Arnarfjörður

arnarfjordurAf mörgum fallegum fjörðum á Íslandi ber Arnarfjörður sennilega af. Það er ógleymanlegt þegar við Silla komum niður af Dynjandisheiðinni fyrir nokkrum árum og sáum fjörðinn í allri sinni fegurð og fjöllin milli Ketildala raða sér upp eins og vel æfður her eða súlur í grísku hofi. Undir fjalli um miðjan fjörðinn kúrði Bíldudalur upplýstur, rétt til að sýna örlítið lífsmark. Innst í firðunum norðan megin steypist Fjallfoss fram og nokkru lengra er Hrafnseyri, sem hvert íslenskt mannsbarn ætti að kannast við.

Það er því í raun ótrúlegt að mönnum hafi dottið í hug að koma olíuhreinsunarstöð fyrir í sunnanverðum firðinum. Það segir sig sjálft að olíuhreinsunarstöð er viðbjóður ein og sér en til að bæta gráu ofan á svart verður hún ætluð rússneskum olíuskipum. Maður getur rétt ímyndað sér tilfinninguna að sitja í gylltum sandinum í Hringsdal eða á safni um Jón Sigurðsson á Hrafnseyri þegar heljarinnar rússneskur ryðkláfur kemur vaggandi inn fjörðinn, stútfullur af olíu og stefnir beint á óhemjustóra hreinsunarstöð.

Með þessu áframhaldi verðum við öll eins og Mad Max, hörmuleg framtíðarsýn þar sem allir eru í snjáðum og slitnum leðurfötum eða í lufsulegum búningum eins og voru vinsælir í Freestyle keppnum í Tónabæ. Keyrandi um Vestfirði á farartæki sem er blanda af jepplingi og mótor kross hjóli, skimandi í fjarska þar sem eldar og svartur reykur stíga til himins frá líflausri olíuhreinsunarstöð. Það versta við þessa framtíðarsýn er að ég er viss um að ég sé skelfilega asnalegur í leðurbuxum.

Björgum Arnarfirði!! Annars endarðu í leðurbuxum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Tek undir þetta! Klárlega fallegasti staðurinn á landinu.

Lára (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 12:02

2 Smámynd: Jón Agnar Ólason

Sammála - þessi pæling um olíuhreinsunarstöð er algerlega galin og verður landi og þjóð til ævarandi vansa ef þessi fáránlega hugmynd kemst á koppinn. Sturtum henni frekar niður.

Jón Agnar Ólason, 29.11.2007 kl. 13:00

3 identicon

Bíddu, viltu að allir lifi á því að tína fjallgrös? Þú verður að segja hvað á að koma í staðinn. Það gengur ekki að hafna þvílíku tækifæri á innspýtingu í atvinnulífið. Það geta ekki allir unnið á safninu um sjálfstæðishetjuna Jón Sigurðsson. Annars er ég með betri hugmynd en olíuhreinsunarstöð - verksmiðja sem framleiðir batterí með öllu rafmagninu sem fer til spillist meðan Íslendingar sofa. Þessi verksmiðja má vel vera á Vestfjörðum, helst ljótasta firðinum, hver þeirra var það aftur?

Örn Úlfar Sævarsson (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 15:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband