23.11.2007 | 18:27
KOOL
Lengi vel vissi ég bara um eina manneskju sem reykti KOOL sígarettur. Það var móðir mín og mér fannst það ekki par svalt. Þetta var einn af þeim hlutum sem setti fjölskylduna í óþægilega mikinn minnihluta ásamt því að borða lambahrygg á aðfangadag þegar allir voru með hamborgarhrygg, vera í súrri svefnpokagistingu meðan fjölskyldur á amerískum parketlögðum stationbílum létu fara vel um sig í uppábúnu á Eddu og fá bara Cheerios á morgnana en ekki Trix eða Count Chocula.
Löngu seinna bættist önnur kona í KOOL hópinn og þá var kominn dúett. Sú kona færði KOOL reykingar hins vegar á svalara stig þegar hún stóð við kassann í 10/11 og bað afgreiðslumanninn um einn KOOL. Sá lét sér fátt um finnast og gerði sig ekki líklegan til að afgreiða pakkann. Hún ítrekaði því beiðnina og þá leit strákurinn hissa upp og sagði: "Ó ég hélt að þú hefðir sagt að þú værir kúl".
Það var því óneitanlega skemmtilegt þegar ég var staddur á uppboði austur í Grímsnesi fyrir viku, að lögreglumaður á vegum sýslumannsins á Selfossi dró upp pakka af KOOL og kveikti sér í. Íslenskir KOOL reykingamenn eru því orðnir þrír. Ætli það sé ekki kominn tími til að þessi hópur hittist, eins og tíðkast með minnihlutahópa. Ég efast ekki um að þau hafi margt að ræða.
Athugasemdir
Eiríkur þú ert fyndinn
Ása (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 13:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.