar 2000, gerðu fína hluti í Meistaradeildinni, unnu m.a. Man utd. á Old Trafford og fóru í undanúrslit 2004
Celta Vigo: Þetta lið sló Aston Villa og Liverpool út úr UEFA keppninni fyrir ca. 7 árum. Styrkleikinn á Spáni er slíkur að þegar hallaði undan fæti féllu þeir strax en komu upp fyrir rúmu ári. Hörkulið.
Zaragoza: Unnu Arsenal í úrslitum Cup winners Cup 1995, yfirleitt með sterkt lið og góðan heimavöll. Mjög vel mannaðir í ár. Aimar, D´Alessandro, Milito bræður og fleiri.
Villarreal: Undanúrslit í MD í fyrra og UEFA fyrir þremur árum. Hörkulið með fullt af mjög góðum leikmönnum.
Atletico Madrid: Stórlið á evrópskan mælikvarða. Valda alltaf vonbrigðum og hafa meira að segja fallið en eru með mjög góða leikmenn. Hafa tak á Barca. Unnu tvöfalt 1996.
Ath. Bilbao: Með mikla sögu og frábæran heimavöll. Vilja bara baskneska leikmenn og hafa því ekki náð mjög góðum árangri en það bókar enginn sigur á San Mamés.
Real Sociedad: Voru í Meistaradeildinni fyrir nokkrum árum, hörkulið frá Baskalandi sem enginn bókar sigur gegn heldur. Töpuðu titlinum á síðustu metrunum 2003.
Espanyol: Hafa skiljanlega staðið í skugganum af Barca en hafa lengi hangið í deildinni. Lélegur heimavöllur en margir góðir spænskir og Suður Amerískir leikmenn. Núverandi spænskir bikarmeistarar.
Racing Santander: Jó jó lið sem þvælist upp og niður. Viðurkenni að þessir eru ekki mjög góðir en hafa strítt td Real Madrid öðru hvoru.
Recreativo Huelva: Elsta liðið á Spáni, féllu fyrir tveimur árum og komu aftur upp fyrir þetta tímabil.
Nástic: Nýkomnir upp og þurfa að sanna sig eins og gengur og gerist.
Osasuna: Fjórða sætið í fyrra en misstu af MD sæti eftir tvö jafntefli við HSV. Mjög öflugur heimavöllur.
Levante: Nýkomnir upp en voru í deildinni fyrir tveimur árum með Bernd Schuster við stýrið.
Getafe: B. Schuster þjálfar þessa og hefur náð fínum árangri. Milli stanganna stendur landsliðsmarkvörður Argentínu. Fáir sem valta yfir þá enda eru þeir oft í efri hluta.
Mallorca: Fór í úrslit í Cup winners cup fyrir nokkrum árum þar sem þeir töpuu fyrir Lazio. Hafa hangið í deildinni og sýnt ákveðinn stöðugleika. Unnu Real Madrid 1-5 í Madrid 2003 rétt áður en Madrid tryggði sér spænska titilinn.
Þá vil ég minna á að lið Alavés sem hefur verið að hoppa milli deilda á síðustu árum spilaði úrslitaleik við Liverpool í UEFA keppninni fyrir 5 árum og tapaði í framlengingu. Þá hafa Real Betis, Sevilla og Atletico Madrid fallið á síðustu árum.
Ég get engan veginn séð að þetta séu svona slök lið. Ef e-ð er þá eru liðin á Spáni sterkari en á Englandi sem m.a. sýnir sig á því að fleiri lið hafa náð langt í Evrópukeppnum. Ég held að skoðun ykkar byggi á því að þið þekkið þessi lið einfaldlega ekki nógu vel eða alls ekki neitt. Watford og Sunderland verða ekki stórlið þó Bjarni Fel. hafi þulið upp nöfnin í 40 ár. Þetta eru einfaldlega lið sem munu sjaldnast veita stóru liðunum á Englandi keppni. Enda sýnir það sig að síðan 1995 hafa þrjú lið orðið meistarar á Englandi en fimm á Spáni. Hvoru megin er einokunin meiri og breiddin minni? Þá er ekki hægt að gleyma því að það er t.d. mikið Real Madrid hatur í Baskalandi, Katalóníu og jafnvel Galisíu þaðan sem Deportivo og Celta koma. Það eru því ekki margir auðveldir leikir fyrir þá.
Þið hafið auðvitað rétt á því að segja ykkar skoðun enda er því lofað í heiti þáttarins. En órökstuddir hleypidómar eiga ekkert erindi í þessa frekar en aðra umræðu. Ég set ekki út á það að ykkur finnist enski boltinn skemmtilegri, það er hugægt mat. En að hún sé sterkari eða betri en aðrar deildir? Það má reyna að nálgast niðurstöðuna með því að kanna gengi liða í Evrópu en jafnframt ljóst að slíkur samanburður er erfiður. Við hljótum þó að vera sammála um að framsetningin í þættinum í dag var ekki af því tagi að hún geti ákvarðað að enska deildin sé sterkasta deild í heimi. Flest rök hníga að því að hún sé það ekki, en líklega er óumdeilt að hún sé ein af þremur til fjórum bestu.
Með kveðju
Eiríkur Gunnsteinsson"
Hef ekki fengið nein viðbrögð enda er þessum tveimur snillingum væntanlega alveg sama. En stundum verður maður að svara gjamminu í þeim sem telja sig vera sjálfskipaða íþróttasérfræðinga.
Athugasemdir
Þetta er geggjuð grein ! Sú skoðun að enska deildin sé sú sterkasta er ansi útbreidd hér á landi. Stór hluti af ástæðunni er einmitt sá að fólk hefur heyrt Bjarna Fel nefna einhver miðlungslið á nafn síðustu 86 árin en það gerir lið ekki að evrópsku stórveldi. Þess má líka til gamans geta að Paris Hilton Íslands, Böðvar Bergsson (hvað er hann annað en bróðir einhvers tuðrusparkara??), spáði Englendingum sigri á HM í sumar.
Sverrir (IP-tala skráð) 22.9.2006 kl. 09:53
Flott hjá þér Eiríkur! Hef sjálf náttúrulega ENGAN áhuga á fótbolta en ég er stolt af þér að svara svona gjömmurum því þú veist örugglega miklu meira um boltann en þeir.
Ása (IP-tala skráð) 22.9.2006 kl. 10:20
Mér sýnist þú ekki einungis vera með sundlaugar á heilanum, eins og systir þín benti á hér um árið, heldur ert þú með ensku knattspyrnuna og aðdáun fólks á henni á heilanum líka. Minnir mig dáldið á Radíus sketsinn góða þar sem maðurinn sá kommúnista í hverju horni. "Kommúnistar!! Það er kommúnisti þarna!!!" Nema að þú segir: "Það er maður sem segir að enska knattspyrnan sé best í heimi þarna!! Samsæri á samsæri ofan!!!" He he he. Annars ég sammála flestu sem þú segir, og ósammala flestu sem Böddi og Týri láta út úr sér by default, enda legg ég ekki í vana minn að vera sammála fábjánum. Nema Bubba.
Kjarri (IP-tala skráð) 1.10.2006 kl. 16:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.